08.12.1937
Efri deild: 44. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (1194)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Frsm. 2. minni hl. (Jóhann Jósefsson) :

Ég hefi lagt til, að frv. þetta yrði samþ. með talsverðum breytingum, sem lýst er á þskj. 256, þar sem þær eru jafnframt rökstuddar. 1. brtt. fer fram á, að félög og einstaklingar séu látnir óáreittir af ríkisvaldinu, ef þeir geta komið upp síldarverksmiðjum af eigin rammleik. Það var óneitanlega stórt framfaraspor stigið, er ríkið reisti síldarverksmiðjur sínar, en það má þó ekki verða til þess að aftra frekari þróun. En á það má minna, að á þessu ári var ríkið nærri búið að hindra byggingu stórrar síldarverksmiðju. Þetta vil ég ekki, að endurtaki sig, og legg ég því til, að 1. gr. falli niður. — 2. gr., að ríkið hafi forkaupsrétt að verksmiðjum, tel ég heldur ekki nauðsynlega.

Þá hefi ég borið fram brtt. við 4. gr., sem er í rauninni ekki annað en lítilsháttar orðabreyt., en hefir þó í sér falinn þann möguleika, að þó að stjórnarmeðlimir verksmiðjanna eigi að hafa fast aðsetur á Siglufirði þann tíma, er verksmiðjurnar starfa þar, sé það ekki talið koma að sök, þó að þeir ferðist burt í erindum verksmiðjanna.

Við 6. gr. hefi ég gert brtt., af því að mér finnst upphæð sú, sem þar er getið, vera of lág. Ég legg til, að verja megi til umbóta á verksmiðjunum allt að 150 þús. kr., án þess að sérstök heimild Alþingis komi til, og ennfremur er að því stefnt með brtt. minni, að ekki verði misskilið, að auk þess megi verja fé frá verksmiðjunum til nauðsynlegs viðhalds.

Þá er brtt. við 9. gr. frv., þar sem segir, að síld skuli aðeins taka til vinnslu fyrir reikning framleiðenda. Ég get ekki fallizt á þetta, en legg til, að sú heimild verði veitt stj. síldarverksmiðjanna og ráðh. að ákveða að síldina megi kaupa föstu verði, eins og verið hefir. Ég tel varhugavert að breyta þessu að sinni. Hinsvegar er því ekki að leyna, að upphaflegur tilgangur lagasetningarinnar var sá, að úr síldinni yrði unnið fyrir reikning framleiðenda, á svipaðan hátt og gerist í lifrarsamlögum og öðrum samlögum útgerðarmanna. Ég teldi æskilegt, ef hægt væri að koma því svo fyrir, að slík samvinna tækist með verksmiðjunum og viðskiptamönnum þeirra. En því yrði að fylgja að þeir, sem við verksmiðjurnar skipta, hefðu nokkurn íhlutunarrétt um það, hverjir færu með stjórn þessara fyrirtækja, eins og í þeim samvinnufélagsskap, sem ég nefndi. Ef mín brtt. við 9. gr. yrði samþ., myndi ég, eins og tekið er fram í nái. 256, reyna með viðaukatill. við 11. gr. frv. að gera það aðgengilegra fyrir þá, sem vilja leggja inn síld til vinnslu, í stað þess að selja hana föstu verði, en ég geri ráð fyrir, að margir vilji eins vel gera það. Það fer ettir ýmsu, markaðsútliti, hvernig álit manna er á stj. fyrirtækisins o. s. frv. En í frv. er aðeins gert ráð fyrir einum möguleika, þeim, að verksmiðjurnar taki síldina til vinnslu. Í mínu frv. er haldið opnum þessum leiðum báðum. Þó tel ég rétt að gera nokkra breyt. á 11. gr., sem tryggi betur rétt þeirra manna, er vilja vinna að þessum málum á samvinnugrundvelli.

Síðasta brtt. mín er um prósenthluta þann, sem gert er ráð fyrir, að renni til bæjarfélaga, þar sem verksmiðjurnar eiga heima. Frv. gerir ráð fyrir 1% af brúttóandvirði seldra vara ár hvert. Ég legg til, að þetta verði fært niður í ½%. Ég tók eftir því, að hv. 3. minni hl. n., sem síðast talaði, gat ekki fallizt á þetta. Ýmsir álíta ekki rétt, að sveitarfélögin taki slíkt gjald af verksmiðjunum, og eru sjálfsagt ýms rök til fyrir því. En fyrir mér vakti það að bæjarfélögin eru, sem kunnugt er, mjög þurfandi fyrir tekjur, og ég get vel skilið óskir Siglfirðinga um að fá nokkuð frá verksmiðjunum, sem gæti verið eitthvað í áttina til útsvars. Ég get þess til, að sumir menn taki afstöðu gegn þessu ákvæði, til að forðast óvinsældir af hálfu einstakra bátaeigenda, en það tel ég ekki réttmæta ástæðu. Ég myndi, ef ég hefði aðstöðu til, ætlazt til þess fyrir hönd míns byggðarlags, að það hefði nokkrar tekjur af svona rekstri, og ég get því ekki fallizt á að neita öðrum um hið sama.

Um aðrar brtt. en mínar ætla ég ekki að fjölyrða að þessu sinni. En ég legg til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, er ég hefi drepið á. Ég ska1 aðeins geta þess. að atriðið um ríkisábyrgð á verksmiðjunum lét ég standa óhaggað. Hér hefir verið lagt til, að þetta verði niður fellt, og getur það verið réttara, en málið tel ég þó ekki svo upplýst, að ég vilji taka ákveðna afstöðu til þessa.