10.12.1937
Efri deild: 46. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í B-deild Alþingistíðinda. (1209)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Jónas Jónsson:

Ég vil svara hv. síðasta ræðumanni út af einu atriði, sem hann hefir gert skrifl. brtt. um á þessum fundi. Það er í sambandi við þann skatt, sem frv. gerir ráð fyrir að síldarverksmiðjur ríkisins greiði til þess sveitar- eða bæjarfélags, sem þær starfa hjá. Ég ætla aðeins að segja það, að á þeim stað, sem mest hefir af þessum verksmiðjum og mjög óskaði eftir að fá þær, Siglufirði, hefir reynslan orðið sú, að með hverri aukningu á verksmiðjunum hefir safnazt þar að, ekki aðeins fólk, sem gat fengið þar vinnu, heldur einnig fólk, sem hefir komið í atvinnuleit. en ekki getað fengið neina vinnu, svo að það lítur helzt út fyrir, að þessi staður hafi haft mjög vafasaman hagnað af þessum aðgerðum frá sjónarmiði sveitarstj. Þó að ríkisfyrirtæki gæti, út frá venjulegum hugsunarhætti um slík mál, virzt eiga að vera undanþegin skatti. þá er þetta óhjákvæmilegt í þessu tilfelli, vegna þess að hver verksmiðja hleður svo utan á sig sveitarþygslum, að ég er viss um, að till. hv. þm. Vestm. er það vægasta, sem hægt er að fara í þessu efni, ef ekki á að setja þá staði í hættu, sem þessar verksmiðjur hafa. Ég veit, að hv. síðasti ræðumaður þekkir svo vel til á Flateyri og Raufarhöfn, að honum er kunnugt um, að þessir staðir eru í stöðugri hættu með sitt sveitarstjórnar-sjálfstæði, vegna þess að það er of mikið aðstreymi á fólki að verksmiðjunum. Ég þykist vita, að hv. þm. sé svo sanngjarn, að hann sjái, að ekki heldur frá sjónarmiði flokks hans, sem er fjölmennur á öllum þessum stöðum, þar sem síldarverksmiðjurnar eru, er það eftirsóknarvert, að verksmiðjurnar séu til niðurdreps fyrir bæjar- og sveitarfélögin á þennan hátt.

Við 1. umr. þessa máls var hæstv. atvmrh. ekki algerlega á sama máli og við um sum atriði þessa frv., en ég lét niður falla að svara honum við 2. umr., af því að það þótti hentara fyrir framgang málsins, að umr. væri í stytzta lagi þá, því að nú á málið að fara úr hv. d. Þess vegna get ég ekki komizt hjá því að gera fáeinar aths. við ræðu hv. ráðh.

Ég hafði bent á, hvernig ógætnin í stj. síldarverksmiðjanna hefði komið fram í því að ákveða síldarverðið svo hátt, sem gert var síðasta ár, en það hafði þær afleiðingar m. a. á aðrar verksmiðjur, sem reknar eru af bæjarfélögum eða einstökum mönnum, eins og á Seyðisfirði, að þær gátu ekki staðizt þessa óeðlilegu samkeppni. Ég hélt því fram, að það gæti ekki verið ríkinu í hag fyrst og fremst að stofna síldarverksmiðjur á Siglufirði, kaupa verksmiðjur á Raufarhöfn og Flateyri, ganga í ábyrgð fyrir verksmiðjurnar á Seyðisfirði og Norðfirði og láta svo verksmiðjur ríkisins sjálfs spila svo ógætilega með ríkisfé. Hæstv. ráðh. veit, að við framsóknarmenn höfum alltaf haldið þeirri stefnu fram frá byrjun um þessar verksmiðjur, og hún mun verða tekin upp næsta sumar og sennilega aldrei hverfa þaðan aftur, að það ætti að unna mönnum þess að fá sannvirði fyrir vöruna. Ef þannig er farið að á Siglufirði, þá kemur allt annað út. Þá verður þetta fyrirtæki ekki eins og „spekúlant“, sem skapar ókyrrð í kringum sig hjá bæjarfélögum, eins og Seyðisfirði, eða einstökum mönnum, sem reka verksmiðjur, heldur mun koma það form á þetta, sem ég benti á út frá reynslu kaupfélaganna, að alstaðar á landinu verður miðað við að borga það sama sem ríkisverksmiðjurnar geta borgað, sem sé sannvirði. Nú veit enginn enn, hvað sannvirði verður frá síðasta sumri, vegna þess að engin verksmiðja er búin að selja sína vöru til fulls, a. m. k. engin af stærri verksmiðjunum.

Hæstv. atvmrh. samþ. í vor sem leið þetta 8 kr. verð á síldarmálinu, sem greiðast skyldi fyrir það á Siglufirði og þar með varð gildandi fyrir þær tvær síldarverksmiðjur á Austfjörðum. sem ríkið hefir hjálpað, sem aftur varð til þess, að þær hafa komizt í óeðlilega hættulega aðstöðu um rekstur sinn, eins og ég hefi sýnt. í t frá þessum rökum kom ráðh. inn á það, að hann viðurkenndi, að kaupfélögin hefðu þetta form (sem er staðreynd, sem hann ekki neitar), að þau hafa ekki keypt af bændum vörurnar, heldur tekið þær þannig í umboðssölu, að bændurnir fái fyrir þær það, sem þær seljast fyrir á hverju ári. Út frá þessu sendir svo hæstv. atvmrh. samvinnumönnum, ekki sízt þeim í Suður-Þingeyjarsýslu, ör, sem ég leyfi mér að að kasta til hans aftur. Ég býst við, að meiningin hjá hv. ráðh. hafi undir niðri verið, að af því að ég hafði gagnrýnt þá afstöðu, að verksmiðjan á Seyðisfirði virðist lenda í 50–60 þús. kr. rekstrarhalla nú á þessu ári, þegar þó hefir verið eitt hið bezta síldveiðiár, þá virtist ráðh. vera ástæða til að benda á, að samvinnumenn í Suður-Þingeyjarsýslu hefðu líka tapað og þeim verið gefið eftir þar af leiðandi. Honum fannst rekstur Kaupfélags Þingeyinga, með þess 60 ára starf að baki, vera eitthvað sambærilegt við þetta óhapp í hans eigin kjördæmi, sem hann, mjög á móti sinum vilja, hefir orðið meðhjálpari til að koma á. Nú býst ég við, að kaupfélag Þingeyinga hefði verið fyrirfram dauðadæmt með því að fá á sig 60 þús. kr. rekstrarhalla fyrsta árið. En svo fór ekki, heldur hafa þeir Þingeyingar, sem þann félagsskap mynda, yfirleitt klárað sínar sakir, þar sem þetta félag lifir enn, á stórar eignir, rekur aðalverzlunina í meira en hálfri sýslu og sjást ekki á því nein ellimörk. Ennfremur hefir svo þetta félag fætt af sér öll samvinnufélög á landinu og S. Í. S. og haldið uppi meir en nokkurt annað félag þeim hugsunarhætti og þeirri stefnu, sem við framsóknarmenn byggjum nú á till. um gætilega fjármálastjórn á síldarverksmiðjum ríkisins. Við stöndum nú nær því marki að setja á rekstur þeirra svipað samvinnufyrirkomulag og kaupfélögin hafa heldur en nokkru sinni fyrr.

Þetta frumhlaup hæstv. atvmrh. var svo auðvirðilegt og ósanngjarnt, að hann á skilið að fá nokkur rök í viðbót til minningar um, að hann hefir látið sér sæma að ráðast á elzta samvinnufélag landsins.

Ég ætla þá fyrst að koma að því. er hæstv. ráðh. brigzlaði bændum í Suður-Þingeyjarsýslu og annarsstaðar um, að þeir hefðu þegið kreppuhjálp. Það var að heyra á ræðu ráðh. eins og hann héldi, að þessar milljónir, sem til þess er varið, væru allar tapaðar, líkt og það fé t. d., sem Útvegsbankinn hefir afskrifað af Eskifjarðarmilljónunum í útibúinu á Seyðisfirði. En nú veit hæstv. ráðh., að þessar milljónir eru ekki annað en niðurfærsla á vöxtum. Alþ. hefir afráðið og þar með sá flokkur, sem hæstv. ráðh. tilheyrir, að rétt væri að láta bændur fá hagfelldri lánakjör, og var þeim í því efni hjálpað.

Ef þetta tvennt er tekið, annarsvegar það, sem sjávarútvegurinn hefir skaðað bankana með hreinum töpum, ekki með milljónatöpum heldur tugmilljónatöpum — t. d. vegna Coplands og Stefáns Th. Jónssonar — og hinsvegar kreppuhjálpin til bændurna, þá er í sambandi við kreppulánasjóð ekki að tala um annað, sem bændum er af þeim sjóði gefið eftir, en það, sem kemur fram í niðurfærslu á vöxtum. Kem ég þá að þessu órökstudda skeyti hæstv. ráðh. í garð bændastéttar landsins nokkru nánar.

Í sambandi við kreppulánasjóð hafa verið útgjöld að vísu. Og það er rétt, að kaupfélag Þingeyinga hefir fengið hjálp frá S. Í. S. um 200 þús. kr., eða ekki yfir það, í sambandi við kreppuhjálpina. En ég vil þá einnig láta það standa í þingtíðindunum, að einn þekktasti kaupfélagsstjóri á Austurlandi, mikill búmaður, sem ekki er gefinn fyrir að láta skuldir tapast, sagði, þegar það kom í ljós, að kaupfélag Þingeyinga hefði þurft að fá þessa hjálp: „Við látum kaupfélag Þingeyinga fá það, sem það þarf til þess að rétta sig við, því að það er móðir okkar allra og það hefir margfaldlega borgað þá hjálp, sem við látum það fá í sinum erfiðleikum.

En svo að ég komi nærri aðgerðum, sem önnur fyrirtæki, verklýðssamtökin í landinu, eru riðin við, vil ég spyrja: Hvers vegna var það, að bændastéttin íslenzka, sem vinnur baki brotnu, sem ekki kærir sig um ríkisrekstur, þegar Sveinn á Egilsstöðum stakk upp á því að gera allan sveitabúskap að ríkisrekstri og setja fast verð á kjötið, kærði sig ekkert um það og hundsaði það, þegar Sveinn á Egilsstöðum og aðrir, sem með honum stóðu, héldu því fram, að þetta væri bjargráð fyrir bændur? Þetta héldu Sveinn og hans fylgifiskar, að mundi hrífa hugi bændanna, ef bændum væri boðið svo vel til þess að festa kjötverðið, að það kostaði reyndar 3 millj. kr. úr ríkissjóði árlega, sem auðvitað hefði orðið eitt hið öruggasta ráð til að setja landið á hausinn. — Þeir Sveinn og hans menn héldu, að þingeyskir bændur mundu nú meta þetta við þá. En hverju svara þeir? Þeir kærðu sig ekkert um þetta. Þeir vildu og þurftu vitanlega að fá hærra verð fyrir kjötið. En þeir vildu ekki fara þannig á ríkissjóðinn, og staðfestu svarið með því að þeir felldu Svein við kosningar, þrátt fyrir hans mjög svo voldugu fylgismenn. En hvers vegna? Þeir vissu að það er ekki til neins að gera svona hluti; vissu að ef ætti að reka sveitabúskapinn með tekjuhalla á kostnað ríkissjóðs, yrði það skammgóður vermir, þó það e. t. v. gæti gengið stuttan tíma.

Þannig hafa bændur hugsað. Þeir hafa þannig byggt upp samvinnufélögin og S. Í. S., að þeir hafa þrátt fyrir allt, eftir því sem Halldór Pálsson, sem stundað hefir nám erlendis í fjárræktarfræði, segir, fengið tiltölulega meira verð fyrir sina dilka heldur en skozkir bændur, af því að samvinnufélögin veita bændum meiri stoð á Íslandi heldur en hjá Skotum. Þetta eru afrek samvinnustefnunnar hér á landi, þeirrar stefnu, um vasið hefir upp af þeirri vinnu, sem afi hæstv. atvmrh. og móðurbróðir hans og aðrir sérstaklega mætir menn í Suður-Þingeyjarsýslu hafa á sig lagt fyrir verzlunarsamtök bænda þar.

Nú skal vikið að sjávarútveginum. Hinir góðu forsjármenn þeirra fyrirtækja, sem mynduð eru um þorskveiðar, hafa lagt fram skilríki um það, að líkur bendi til þess, að ef gert verði út á þorskveiðar í vetur, þá verði 110 þús. kr. tap á hverjum togara og 10 þús. kr. tap á hverjum mótorbát. Ég vildi nú mega óska, að það mætti eitthvað lækka þetta. En a. m. k. bera þessir menn þetta fram í alvöru. Bendir það á, að allt of mikið muni vera hæft í þessu, þó varla muni þessi útkoma verða svona gífurleg. Út frá öllu þessu, sem ég hefi sagt, og þeirri ör, sem hæstv. ráðh. skaut að samvinnufélögunum í landinu, vil ég ennfremur upplýsa það, að aldrei hefir tapazt einn einasti eyrir sem ógoldin skuld af þeirra sameiginlega sambandi. Enginn hefir tapað á S. Í. S. vegna viðskipta við það. Ef þessi afkoma er borin saman við einkarekstur eða bæjarrekstur, þá er árangurinn ákaflega mikill af samvinnufélagsskap landsmanna.

Ég hygg því, að síldarverksmiðjurnar komi smátt og smátt inn á þann grundvöll, að þær hætti við að vera glæfrafyrirtæki, sem þær eru og hafa verið, en þær verði látnar á hverju ári bera sig þannig, eins og samvinnufélög bænda, sem starfað hafa með ágætum árangri í 60 ár, að þeir, sem selja þeim síld, fái það verð, sem raunverulega fæst fyrir hana að frádregnum kostnaði.

Ég get ekki látið vera að benda hæstv. atvmrh. á, að samvinnufélagsskapurinn í landinu stendur á sterkari fótum fjárhagslega heldur en nokkurt annað skipulag hér á landi.

Samvinnubændur sem og aðrir bændur hafa nú um mannsaldur átt við að búa erfiðleika, sem koma frá öðrum atvinnuvegi og eru alveg ólíkir því, sem landbúnaður í nokkru öðru landi á við að búa, þannig að það er fullvíst, að ef samvinnuskipulagið hefir ekki hjálpað íslenzkum sveitabændum, þá hefði íslenzk sveitamenning þurrkast út á sama hátt og ensku sveitirnar þurrkuðust út á síðari hl. 18. aldar. Þessir erfiðleikar íslenzka sveitabúskaparins hafa stafað frá sjávarútveginum, sem með hinu háa kaupgjaldi hefir keppt við sveitabúskapinn um vinnukraftinn. Þó að hæstv. ráðh. taki til samanburðar landbúnað í Svíþjóð, Danmörku, Englandi og jafnvel Noregi, þá á engin þessara þjóða við að búa eins mikla örðugleika og þá um kaupgjald, sem íslenzkur landbúnaður, sem stafa af þeim tveimur stóru gullnámum, sem þetta land hefir og draga að sér vinnukraftinn og hækka kaupgjaldið, sem eru þorskveiðarnar og síldveiðarnar. Í svo fámennu landi sem Íslandi hefir það gífurleg áhrif á eldri atvinnuveg, að tvær svo stórar flóðbylgjur í atvinnulífinu hafa komið yfir landið og boðað óskapa kaup. T. d. má nefna um erfiðleika sunnlenzkra bænda, þegar þeirra vetrarmenn hafa sagt við þá: Ég get nú á 80 dögum unnið mér inn 1600 kr. frítt. Vilt þú borga mér þetta fyrir vinnu mína?

Enginn sveitamaður getur borgað þetta kaup. En sveitabændur hafa orðið að borga geypihátt kaup, vegna þess, hvað sjávarútvegurinn hefir boðið. Eg vil ekki segja, að þeir hafi getað það. Sama er að segja, ef við förum til Siglufjarðar, þar sem verksmiðjustjórnin borgar 3 kr. á tímann á sunnudögum. Það er kaup, sem talið er eðlilegt á Siglufirði af verksmiðjunum, sem ég er þó ekki viss um, að þessi atvinnuvegur geti greitt. En þessa samkeppni hafa bændur átt að glíma við um heyskapartímann. Niðurstaðan er því orðin sú, að íslenzkir bændur hafa hætt meir og meir að vera vinnukaupendur, heldur er það oftast svo á sveitabæjum, að á hverju búi eru aðeins hjón með börn og náið vandalið að vinnu fyrir búinu. Af Framsfl. hefir verið unnið að því að reyna að gera sveitabúskapinn að vélaiðju að meira eða minna leyti, af því að það virðist eini möguleikinn til þess, að þessi atvinnuvegur gæti haldizt. Ég vil því skjóta því til hæstv. atvmrh., þegar honum dettur í hug í sjálfsvarnar skyni vegna þeirra erfiðleika, sem hann á í vegna þessarar verksmiðju á Seyðisfirði og þess skipulags, sem hún hefir verið byggð upp á, með hans vitund og vilja. sem hefir misheppnazt, þegar honum í sjálfsvarnar skyni vegna þess arna dettur í hug að ráðast á samvinnufélagsskapinn í landinu, þá vil ég bendu honum á, að ekki er til nema ein leið fyrir sjávarútveginn til að rétta sig við, ekki sú, að senda neinar örvar til bænda fyrir sitt skipulag, heldur sú, að fara nákvæmlega í föt bændanna. Það, sem hæstv. ráðh. verður að gera í sambandi við sinn kæra Seyðisfjörð og Siglufjörð, er að slá upp í bókum Jóns á Gautlöndum og Péturs á Gautlöndum og Hallgríms Kristinssonar og athuga, hvernig þeir fóru að því að byggja upp sveitirnar, og feta svo í þeirra spor, sem er í stuttu máli það, að láta atvinnuna bera sig, láta fólkið fá fyrir framleiðsluna það, sem hún gefur af sér á hverjum stað og tíma. Það kom dálítið á einn flokksbróður hæstv. atvmrh., þegar hann heyrði tölurnar, sem mannmargar n. frá útveginum lögðu fram fyrir þingflokkana og bankana. Ég get ekki áfellt þann hv. þm. fyrir þetta, því að það kom á mig líka, þegar ég heyrði þessar tölur. Ég er að vísu ekki alveg trúaður á, að þessar tölur séu rétt áætlun. En ég veit, að það er ákaflega mikið til í þeim. Þess vegna er það, að ég ber ekki neitt yfirdrifna virðingu fyrir þeirri lífsstefnu, sem komið hefir fram hjá Alþfl. í óskum um það, hvernig síldarverksmiðjur ríkisins verða reknar. Það skipulag er nú að biða ósigra. Ég veit, að þessir menn hafa ekki viðhaft viljandi gapaskap í þessu efni eða stofnað til þess að skaða fjárhag verksmiðjanna og þar með landsins. En það er ekki hægt að komast í kringum það, að þetta skipulag miðar að því að sigla í strand. Fyrsta virkilega háa kallið, sem kemur frá sjávarútveginum, eru þessar tölur, sem ég var nú að segja frá. Ég hefi verið á mörgum vandræðafundum, sem haldnir hafa verið af n. frá Alþ. og frá bönkum hér í Rvk. En aldrei hefi ég verið á slíkum fundi sem þessum, vegna þess, að þar voru allir flokkar og þar datt engum í hug að ýta af sér sökum yfir á náungann, því að það fundu allir til þeirrar ábyrgðar og alvöru, sem menn hafa á skipi, sem hlekkist svo mikið á, að hætta er á, að það sökkvi.

Ég álít rétt, út af þeim árásum, sem ég hefi orðið fyrir af hálfu hæstv. atvmrh. fyrir það að gerast meðflm. að frv., ásamt hv. þm. Eyf., um þessar ríkisverksmiðjur, að segja nokkur orð til viðbótar því, sem ég sagt hefi um samvinnustefnuna og skipulag bænda — nokkur orð um, hvað okkur ber á milli framsóknarmönnum og alþíðuflokksmönnum í þessu ríkisverksmiðjumáli. Við viljum, að síldarverksmiðjur ríkisins verði reknar á hlutaskiptagrundvelli, þannig að sjómenn fái á hverju ári það fyrir síldina, sem hún hefir selzt fyrir á útlendum markaði, að frádregnum óhjákvæmilegum kostnaði.

Því hefir þrásinnis verið haldið fram í blaði flokks hæstv. atvmrh. — og ég væri ekki að svara því, ef því væri ekki einnig haldið mjög á lofti af flokki hans —, að við, sem stöndum og höfum staðið að því að tryggja samvinnufyrirkomulag í atvinnu landsmanna, séum ofsóknarar sjómanna og útgerðarmanna. Ef svo væri, væri það í mesta máta illgirnislegur hugsunarháttur. En í því sambandi vil ég nú, að við athugum tvennt.

Það, sem ég geri ráð fyrir, að vaki fyrir hv. þm. Vestm., sem flutt hefir hér till. um síldarverksmiðjur ríkisins, um að þær bæði kaupi síld og taki hana til vinnslu án þess að greiða strax fullt endanlegt verð fyrir, er, að honum væri skapi næst, að hlutafélög eða einstakir menn ættu síldarversmiðjur ríkisins, eins og verksmiðjurnar á Krossanesi, á Dagverðareyri, Hesteyri og Djúpavík eru í einstakra manna eign. Svo mundi hann líklega vilja, að þessar verksmiðjur gætu keypt síldina fyrir sem allra lægst verð af útgerðarmönnum og sjómönnum. Samkv. einkarekstrarfyrirkomulaginu er ekki vafi á, að reynt mundi vera að fá síldina fyrir sem allra lægst verð. Þetta er nú sú heilbrigða lífsskoðun hans flokks. Móti þessu hafa verkamenn barizt. Hitt, sem ég vildi mínna hæstv. ráðh. á, er það, þegar árið 1916 varð deila milli útgerðarmanna og sjómanna út af því, að sjómenn vildu fá kaup eftir hlutaskiptafyrirkomulagi, sem útgerðarmenn vildu ekki ganga inn á. Hverja studdi ég þá? Ég veit, að það hefir ekki munað mikið um mig, en ég studdi sjómenn þá eins og ég gat. Ég býst við, að hæstv. ráðh. viðurkenni, að maður, sem tekið hefir upp þessa stefnu fyrir 21 ári og hefir sýnt sjómönnum sanngjarna hluttekningarsemi í þessum efnum. sé ekki fjandsamlegur þeim, þó að hann vilji halda fram nú, í sambandi við ríkisverksmiðjurnar, þessari hlutaskiptastefnu, sem virðist vera eina fjárhagslega stefnan í viðskiptamálum sem þessum, sem möguleika hefir til þess að standast í þessu landi.

Þannig var baráttan 1916. Skipeigendur sigruðu þá, en höfðu verri málstað. Niðurstaðan varð sú, að útgerðin hélt áfram að vera spekulation að öllu leyti. Hún var byggð á því, að skipaútgerðarmenn gætu haft fólk í vinnu fyrir sem minnst kaup og fengið sem mest fyrir vöruna og með þessu móti grætt sem mest. Þetta er heilsteypt kenning,— kenning einkarekstrarmanna.

Sjómenn og verkamenn sögðu síðar, að þá varðaði ekki um, hvort atvinnuvegirnir gætu borið sig. Þetta var þeim kennt árið 1916. Nú er komið svo, að fyrir nokkrum dögum lögðu leiðandi menn togaraútgerðarinnar fram í stjórnarráðinu reikninga, er sýndu, að yrði kaup sjómanna hækkað svo sem þeir nú fara fram á, liti út fyrir að verða 100000 króna tekjuhalli á rekstri hvers togara á næsta ári. Þetta er útkoman eftir tuttugu ára baráttu. Ef svo leiðtogar verkamanna eru spurðir að því, hvort verkafólksins biði glæsileg framtíð, ef það fái þessa kauphækkun, er svarið það sama, að það sé engin lausn á vandamálunum nema í svipinn, því að dýrtíðin hækki að sama skapi. Þetta eru þær niðurstöður, sem fást af skipulagi því, sem hæstv. ráðh. vill viðhalda. Atvinnurekendur segja: Við viljum spekúlera með síldina, fá hana á sem lægstu verði. Verkamenn vilja líka spekúlera. Og sósíalistar vilja út af lífinu viðhalda þessu spekúlationskerfi. Ríkisverksmiðjurnar á Siglufirði eru uppáhald sósíalista. Að því kemur, að verksmiðjurnar setja síldina hærra en hún selst fyrir. Þá verður stöðugur tekjuhalli á rekstrinum, og ekki er annað að gera en að leggja hann á aðra gjaldendur. Þetta fyrirkomulag vilja sósíalistar heldur en það skipulag, sem samvinnumenn hafa viljað hafa á þessum málum. Ef svona færi, yrði Alþ. að selja verksmiðjurnar, og það þó að sósíalistar væru í meiri hluta. Við skulum athuga næstu leið. Hugsum okkur, að verksmiðjurnar beri sig og græði nokkuð fyrst, þá verða þeir, sem ráða verksmiðjunum eins og t. d. Hesteyri, að kaupa síldina fyrir minna en sannvirði til að græða á henni. Þetta er engin fjarstæða, ef það er gert með það fyrir augum, að nota gróðann til að endurbæta og fullkomna verksmiðjurnar. En það ömurlega með ríkisverksmiðjurnar er það, að þær eiga ekki neitt. Það vakir fyrir hæstv. ráðh., að verksmiðjurnar séu ekki gróðafyrirtæki, sem féfletti sjómenn. En ef afleiðingin af stefnu hans í síldarbræðslumálunum yrði sú, að verksmiðjurnar yrðu gerðar upp eftir tvö til þrjú ár, þá er hætt við, að sjómenn verði langeygðir eftir ávinningi þeirra af kerfi hæstv. ráðh. Á þessum miklu þrengingartímum koma verkamenn og sjómenn til atvinnufyrirtækjanna og heimta hærra kaup. Þeir geta vafalaust fært mörg rök fyrir því, að þeir spinni ekki silki. liðurstaðan er sú, að allir þeir, sem þurfa fé til atvinnurekstrar, koma á sama staðinn, Landsbankann. Íslendingar hafa yfirleitt ekki spunnið silki á undanförnum kreppuárum. Ég vil nú spyrja hæstv. ráðh., hvað hann mundi gera, ef hann ætti sæti í bankaráði Landsbankans og til hans kæmu mótorbátaeigendur frá Vestmannaeyjum til að biðja um lán. Þeir vilja gjarna gera út, en þeir leggja reikninga á borðið, sem sýna, að útlit er fyrir, að það tapist 10000 kr. á hvern bát á árinu. Heldur hæstv. ráðh., að Landsbankinn eða Útvegsbankinn geti tekið liflega í að lána slíkum fyrirtækjum? Ef svo kæmu álíka gætilegir síldarverksmiðjueigendur, þá mundi hæstv. ráðh. segja eitthvað á þessa leið: Ég vildi gjarna leysa úr vandræðum ykkar, en ég hefi ekki yfir að ráða einum hundraðasta af þeim peningum, sem til þess þyrfti.

Það er ekki forsvaranlegt að lifa og láta áfram eins og gert hefir verið hingað til. Það er ekki forsvaranlegt að skella opinberu fé í bein og fyrirsjáanleg töp. Hvort sem þessi hv. d. ákveður, að síldina skuli kaupa föstu verði eða ekki, þá get ég ekki hugsað mér annað en að stjórn Landsbankans fari eins að eins og ég vil hugsa mér að hæstv. ráðh. gerði í hennar sporum, og segi við síldarframleiðendur í vor: Ég læt ykkur fá út á síldina, þegar hún er komin á land. — Ef hæstv. ráðh. væri bankastjóri og tæki þessa sjálfsögðu varúðarráðstöfun, þá mætti auðvitað segja, að hann væri með þessu að skaða sjómennina, að hann væri að gerast böðull sjómannanna. En ég held, að hæstv. ráðh. mundi láta sér á sama standa. Hann vissi sem væri, að ásakanir þessar væru ekkert annað en vitleysa, bornar fram af mönnum, sem ekkert vit hafa á hlutunum, eða þá tala gegn betri vitund.

Hv. þm. Ísaf. var að spauga við mig utan umræðnanna um það, að framsóknarmenn ýmsir væru linir í þessu máli. Ég skaut því að honum, að það væri ekki þörf á því fyrir okkur að vera strangir í kröfum, þar sem straumar atvinnulífsins eru smátt og smátt að þrýsta öllum atvinnurekstri landsmanna inn á þann grundvöll, sem við framsóknarmenn höfum verið að leggja frá því fyrsta. Það er hægt að berjast móti því, en sú barátta verður árangurslaus. Fyrr eða síðar vakna menn til vitundar um það, að þjóðin getur ekki rekið stóra atvinnuvegi með tekjuhalla ár eftir ár. Það verður að byrja neðan frá, þannig, að hver stétt hafi upp einungis það, sem hennar atvinna gefur af sér. Það er búið að reka verulegan hluta af atvinnurekstri landsmanna með tekjuhalla allt frá árinu 1916. Stór lán hafa verið tekin erlendis og þeim kastað í þessa hít; nú er komið svo, að menn eru ekki fúsir á að taka meiri lán, og eiga heldur ekki gott með að fá þau. Þá er komið að því, að við verðum að gera okkur það að góðu, sem við fáum af sjálfri framleiðslunni.

Ég mun standa að því í bankaráði Landsbankans, hversu andríkt sem hæstv. ráðh. kann að finnast böðulsheitið, að í vor verði lánað út á síldina eftir þeim sömu aðferðum og bankarnir hafa viðhaft í mörg ár, er þeir lána út á fisk. Og þetta mun eins ganga yfir ríkisverksmiðjurnar og einkafyrirtækin. Það verður að taka upp aukna varasemi með peningalán. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. ráðh. reyni að sjá um, að sjómenn tryggi sér sannvirði fyrir síldina með ráðningum á síldveiðiskipin í vor, þó að síldarbræðslurnar verði ekki færar um að borga allt út strax.

Hæstv. ráðh. hélt því fram, að borguðu ríkisverksmiðjurnar ekki út allt síldarverðið strax, þá mundu verksmiðjur þær, sem í einkaeign eru, borga hærra verð, og skjóta þeim aftur fyrir sig. Ef hér eru til svo rík einkafyrirtæki, að þau geti úr eigin sjóði tekið peninga til að leika sér með, þá fara þau náttúrlega að fara í keppni við ríkisverksmiðjurnar með óeðlilega háu verði, þvert ofan í bann bankanna. En ég veit ekki um neitt íslenzkt einkafyrirtæki, sem væri þess megnugt. Ekkert einkafyrirtæki er svo vel stætt, að það geti haft síldarverksmiðjur sínar til spekúlatióna, og ég þykist vita, að ekkert einkafyrirtæki mundi ætla sér þá dul að brjóta í bág við það varasama kerfi, sem neyðin hefir þrýst bönkum landsins til að taka upp.