21.12.1937
Neðri deild: 57. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (1175)

52. mál, lax- og silungsveiði

Pálmi Hannesson:

Ég skal játa, að d. er sett í nokkurn vanda með því að eiga að fjalla um þetta frv. eins og það kemur frá hv. Ed. Eins og menn muna, var frv. aðeins 2 gr., þegar það var samþ. hér frá Nd., en nú er það orðið 4. gr. Það er sérstaklega 2. gr. frv., sem gefur mér tilefni til þess að standa upp og fara um það nokkrum orðum. Þessi gr. er þannig vaxin, að ég get ekki skilið annað en með henni sé uppbafinn meginþáttur laga um lax- og silungsveiði. nr. 61 23. júní 1932. 2. gr. segir, með leyfi forseta: „Ráðh. skal setja, að fengnum tillögum veiðimálastjóra, reglur um það, hvaða veiðitæki megi nota til lax- eða silungsveiða, og skal í reglum þessum miða við þau veiðitæki, er líklegust þykja til þess, að fiskistofninn verði eigi upprættur. Í reglum þessum má ákveða fjölda veiðitækja, er notuð eru samtímis í veiðiá. Ennfremur má setja ákvæði um það, hversu langan tíma úr sólarhring megi samfleytt veiða í á, og má það vera mismunandi langur tími, eftir stærð veiðiár, eftir því hve auðvelt er að veiða og öðru því, sem við kann að eiga. Reglur þessar mega ekki brjóta í bág við friðunarákvæði laganna“. Eftir þessu ættu menn að veiða með höndunum berum til þess að ná sér í fisk, því að vitanlega tryggja engin veiðitæki jafnvel, að fiskstofninn verði ekki upprættur. Síðar segir í greininni, að reglur frv. megi ekki brjóta í bág við friðunarákvæði laganna. Ef þetta á að skilja þannig, að ekki megi fara lengra í friðuninni heldur en segir í lögunum, þá breytir þetta engu. En ef á að skilja það á hinn veginn, að það verði að fara skemmra, og það megi ekki eyðileggja veiðina fyrir mönnum, þá sé ég ekki, að gr. hafi nokkra þýðingu. Ég verð að átelja harðlega þá afgreiðslu, sem hv. Ed. hefir haft á þessu máli, með því að setja inn þessa 2. gr. frv. Aftur tel ég, að 1. gr. og 3. gr. feli í sér svo mikla réttarbót, að ég mun þess vegna hætta á fyrir mitt leyti að samþ. þær til bráðabirgða og reyna að koma breyt. á þeim, þ. e. fella burt 2. gr., á næsta þingi. En ég vil taka það fram, að því aðeins, að ekki þurfi að koma til framkvæmda 2. gr., tel ég fært að samþ. frv. eins og það liggur fyrir.