23.11.1937
Neðri deild: 33. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í B-deild Alþingistíðinda. (1113)

56. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

*Sigurður Kristjánsson:

Ég varð því miður að víkja mér frá nokkurn tíma meðan staðið hefir á þessari umr. og get því sennilega ekki svarað öllum aths., sem fram hafa komið við ræðu mína og mína brtt. Ég vil þó gera nokkrar aths., sem ég byggi á því, sem hv. þm. Ísaf. drap á, að brtt. okkar hv. þm. Ak. mundi með öllu óþörf, en hún er um það, að félög, sem nú eru til, mættu ráða sjálf takmörkum umdæma sinna, vegna þess, að lögin heimiluðu að hafa mismunandi vátryggingargjöld innan sama félags og miða þau við áhættuna. Það er að sönnu rétt, að samkv. l. er félögunum þetta heimilt, en þau ráða ekki sjálf yfir því, heldur heyrir það undir úrskurð ráðh. og það er ekki víst, að sá ráðh. sjái sér fært að gera iðgjöldin mishá, þótt félögunum reynist áhættan misjafnlega mikil. Það er því ekki nóg ástæða til þess að sanna, að brtt. okkar sé óþörf, að þetta ákvæði er í lögunum, og a. m. k. sannar það, að till. okkar er ekkert hættuleg, að þetta ákvæði hefir verið sett inn. Hv. þm. Ak. mun hafa svarað flestum atriðum í ræðu hv. þm. N.-Þ., sem ég tel, að hafi ekki verið byggð á réttum skilningi að því er snertir aðstöðu þessara laga til núv. bátaábyrgðarfélaga, og till. hv. þm. Borgf., sem hann þó rökstuddi mjög ljóst. Hv. þm. sagði, að eftir þessum till. gætu ýmsir útgerðarmenn tekið sig saman og stofnað félög, sem náðu yfir svæði, þar sem áhættan væri mjög lítil; en þetta er ekki hægt, hvorki samkv. till. okkar hv. þm. Ak. eða till. hv. þm. Borgf. Það er tekið fram í till., að þetta sé aðeins bindandi fyrir félög, sem séu starfandi þegar lögin gangi í gildi, og því útilokað, að hægt sé að nota þennan 5 ára frest til þess að stofna félög með óhagstæðum takmörkum, enda væri hægt að leggja á móti því, að félög væru stofnuð í vetur eða vor, eða að láta þau ekki ganga strax í gildi, ef hætta sýndist á þessu.

Hv. þm. gekk út frá því sem sjálfsögðu, að við nm. í sjútvn. værum allir með skyldutryggingu, þótt ekki hafi farið fram atkvgr. um það í n. Það er ekki óeðlilegt, þótt hann gengi út frá því sem vísu, þar sem við nú höfum starfað saman um þetta frv. á einum 2 eða 3 þingum, og ég tel það skyldu mína að vinna að því, að frv., sem fyrir þinginu liggja, sé komið í sem bezt form. Mun ég ekki leggja stein í götu þessa frv., ef það fæst í það horf, sem ég tel viðunanlegt, en það raskar því ekki, að ég er því ekki samþykkur að binda mönnum meiri skyldur á herðar en hægt er að komast af með, því það er víst, að frjálst framtak verður ætið heilbrigðást. Þó geta verið undantekningar frá þessu, svo að knýja verði menn til að gera vissa hluti, ef þeir gera þá ekki af eigin hvöt, og víst er það, að nauðsynlegt er að tryggja þau stóru verðmæti, sem liggja í fiskiflota okkar Íslendinga, og nauðsynlegt er, að hið opinbera geri ráðstafanir til, að svo sé gert, ef miklar misfellur eru á því af hendi skipaeigenda sjálfra. En allt þetta raskar ekki því, að þar, sem menn hafa gert ráðstafanir í þessa átt, ráðstafanir sem telja má, að séu þjóðarhagsmunum mikils virði, þá á að taka sem mest tillit til þeirra og reyna að gera þau félög, sem fyrir eru, ánægð með þetta fyrirkomulag. Þau félög eru vel byggð og full ástæða til að sýna þeim alla þá nærgætni, sem hægt er. Enda væri mjög óheppilegt að gera þá óánægða með lögin, þegar í byrjun, sem eiga að búa við þau.

Mér virðist hv. þm. hafa gert ákvæðið í frv. um endurtryggingu allóvægilegt, þar sem félögin eiga að greiða jafnmikið fyrir endurtrygginguna og þau fá frá þeim, sem tryggja skipin. Þetta hefir verið nokkuð á annan hátt hjá a. m. k. sumum félögunum. Þau hafa greitt minna fyrir endurtrygginguna, en tryggja þá ekki smærri skemmdir. Ég sé ekki, þar sem svo fá félög eru starfandi í landinu, að menn þurfi að taka mjög sárt, þótt mikið tillit sé tekið til þeirra við setningu þessara laga. Ennfremur fæ ég ekki séð, að f. sé neinn voði búinn af því, að till. hv. þm. Borgf. væri samþ. Að vísu er það rétt, að hún myndi torvelda framkvæmd laganna í byrjun, þ. e. a. s. endurtryggingarfélagsskapinn, en ég veit ekki, hversu almenn tryggingin kann að verða, meðan ekki er séð, hverjir sækja um þessa undanþágu. En fimm ár eru heldur ekki lengi að liða í æfi heillar þjóðar.

Ég álít, að það sé gert of mikið úr því hjá þeim hv. þm., sem hafa talað á móti till. hv. þm. Borgf., að hún mundi kollvarpa öllum l. Ég býst við, að menn geri ráð fyrir, að þetta skipulag standi lengi, og þá mun sízt óheppilegra, að sem mestrar varúðar sé gætt við setningu þeirra í garð þeirra, sem búa eiga við l.

Út af því, sem hv. 8. landsk. talaði hér um, vildi ég segja þetta: Hversu kær sem Ólafsfjörður er mér, og hversu mikið, sem hv. þm. á Ólafsfirðingum upp að unna, sem ég veit, að er mikið, þá er ekki hægt að sníða löggjöf, sem á að ná yfir allt landið, eftir þörfum Ólafsfjarðar eins. Það kemur ekki til mála, að afleiðingin af því, þótt Akureyrarfélagið vildi ekki taka Ólafsfjörð með, yrði sú, að Ólafsfirðingar fengju ekki sína báta tryggða. Þeir mundu stofna sitt sérstaka vátryggingarfélag, þótt enginn vildi við þá kannast nema hv. 8. landsk., og það væri aðeins skemmtilegra fyrir Ólafsfirðinga, að enginn geti sagt um þá, að þeir séu ómagar á öðrum verstöðvum.

Það er alveg áhættulaust, bæði fyrir Ólafsfirðinga og aðra, að þessi brtt.samþ. Ég álít það ekki rétt hjá hv. þm., að eins sé ástatt um fjöldamargar aðrar verstöðvar og Ólafsfjörð. Það eru ekki starfandi nema 3 bátaábyrgðarfélög í landinu. Eitt þeirra er í Vestmannaeyjum, og hann getur sjálfsagt skilið, að ekki kemur til mála að hafa nokkurt annað svæði þar með. Annað félag er það, sem starfar á Akranesi og nær til allra verstöðva í sýslunni, og þá er ekki annað eftir en Eyjafjarðarfélagið, og ber þá allt að þeim sama brunni, að öll lögin ættu að miðast við einkaþarfir Ólafsfjarðar.