15.12.1937
Efri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (1132)

56. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Það er rétt hjá hv. þm. Vestm., að ég gat þess við 2. umr. þessa máls, að ég teldi ýms atriði þessa frv. mega betur fara. Hitt er náttúrlega alrangt og í algerðu heimildarleysi hvað mig snertir, að mála eins mikið fjandann á vegginn eins og hv. þm. gerði í sinni ræðu. því að þótt það séu ýms atriði, sem mættu betur fara, þá er langt frá því, að ég telji frv. eins óhafandi óbreytt eins og hv. þm. vill vera láta. Og þetta er skiljanlegt af því, að það er öllum vitanlegt, að hans aðstaða í málinu er sú, að hann vinnur á þeim grundvelli, að málið gangi ekki fram, en ég vinn á þeim grundvelli, að málið gangi fram. Þess vegna er ósköp eðlilegt, að aðferðir okkar séu ólíkar.

En um þetta ætla ég ekki að ræða meira, en víkja að þeim brtt., sem fyrir liggja. Skal strax viðurkennt, að sumar af þeim eru þannig, að ég tel þær til bóta. Þær eru misjafnlega þýðingarmiklar, og má náttúrlega segja, að ef þær hefðu verið samþ. af n. allri, þá hygg ég þær hefðu litið dálítið öðruvísi út, einmitt af þeim viðhorfum, sem ég hefi lýst, að nefndarhlutarnir hafa til frv. Ég skal þó taka það fram, að sumum þessum brtt. er ég á móti, tel þær ekki til hins betra, aðrar þannig, að þær þurfa athugunar við. Því að þegar maður kemur með brtt. við jafnstórt frv. og þetta, sem sett er í fast kerfi, þá er töluverður vandi að breyta einstökum gr., þó að ekki sé nema í litlu, því að hafa verður í huga að raska ekki kerfinu og að ekki reki sig breytingarnar á önnur ákvæði frv.

Ég skal játa, að mér er töluvert áhugamál, að þetta mál gangi fram, en einnig áhugamál, að það gangi fram í sem allra beztri og fullkomnastri mynd. Að því er snertir atriðið, sem ég minntist á við 2. umr., ákvæði 15. gr. um þann frádrátt, sem vátryggingarfélaginu er heimilt að hafa við útborgun fyrir aðgerð, skal ég geta þess, að ég tel þann galla á brtt. hv. þm. Vestm., að hún er í alveg sama formi og frv., svo að það verður alltaf handahóf, þegar ákveðið er í prósentum, hvað skuli draga frá. Það eina, sem ég tel rétt, er það, að ekki sé skylt fyrir vátryggingarfélagið að greiða það af viðgerðinni, sem skipið hækkar í verði, en ekki hitt, að hversu dýr sem viðgerðin verður, skuli vátryggingarfélagið greiða að fullu, enda þótt skipið verði engu betra eftir viðgerðina. Hefði ég því viljað taka þessa brtt. til rækilegrar athugunar. — Sama er að segja um 6. brtt., þar sem gert er ráð fyrir nýrri gr. Mér virðist fara betur á að vísa henni á undan 27. gr. en á eftir. Þetta hefir náttúrlega ekki mikið að segja, en svona smáatriði er alltaf nauðsynlegt að taka til yfirvegunar áður en brtt. eru afgr. — Fyrstu brtt., b-lið, tel ég ekki réttláta. Því að þegar um skyldutryggingu er að ræða, þá held ég, að nauðsynlegt sé að taka fram í l., eftir hverskonar reglum skyldutryggingin nær til. Og ef fellt er úr, að skyldan nái til skipa, sem aðallega eru ætluð til fiskveiða við Ísland, þá finnst mér, að allar fleytur komi þarna undir, smáskektur og lystiprammar og þvíumlíkt. En það er alls ekki meining laganna, því að það þarf ekki að lögbjóða tryggingu á skipum þeirrar stærðar, sem notuð eru til flutninga innanlands, því að til eru önnur lög, sem fyrirskipa, að þau geti ekki verið í förum nema vátryggð sé. Sem sagt, þó að ég telji margar af þessum till. til bóta, þá eru þær þannig vaxnar, að ég tel ekki heppilegt, að þær fari undir atkv. Hefði ég því viljað mælast til þess við hæstv. forseta, að hann tæki málið út af dagskrá og sjútvn. athugaði þessar brtt., sem nú fyrst í dag eru að koma fram, og ef mögulegt væri, að hún flytti þá sameiginlega þær brtt., sem hún getur fallizt á.