23.11.1937
Efri deild: 33. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í B-deild Alþingistíðinda. (1191)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég sé nú, að umr. eru farnar að þreyta menn nokkuð og 1. flm. flýr úr deildinni, — sennilega vill hann ekki fá meira af ádeilum og gagnrýni en hann er búinn að fá fyrir þetta afkvæmi sitt. Þó að nú sé búið að gera allýtarlega grein fyrir ókostum þessa frv., þykir mér hlýða að láta koma fram mótmæli gegn ýmsum ákvæðum þess áður en það fer væntanlega í þá nefnd, þar sem ég á sæti, — mótmæli fyrir hönd þeirrar stéttar, sem frv. kemur til með að leika harðast, sem er sjómannastéttin.

Um skipun stjórnarinnar má segja það, að það er verið að snúa inn á sömu braut og áður var, þegar allt virtist vera að fara út í blossa og vitleysu, áður en lögunum var breytt 1935, að ég ætla. Það hefir sýnt sig, að það er ekki rétt að skipa stjórn við svona stórfellt fyrirtæki sem ríkisverksmiðjurnar eingöngu eftir pólitískum línum, heldur eigi að velja menn, sem vitað er, að hafa eitthvað til brunns að bera til að stjórna slíkum rekstri og líta eingöngu á hag þeirra manna, sem verksmiðjurnar eru fyrst og fremst stofnaðar til að vernda. Og það er í fyrsta lagi sjómannastéttin og þeir smærri útgerðarmenn, sem ekki áttu annars úrkosta en að fleygja afla sínum í sjóinn, ef mikill afli barst að. En ég get ekki séð, að þeirra réttur sé sérstaklega tryggður með því fyrirkomulagi, sem hér er ætlazt til. Ég er ekki í neinum vafa um það, — þó að sú till. sé ekki heyrð á Alþingi — þá er ekkert fyrirkomulag réttara en að viðkomandi atvmrh. skipaði þessa menn og beri ábyrgð á, hvernig stjórnin fer úr hendi. Það hefir sýnt sig um tveggja ára skeið, að þess háttar skipulag hefir verið það heppilegasta á þeim tíma, sem verksmiðjurnar hafa starfað í landinu. En þrátt fyrir þetta koma nú fram talsmenn þess fyrirkomulags, sem er búið að sýna sig að vera óhafandi. Millistig á þessu er það, sem hér er nefnt, að Alþingi tilnefni þrjá menn, þeir, sem leggja verksmiðjunum til verkefni; sjómenn og útgerðarmenn, nefni sinn manninn hvor. Ég tel alveg fráleita þá till., sem skotið hefir upp, að eitt verkamannafélag á landinu eigi að skipa mann í stjórnina, því að verkamenn t. d. við verksmiðjuna eiga miklu minna undir því, hvernig fyrirkomulag verksmiðjanna er, heldur en þeir, sem afla síldarinnar og færa verksmiðjunum hráefni. Verkamennirnir eru ráðnir fyrir fast kaup. Verðlagið á síldinni hefir tiltölulega lítil áhrif á það. Því meira aflamagn, sem að verksmiðjunum berst, því lengri vinna fyrir verkamennina. Tímakaupið eða mánaðarkaupið er venjulega hið sama árið yfir, hvort mikið eða litið aflast. Að þessu leyti er áhætta verkamanna við verksmiðjurnar nauðalítil, miðað við þá áhættu, sem fiskimaðurinn á undir aflabrögðum og verðlagi. Enda tel ég, að krafan um íhlutunarrétt þeirra um menn í stjórnina eigi ekki rétt á sér. Það er sjómannastéttin, sem vitanlega á að eiga sinn fulltrúa þar.

Þá er fasta verðið og áætlunarverðið. Við höfum þegar nokkra reynslu af þessu áætlunarverði. Það var greiddur viss hluti af áætluðu verði hjá síldarverksmiðjunum á sinum tíma, eða fyrsta árið, sem þær störfuðu, og reynslan mun því miður hafa orðið sú, að bætt var lítið við hið útborgaða verð. Með lækkuðu síldarverði 1931, 1933 og 1934 þótti sýnt, að enginn útgerðarmaður fengist til að skipta við verksmiðjurnar upp á það, að draga af því verði, sem þá var talið frekast fært að greiða, og farið inn á þá braut að greiða fastákveðið verð, og ef um áhættu væri að ræða, yrði hún að lenda á verksmiðjunum. Síðan þetta var tekið upp hefir þessari reglu verið fylgt. Og ég leyfi mér að fullyrða, að leitun er á þeim sjómanni, sem ekki vilji hafa þessa skipun á, að þeir viti fyrir víst í byrjun vertíðar, hvað þeir fá fyrir síldina, og svo mun vera um meiri hl. útgerðarmanna líka.

Hv. 10. landsk. hefir nú gert mjög ljósa grein fyrir því, hvernig þetta verkar fyrir fjölda sjómanna í mörgum tilfellum. Þeir fá aldrei þessa uppbót í mörgum tilfellum. Ég hefi þá sorglegu sögu að segja frá tímum einkasölunnar, sem ekki greiddi í upphafi nema nokkurn hluta af því, sem átti að greiða fyrir hverja tunnu, að fjöldi manna fékk aldrei uppbótina. Lágu til þess ýmsar ástæður. Í sumum tilfellum lá þetta frosið inni hjá ýmsum útgerðarfélögum, og í öðrum tilfellum voru mennirnir komnir út um borg og bý, og lenti þá í trassaskap að fá þeim þessa peninga. (JJós: Hjá einkasölunni? Getur það verið? (!) ). Þarna var sá ágalli hjá henni, sem ég dreg ekki dulur á. (JJós: Ég hélt þetta væri fyrirkomulagið, sem þm. vildi helzt hafa). Já, ég get rætt þetta mál við hv. þm., þegar svo ber undir. Þó að ágallar hafi verið á þessu fyrirtæki, þá hafði það aðra kosti, sem gerði það að verkum, að það átti fullkomlega rétt á sér. (JJós: Hverjir voru nú þeir?). Að því getum við komið seinna. En þetta er einn af ágöllunum, og einmitt slíkan ágalla virðist eiga að innleiða í skipulagið á ríkisverksmiðjunum.

En þetta hefir aðra og kannske enn veigameiri þýðingu. því að eins og bent var á áðan, verður sennilega áætlunarverðið, 85%, það verð, sem einkaverksmiðjurnar binda sig við, og taka svo af sinum viðskiptavinum þann mismun, sem kann að felast í uppbótinni hjá ríkisverksmiðjunum. Þetta þýðir, að allir þeir, sem ynnu á skipum þessara manna, sem yrðu að selja í einkaverksmiðjurnar, fengju minna fyrir sinn afla heldur en ella. Hér er hreint og beint verið að hjálpa einkaverksmiðjunum til að taka stærri hlut eða hagnað af viðskiptamönnum en þeir í raun réttri eiga. Þetta held ég, að sé búið að færa nokkurn veginn ríkar sönnur á; og ég verð að segja, að ég í raun og veru trúi ekki, að sjálfstæðismenn í d. gangi inn á þessa braut. Þá er ekki ennþá sýnt, hversu margir fylgismenn hv. flm. munu fylgja honum; reynslan ein sker úr, hve margir vilja fremja svo hróplegt ranglæti gegn þessari stétt, sem í raun og veru heldur ríkisbúskapnum á floti, með starfi sínu og striti, enda rignir nú mótmælum frá sjómönnum og smærri útgerðarmönnum inn í þingið gegn þessu frv.

Eina virkilega mótbáran, sem komið hefir fram, er sú, að nokkur hætta sé á, að ætlað verði of hátt verð hjá síldarverksmiðjum ríkísins. Ennþá hefir þetta ekki komið að sök, þó að ekki sé laust við, að verið hafi gerðar illvígar tilraunir til að spenna verðið hærra en rétt væri. En við vitum, af hvaða toga það var spunnið, og ég hefi ekki trú á, að þeir hinir sömu leiki þann leik aftur, því að það mun koma þeim sjálfum í koll. Hinsvegar er ég þeirrar skoðunar, að ríkisverksmiðjurnar eigi að fara svo nærri því rétta um ákvörðun verðsins í byrjun vertíðar sem unnt er.

Það hefir verið hent á það líka, að þetta gæti endað með því, að verksmiðjurnar fengju ekki þá síld, sem þyrfti til að vinna úr, og er vissulega vert að líta á það.

Viðkomandi því, að verksmiðjurnar láta bændum landsins í té fóðurbæti, ef þeir þurfa með, þá hefi ég út af fyrir sig ekki á móti því, að þeim sé ívilnað í því efni, ef ástæða þykir til. En það á ekki að gera það á kostnað verksmiðjanna og kostnað fiskimanna. því að hver króna, sem hver sekkur er lækkaður frá því verði, sem er á erlendum markaði, er beint tekin af kaupi fiskimannanna. Og ef nokkur á að borga mismuninn, þá er það ríkið sjálft, sem á þar að styrkja bændurna. Hér í frv. er á mjög lævísan hátt reynt að koma inn á þá braut, að verksmiðjunum sé gert að skyldu að afhenda mjöl til bænda fyrir lægra verð en hægt er að selja það á erlendum markaði. Þeirri stefnu vil ég algerlega mótmæla.

Ég stikla nú á steinum, enda hafa líka aðrir gert frv. þessu skil, og ég geri ráð fyrir, að það lendi í þeirri nefnd, sem ég á sæti í. En ekki get ég þó gengið framhjá því ákvæði, sem ræðir um að skattskylda verksmiðjurnar með ákveðnu hundraðsgjaldi til þeirra bæjarfélaga, þar sem þær eru. Þessu er ég alveg mótfallinn. Siglufjörður mun nú skattleggja ríkisverksmiðjurnar með hærra hafnargjaldi en nokkursstaðar annarsstaðar tíðkast. Fyrir það að selja ríkisverksmiðjunum afla sinn verða ýmsir menn, sem búsettir eru t. d. á Suðurlandi og Vesturlandi, að borga slíkan skatt og auka þar með við kostnað á útveginn. Þessi skattur er 15 aurar miðað við núverandi verð á síldarmáli, eftir því sem glöggir menn hafa reiknað út. Við skulum segja, að það sé ekki svo tilfinnanlegt nú, meðan verðið er svo hátt sem það var á yfirstandandi ári. En ef verðið lækkar, þá verður það tilfinnanlegra. (BSt: 1% er alltaf 1% ). Já, en því tilfinnanlegra er að greiða slíkan skatt, ef verðið er lágt. Við munum nú eftir því, hvað Siglufjörður vann til að fá verksmiðjurnar reistar hjá sér. Það var í orði kveðnu látið heita svo, að bærinn gæfi svo og svo mikið af landi, allt til þess að fá reksturinn inn í bæinn. Og hvers nýtur svo bæjarfélagið umfram þau, sem engar verksmiðjur hafa? Ég veit ekki betur en að þann tíma, sem síldveiði er rekin, standi í flestum bæjum tugir og hundruð verkamanna auðum höndum. Hversu mikill fengur það er bæjarfélagi að hafa slíkan rekstur íbúum sinum til lífsviðurværis og til að gera þá færari um að bera gjaldabyrðar í bæjarins þarfir, verður ekki metið um of. Það er því ekki réttlátt að skattleggja þá menn, er skipta við verksmiðjurnar og halda þannig rekstrinum uppi. Þessi stefna leiðir óhjákvæmilega til þess, að þær raddir koma fram að draga úr aukningu á verksmiðjum á þeim stöðum, sem þungar kvaðir eru á þær lagðar, og að verksmiðjunum verði komið þar fyrir, sem líkur eru til, að þessar byrðar verði ekki á þær lagðar. Það er jafnvel farið að bóla á því, að Siglufjörður sé svo dýr fyrir aðkomuskip að hafa þar aðsetur um stundarsakir, að það sé að ýmsu leyti óaðgengilegt fyrir útgerðarmenn að hafa uppsátur þar, og vilja menn því leggja mikið kapp á að koma verksmiðjum upp á öðrum stöðum. En það eitt, að fæla frá verksmiðjunum af þessum sökum, er hættulegt fyrir bæjarfélag eins og Siglufjörð.

Að síðustu vil ég segja nokkur orð til hv. l. flm. Ég ætla ekki að frýja honum vits, en ég gruna hann um græsku. Ég hafði ekki búizt við svona tillögu frá honum fyrir tuttugu árum síðan, eins og hann var skapi farinn þá, og ég hygg að hann mundi þá manna fremstur hafa risið upp á móti slíkum ófögnuði og árás í garð einnar stéttar eins og þetta frv. er. En svo má segja um hann sem ýmsa aðra, að menn gerast nú gamlaðir, og hugsunarhátturinn fer þar eftir. En ávextina af þessari afstöðu sinni til hagsmuna sjómannastéttarinnar sker hann náttúrlega upp fyrr eða síðar. (BSt: Hver er þessi „hann“? Flm. eru fjórir). Ég talaði um 1. flm. (JJós: Hann er ekki staddur hér). Það má færa honum orð mín. En hv. 1. þm. Eyf. (BSt) er að ég hygg hnýttur þarna aftan í, hvort honum er ljúft eða leitt þar að vera. (JJós: Ætli hann slitni ekki aftan úr?). Máske hann slitni aftan úr; þá færi betur. — Ég læt þá mínu máli lokið og geymi mér frekari aths. til 2. umr.