18.12.1937
Neðri deild: 54. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í B-deild Alþingistíðinda. (1064)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Jakob Möller:

Ég er viss um, að ekki hefði verið unnt að sannfæra hv. þd. betur um, að þetta væri allt hringavitleysa, sem hv. 1. þm. Rang. hefir farið hér með, en hann gerði sjálfur í síðustu ræðu sinni. Það eru aðeins tvö atriði í ræðu hans, sem ég vil vekja athygli á. Hann sagði, að með þessu frv. væri verið að hlaupa undir bagga með illa stæðum sveitarfélögum. En er það nokkur sönnun fyrir því, að bæjar- og sveitarfélögum beri ekki að standa undir sínum þörfum. Ennþá síður er þetta nein sönnun eða frambærileg ástæða fyrir því, að opinberir starfsmenn eigi að vera undanskildir því, að greiða til þessara sameiginlegu þarfa. Það er ekki lagður skattur á ríkisstofnanir sjálfar, heldur er lagt á þá menn, sem vinna við stofnanirnar og þurfa að verða þeirra hlunninda aðnjótandi, sem bæjarfélagið er búið að kosta til að fá fyrir sína meðlimi. Hv. þm. var alveg óafvitandi að hlaupa út línuna, ef svo mætti segja, þegar hann var að tala um, að þessir borgarar ættu ekki einungis að vera undanþegnir að greiða gjöld til bæjarins, heldur ættu þeir líka að fá ókeypis þær vörur, sem bæjarfélagið aflar í einu lagi, svo sem gas og rafmagn.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. Mér er það ljóst, að ég geri öðrum hv. þm. rangt til með því að vera að standa upp og reyna að gera þessum hv. þm. það skiljanlegt, sem allir aðrir hv. þm. skilja mæta vel fyrir.