21.12.1937
Neðri deild: 56. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (1234)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Héðinn Valdimarsson:

Ég verð að segja, að mér þykir skörin færast upp í bekkinn, þegar hæstv. forseti vili nú í fyrsta sinn á þinginn takmarka ræðutíma dm. við 10 mín., þegar ég tek til máls og þetta er í þriðja sinn, sem ég tek til máls á þessu þingi. Hæstv. forseta þykir mikils við þurfa að koma fram þessu samningsmáli Sjálfstfl. og Framsfl.

Það þarf að gera breyt. víð frv. aftur, þar sem rangt er frá skýrt í bráðabirgðaákvæðinu, þar sem stendur tvö ár í staðinn fyrir eitt.

Við vitum, hvernig þessi deila er undir komin og við vitum, hvers vegna síldarverksmiðjur hafa risið upp hér á landi og orðið að voldugum fyrirtækjum. Það er fyrir atbeina Alþfl. með stuðningi Framsfl. Magnús sál. Kristjánsson var sá af mönnum Framsfl., sem mest beitti sér fyrir þessum málum. Hann var studdur af verkamönnum á Akureyri. Alþfl. hefir frá upphafi unnið að eflingu verksmiðjanna. Eftir að það hafði á ýmsan hátt verið ólag á verksmiðjunum, hefir fyrirkomulag þeirra komizt í fast horf með þeirri stjórnarskipun, sem Alþfl. stóð að. Framsfl. hefir í þessu máli algerlega haldið sig að einum manni, Þormóði Eyjólfssyni, en hann var talinn óhæfur stjórnandi af öllum nema framsóknarmönnum. Verkamenn voru á móti honum, og útgerðarmenn voru á móti honum. Allt gekk á tréfótum, og afleiðingin varð sú, að ómögulegt var að hafa hann áfram. Síðan sú stj., sem nú situr, tók við, hefir allt breytzt til batnaðar. Engar aðfinnslur hafa komið af hálfu útgerðarmanna, og samvinna í stj. hefir verið ákjósanleg. Starf Finns Jónssonar í stj. hefir verið viðurkennt af öllum, nema nokkrum pólitískum andstæðingum hans. Hann hefir varið tíma sínum og hæfileikum til þess að gera sem mest fyrir verksmiðjurnar, með ekkert annað en hag þeirra fyrir augum. Dugnaður hans er alþekktur og þekking hans á þessum málum, en hann hefði getað haft nógum öðrum störfum að sinna fyrir Alþfl. og fyrir sjómenn og sjávarútveginn á annan hátt. Nú vill Framsfl. aftur breyta til, fyrst og fremst til þess að bola honum frá verksmiðjunum, en koma Þormóði Eyjólfssyni aftur að. Þetta á rót sína að rekja til eins manns, formanns Framsfl., Jónasar Jónssonar, og þeirra sambanda, sem hann hefir í sínum flokki, nefnilega Jóns Árnasonar framkvæmdarstj. Sambandsins og svila Þormóðs Eyjólfssonar.

Ég vil benda á það, sem ætti að vera viðurkennt a öllum. að þeir, sem hafa hagsmuni af verksmiðjunum, nefnilega sjómenn og verkamenn og nokkur hluti útgerðarmanna, eða þeir, sem ekki eiga sínar eigin verksmiðjur eins og Alliance og Kveldúlfur, eiga að hafa umráð yfir þeim. Ef fylgt væri þeirri stefnu hér, sem fylgt er á öðrum sviðum atvinnurekstrarins, um að þeir, sem hagsmuna hafa að gæta, ráði um reksturinn, þá ætti Framsfl. ekki að hafa neinn mann í stj. verksmiðjanna. Ef þetta er borið saman við mál landbúnaðarins, er það svo að stj. landbúnaðarmála hefir verið leyst undan sambandi við þingið og fengið Búnaðarfél. Íslands, en þar ráða bændur einir. Það er því ekkert réttlæti í kröfu Framsfl. um að fá 2 menn í stj. síldarverksmiðjanna. Það er hreinn yfirgangur gagnvart verkamönnum og sjómönnum þessa lands, og það er notuð til þess viss pólitísk aðstaða hér á þingi. Sjálfstfl. vill vinna þetta til til þess að ná sér niðri á verkamönnum og sjómönnum.

Nú er Alþ. svo skipað, að það eru auðséð forlög þessa máls. En ég vil lýsa yfir þeirri skoðun minni, að þetta er upphaf bardagans um þetta mál, en ekki endir. Verkamenn og sjómenn sætta sig ekki við að láta Alþ. níðast á hagsmunum sínum. Það er vitanlegt, hvaða sérstaka vendingu pólitíkin hefir tekið á Siglufirði. Þar er allur verkalýðurinn sameinaður í einn félagsskap og gengur sameinaður til bæjarstjórnarkosninga. Og það er vitanlegt, að ekki eingöngu stéttarfél. sjómanna og verkamanna, heldur líka bæjarstj. Siglufj. er á móti málinu.

Ég vil svo aðeins benda á, að þeir, sem hafa stjórnað aðalþingmálum Framsfl. upp á síðkastið, en það er ekki form. flokksins, Jónas Jónsson, heldur ráðh. hans, ættu að athuga það vel, að það er óhjákvæmilegt, ef á að taka þá afstöðu gagnvart Alþfl., að troða niður af honum skóinn, að samkomulagið við Alþfl. verður ekki langvinnt.

Ég ætlaði mér að tala um nokkur smáatriði viðvíkjandi frv., en ég mun láta það kyrrt liggja að sinni.