21.12.1937
Efri deild: 54. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (1168)

52. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. minni hl. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Ég ætla ekki að deila um lögskýringar við hv. 1. þm. N.-M. Ég vil aðeins taka það fram, að mér hefir skilizt á þeim, sem undirbjuggu þessi l., að þeir teldu, að þau hafi átt að ná langt aftur í tímann. Ég geri ráð fyrir, að þeir hafi haft lengri tíma og betri aðstöðu til þess að kynna sér þetta mál heldur en við, sem erum í þessari hv. d.

Ég sagði ekki, að það væri aðeins vegna 1. gr., sem lögin þyrftu fram að ganga, en ég sagði hitt, að ég legði enn meiri áherzlu á, að málið gengi fram vegna 2. gr. Þó að það sé rétt, að enginn færi að veiða laxa í Laxá í desember og silungsveiði standi ekki heldur mikil hætta af veiðiþjófnaði á þessum tíma árs, þá hrekur það ekkert af því, sem ég var að segja. Ég veit, að menn hafa hikað við að reka réttar sins út af veiðiþjófnaði í sumar, af því að það varð að reka það sem einkamál, og sökin liggur í salti enn vegna annmarka löggjafarinnar. Verði enn frestur á samþykkt þessa frv., þá er málið fyrnt. En verði ákvæði frv. samþ. nú, er þar reistur garður fyrir ásælni manna.

Hv. 1. þm. N.-M. er alltaf að tala um, að þetta eigi að lagfærast með þeirri löggjöf, sem nú á, samkv. þáltill., að fara að undirbúa. En hlutverk þeirrar löggjafár skilst mér liggja utan og ofan við þetta, sem hér liggur fyrir. Þar á t. d. að flokka veiðiár og miða við þróun laxaræktarinnar í framtiðinni, en hér að fullnægja réttlætinu í laxveiðilöggjöf yfirstandandi tíma. — Ég játa, að ég man ekki dæmi um það, að enn sé óinnleystur veiðiréttur, sem hefir verið seldur fyrir skemmri tíma en 25 árum. En ég veit, að fyrir ekki afarmörgum árum var látin veiði frá nokkrum jörðum og er óinnleyst enn.