23.11.1937
Neðri deild: 33. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

56. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

*Sigurður Kristjánsson:

Ég skal byrja á því að geta þess, að fyrir 3–4 árum var borið fram frv. um tryggingarfélög fyrir opna vélbáta, og mun það líklega vera upphaf þessa máls. En þá stóð þannig á, að nær allur hátafloti landsmanna, þessarar tegundar, var nær ótryggður; var þetta þó ekki óverulegur hluti þeirrar tryggingar, sem var fyrir lánum útgerðarinnar. Að bátarnir voru ótryggðir, stafaði af því, að vátryggingarfélögin neituðu að tryggja þá, nema með þeim kjörum, sem eigendurnir sáu sér ekki fært að hlíta. Alls munu þá hafa verið tryggðir 9–10 bátar. Upp úr þessu varð svo það, að sett voru lög um, að stofna skyldi vátryggingarfélög, sem áttu að vera bundin við takmörkuð svæði, sem ákveða átti svo í sameiningu af stjórninni, Fiskifélaginu og hlutaðeigendum. Félög þessi áttu svo að geta endurtryggt, og var til þess ætlazt, að Fiskifélagið gengist fyrir um stofnun þeirra. Hvernig stofnun félaganna gekk, vissi ég ekki, fyrr en hæstv. atvmrh. lýsti því yfir, að þetta hefði ekki tekizt, og má vel vera, að ekki hafi verið gerðar nægar tilraunir um stofnun félaganna. Annars býst ég við, að hæstv. ráðh. hafi þótt þetta fyrirkomulag of erfitt í framkvæmd og því gripið til þess að koma með till. um að skyldutryggja alla vélbáta.

Frv. er samið í samráði við stjórn Fiskifélagsins o. fl. Hlutverk sjútvn. hefir verið það, að koma frv. á framfæri og vinna að ýmsum breyt. á því. Um það atriði, hvort skyldutrygging skuli vera á öllum vélbátum landsins, hefir n. ekki tekið ákveðna afstöðu, en hinsvegar býst ég við, að meiri hl. hennar sé því fylgjandi. Enda þótt sjútvn. hafi haft frv. þetta til athugunar heilt þing, þá er hún samt enn að koma fram með ýmsar breyt. á því, sem sumpart eru frá vélbátaeigendum og sumpart frá vátryggingarfélögunum. Við 2. umr. málsins voru nokkrar af þessum breyt. samþ., en þó var ein felld, sem ég álít mjög mikilsverða, en það var brtt. um að heimila bátaábyrgðarfélögum að hafa meira en 15 þús. kr. á eigin ábyrgð af tryggingarupphæð hvers skips, en í frv. er þetta bundið við 15 þús. kr. Ég var flm. að þessari till. og hv. þm. Ísaf., að þessi upphæð skyldi færð upp í 25 þús. kr. Nú gátum við ekki tekið upp þessa till. óbreytta, en viljum nú koma á málamiðlun og færa þetta hámark í 20 þús. kr. Ég er sannfærður um, að það er ekki fullnægjandi, en þó breyt. til bóta. Ég vil leyfa mér að mælast eindregið til þess, að hv. þdm. taki þetta mál til miklu gaumgæfilegri íhugunar en ég hygg, að þeir hafi gert við 2. umr. Það er sem sé vitað, að þau félög, sem hafa verið starfandi og eru nú, hafa einna mest öryggi í því að geta staðið í skilum og safnað sjóðum í því að geta tryggt nokkuð stór skip, því að sú er reynsla þeirra, að þeim skipum fylgi tiltölulega langminnst áhætta. Að þau leyfi sér ekki að tryggja þessi skip fullt, stafar af því, að þau mundu ekki ráða við þessar stóru upphæðir, ef skipið færist, því að til munu nú vera vélskip, sem eru tryggð fyrir upp í 60 þús. kr., og sama reynsla og hjá vélbátaábyrgðarfélögunum hefir orðið hjá Samtryggingunni. Það sagði mér fyrrv. forstjóri, að félagið hefði haft langmest upp úr stærstu skipunum, og það er ekki fyrir það, að hærra hundraðsgjald sé borgað af þeim, heldur vegna þess, að á þeim verða nærri því engir skaðar. Þetta er eðlilegur hlutur. Það er vitanlegt, að fyrst og fremst hirða menn miklu meira um stór skip, að sjá þeim borgið á hverjum tíma, því að þar er meira í húfi, stærri áhöfn á þeim og sjaldgæfara, að þau séu yfirgefin, og svo er það, að burðarmikil skip eru yfirleitt í minni hættu fyrir skemmdum eða fyrir því að farast alveg. Ég er mjög hræddur um, að ef félögunum er gerður þarna mjög þröngur skór, þá leiði til þess, að þau standist ekki fjárhagslega, tekjur þeirra verði tiltölulega litlar, en þau koma til með að hafa ábyrgð á þeim hluta skipastólsins, sem mestar skemmdir verða á, og það leiddi til þess, að iðgjöldin yrðu hærri og hærri, til stórtjóns fyrir útgerðina í heild, og ég er sannfærður um, að markið ætti að vera 25–30 þús. kr., og ætti sennilega að heimila að tryggja a. m. k. að hálfu allt upp í 60 þús. kr. tryggingu, og í eigin tryggingu helming, allt upp í 60 þús. kr. En af þeim ástæðum, sem ég hefi þegar lýst, að till. um 35 þús. er fallin og ekki álitlegt að bera fram till. um hækkun upp í 30 þús. kr. fyrir þeim, sem runnu fyrir 25 þús. kr., og því höfum við hv. þm. Ísaf. komið okkur saman um að flytja þessa miðlunartill. um, að félögin megi hafa í eigin tryggingu allt að 20 þús. kr.

Svo eru á þskj. 149 brtt. bæði frá n. í heild og líka frá hv. þm. Ak. og mér. Brtt. n. er við 8. gr., um að við 6. málsl. bætist: „nema veðhafa í vátryggðu skipi“, — en málsgr. er um það, að ekki megi á fundi félaga fela öðrum umboð, nema þeim, sem eru sjálfir félagar, en við viljum gera þá undantekningu, að megi gefa það þeim, sem veð hafa í skipi. Getur það komið sér vel. Ég veit, að þannig hagar til, að fundir eru yfirleitt haldnir þar, sem eru lánsstofnanir. og þær hafa veðin, og oft er það kannske svo, að eigendur skipanna eiga óhægt með að mæta, en vilja gjarnan fela það þeim, sem mest eiga í húfi og bezt skyn bera á, hverja þýðingu veðið hefir, en það eru veðhafarnir. Hér er einnig brtt. frá hv. þm. Ak. og hv. þm. N.-Þ. um að orða þetta öðruvísi, og læt ég mig engu skipta, hvort orðalagið er viðhaft, en vil mælast eindregið til, að d. gangi inn á brtt.

Þá er á þessu sama þskj. brtt. við 31. gr.brtt. er um að fella burt síðari málsl. málsgr., en þessi málsgr. er svona: .

„Iðgjöld og virðingargjöld má taka með lögtaki, og hvíla þau á hinum vátryggðu skipum og ganga fyrir öllum öðrum veðskuldum í 2 ár frá gjalddaga þeirra að telja. Þó skal stjórnin gefa veðhafa kost á að greiða hið vangoldna iðgjald, áður en hún upphefur trygginguna“. Þessi málsl. verður að falla burt, bæði af því, að hann á ekki þarna við, og líka af því, að þarna getur ekki verið um það að ræða að upphefja tryggingu, þar sem skuldatrygging er. Þetta er því meinloka og leiðinlegt fyrir okkur nm. að hafa ekki séð það fyrr, en við því er ekkert hægt að gera nema að sníða hana burt.

Þá er á þessu sama þskj. brtt. frá hv. þm. Ak. og mér. Hún er við 2. gr. og á þá lund að bæta aftan við 1. málsgr.: „Heimilt er þó þeim bátaábyrgðarfélögum, sem starfandi eru, þegar lög þessi öðlast gildi, að halda þeim umdæmistakmörkum, sem þau nú hafa, ef þau óska þess“.

Þetta stafar af því, að í frv. er svo fyrir mælt, að umdæmin skuli ákveðin af Fiskiféfélagi Íslands í samráði við skipeigendur, en ráðh. sker úr, ef ágreiningur verður. M. ö. o., þetta getur orðið, og verður sennilega í mörg skipti svo, að ráðh. ákveður þessi takmörk og stendur kannske á móti vilja félaganna sjálfra. Að hætta er á ágreiningi þarna, stafar af því, að það er ákaflega mismunandi, hvað mikil áhætta er að tryggja báta, eftir því, hvar þeir eru skrásettir, og búast má við, að félögin, sem fyrir eru, vilji ekki auka áhættu sína með því að bæta við sig svæðum, sem alræmd eru fyrir, hversu lítið öryggi er þar fyrir skip. Nú er það svo, að telja má, að starfsemi þeirra félaga, sem nú eru til, hafi unnið mikið til þjóðnytja í því að auka öryggi verðmæta í landinu, og þau eru búin með ráðdeild og mikilli vinnu og fyrirhöfn að móta þennan félagsskap og koma sér upp allverulegum sjóðum og vinna sér traust bæði hjá lánsstofnunum og líka hjá ábyrgðarfélögum, sem þau endurtryggja hjá. Það er því ekki nema sanngjarnt að fara með allri lipurð og réttsýni að þessum félögum og rýra ekki þeirra starfsskilyrði né heldur baka þeim skapraun eða gera þessa nýju löggjöf tortryggilega í þeirra augum. Þess vegna finnst okkur sanngjarnt, að þau megi ráða hvort þau auka við starfssvæði sitt eða ekki. Ég held, að um þetta geti ekki orðið ágreiningur, því að ég held, að inn á þetta verði gengið, bæði af baktryggingarfélögunum, Fiskifélagi Íslands og ríkisstjórn, þó að engin lagaákvæði séu til um það, en þá er útlátalaust að veita félögunum þessa tryggingu. Ég vil þess vegna mæla mjög eindregið með þessari till. Nú hefir hv. þm. Borgf. flutt till., sem gengur í sömu átt, og eins og hann sagði, þá er þar gengið nokkru lengra. Hann bjóst við, að við mundum vilja taka aftur okkar till. En ég geri ráð fyrir, að hans till. verði borin upp fyrr, þar sem hún gengur lengra, og verði hún samþ., þá er þessi till. óþörf. En verði hún felld, þá er nauðsynlegt, að þessi till. komi til atkv., og því held ég, að ekki sé ástæða til að taka hana aftur, en ég mundi telja hana óþarfa, ef brtt. hv. þm. Borgf. yrði samþ.