13.11.1937
Neðri deild: 26. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

56. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

Frsm. (Finnur Jónsson):

Ég held það sé einhver meinloka hjá hv. þm. N.-Þ., að vilja ekki fallast á brtt. á þskj. 116, frá okkur hv. 6. þm. Reykv. Þegar upphæðin, sem félag má hafa í hættu í einn skipi, er svo lág sem í frv. er gert ráð fyrir, verða félögin í rauninni ekki annað en einskonar umboðshafar fyrir samvátrygginguna, en með brtt. á þskj.116 verður félögunum mögulegt að mynda sér sjóði, og eigi vátryggingarfélögin eignir, eins og tilskilið er í okkar till., þá verður áhættan engin fyrir félögin né ríkið, sem eftir frv. á að hafa bakábyrgð á skuldbindingum félaganna, þó að tryggingarupphæðin fyrir eitt skip verði allt að 25000 kr. Ég get ekki fallizt á það, sem hv. þm. vildi halda fram, að það skipulag, sem frv. felur í sér, muni hafa í för með sér mikla röskun á starfsemi þeirra vátryggingarfélaga, sem þegar eru starfandi. Mér skilst t. d., að starfsemi vátryggingarfélagsins á Ísafirði þurfi ekkert að breytast, þótt Dýrafirði, Bíldudal og Patreksfirði verði bætt við það starfssvæði, sem félagið hefir haft. Vélbátafélagið við Eyjafjörð hefir tekið í tryggingu báta á svæðinu milli Horns og Langaness, og þarf því ekki að gera ráð fyrir, að starfssvæði þess félags verði stækkað. Á Austfjörðum er ekkert félag, svo að ég viti. Breytingin við það, að skyldutrygging kæmist á, yrði því nær aðeins sú, að þan nýju skip, sem eigendur nú telja sér stundarhagnað að hafa ótryggð, kæmu inn í trygginguna. Svo er í 2. mgr. 31. gr. heimild til að ákveða iðgjöldin misjafnlega há á sama vátryggingarsvæði, eftir því hvar skipi er ætlað að vera í förum, og er það í raun og veru sönnun þess, að frv. eins og það er nú flutt kemur ekki til að raska í verulegum atriðum þeim félögum, sem nú eru starfandi. Aðeins þau skip, sem hafa staðið utan samtakanna, verður skylt að tryggja og félög stofnuð á þeim svæðum, þar sem engin voru áður. Það er upplýst hér í umr., að á versta hafnleysis- og áhættusvæðinu hér við land hefir félagið starfað síðastl. 75 ár, sem á nú um 300000 kr. í sjóðum; þannig sést af reynslunni, að á tryggari stöðum ætti að vera ástæðulaust að óttast um afkomu samskonar félaga.