23.11.1937
Neðri deild: 33. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (1106)

56. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

Gísli Guðmundsson:

Sjútvn. hefir, eins og áður er fram tekið, borið fram á þskj. 149 tvær brtt., og eru þær brtt. að vísu ekki þannig, að þær skipti miklu máli. Ég vil þó taka fram viðvíkjandi þessum brtt., að ég var af sérstökum ástæðum ekki viðstaddur á nefndarfundinum, þegar um þessi atriði var talað. Við hv. þm. Ak. höfum á öðru þskj. borið fram brtt. við 8. gr., sem fer í sömu átt og fyrri brtt. n., en er með öðru orðalagi, og ég vil beina þeirri ósk til þeirra, sem að brtt. sjútvn. standa, að taka aftur brtt. á þskj.149 við 8. gr., því að hún nær ekki fyllilega því, sem um er að ræða. Ég vil með leyfi hæstv. forseta lesa upp það ákvæði 8. gr., sem hér um ræðir. Það er þannig:

„Eigi má fela utanfélagsmönnum að fara með umboð á fundum“. Svo gerir brtt. á þskj. 149 ráð fyrir, að aftan við þessa málsgr. bætist: „nema veðhafa í vátryggðu skipi“. Vitanlega er ekki meiningin með þessari till. að gefa öllum veðhöfum í skipunum rétt til að geta farið með slík umboð, þó að brtt. sé þannig orðuð. Þess vegna höfum við hv. þm. Ak. komið með brtt. sama efnis, en þannig orðaða, að hún verður ekki misskilin.

Viðvíkjandi brtt. á þskj. 149,l, þá var ég nú að athuga hana lítilsháttar og vil aðeins skjóta því til hæstv. forseta, hvort sú brtt. geti komið til atkv. hér, með tilliti til atkvgr. við 2. umr. Mér hefir ekki dottið það í hug fyrr en nú á síðustu stundu, en vel má vera, að svo sé. Það er brtt. á þskj. 149 a, I. 2. liður. Þeir hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. Ísaf. hafa borið fram á þskj. 164 brtt. við 2. umr. sama efnis, sem sé að hækka tryggingarhámarkið úr 15 þús. kr. upp í 25 þús. Hún var felld, en nú koma þeir með brtt. um, að það skuli vera 20 þús. Rökin á móti brtt. við 2. umr. voru þau, að það mundi auka um of á áhættu félaganna að hafa takmarkið svona hátt, og ég tel, að þetta hámark, 20 þús., sé líka of hátt. Þess vegna er ég einnig á móti þessari brtt. á þskj. 164, og ég hygg, að ekki sé heldur meiri hl. fyrir henni í sjútvn.

Þá eru brtt. á þskj. 159. Þær eru tvær. Sú fyrri er þess efnis, að undanþegin séu skyldutryggingu í 5 ár þau vátryggingarfélög, sem nú eru starfandi í landinu, svo og þeir vélbátaeigendur, sem nú hafa vátryggt báta sína í innlendu vátryggingarfélagi, en í seinni brtt. er ennfremur kveðið svo á, að um jafnlangan tíma skuli undanþegnir skyldutryggingu eigendur opinna vélbáta.

Mér finnst, að ef þessar brtt. verða samþ., sé það rétt hjá hv. þm. Ísaf., að tryggingarnar verði um næstu 5 ár þýðingarlitlar. Það yrði ekki fullt gagn af tryggingunum með svona viðtækum undanþágum. Skyldutryggðir yrðu bara þeir, sem nú eru óvátryggðir.

Brtt. 149,II, frá hv. þm. Ak. og hv. 6. þm. Reykv., er um það, að ef starfandi bátaábyrgðarfélög óska þess, megi þau halda þeim umdæmistakmörkum, sem þau hafa nú. Þessi till. er byggð á því, að frá sumum starfandi vátryggingarfél. hafa komið tilmæli um, að þessi löggjöf yrði ekki samþ., og munu þeir, sem í fél. eru, vera hræddir um, að umdæmið verði fært út. Þau rök, sem a. m. k. eitt félag, í Vestmannaeyjum, færir fyrir mótmælunum, eru, að starfsemi félagsins hafi gengið vel og iðgjöld séu orðin lág. Ég hygg, að ekki sé ástæða til þessa ótta, og að ekki séu líkindi til, að þetta yrði fært út, þegar gengið verður endanlega frá löggjöfinni.

Ég hygg, að það megi til sanns vegar færa, að þetta mál hafi legið svo lengi fyrir þinginu og sé svo vel undirbúið af ríkisstj., sjútvn. og sérfræðingum, að ekki ætti að vera ástæða til að fresta samþykkt laganna.