14.12.1937
Neðri deild: 49. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 842 í B-deild Alþingistíðinda. (1216)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Finnur Jónsson:

Þetta frv. felur í sér talsverða breyt. á fyrirkomulagi verksmiðjanna, þó að vísu sé búið að afnema stærsta ágallann, sem var á frv., þegar það var til umr. í Ed. Í frv. var upphaflega gert ráð fyrir, að verksmiðjunum væri heimilt að kaupa síld föstu verði. En reynslan hefir orðið sú, að undanteknu fyrsta árinu, að þeir, sem skipað hafa stj. verksmiðjanna, hafa jafnan lagt til, að síldin væri keypt föstu verði, hverjir svo sem það hafa verið. Það hefir komið fram, að ekki hefir verið hægt að reka þær öðru vísi en að síldin væri keypt föstu verði. En nú hefir sú breyt. verið gerð, að í l. hefir verið sett heimild til þess á ný, og má gera ráð fyrir, að þessi heimild verði notuð framvegis sem hingað til, ef ekki verður horfið að því ráði, sem hv. þm. S.-Þ. hefir oft vikið að í þingræðum, að stj. bankanna verði látin grípa inn í þennan þátt atvinnulitsins og ákveði hámarksverð á þessari einu vöru af framleiðsluvörum landsmanna. Ég skil ekki, hvernig Alþingi ætti að geta kallað sig löggjafarstofnun eða þm. kallað sig forráðamenn þjóðarinnar. ef það ætti að líðast, að bankaráð Landsbankans ákvæði verð á bræðslusíld einni vörutegunda, sem ganga kaupum og sölum í landinu.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um frv. að þessu sinni, en minnist þess þó, að það felur í sér, að í stj. verksmiðjanna er mönnunum fjölgað úr 3 upp í 5, og skulu þessir menn kosnir hlutbundnum kosningum af Sþ. til 3 ára í senn. Þetta fyrirkomulag var lögleitt á þingi 1934 er breyt. voru gerðar á frv. okkar hv. þm. Barð., en við höfðum gert ráð fyrir, að í verksmiðjustj. sætu 3 menn skipaðir af ráðh. Má deila um það, hvort fyrirkomulagið sé heppilegra. En reynslan sýndi, að í þessari 5 manna verksmiðjustj. kom upp svo mikill ágreiningur um ýms mál, að þeim varð ekki ráðið til lykta með friði. Reynslan varð sú, að mennirnir voru kosnir í þessa stj. án þess að fyrst væri athugað, hvort þeir gætu unnið saman, enda varð endirinn sá, að 2 þeirra sögðu af sér, og varð þá að skipa 3 manna stj. með bráðabirgðal., sem staðfest voru á síðasta þingi.

Nú veit ég ekki, hvort samkomulag hefir orðið um það með Framsfl. og Sjálfstfl., hverjir skuli fara í stj. verksmiðjanna af hálfu þessara flokka, þannig, að tryggt sé, að fyrirtækinu verði stjórnað á þann hátt, að það geti komið að því gagni, sem þarf, en það er vitanlegt, að mikill hluti landsmanna á afkomu sína að miklu leyti undir því, hvernig fer um þetta. Má vera að jafnhliða því, að flokkarnir komu sér saman um frv., hafi verið samið um að kjósa ákveðna menn í stj., sem trygging væri fyrir, að starfað gætu saman. Annað væri óverjandi með tilliti til þeirrar reynslu, er fengizt hefir. Ég tel þó óþarft að hafa 5 manna stj. Af því leiðir óþarfa kostnað fyrir verksmiðjurnar, sem með síma- og ferðakostnaði getur numið um 15 þús. kr. á ári. Þá ber og þess að gæta, að algengt er. að svara þurfi fyrirspurnum um sölu með 2–3 klukkustunda fyrirvara. Og ef þá á að ná til 5 manna í síma, sem staddir eru á ýmsum stöðum á landinu, til að greiða atkv. um stórar sölur, sem oft velta á milljónum, getur það oft reynzt ógerningur og þá orðið verksmiðjunum til ómetanlegs tjóns. Ég get nefnt dæmi um þetta. Þegar lýsissalan fór fram í febrúar síðastl., en sú sala nam nokkuð á 3. millj. kr., þá þurfti að svara tilboðinu innan 2 klukkustunda. Salan fór fram á þeim tíma árs, þegar verksmiðjustj. var ekki stödd á Siglufirði, og ef ekki hefði verið gengið að þessu tilboði, hefðu verksmiðjurnar sennilega skaðazt um nokkur hundruð þús. kr. Þannig geta verksmiðjurnar skaðazt um stórfé með því, að í stj. séu settir 5 menn, sem ekki eiga heima á Siglufirði, af því hve erfitt er að ná til þeirra allra á skömmum tíma, því að engum dettur í hug að skylda þá alla til að setjast þar að.

Hinsvegar álít ég nauðsynlegt að ákveða, að skipa skuli varamenn. hvort sem stjórnarmeðlimir verða 3 eða 5. Ef stjórnarmeðlimur skyldi forfallast í langan tíma, eða falla frá, þá virðist mér vanta í 1. ákvæði um það, hvernig skuli skipa hið auða sæti. Því tel ég rétt að ákveða, að kjósa skuli jafnmarga varamenn og stjórnarmeðlimir eru. Þessi till. ætti ekki að geta valdið neinum ágreiningi í hv. d., því að þetta virðist óhjákvæmilegt, þar sem kjörtímabilið er svo langt sem raun er á. Varamenn myndu að sjálfsögðu ekki taka laun, nema þeir tækju sæti í stj. í stað aðalmanna.

Í frv. er lagt til, að skipaðir skuli þrír endurskoðendur. Þetta tel ég óþarft. Þó að verksmiðjurnar séu að vísu mikið fyrirtæki, sé ég ekki ástæðu til að hafa við þær 3 endurskoðendur fremur en við hvert annað fyrirtæki. Reynslan hefir sýnt, að tveir menn komast auðveldlega yfir þetta verk. Þeir hafa venjulega átt heima utan Siglufjarðar. Yrði að því óþarfa aukakostnaður að fjölga þessum mönnum upp í 3.

Þá er í frv. ákvæði um, að ríkissjóður hætti að laka ábyrgð á rekstri verksmiðjanna. Þetta ákvæði tel ég geta verið mjög hættulegt, þrátt fyrir þar, þó afkoma verksmiðjanna sé betri en menn almennt gera sér grein fyrir. Ég hefi heyrt menn tala um verksmiðjurnar eins og þær væru álíka illa stæð fyrirtæki og t. d. Kveldúlfur, sem þyrfti jafnvel að setja undir opinbert eftirlit. En verksmiðjurnar eru einmitt orðnar mjög vel stætt fyrirtæki. Ég hefi bent á í grein, sem birtist í Alþýðublaðinu í dag, að í ársbyrjun 1936 voru verksmiðjurnar búnar að leggja í fyrningarsjóði og afborganir um 530 þús. kr. Ég hefi sömuleiðis bent á, að árin 1936 og 1937 hefir verið lagt í þessa sömu sjóði, að viðbættum tekjuafgangi árið 1936 og varasjóðstillagi, um ½ millj. kr. hvort árið, þannig að ég hefi gert ráð fyrir, að síldarverksmiðjurnar, ettir því sem næst verður komizt, ef ekki þarf að gera ráð fyrir stórkostlegu verðfalli á síldarlýsi frá því, sem nú er, væru um þessi áramót búnar að greiða í afborgun af stofnskuldum um 1 millj. 530 þús. kr., en þær kostuðu upphaflega um 3000000 kr. Það má vissulega teljast vel að verið, að ríkisverksmiðjurnar skuli vera búnar beinlinis að borga ½ millj. af stofnskuldunum á ekki lengri tíma en þær hafa starfað. Auk þessa hafa ríkisverksmiðjurnar borgað í fyrningarsjóð rúmlega ½ millj. kr., og í varasjóði og tekjuafgangi óráðstafað frá 1936, sem hefir verið yfirfært, eru um 12 millj. króna, eða samtals 1½ millj. kr., eða nær helmingur hins upphaflega stofnkostnaðar. Þegar þetta er athugað, er ekki hægt að neita því, að ríkisverksmiðjurnar eru orðnar mjög vel stæft fyrirtæki, og ég held, að það sé einnig ekki hægt að neita því, að fjárhagur ríkisverksmiðjanna hefir einkum batnað tvö síðustu árin. Hinsvegar álit ég, að þó að fjárhagur verksmiðjanna verði að teljast sæmilegur, þá réttlæti það ekki það ákvæði, sem þetta lagafrv. felur í sér, sem sé að ríkissjóður beri ekki ábyrgð á skuldbindingum verksmiðjanna. Það er vitanlega trygging í því fyrir þá sjómenn og útgerðarmenn, sem leggja upp síld hjá verksmiðjunum, og fyrir þá verkamenn, sem vinna hjá verksmiðjunum, að ríkið beri ábyrgð á þeim. Og ríkisverksmiðjurnar eru sannarlega ekki það fyrirtæki, sem útlit er fyrir, að veruleg áhætta sé fyrir ríkissjóð að standa í ábyrgð fyrir. En hinsvegar er allmikið við það fengið gagnvart útvegun rekstrarfjár, að ábyrgðarákvæðið yrði áfram í l. eins og það hefir verið hingað til. Af öðrum ákvæðum, sem ég hefi sérstaklega að athuga við í þessu frv., vil ég nefna það, að gert er ráð fyrir, að aukið verði fyrningargjaldið af vélum og áhöldum úr 2% upp í 5%. Ég álít fyrir mitt leyti, að þó að 5% sé vissulega ekki mikil fyrning á vélum, þá sé þetta ákvæði óþarft, af því að allar lögmætar afborganir af skuldum ríkisverksmiðjanna eru teknar með í rekstrarkostnaðinn. Væri þetta ekki, þyrfti þetta fyrningarákvæði að vera öllu hærra en það er í l., en þar sem allar afborganir eru teknar með í rekstrarkostnaði, sýnist óþarfi að hækka þetta fyrningargjald frá því, sem nú er.

Ég vil ennþá nefna eitt atriði, sem ég tel, að þurfi að breyta í þessum l., en það er ákvæðið um það að verð á síldarmjöli skuli ákveðið með hliðsjón af kostnaðarverði. Þetta ákvæði hefir upphaflega komið inn í síldarverksmiðjulögin sennilega til þess að tryggja bændum það, að þeir fengju síldarmjölið með sanngjörnu verði. En í rauninni er engin trygging í þessu ákvæði fyrir bændur, vegna þess að kostnaðarverð á síldarmjöli er í rauninni aldrei hægt að reikna út, fyrr en búið er að selja allar afurðirnar. Ég tel, að það ákvæði, sem er jafnframt í l. um markaðsverðið, ætti að nægja í þessu efni; ég tei það tryggja það, að bændurnir fái síldarmjölið með sanngjörnu verði. Það hefir orðið sú reynslan, að kostnaðarverðsákvæðið hefir ekki að neinu leyti verið framkvæmanlegt, og er þess vegna engin ástæða að halda því áfram í l. En hinsvegar er það alveg réttmætt og sjálfsagt að ákveða verðið á síldarmjölinu að öllu leyti í samræmi við það verð, sem mjölið selst fyrir á erlendum markaði. Ef svo kynni að vera, að bændur þyrftu á einhverjum styrk að halda til kaupa á fóðurbæti, væri að öllu leyti réttmætara og sanngjarnara, að sá styrkur kæmi á annan hátt en frá síldarverksmiðjum ríkisins, því ef þær einar allra síldarverksmiðja í landinu ættu að fara að selja síldarmjölið undir verði, þá yrði það til þess, að þær gætu ekki eins keppt við verksmiðjur einstakra manna um kaup á bræðslusíld. Og þar sem það er búið að leggja þó þetta mikið fé á ábyrgð ríkissjóðs í síldarverksmiðjurnar, verður að gera kröfu til þess, að ekki sé búið þannig að þeim, að þær geti ekki keppt við verksmiðjur einstakra manna um kaup á bræðslusíld.

Þá hefir þetta frv. inni að halda gamlan kunningja, sem er það, að síldarverksmiðjurnar skuli greiða allhátt gjald til Siglufjarðarkaupstaðar. Í frv. eins og það var upphaflega var gert ráð fyrir því, að það yrði 1% af andvirði seldra afurða, eða um 80 þús. kr. skattur, sem síldarverksmiðjurnar ættu að greiða til þeirra sveitarfélaga, sem þær eru reknar í. Nú hefir þetta verið lækkað niður í ½% af andvirði seldra afurða, eins og frv. kemur frá Ed., og ég skal taka það fram, að það út af fyrir sig er eins og umsetning verksmiðjanna hefir verið á þessu ári, um 40 þús. kr. skattur á verksmiðjunum.

Verksmiðjurnar greiða nú ekki neitt sérstakt aukaútsvar, og það virðist þess vegna, að ekki væri ósanngjarnt, að þær borguðu eitthvað í sveitarsjóð, þar sem þær eru starfræktar. Þó vil ég benda á það í þessu sambandi, að helztu keppinautar síldarverksmiðja ríkisins eru hlutafélagsverksmiðjan á Djúpuvík og verksmiðja h/f Kveldúlfs á Hjalteyri. Báðar þessar verksmiðjur standa á nokkuð afskekktum stöðum, í smáþorpum, ef þorp skyldi kalla. Ég geri ekki ráð fyrir, að útsvör þau, sem lögð verða á þessar verksmiðjur muni nema neitt líkt því, sem þessi l. fara fram á að leggja á síldarverksmiðjur ríkisins. Þá skal ég ennfremur geta þess, að þessir tveir stærstu keppinautar síldarverksmiðja ríkisins borga heldur ekki neitt vörugjald í hafnarsjóð, þar sem verksmiðjurnar eru starfræktar. En þessi gjöld síldarverksmiðja ríkisins nema á Siglufirði sem næst 36 þús. kr. á ári. Með því þannig að leggja á síldarverksmiðjur ríkisins þann skatt, sem farið er fram á í þessu frv., þá mundi hann nema, með hafnargjöldum, sem nú eru greidd, um 76000 kr. Nú sjá allir, að þarna mundu ríkisverksmiðjurnar standa þó nokkuð höllum fæti gagnvart stærstu keppinautum sinum, á Djúpuvík og Hjalteyri, sem sleppa að miklu leyti við þessi gjöld. Ég skal geta þess, að þau skip, sem lagt hafa afla sinn á land í verksmiðjum ríkisins, voru á síðasta ári um 100. Þar af voru mörg smáskip, og afli sumra þessara skipa er ekki mikils virði, Ríkisverksmiðjurnar hafa sama og ekkert af stórum skipum og byggja rekstur sinn á smáskipum. Sá skattur, sem þarna er farið fram á, að verði lagður á þessi skip, um 40 þús. kr., nemur þess vegna sem næst 400 kr. á hvert skip, ofan á það hafnargjald, sem nú gildir á Siglufirði, sem er talsvert hátt, og ofan á þau vörugjöld. sem greidd eru í hafnarsjóð sem eru 1.50 kr. á hvert útflutt tonn af síldarmjöli og 1.40 kr. á hvert tonn af síldarlýsi, og jafnmikið innflutningsgjald á kolum og salti til verksmiðjanna. Með þessu móti yrði sá skattur, sem lagður væri samtals á þau skip, sem leggja upp síld á Siglufirði, umfram það, sem er á þeim stöðum, þar sem stærstu verksmiðjur einstakra manna eru starfræktar, um 760 kr. á skip. Af þessum skatti eru nú þegar 361 kr., sem skipin verða að borga, en farið fram á að leggja á aukaskatt, sem svarar 400 kr. á hvert veiðiskip. Auk þess eiga sveitarfélög þau, þar sem aflinn er lagður á land, rétt á að fá hluta af útsvörum þessara veiðiskipa.

Ég vil ekki neita því, að nukkur sanngirni sé í því, að Siglufjarðarkaupstaður og þau önnur sveitarfélög fái nokkur gjöld af verksmiðjunum, eitthvað svipað því, sem er borgað af öðrum síldarverksmiðjum í landinu. En að síldarverksmiðjur ríkisins borgi miklu meira, álít ég beinlínis hættulegt fyrir rekstur þeirra. Ég finn ástæðu til þess að benda á þetta þegar við þessa umr. málsins. til þess að meðnm. mínir og aðrir, sem eiga um þetta mál að fjalla síðar, geti tekið þetta til athugunar.

Ég tel, að þetta frv. hafi ekki í rauninni mörg nýmæli inni að halda, og engin nýmæli, sem yrðu síldarverksmiðjunum til góðs, en aftur nokkur nýmæli, sem gætu orðið þeim til tjóns. Ég mun því freista þess að bera fram brtt. við þetta frv., og mun ég að sjálfsögðu gera grein fyrir þeim á sínum tíma.