13.12.1937
Neðri deild: 48. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Ísleifur Högnason:

Við erum hér með brtt. við nokkra liði þessa frv., sem við þó getum fallizt á að samþ., til að tryggja bæjar- og sveitarfélögum nokkrar tekjur. Aðalefni þessara till., sem við hv. 5. þm. Reykv. flytjum, eru, að við 1. gr. komi viðauki, sem ákveður, að það sé eigi aðeins heimilt, heldur og skylt bæjarstj. að leggja á 1% skatt á fasteignarmat lóða, þar sem fermetrinn er yfir 20 kr., en í frv. er þetta aðeins heimilt.

Við álítum, að það beri, þar sem lóðir hafa hækkað í verði og sérstaklega þær lóðir, sem eru einkaeign eða á leigu en ekki eru byggðar, að skattleggja þær til þess að eigendurnir eða þeir, sem hafa umráðaréttinn yfir þeim, verði fúsir til að láta byggja á þeim. Mér er kunnugt um, að það munu vera víða í kaupstöðum landsins menn, sem halda lóðum í braskaugnamiði, á góðum stað, sem ekki eru byggðar. Og er sjálfsagt að greiða fyrir að þær séu seldar, með því að nokkur skattur sé á þær lagður. Og jafnvel ef einhverjir vildu fallast á að hafa þennan skatt hærri, þá álít ég það til bóta, til þess að lóðir á góðum stöðum lægju ekki ónotaðar í braskaugnamiði.

Þá er það við 2. gr. frv. brtt. við 3. lið, að á eftir orðunum „lóðum og lendum„ sé bætt: lóðum, sem eru yfir 1 hekt. að stærð. Með því hyggjum við, að matjurtagarðar og minna ræktuð lönd séu undanþegin. Vitanlega er fjöldi verkam. í kaupstöðum, sem hafa ræktað garðholu eða lóðarblett, og virðist ósanngjarnt, þar sem búið er að stuðla að því, að menn geti aukið þessa ræktun, að leggja á það skatta í bæjarsjóð. A. m. k. hefir verið stefna Alþingis í seinni tíð sú, að efla ræktun, og sérstaklega ræktun matjurtagarða; hafa verið til þess veitt verðlaun í kartöflurækt. En ef ætti að skattleggja þessar garðholur og smábletti, þá myndi það áreiðanlega verða til þess að hindra það, að þessi ræktun gæti haldið áfram og eflzt.

Við 3. gr. höfum við einnig gert brtt. Á eftir orðunum „allt eftir nánari ákvæðum í reglugerð“ komi þessi setning: Þó skal fasteignaskattur á hús, sem notuð eru til verzlunar, skrifstofuhalds og atvinnurekstrar, ávallt vera tvöfaldur á við skattinn á íbúðarhúsum, þar sem hver íbúð er undir 12000 krónum að fasteignamati.

Við álítum réttmætt, að verzlunarhús og atvinnufyrirtæki greiði hærri skatt af húseign sinni en menn af íbúðarhúsum. Það er vitanlegt, að verzlunin er ein af þeim atvinnuvegum, sem þrátt fyrir kreppu bera sig einna bezt. Það er þess vegna sjálfsagt, að gjöld séu látin koma niður þar, sem auðveldast er að ná þeim, og miða þessar breyt. í þá átt. Hinar aðrar breyt. við frv., að 20. og 22. gr. falli niður, eru samkv. því, sem hv. 5. þm. Reykv. minntist á um daginn. Það byggist á þeirri skoðun, að íhlutunarvald og réttur þessa eftirlitsmanns, sem gert er ráð fyrir í lögum að eigi að vera skipaður, sé takmarkaður, og það geti ekki náð neinni átt, að einn maður geti úrskurðað, hvernig jöfnun á tekjum fari fram.

Ég ætla þá ekki að fara fleiri orðum um þetta, en mun fylgja þessu máli til 3. umr.