23.11.1937
Neðri deild: 33. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í B-deild Alþingistíðinda. (1112)

56. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

*Garðar Þorsteinsson:

Ég skal ekki tefja umr. mikið, en ég sé ekki annað en að það sé misskilningur hjá hv. þm. Ak. og hv. þm. Barð., ef þeir halda, að brtt. á þskj. 149 við 2. gr. frv., um það, að bátaábyrgðarfélög megi sjálf ákveða umdæmistakmörk sín, sé meinlaus till. Ég held, að þessi till. sé ákaflega hættuleg og leiði af sér, að í mörgum tilfellum verði árekstur á milli till. Fiskifélagsins og vátryggingarfélaganna. Afleiðingin af þessari till. yrði t. d. sú, að ýmsar smærri verstöðvar, sem liggja afskekkt, myndu ekki hafa möguleika til að hafa hjá sér sérstök bátaábyrgðarfélög. Þessar verstöðvar eru að því leyti verr settar en aðrar, að bátar þeirra eru í meiri hættu en bátar frá öðrum stöðum, þar sem hafnir eru betri. Það er því ljóst, að einstaka bátaábyrgðarfélög myndu ekki vilja taka báta frá þessum afskekktu verstöðvum í sinn félagsskap, því það eykur mjög áhættu þeirra. En eðlilegt væri, að Fiskifélagið áliti, að slíkar verstöðvar ættu að komast inn fyrir umdæmistakmörk þeirra bátaábyrgðarfélaga, sem fyrir eru, í stað þess að stofna ný, enda virðist mér eðlilegt og í samræmi við það, sem áður hefir verið bent á í þessu sambandi, að vátryggingarfélögin hafi umdæmin nógu stór, þannig að áhættan verði sem dreifðust, en í stað þess virðist það vera meining hv. flm. till. að halda þeim takmörkum, sem nú eru, og um leið gefa óbeint tilefni til þess, að önnur umdæmi haldist minni en ætti að vera. Ég er því eindregið á móti þessari till. Ég vil nefna ákveðið dæmi um þetta. Það er bátaábyrgðarfélag Eyjafjarðar, sem nær yfir Akureyri, Grenivík, Húsavík, Siglufjörð o. fl. verstöðvar við Eyjafjörð, en ekki yfir Ólafsfjörð, sem er í Eyjafjarðarsýslu og nokkuð stór verstöð. Umdæmið nær austur fyrir sýsluna, þar sem það nær til Húsavíkur, og vestur fyrir hana, til Siglufjarðar, en Ólafsfjörður fær ekki að vera með af því, að álitið er, að áhættan mundi aukast svo mikið við það. Með þessari till. er því útilokað, að Ólafsfjörður fái sína báta tryggða. Hv. Alþ. þekkir eina sorgarsögu frá Ólafsfirði, þegar svo margir bátar fórust þar eina óveðursnótt, að ríkissjóður varð að leggja fram fé til að koma útveginum þar aftur á rekspöl. Það er sjálfsagt að hafa vátryggingarsvæðin stór, til þess að áhættan verði dreifð. Ef t. d. Ólafsfjörður hefði vátryggingarfélag fyrir sig, mundi það þýða það, að ein óveðursnótt gæti komið félaginu á höfuðið, en þess mundi lítið gæta, ef bátaábyrgðarfélag það, sem nú er til, væri stækkað um Ólafsfjörð og aðrar verstöðvar. Ég legg því til, að till. verði felld. Ef hún verður samþ., hefir Ólafsfjörður enga möguleika til að tryggja sína báta í eigin tryggingu, og þá ekki heldur í endurtryggingu. En Fiskifélagið geri sjálfsagt tillögu um, að Ólafsfjörður komi inn í bátaábyrgðarfélag Eyjafjarðar, en stjórn þess mundi neita þessu, og það er ekki vafi á, að fjöldamörg samskonar dæmi má finna annarsstaðar. Útgerðar menn mundu koma sér saman um að vinza til sín þær verstöðvar, sem áhættan er minnst, og útiloka frá umdæminu þær smástöðvar, sem hafa slæmar hafnir.

Sama er að segja um till. hv. þm. Borgf., og ég álít, að ekki eigi að samþ. hana heldur. Tilgangur þessara laga er að gera áhættuna sem dreifðasta, og til þess er skyldutryggingin sett. Það er sjálfsagður tilgangur og eðli vátrygginga að gera áhættuna sem dreifðasta, svo áhætta hvers einstaklings sé sem minnst. Þeim tilgangi verður ekki náð, ef einstök félög eru tekin burtu eða hinar smærri verstöðvar eru fyrirfram útilokaðar frá því að vera með í stórum umdæmum, svo að þær verði að hafa smáfélög með 100% áhættu, eins og mundi verða með Ólafsfjörð, verði þessar till. samþ.