13.11.1937
Neðri deild: 26. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (1092)

56. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

Gísli Guðmundsson:

Ég vildi minnast aftur á. brtt. á þskj. 116 með fáum orðum. Þegar þetta var athugað í sjútvn., var meiri hl. n. andvígur þessari till. og vildi leggja til, að hún vari felld. Í þessum till. á þskj. 116 er lagt til, að það tjón, sem koma megi á bátavátryggingarfélag vegna skaða á einu skipi, megi nema 25000 kr. Meiri hl. n. finnst þetta of mikil áhætta fyrir félag af einu skipi og telur, að áhættan megi ekki vera meiri en í mesta lagi 15000 kr.

Fyrirspurn hv. þm. Borgf. um það, hvort sjútvn. gæti hugsað sér, að vátryggingarfélög, sem starfað hafa áður, fengju einhverja undanþágu frá því að vera í skyldutryggingunni, hefi ég náttúrlega ekkert umboð til að svara fyrir n. hönd, en ég get lofað honum því að minna á þessa fyrirspurn í n., svo að n. geti tekið afstöðu til þessa atriðis. Annars er það skiljanlegt, að þeir, sem búa við góð hafnar- og lendingarskilyrði, líti félagsskap við aðra skipaeigendur með miklu verri slík skilyrði óhýru auga. Hinsvegar er það ýmislegt, sem mælir bæði með og móti því, að menn, sem búa við misjafnlega góð hafnarskilyrði, starfi engu að síður í sama vátryggingarfélagi. Það má á það líta, að þeir, sem búa við góðar hafnir, hafa oftast notið mikils opinbers sterks í sambandi við hafnar- og lendingarbætur, þar sem aðrir, er við slæm skilyrði búa, hafa engan slíkan stuðning hlotið. Þannig má á þetta mál líta frá fleiri sjónarmiðum, en eins og ég hefi sagt, ég skal minna á till. hv. þm. Borgf. í sjútvn.