18.12.1937
Neðri deild: 54. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í B-deild Alþingistíðinda. (1062)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Jakob Möller:

Mér datt ekki í hug, að hv. 1. þm. Rang. ætlaðist til, að till. hans yrði tekin alvarlega. Að vísu veit ég, að annar maður er finnanlegur á bekkjum þingsins (þó ekki í þessari deild), sem kemst dálítið í námunda við hann að því leyti, hvernig hann lítur á þetta mál, og þó ekki nema til hálfs. En ef á að taka till. alvarlega, þá er auðséð, að þessi hv. þm. hefir enga grein gert sér fyrir því, til hvers gjöld eru tekin af borgurum bæja- og sveitarfélaga. Það virðist vaka fyrir honum, að þessir borgarar, sem taka laun frá ríkisstofnunum, hafi sérstöðu innan hvers sveitarfélags, þannig að þeir þurfi engar sameiginlegar byrðar að bera með öðrum borgurum þess sveitarfélags. Til hvers eru lögð gjöld á gjaldþegna sveitarfélaganna? Þau eru lögð á til þess að standa straum af kostnaði við sameiginlegar þarfir allra borgara sveitarfélagsins. Hafa þessir menn þá engar sameiginlegar þarfir við aðra borgara? Þurfa þeir ekki á öllu kerfi bæjarins að halda, svo sem götum, lögregluvernd og ótal slíkum hlutum? Eða hvers vegna eiga þeir, sem taka laun frá ríkinu, að vera undanþegnir að taka þátt í þessum kostnaði? Hv. þm. vill telja mönnum trú um, að hann hugsi svona. En ég er viss um, að það er ekki einn einasti maður innan þessarar deildar, sem gerir sig sekan um slíka hugsunarvillu. Það liggur alveg í augum uppi, að það skiptir engu máli í þessu sambandi, hvaðan borgarar bæjarfélags fá sin laun. Þeim er skylt að taka þátt í kostnaði við sameiginlega starfrækslu bæjarfélagsins, alveg til jafns við aðra borgara þess. Ég held það þurfi ekki að rökræða þetta frekar.

En ég hefi út af þessu flutt till. á þskj. 394, að aftan við 12 gr. frv., 1. málsgr., komi nokkur viðbót, með leyfi hæstv. forseta: „Þó þannig, að sömu reglur gildi um Reykjavík og aðra kaupstaði og kauptún í sama jöfnunarflokki“. En samkv. 72. gr. framfærslulaganna er gerður nokkur munur á Rvík og öðrum kaupstöðum og kauptúnum í sambandi við þessa jöfnun og skiptingu í flokka. Í fyrri flokknum eru kauptún með 600 íbúum og fleirum, en í öðrum jöfnunarflokki þeir, sem hafa færri íbúa. Og í 74. gr. framfærslulaganna er mælt svo fyrir, með leyfi hæstv. forseta, að þessari uppbót skuli jafna niður á milli sveitarfélaga á þann hátt, að „miða 1/3 hluta við tölu þeirra karla og kvenna, sem eru á aldrinum 18–60 ára, að 1/3 hluta við skattskyldar tekjur, að 1/6 hluta við skuldlausar eignir og 1/6 hluta við fasteignamat“. Það er náttúrlega fullkomið tillit tekið til þess, sem eitt sveitarfélag kann að vera betur sett að öðru leyti að því er snertir skattskyldar tekjur, og þar með er tillit tekið til þeirra manna, sem hv. sessunautur minn gerði að umtalsefni. Þar sent margir slíkir menn eru, hafa sveitarfélögin minni rétt til jöfnunar en annars. Nú spyr ég hv. þm., hvort hann ætlist til, að í sambandi víð jöfnunina yrði eftir sem áður skattskyldar tekjur þessara manna reiknaðar í þessu sambandi. Hann virðist ekki hafa gert sér grein fyrir því, að það hafi nokkur áhrif, en við það verður hlutur bæjanna að því leyti lakari. Í öðru lagi er í 73. gr. framfærslulaganna mælt svo fyrir um þessa jöfnun, að það á að finna meðalframfærsluþunga allra sveitarfélaga í sama jöfnunarflokki, og þegar til jöfnunar kemur, er tekið tillit til þessa framfærsluþunga á þann hátt, sem ég skal greina. Reykjavik á að greiða meðaltalsframfærslukostnað í flokki kaupstaða og fá endurgreidda tvo þriðju hluta þess, sem fram yfir er. En allir kaupstaðir og kauptún í sama flokki eiga að greiða meðaltalsframfærslukostnað í sínum flokki að frádregnum 10%. Alveg eins hefði mátt snúa þessu við og segja, að Rvík á að greiða meðalfalsframfærslukostnað að viðbættum 10%, en aðrir kaupstaðir og kauptún meðaltalsframfærslukostnað eins og hann er. M. ö. o., þarna er gerður sá greinarmunur á Rvík, að hún er 10% verr sett í sambandi við jöfnun en önnur sveitarfélög í sama jöfnunarflokki. En af hverju er þetta gert? Af hverju er Rvík hefur sett heldur en önnur héruð? Við jöfnunina er tekið tillit til skattskyldra tekna. Það kemur því ekki fram þar, það sem Rvík hefir hlutfallslega meira af efnuðum borgurum og tekjumiklum vegna búsetu opinberra starfsmanna, sem taka laun frá ríkisstj.; og það er vitað, að Rvík hefir hlutfallslega meira af tekjuháum mönnum. En til þessa er tekið fullt tillit með jöfnunarreglunum, og þess vegna engin ástæða til að bæta við þessum 10% á meðaltalsframfærslukostnað Rvíkur umfram önnur sveitarfélög í sama jöfnunarflokki, ekki af þessari ástæðu. Það er líka tekið tillit til þess, að Rvík hefir að sjálfsögðu hlutfallslega meira af skuldlausum eignum en önnur bæjarfélög, svo að ekki þarf að mismuna bænum með þessi 10%. En af hverju er þetta gert? Það er tvímælalaust fullkomið ranglæti. Rvík á að eiga sama rétt til jöfnunar samkv. þessum reglum eins og önnur sveitarfélög. Þó mætti segja, að öldungis væri skiljanlegt, að þessi mismunur sé þannig kominn í lögin á annan hátt en þann, að það sé almennt viðurkennt, að bærinn standi betur að vígi en nokkurt annað bæjar- og sveitarfélag, sem liggur þó ekki beint i, að bærinn sé betur efnaður, því að fullt tillit er tekið til þess, en kannske í hinu, að mönnum þyki honum betur stjórnað en öðrum, og liggi þess vegna í því öryggi nokkur skattstofn. Eg sé ekki, að það sé hægt að réttlæta þennan mismun á annan hátt, og af þeim ástæðum hefi ég flutt þessa till., sem fer fram á, að Rvík verði sett jöfn öðrum bæjum og kauptúnum.