13.11.1937
Neðri deild: 26. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (1095)

56. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

Ísleifur Högnason:

Það hefir upplýstst hér við umr., að hin starfandi vátryggingarfélög eru andvíg því frv., sem hér liggur fyrir.

Við athugun þess skjals, sem borizt hefir frá bátafélagi Vestmannaeyja, kemur í ljós, að aðalástæðan fyrir mótmælunum er sú, að félagið býst við, að vátryggingargjöldin til samábyrgðarinnar hækki, að þau geti orðið samtals allt að 50 þús. kr., í stað 19–20 þús. kr., eins og þau hafa verið. Það er eðlilegt, að slík hækkun, sem koma mundi niður á sjóðum félaganna, skapi mikla óánægju hjá hinum starfandi félögum. Ef baktryggingin á virkilega að kosta svo mikið, virðist ekki ástæðulaust þótt sjútvn. tæki málið til nýrrar athugunar. Þótt samábyrgðin sé illa stödd, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Ísaf., dugir ekki að skattleggja hin eldri starfandi vátryggingarfélög til þess að hjálpa henni.

Hvað því viðkemur, að leggja beri Eyrarbakka og Stokkseyri undir Vestmannaeyjar, þá tel ég það hvorki eðlilegt eða hagkvæmt. Vegna afar erfiðra samgangna milli Vestmannaeyja og þessara staða, sérstaklega yfir veturinn, þegar skipunum er aðallega haldið úti og eftirlit með útbúnaði þeirra nauðsynlegast, verður nær ómögulegt fyrir félagið í Vestmannaeyjum að hafa fullkomið eftirlit með útbúnaði og rekstri skipanna. Eyrarbakki og Stokkseyri ættu því ekki að vera með Vestmannaeyjum, heldur Reykjavík.

Ég ætla ekki að ræða málið meira á þessu stigi, en ef það er tilgangur þessa frv. að rétta við hag samábyrgðarinnar á kostnað eldri starfandi félaga, þá vildi ég mega vænta þess, að sjútvn. athugi vandlega þá hlið málsins.