13.12.1937
Efri deild: 48. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í B-deild Alþingistíðinda. (1124)

56. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Ég hefi allmargt að athuga við brtt. hv. þm. Vestm. og ræðu hans. Við erum sammála um það, að vátryggingarmál smábátaútvegsins sé í megnasta ólagi, nema á einstaka stað, t. d. í Vestmannaeyjum. Brtt. fer fram á, að félögum og einstaklingum verði veittar þær undanþágur, að þurfa ekki að ganga inn í tryggingarnar fyrr en að fimm árum liðnum. Ég get ekki séð, hvað ætti að vinnast við þann frest. — Hv. þm. lýsti tryggingarfélaginu í Vestmannaeyjum, sem nú væri að verða 76 ára og væri enn í bezta gengi, ætti talsverða sjóði. En hvers vegna á að gefa félaginu 5 ára frest, áður en það gengi inn í heildartryggingarnar? Ég sé ekki, hvað getur unnizt með því, annað en það, að gera lögin að dauðum bókstaf næstu fimm árin. —Ef hv. þm. Vestm. vill á annað borð skyldutryggingu, þá á hann ekki að þurfa fimm ár til að búa sig undir að taka þátt í henni. Bæði ég og aðrir munu vera fúsir á að sýna bátavátryggingafélagi Vestmannaeyja alla viðurkenningu, en það verður að sætta sig við að hlíta almennum landslögum. Hinsvegar tel ég sjálfsagt, að Vestmannaeyjar verði tryggingarsvæði út af fyrir sig. Þá geta Vestmannaeyingar haldið öllum sínum réttindum, ráðið iðgjöldum sínum eftir sem áður, og sjóðum þeim, er þeir hafa safnað, alveg eins þó að þeir gangi inn í heildartrygginguna.

En með því að gangast undir lögin styrkja Vestmannaeyingar þá, sem nú eiga við erfiðari aðstæður að búa. — Það er rétt, að sumstaðar hafa einstaklingar tryggt báta sína hjá Sjóvátryggingarfélagi Íslands. En þau kjör, sem þeir hafa fengið þar, eru ekki aðgengileg. Mér fannst, að í ræðu hv. þm. Vestm. kæmi fram einmitt sá misskilningur á eðli trygginganna, sem ég talaði um í fyrstu ræðu minni, að um væri að gera, að menn sjálfir hefðu sem mestan hagnað af tryggingunni. Þarna kemur stór misskilningur fram í því, hvað er aðalkosturinn við tryggingarnar, en hann er sá, að allir félagsmenn beri byrðarnar hver með öðrum.

Hv. þm. fannst það hart fyrir smærri báta, sem kannske ekki fara á sjó nema mánaðartíma á ári, að þurfa að tryggja. Hvers vegna er það hart? Slysin geta alltaf viljað til, jafnvel þó að um stuttan tíma sé að ræða. Hitt væri vitanlega hart, ef eigendur þeirra báta, sem ekki ganga nema hálfan eða einn mánuð, ættu að greiða sömu iðgjöld og þeir, sem láta báta sína ganga allt árið. En það er alls ekki meiningin. Að vísu efast ég ekki um, að fyrst í stað verði ekki hægt að komast hjá því, að kjörin verði talsvert misjöfn á hinum einstöku tryggingarsvæðum. Það á að skipta landinu í tryggingarsvæði, og er það ekki vandalaust verk. Ég skal játa það. En erfiðast verður þó að brjóta ísinn þar, sem tryggingarnar eru í mestu ólagi, en ég efast ekki um, að með tímanum geti þar vaxið upp alveg samskonar tryggingarstarfsemi eins og í Vestmannaeyjum, sem gefizt hefir ákaflega vel. En svo er annað, sem ég álit aðalkostinn við að fara þá leið, sem frv. gerir ráð fyrir, sem sé að skipta landinu í mörg tryggingarsvæði, og hann er sá, að á þann hátt verður betur náð þeim þætti trygginganna, sem ég legg aðaláherzluna á, að fyrirbyggja slys. Og ég held, að eitt af því, sem hefir gert það að verkum, að bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja hefir lukkazt eins vel og raun er á, sé einmitt það, að þar hefir eftirlitið með öllum útbúnaði verið miklu betra heldur en almennt gerist hér á landi, því að ég ímynda mér, að hætturnar séu ekki neitt minni í Vestmannaeyjum heldur en annarsstaðar hér við land.

Ég held því, að enda þótt Vestmannaeyingum kunni að vera það óljúft að ganga undir skyldutrygginguna, þá þurfi þeir ekki að líða við það neitt tjón, en hinsvegar geti landsmenn yfirleitt haft af því mikinn hagnað að fá jafnöflugan félagsskap inn í skyldutrygginguna. Þeir hafa bæði fordæmið og stuðning þaðan, og það sem mest á ríður í sambandi við þetta mál, er að geta sameinað kraftana til þess að koma málinu á þann grundvöll, sem það þarf að komast á. Og ég held, að hvorki bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyinga né önnur vátryggingarfélög á landinu geti með nokkrum rökum lagzt á móti því, að skyldutryggingar verði lögleiddar. Ég trúi því ekki heldur fyrr en ég tek á því, að menn, sem búnir eru að fá jafnmikla reynslu í tryggingarmálum eins og Vestmannaeyingar, séu ekki fúsir til þess að leggja sitt lóð á vogarskálina til þess að koma þessum málum á fastan grundvöll. — Ég skal taka það fram, að á síðasta þingi átti sæti í sjútvn. þáv. þm. N.- Ísf. (JAJ), sem um mörg ár hafði starfað við bátaábyrgðarfélag, er gengið hefir mjög sæmilega, eftir því sem hann sjálfur upplýsti, og var hann þessu fylgjandi, að skyldutryggingar yrðu lögleiddar. Og ég hygg, að hin mörgu vátryggingarfélög úti um land muni einnig taka svo í þetta mál, því að annars gæti ekki legið til grundvallar önnur ástæða en sú, að þau hugsuðu sem svo: Við getum séð um okkur, –sjái hinir um sig. — En þetta vil ég ekki ætla mönnum, sízt þeim, sem hafa áratugareynslu af þessum málum. — Og ég tel, að Vestmannaeyingum sé sýnd full viðurkenning með því, að þeir fá að vera tryggingarsvæði út af fyrir sig, og það tel ég sjálfsagt vegna allra staðhátta og einnig vegna þess, að þá geta þeir notið þeirra hlunninda, sem þeir eru búnir að skaffa sér á undanförnum árum, að því er snertir lægri iðgjöld.