21.12.1937
Efri deild: 54. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (1166)

52. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. minni hl. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í að svara hv. 1. þm. N.-M. Ég reifaði þetta mál við 2. umr. og tók þá það fram, sem ég áleit mestu máli skipta, svo að ég get farið fljótt yfir sögu.

Hv. þm. minntist fyrst á það, að vafasamt væri, hvort hægt væri að setja l. um, að rifta mætti þeim ráðstöfunum, sem gerðar hefðu verið með gjafabréfi í sérstöku augnamiði að sumu leyti. Það er að sumu leyti óviðkunnanlegt að verða að gera það, en það er hliðstætt dæmi, þegar um kirkjujarðir er að ræða, eins og þar sem máldagar eru fyrir veiði í ám, sem kirkjur eiga. Máldagarnir einir skýra frá því, hverjir séu eigendurnir þá, en maður sér sjaldnast hin gömlu gjafabréf, hvorki fyrir veiði né jörðum.

Ég sé ekki frekari ástæðu nú til að hætta við þessa innlausnaraðferð, þar sem hún hefir þegar verið notuð, og þar sem þeir eru eftir, sem hafa verið óduglegastir að ná þessum réttindum sinum, en þeir, sem hafa verið aðgangsfrekastir að ná í þessa veiði fyrir löndum sínum, eru þegar búnir að því. Hv. þm. minntist á, að það væri lítið eftir af óinnleystum veiðiréttindum hér á landi. Mér er þó kunnugt um, að veiðiréttindi í Laxá í Laxárdal á einum stað eru óinnleyst, sömuleiðis veiðiréttindi í Þverá í Borgarfirði og víðar. Hv. þm. var að tala um Haffjarðará og virðist bera hana sérstaklega fyrir brjósti og hafa mikinn áhuga fyrir því, að eigandi þeirrar ár væri ekki órétti beittur. Lm þá á er það að segja, að ég hygg, að eins og sakir standa sé ekki hægt að innleysa veiðiréttindin þar, því að til þess að það væri hægt, yrði að stofna þar veiðifélag eða fiskiræktarfélag, en ég hygg, að samningar séu þannig, að það komi ekki til mála, en þó vil ég ekki fullyrða neitt um það. Ég hefi ekki athugað það svo nákvæmlega. Býst og við, að skilyrði vanti til þess að stofna þar veiðifélag, þar sem einn er eigandi allrar árinnar eða veiðinnar.

Þá talaði hv. þm. um það, að það væri hætt við, að menn misnotuðu miklu meira veiðina eftir að innlausn væri fengin. Þetta held ég að sé skakkt hjá honum, því að til þess, að landeigandi geti leyst inn veiðina, þarf veiðifélag eða fiskiræktarfélag, sem oft koma því til leiðar, að farið er að setja laxa- og silungsklak við árnar og auka þannig veiðina, þar sem sérstök stjórn er þarna heimafyrir, sem lítur eftir því, hvernig veiðin fer fram. Er miklu meiri trygging fyrir því, að veiði í ám sé ekki misnotuð, þegar allt er undir einni dugandi stjórn, heldur en þegar 10–20 menn eða jafnvel fleiri pota hver út af fyrir sig. Þá er hættan einmitt miklu meiri, því að þó að samlög hafi verið og verði um stærri árnar, þá er hætt við, að þegar einstaklingar eru sjálfir farnir að leigja árnar út, þá reyni veiðimenn að ná leiguréttindum yfir parti af ám hjá þeim, og þá veit maður, hvernig getur farið, menn reyna þá að hafa sem mest upp úr sinum hlut, ef til vill með misjöfnum veiðiaðferðum, en það ætti að vera girt 'fyrir, þegar áin er undir einni hendi.

Það hefir verið talað um, að brtt. frá hv. 9. landsk. mundi verða tekin aftur, og tel ég það vel farið og mun þá ekki tala frekar um það að öðru leyti en því, að mér virðist sú brtt. ekki eiga við nú, þar sem búið er að samþ. þáltill. um að endurskoða laxalöggjöfina, aðallega að því er snertir veiðimeðferð og þess háttar. En þótt sú till. hafi verið samþ., þá kemur hún ekki því máli við, sem hér er til umr., því að hún fer ekkert inn á það svið, sem þetta mál fjallar um.

Ég hefi nú drepið á það helzta í sambandi við 1. gr. þessa frv., en ég vil endurtaka það, sem ég hefi sagt um 2. gr. þess, að við getum ekki okkur að vansalausu sett okkur á móti henni, og ég geri ekki ráð fyrir, að nokkur hv. þdm. muni snúast gegn þeirri gr., enda reyndist það svo við atkvgr. við 2. umr., að það var engin hönd uppi á móti gr. Við getum ekki látið hjá liða á þessu þingi að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir, að einstaklingurinn sé alveg varnarlaus fyrir veiðiþjófum, og vinna að því að hann fái þá vernd, sem aðrir borgarar þjóðfélagsins fá fyrir ólöglegum árásum. Alþ. verður að koma því til leiðar, að þessir menn þurfi ekki að reka slík mál eins og hvert annað einkamál með ærnum kostnaði, heldur fái sumir þá vernd, að þurfa ekki að kæra til yfirvaldanna og málið verði tekið í hendur þess opinbera og rekið sem almennt lögreglumál. Þess vegna verð ég ákveðið að mæla með því, að þetta frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir, svo að það nái afgreiðslu á þessu þingi, og vænti ég þess, að hv. d. haldi þeirri stefnu, sem hún hefir þegar tekið í þessu máli.