13.12.1937
Efri deild: 48. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

56. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

*Jóhann Jósefsson:

Hv. 2. þm. S.-M. hefir nú mælzt vel og skörulega í þessu máli, og þó að hann hafi ekki viljað fallast á mína till., þá skal því sízt neitað, að hann hafi haldið mörgum góðum málstað vel fram. En hitt er svo annað mál, að sínum augum lítur hver á silfrið, og ef það væri komið inn í hug og hjarta allra þeirra, sem standa að bátaábyrgðarfélagi Vestmannaeyja, að þeir mættu treysta því, að allt færi svo í hinni nýju tryggingu eins og ég veit, að hv. 2. þm. S.-M. meinar og vill, að það fari, þá kynni þetta að vera minna tilfinningamál. Og nokkur vorkunn má það nú heita, þó að aðilja, sem starfað hefir að þessum þjóðþrifamálum innan síns umdæmis svo langan tíma sem vitanlegt er um þetta félag, hugnist ekki að því að fá opinbera íhlutun um starf sitt eftir 75–76 ára reynslu á þessu sviði. Opinber íhlutun er ekki alltaf svo vinsæl hér á landi, sízt af öllu nú í seinni tíð, að þeim mönnum, sem lifa sjálfstæðu lífi á einhvern hátt, er nokkur vorkunn, þó að þeir vilji vera lausir við hana í lengstu lög.

En till. mín fjallar um fleiri aðilja heldur en bátaútgerðarfélag Vestmannaeyja, og þrátt fyrir sínar glöggu röksemdir kom hv. frsm. þó aldrei að þeim kjarna málsins, sem ég benti á, sem sé, að nauðsyn væri á því að koma þeim fyrst inn í þennan félagsskap, sem hans hefðu þörf, en lofa hinum, sem ekki hefðu þörf fyrir þessa starfsemi, að biða um stund. Framhjá þessu atriði gekk hv. frsm. alveg, að vísu kannske óviljandi, en mér finnst það vera stórt atriði í sambandi við þetta mál.

Ég er nú ekki heldur eins fullviss um það og hv. frsm., að peningalega skoðað geri þetta engan mismun fyrir bátaábyrgðarfélagi Vestmannaeyja, en um hitt er ég fullviss, sem líka er aðalatriðið fyrir Vestmannaeyingum, að þeirra sjálfsákvörðunarréttur í þessu efni verður ákaflega mikið skertur með hinum nýju lögum, þar sem þeim er gert að skyldu að breyta sinum lögum samkv. hinni nýju löggjöf o. s. frv.

Ég ætla þá ekki að verja lengri tíma við þessa umr. til þess að rökstyðja till. mína. Ég læt það ráðast, hvernig hún verður afgr., og ef hún verður felld, getur verið, að ég komi með aðra till.

við 3. umr. málsins. — En ég vil aðeins að lokum benda hv. frsm. á þetta, sem ég tók fram áðan að væri höfuðatriði málsins, sem sé að koma á vátryggingum fyrir þá, sem ekki hafa vátryggingarfélög nú. Það hlýtur að vera aðalatriðið.