15.12.1937
Efri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í B-deild Alþingistíðinda. (1161)

52. mál, lax- og silungsveiði

*Jón Baldvinsson:

Ég veit ekki, hvort form. lanbn. hefir nokkuð rætt þetta mál. (Forseti: Hann hefir ekki gert það). Ég viðurkenni náttúrlega rétt hæstv. forseta til þess að taka mál úr n. og setja þau á dagskrá, ef þau hafa verið í n. óhæfilega lengi, og það vill svo vel til, að flm. að þessu frv. er hæstv. forseti Nd., svo að það er viðbúið, að hann ýti fast á eftir málinu; hann er vanur því. En ekki þykir mér hann ganga rösklega fram í að heimta mál af hv. landbn. Nd., því að í Sþ. í fyrradag lýsti form. landbn. því yfir, að hjá n. lægju fyrir 10 mál, sem ekki hefði verið tök á að athuga, og hann svaraði engu góðu til, þegar hv. þm. fóru að spyrja hann, hvernig málum liði. Þó að ég hafi ekki skrá um mál, sem liggja fyrir landbn. hv. Ed., þá held ég, að þau séu ekki svo mörg, og það hefir farið þannig með þetta mál, að hæstv. forseti hefir notað sér rétt til þess að taka þetta mál úr n. áður en hún hefir til fulls getað lagt smiðshöggið á það. Þetta er í rauninni miklu flóknara mál heldur en það í fljótu bragði virðist, því að bak við þessa breyt. er einnig töluverð breyt. á laxveiðilöggjöfinni í heild sinni, án þess ég ætli að segja nokkuð um, hvort það sé til góðs eða ills að samþ. þessa breyt., en ég veit bara, að laxveiðilöggjöfin þarf mjög ýtarlega athugun og breyt. Það hefir sem sé sýnt sig, og það eru sannanir fyrir því annarsstaðar, að lax- og silungsstofninn í veiðiám er ekki eins sterkur og menn hafa haldið hingað til, og það verður að fara með mestu varúð að því að veiða lax og silung, svo að fiskurinn upprætist ekki. Með stórvirkum veiðitækjum er hægt að eyðileggja jafnvel stórar veiðiár á örskömmum tíma, og það er vitanlegt, að það tekur a. m. k. 10 ár að fá stofninn til að vaxa að nýju. Nú vitum við, að jarðir leigja oft út veiðisvæði þeim mönum, sem kallaðir eru „sportmenn“, til lax- og silungsveiði, og Íslendingar eru, eins og kunnugt er, kappsmenn miklir víð veiði, hvort sem er á sjó eða í vötnum, svo að það hefir verið gengið svo rækilega fram í þessu, þegar leigðir hafa verið út litlir bútar, sérstaklega í litlum ám, að menn hafa skipzt á með að veiða allan sólarhringinn þann tíma, sem þessi veiðisvæði hafa verið leigð út, en af því leiðir, að laxinn, sem er styggur og töluvert viðkvæmur, hvarflar frá og gengur ekki endalaust fram, eins og ég ætla, að sagt sé í fornum l., og svo til hrygningarstöðvanna, og að lukum veiðist stofninn sumpart upp eða minnkur svo mjög, að laxveiðin hverfur að mestu. því hefir það vakað fyrir mér og raunar nokkrum fleiri hv. þm. undanfarin ár, að það þyrfti um þetta frekari reglur, og jafnvel reglugerð um það, hvernig veiða mætti í hverri á og hverskonar veiðitæki þar ætti að nota. Mér hefir dottið í hug brtt. við þetta frv., en það er töluverður vandi að setja breyt. inn í jafnstóran, flókinn og erfiðan lagabálk eins og laxveiðilöggjöfin er, svo að hún komi ekki í bága við það, sem fyrir er í slíkum lagabálki, en það, sem ég vildi koma að, er það, að landbr. sé heimilt, eftir till. veiðimálastjóra. að setja reglur um það, hvaða veiðitæki megi nota í hverri veiðiá fyrir sig. Ég hefi hugsað mér, að í upphafi mætti flokka árnar, svo að smáar bergvatnsár, sem lax og silungur er í, hefðu sérstakar reglur og í þeim væri í rauninni allar veiðiaðferðir bannaðar nema stangaveiði, ekki til þess að hindra, að bændur og aðrir, sem þar eiga í hlut, hefðu upp úr þeim, heldur með það fyrir augum, að þeir hefðu varanlegar tekjur af veiðinni. Ég sé ekki annað en að þeim ætti að vera það nokkurn veginn sama, hvort þeir fá greidda peninga eða þeir taka laxinn eða silunginn og hafa til heimilisnotkunar. Víða hagar svo til, að hægt er að gera hvorttveggja, en til þess að vera viss um, að öruggt sé, að veiðistofninn haldist í þessum smáu bergvatnsám, sem í þurrkasumrum verða litlar sitrur, þá er óhjákvæmilegt að setja reglur um, að þar megi ekki veiða með ádrætti og þar eigi eingöngu að nota stangaveiði, og að ekki séu notaðar of margar stangir á tilteknu veiðisvæði, og ennfremur að ekki sé leyft að standa við veiðiskap allan sólarhringinn. Þetta eru þau höfuðatriði, sem ég teldi rétt að setja í löggjöfina, og þarf þó raunar nokkuð meira til. Mér hefir alltaf verið ljóst, að það eru miklir hagsmunaárekstrar milli manna í þessum málum, og fiskiræktarfélögunum var ætlað að bæta úr þessu, en það gengur heldur illa. Ég tel t. d., að bændur, sem búa við bergvatnsár upp frá stórám, þar sem hrygningarstöðvar laxins og silungsins eru, eigi alveg eins rétt á því að hafa tekjur af lax- og silungsveiði, þar sem hún verður rekin haganlegast, eins og hinir, sem við ósinn búa, sem ættu í rauninni að borga nokkurn skatt til hinna, gegn því skilyrði, að þeir létu hrygningarstöðvarnar í friði og leyfðu stofninum að vaxa þar upp, svo að hrygningarlaxinn og hrygningarsilungurinn fengi að vera þar óáreittur, í stað þess sem ég veit, að nú er gert þar, sem lax gengur seint á haustin, í september, slæptur og óásjálegur, að þá er farið með net og sópuð um þessa staði, aðeins af því að þetta er eina tækifærið, sem þeir menn, er þarna eiga lönd að, hafa til þess að fá eitthvað upp úr veiðinni í ánum. Og það gæti vel verið, að þingið ætti að setja um þetta löggjöf, en það væri náttúrlega langæskilegast, að þetta gæti orðið með frjálsum samtökum, en þó með styrkum stuðningi löggjafans. Breyt. í þessa átt teldi ég mjög nauðsynlega. Og ekki sízt í sambandi við það, að nú á að framselja veiðiréttindi, til þess að jarðeigendur geti aftur heimt í sínar hendur það veiðisvæði, sem liggur fyrir þeirra jörðum, en áður er undan þeim gengið. Ég er ekki í vafa um, að margir muni fallast á það, að þó að það sé freistandi að leigja út smábúta af veiðisvæðunum þeim mönnum, sem eru að veiða sólarhring eftir sólarhring hverja mínútu, sem þeir hafa rétt til að veiða, þá muni góðar Laxár, sem vel hefir verið farið með og laxstofninn hefir haldizt langan tíma i, fara svo, að veiðin í þeim mundi upprætast, og eftir það mun þurfa margra ára hvíld til þess að láta laxinn koma aftur. Nú er það vitað um ár eins og Ölfusá og Þjórsá, að þar er beinlínis fæddur upp selastofn á laxinn og silunginn við ósana, en það hefir ekki verið notuð sú heimild til átrýmingar, sem fyrir er í l., a. m. k. hefir verið mjög slælega gengið fram í því. Þetta hefir aftur á móti verið gert við Borgarfjarðarárnar, Hvítá í Borgarfirði, sem er aðallaxáin þar, og bergvatnsárnar, sem í hana falla, og það hefir líka svo að segja ekki, nú um mjög langt skeið, brugðizt lax í þessum ám. Má þar til nefna Þverá, sem farið hefir verið heldur vel með veiðina í. Hún er full af laxi á hverju ári, en væri svo, að hver jörð gæti tekið undir sín yfirráð allt það svæði, sem undir hana liggur, þá þykist ég vita, að veiðin mundi upprætast á örskömmum tíma, vegna þess að fjárvon mundi freista bænda til þess að leigja út með háu verði veiðisvæði á meðan þar væri nokkur veiði, en svo kæmi afturkast mörg tekjulaus ár, og þykist ég þá vita, að menn muni sjá eftir því. Það er því spursmál, hvort löggjafinn gæti ekki komið í veg fyrir þetta og hvort bændur þurfa að verða fyrir þessum árekstri til þess að sjá að sér í þessu efni. Að öðrum kosti er ég hræddur um, að næsta kynslóð á eftir muni gleyma allri reynslu feðranna í þessum efnum og gera slíkt hið sama. Ég hefði því gjarnan viljað gera þessar breyt., þó að þær séu ekki nú fyrirliggjandi, en það má vera, að mér tækist að semja þær fyrir 3. umr., ef hún verður ekki allt of skjótlega og n. gefst tími til að yfirvega þær breyt., sem henni þætti við eiga í sambandi við þetta frv., en annars hefði ég talið, að það væri kannske nægilegt á þessu þingi að samþ. bara þá þáltill., sem landbn. hefir orðið sammála um að flytja og er á dagskrá í dag. Ég hefi að sjálfsögðu talað um þetta mál áður í svipuðum tón, bæði í hv. Ed. og eins í sambandi við flutning till. áður á fyrri þingum í Sþ., en mér finnst þetta mál vera svo mikils virði og svo mikið hagsmunamál fyrir þá íslenzka bændur, sem hafa þarna hagsmuna að gæta, að það eigi að koma þessum málum í viðunandi horf og tryggja bændum fastar og öruggar tekjur af veiði þeirri, sem þeir fá úr ánum. Það má geta þess í þessu sambandi, að vegna ádráttar, og sérstaklega vegna laxveiði í sjó, eru ár í Skotlandi og Noregi að verða laxlausar, og það þykir ágæt veiði í mörgum beztu veiðiám í Skotlandi, ef menn fá þar 2–3 laxa yfir daginn, og jafnvel 1 lax á bezta veiðitímanum. Þar er veitt í sjó með lagnetum fyrir allri ströndinni og jafnvel langt úti. Þetta er að sumu leyti bannað hér, en þó eru löggiltar þær varnir, sem áður hafa verið, og það voru vist ekki svo fáir, sem hlupu til og létu löggilda laxveiðivarnir í sjó rétt áður en nýja löggjöfin frá 1932 kom í gildi. Það er mjög vafasamt, hvort ekki ætti alveg að taka fyrir þetta og hafa í því efni fyrir sér þá reynslu, sem fengizt hefir annarsstaðar um lax- og silungsveiði vegna þessarar sjó- og netaveiði, því að það er öllum þeim, sem til þekkja kunnugt, að þegar lax og silungur gengur að vorinu, þá rennur hann með landinu, þar sem laxár eru, og það er að sjálfsögðu oft hægt að ná honum þar í net, og sé mikið um slíkar varnir og slíkan veiðiskap, þá er stofninn, eins og ég hefi sagt, ekki svo sterkur, að hann þoli slíka veiði. Menn kunna nú hér til að svara, að úr þessu sé bætt með því að hafa laxaklak á mörgum stöðum, og það er t. d. laxaklak hér í Elliðaánum, sem talið er eitt stærsta laxaklak á Norðurlöndum, en við vitum ekkert um, hvað stórvirk náttúran sjálf er í framleiðslunni, þegar vel árar og góð skilyrði eru fyrir laxinn til að hrygna, svo að við höfum enga hugmynd um, hvort það er nægilegt að framleiða milljón fiska á ári handa laxá eins og Elliðaánum. Þó að þær litlu tilraunir, sem gerðar hafa verið til klakstöðva fyrir lax, beri ávöxt, þá er mjög vafasamt, að það nægi til þess að hamla upp á móti hinni ofsafengnu veiði. Hér í nágrenni Rvíkur er t. d. laxá, sem fyrir 20 árum var full af síl

ungi og laxi á hverju sumri, en svo fundu einhverjir það út, að á leirunum fyrir framan ána lægi laxinn og biði eftir hentugri uppgöngu í ána, þegar vatnavextir kæmu, og væri að venjast ferska vatninu áður en hann réðist til uppgöngu í ána, eins og hann sennilega gerir víðast, og þarna var auðvelt að taka hann. Það var girt fyrir álana báðumegin og síðan var laxinn krakaður upp. Það fór svo, að eftir 2–3 sumur var stofninn gersamlega eyðilagður, og í 10–12 ár hefir lax ekki komið í þessa á nema einn og einn á stangli. Ég ætla, að nú sé búið að stofna félag til þess að reyna að friða ána, en hvort það ber árangur, skal ég ekki um segja, en ég þykist vita, að svo hafi farið um fjölda af smáum bergvatnsám hér á landi. Þetta er á vissan hátt sambærilegt við þá mestu plágu, sem menn telja nú vera í landinu, fjárpestina miklu. Bændur telja það mesta skaðræði að þurfa að skera niður bústofninn, og eins ættu menn að sjá þá hættu, sem því er samfara að eyðileggja fiskistofninn í ám og vötnum, og það er vafasamt, hvort löggjöfin getur ekki dálítið lagfært þetta með því að setja um þetta reglur, sem að sjálfsögðu verða, eins og mörg ný l., brotnar að einhverju leyti, en samt gæti það haft þau áhrif, að menn sæju, að hér væri um réttmætar reglur að ræða, sem sjálfsagt væri að fylgja. Ef laxveiðilöggjöfin væri komin í þetta horf, þá teldi ég, að það væri mikils um vert og til mikilla hagsbóta fyrir fjölda bænda í þessu landi, ef þeir gætu komið auga á, hve nauðsynlegt það er að fara vel með þann fiskistofn, sem er í þeim veiðiám og veiðivötnum, sem heyra undir jarðir þeirra. En ég er hræddur um, að það, að klippa þetta allt í búta, geri það mögulegt, að úr ánum upprætist allur fiskistofn, svo að það verði að byrja að nýju og halda svo áfram ár eftir ár og áratug eftir áratug, ýmist að drepa það, sem í næst, eða að verða af öllum þeim tekjum, sem skynsamleg veiði getur af sér gefið.

Ég hefi ekki tilbúna brtt., svo að ég kem henni ekki að við þessa umr., en ég athuga hana til 3. umr., sem ég vona, að fari ekki fram alveg strax. (Forseti: Ekki í dag). Ég get þá e. t. v. soðið saman brtt., sem verða mætti til gagns í þessu efni.