13.11.1937
Neðri deild: 26. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

56. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

*Pétur Ottesen:

Á þinginu 1936, þegar þetta mál var fyrst borið fram, var það afgr. með rökst. dagskrá eftir þá athugun, sem gerð var á. því baði í sjútvn. og hér í Nd. Dagskráin fól það í sér, að ekki þætti rétt að gera neitt í þessu vandamáli án þess, að hinir væntanlegu þátttakendur, vátryggingarfélögin, fengju að athuga einstök ákvæði frv., og fyrir liggja upplýsingar um það, að þetta mál, hefir verið sent til starfandi vátryggingarfélaga í þessu landi. Ég veit ekki. hvort það hefir verið sent til útgerðarmanna á þeim svæðum, sem engin vátryggingarfélög hafa, en sem vátryggja hjá Sjóvátryggingarfélaginu. En það eru einkum og sér í lagi þeir menn, sem ég ber fyrir brjósti. Það er nú svo í ýmsum verstöðum, að þar er ekkert starfandi vátryggingarfélag, heldur hafa menn samið við Sjóvátryggingarfélagið um tryggingu á sínum bátum. Það er náttúrlega erfitt og ómögulegt um það að segja, hvaða kjör verði á tryggingum, ef þetta frv. verður að l., en eftir því, sem bezt verður séð, þá hygg ég, að þau muni verða að verulegu leyti óhagstæðari en þau kjör, sem útgerðarmenn t. d. á Akranesi eiga nú við að búa hjá Sjóvátryggingarfélagi Íslands. Að vísu hefir frv. verið nokkuð lagfært frá því, sem það var upphaflega; t. d. hafa verið gerðar á því allvíðtækar breyt. í samræmi við álit fiskiþingsins í fyrra, og svo nokkrar breyt. frá sjútvn. Það, sem lá til grundvallar því, að ég bar í fyrra fram till. um, að málinu yrði þá frestað, var það, að ég áleit, að það þyrfti að liggja fyrir einhver grundvöllur að fyrirkomulagi þessa nýja félagsskapar að því er snertir iðgjöldin, og að menn gætu gert sér í hugarlund áður en málið yrði endanlega afgr., hvað há iðgjöldin mundu verða. En þetta hefir ekki verið gert, og það verður að játa, að þetta mun vera erfitt að ákveða til fulls fyrirfram. En frá sjónarmiði þeirra, sem búa við fasta samninga í þessum efnum, þá beztu samninga, sem hægt er að fá, er það ekkert undarlegt, að þeir hugsi sig tvisvar um áður en þeir gefa sitt samþykki til þessarar breyt., sem ekki er hægt að vita um, með hvaða kjörum getur tekið að sér að tryggja fyrir útgerðarmenn. Það er út frá sjónarmiði þessara umbjóðenda minna, sem ég tek þessa afstöðu til þessa máls. Hinsvegar verður að viðurkenna, að það ástand, sem liggur til grundvallar því, að þetta er borið fram, sem sé það, að talsverður hluti vélbáta landsins sé ótryggður, er þannig, að það er full þörf á að ráða bót þar á. En spurningin er sú, hvort nauðsynlegt er að setja slíka tryggingu, sem hér er farið fram á, eða hvort það væri ekki nóg að setja l. um að skylda alla til að hafa báta sína tryggða. Annars býst ég við, að ég muni biðja n. að athuga, hvort ekki væri mögulegt að framkvæma þessa skyldutryggingu á þann hátt, að þeir, sem nú hafa með sér félagsskap í þessu skyni, eins og t. d. Vestmannaeyingar, og einnig þeir, sem hafa þegar gert fasta samninga um hagkvæmar tryggingar, þeir fái að halda þessum tryggingum áfram. Ég vildi mjög mælast til þess við n., að hún athugaði þetta atriði. hvort ekki sé hægt að færa löggjöfina yfir á þetta svið og ná þó jafnframt þeim tilgangi, sem miðað er að, að allir bátar skuli vera vátryggðir.

Ég skal svo ekki fara lengra út í þetta, en ef n. treystir sér ekki til þess að fara inn á þessa braut milli 2. og 3. umr., þá býst ég við, að ég muni freista að koma með till., sem felur í sér nokkrar breyt. hvað þetta snertir. En ég geri ekkert í því fyrr en ég hefi heyrt svör n.