21.12.1937
Neðri deild: 57. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

52. mál, lax- og silungsveiði

Steingrímur Steinþórsson:

Ég vildi, áður en gengið er til atkv., gera grein fyrir mínu atkv. Ég er sammála samþm. mínum, að afgreiðsla Ed. á þessu máli er með endemum. Því í raun og veru er þessi 2. gr. frv., sem sett er við eina gr. í laxalögunum, alger öfuguggi, sem hægt er að skilja á þann hátt, að það upphefji öll helztu ákvæði laxveiðilaganna. Og ég verð að segja það, að mig stórfurðar á því, að Ed. skyldi geta látíð annan eins óburð frá sér fara eins og þetta. Og þetta er því furðulegra, sem Ed. hefir haft þetta litla frv. í heilan mánuð, og landbn. þessarar d. skilaði því frá sér fyrstu dagana í nóv. Það komst því fljótlega úr deildinni. Og nú kemur það á síðustu dögum þingsins aftur. Svo það lítur fyllilega út fyrir, að það sé gert með ráðnum huga að koma inn þessari 2. gr. svo seint, að við Nd.-menn, sem teljum mikilsvert, að frv. nái fram að ganga og þau ákvæði laxveiðilaganna, að menn fái heimild til að innleysa sinn veiðirétt. Þetta ákvæði var sett fyrir 5 árum, og nú er það senn útrunnið. Og ég tel, að þeir, sem eiga eftir að tryggja sér þennan rétt, hafi sama rétt og hinir. Þess vegna er ég ekki sama sinnis og hv. þm. Borgf., að það skipti ekki máli, hvort frv. er samþ. eða ekki, því að það fellur úr gildi um næstu áramót, ef það er ekki framlengt. Þess vegna álit ég rétt að samþ. þetta, en með þeim fyrirvara, að ég ber fram frv. um það á næsta þingi, að þessi 2. gr., sem komin er í frv., verði felld niður. En ég vil vinna til að láta þenna óburð komast í frv. að þessu sinni, til þess að fá samþ. till. um rétt til að innleysa veiðiréttinn.