21.10.1937
Efri deild: 7. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í B-deild Alþingistíðinda. (109)

2. mál, atvinna við siglingar

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) :

Hv. þm. Vestm. spyr, hvort ríkisstj. hafi veitt því athygli, að það sé orðið íhugunarefni, hversu þröngur aðgangur lærlinga sé að ýmsum iðjufyrirtækjum. Ég á nokkuð erfitt með að svara þessu svo fullnægjandi sé, eins og fyrirspurnin lá fyrir, en hinsvegar skildist mér á öðru, sem hv. þm. sagði, við hvað hann ætti sérstaklega. Að því er snertir ákvæði í l. um vélgæzlu og l. um atvinnu við siglingar, er það að segja, að að nokkru leyti, en litlu þó, hefir verið þrengdur aðgangur manna til þess að taka að sér þessi störf. Siglingatíminn er ákveðinn og viss verkleg kunnátta áður en þeir geta hafið sitt nám. Ég hygg, að í þeim takmörkunum, sem þarna eru settar, sé ekki lengra gengið en ástæða er til, v egna þess að það, sem að sjálfsögðu fyrst og fremst hlýtur að vaka fyrir löggjafanum með slíkri lagasetningu, er að tryggja öryggi þeirra manna, sem eiga líf sitt mánuðum saman undir því, að skipstjórn og vélgæzlumenn séu starfi sinu vaxnir. Og þetta er skylda, sem löggjafinn getur ekki skotið sér undan að tryggja eftir föngum, að þeir einir fái rétt til þessara starfa, sem treystandi er til þess að inna þau af höndum með sæmilegu öryggi fyrir skipverja almennt. Ég hefi ekki heldur orðið þess var, að þessi undirbúningsmenntun, sem krafizt er af þeim, sem vilja hefja nám það, er hér um ræðir, hafi orðið því til fyrirstöðu, að sótt hafi verið eftir því að byrja nám, og það er einmitt í sambandi við það, sem hv. þm. réttilega sagði viðvíkjandi atvinnuleysinu, að þar leituðu menn á, sem einhver smuga hefir verið gerð, jafnvel þótt það kostaði undirbúningsmenntun, í von um trygga atvinnu að námi loknu. En mér skildist hv. þm. eiga við meira en þetta og minnst vaka fyrir honum ákvæði laganna um siglingar og vélgæzlu, heldur miklu frekar ástandið í ýmsum iðngreinum og iðju, því að þar eru engar slíkar takmarkanir settar. Um það mál er mér ekki nema að nokkru leyti kunnugt, og má vera, að hv. þm. sé kunnugra um það en mér, en af hálfu löggjafans eru engar skorður þar settar aðrar en almenn skilyrði, sem þarf til þess að geta hafið námið, og þau eru það rúm, að engin ástæða er til að breyta þessu frá því, sem nú er. Hitt veit ég, að milli einstakra félaga, sveinafélaga og meistarafélaga, munu vera samningar um vissa tölu lærlinga. Ég þori ekki að segja, að slíkir samningar séu á milli félaga í öllum iðngreinum, en þeir eru a. m. k. í nokkrum, og þeir samningar eru í flestum tilfellum settir með tilliti til óska beggja aðilja, að svo miklu leyti, sem það hefir lánazt að fá samkomulag um þetta. Löggjafinn hefir ekkert um þetta fjallað. Ég skal viðurkenna, að ef svo er, sem hv. þm. virðist gefa í skyn, að það væri ef til vili lokað fyrir fjölgun í iðngreinum, sem ekki gætu lagt til nógu marga hæfa menn, þá mundi ég telja það misráðið, en mér er ekki kunnugt um það; en ég segi þó ekki, að það kunni ekki að vera hugsanlegt, eins og t. d. í því tilfelli, sem hv. þm. nefndi, skortur á rafvirkjum. Ég er ekki svo kunnugur því, hvort það er rétt. Það getur verið skortur á þeim vissan tíma, eins og t. d. flutningadagana 14. maí og 1. okt., þegar mjög mikið kallar að í einu. Ég vil ekki segja, hvort svo er á öðrum tímum ársins, en mér er ekki kunnugt um, að þau brögð hafi verið að því, að til baga hafi orðið, enda hygg ég, að meisturum sé það kappsmál að liðka til um lærlingatöluna.

Hv. þm. telur, að ein ástæðan til þess, að viðgerð á skipum sé torveldari hér heldur en erlendis, sé sú, að ekki sé nægilegt af smiðum til þess að vinnan gangi jafnfljótt og annarstaðar. Um þetta hefi ég það sama að segja, að ef þetta ætti sér í raun og veru stað öðruvísi en í undantekningartilfellum, þá er hætt við, að meistarar og jafnvel sveinar líka mundu a. m. k. að vissu marki fara fram á fjölgun lærlinga í sinni grein, svo að þeir gætu staðizt eftirspurnina.

Ég get ekki gefið um þetta frekari upplýsingar að þessu sinni, en hv. þm. er kunnugt um það, að löggjöfin leggur engar takmarkanir á þetta, svo að við athugun á þeirri löggjöf, sem fyrir er um þessi efni, er ekki hægt að gera neinar hreytingar á því ástandi, sem nú er.