21.12.1937
Neðri deild: 56. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í B-deild Alþingistíðinda. (1239)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Frsm. meiri hl. (Bergur Jónsson) :

Ég skal ekki lengja umr. mikið, en ég vil mótmæla því. sem hv. 3. þm. Reykv. hélt fram, að með þessu frv. væri verið að niðast á hagsmunum sjómanna og útgerðarmanna. Hv. þm. er það glöggur maður, að hann veit, að hann talar það ekki af sannfæringu, að það sé á móti hagsmunum sjómanna og útgerðarmanna að reyna að reka síldarverksmiðjurnar, sem eru grundvöllurinn fyrir þeim atvinnuvegi, sem nú er eitt aðalbjargræði landsmanna, þannig, að þar geti staðið. Hv. þm. veit, að án þess að fyrir lægi þingsamþykkt var lagt út í endurbætur, ef ég má svo að orði komast, á síldarverksmiðjunum í sumar, sem kostuðu 250000 kr., og ef þeim er haldið áfram, þá munu þær kosta um ½ millj. kr. Er það að vinna fyrir hagsmuni sjómanna og útgerðarmanna, þegar stj. síldarverksmiðjanna gengur út í slíkar framkvæmdir án þess að hafa nokkra þingsamþykkt að baki sér? Ég vil spyrja hv. 3. þm. Reykv. að þessu, sem var 2. þm. Reykv. á síðasta þingi, en hefir nú hrapað. Það getur vel verið, að það séu stundarhagsmunir að því fyrir sjómenn og útgerðarmenn, að þeim sé borgað hærra fyrir síldina heldur en verksmiðjurnar þola, en eru það framtíðar hagsmunir fyrir þá? Þessari spurningu vil ég biðja hv. 3. þm. Reykv. og hv. þm. Ísaf. um að svara. Eru það framtíðarhagsmunir fyrir verksmiðjurnar, að verðið sé ákveðið þannig í vor, að ekki sé hægt að standa við það, að verksmiðjurnar standi ekki fjárhagslega styrkar á ettir, svo að það verður að leita til ríkissjóðs til þess að fá það fé, sem vantar til þess að bæta upp þann halla, sem kann að stafa af ráðstöfunum verksmiðjustj.? (FJ: Hefir það verið gert?) Ég er ekki að halda því fram, að það hafi verið gert, en ég vil benda hv. þm. Ísaf. á; að þegar hann í Alþýðubl. talar um verðákvörðun síldarverksmiðjustj., þá tekur hann þannig til orða, að það geti verið, að það verð fáist fyrir síldarlýsi, sem var óselt hjá síldarverksmiðjunum, að verðákvörðunin hafi verið fullkomlega verjanleg. Ég býst við, að ef hv. þm. Ísaf. sem formaður verksmiðjustj. hefði getað sagt það með góðri og hreinni samvizku, að það hefði verið fullkomlega verjanlegt að hafa verðið 8 kr. og hjá Sólbakkaverksmiðjunni 8.50 kr., þá hefði hann kveðið sterkara að orði heldur en að það gæti verið, ef svo færi, sem hann vonaði, að verksmiðjurnar fengju það verð fyrir lýsið sem dygði, þá gætu verksmiðjurnar staðið í skilum með lögboðnar greiðslur. Í opinberri blaðagrein hefir hv. þm. ekki getað gengið lengra en að segja, að svo framarlega sem það verð fáist, sem hv. þm. Ísaf. veit, að engin von er um, þá muni verksmiðjurnar geta staðið undir lögmætum greiðslum. En er ekki hægt að gera þá kröfu til síldarverksmiðjanna, að þær greiði meira en eingöngu lögmætar kröfur? Er æskilegt að setja fé í sjóð hjá síldarverksmiðjunum, þegar stj. þeirra tekur á sína eigin ábyrgð að gera framkvæmdir, sem kosta upp undir ½ millj. kr.? Þessu er verið að afstýra með frv. því, sem hér liggur fyrir. Samkv. því hefir stj. verksmiðjanna ekki leyfi til að leggja út í framkvæmdir, sem kosta meira en 75 þús. kr.

Hv. þm. Ísaf. vildi mótmæla því, sem ég hélt fram, að með lagaákvæði væri ekki hagt að stofna skuldir, sem ekki væru til, og þetta er rétt. Ég veit, að ef hv. þm. Ísaf. vill athuga þetta, þá sér hann, að það getur enginn, þó að prentvilla sé í frv. og l., sem afgr. eru frá Alþ., gert kröfu á hendur ríkissjóði, sem hann ekki á, því að dómstólarnir standa ofar. Þeir dæma um staðreyndir. Þetta ætla ég að benda hv. þm. á og vona, að hann hagi sér eftir því hér í umr.

Það er ekki meining mín að ráðast á hv. þm. Ísaf., því að það hafa nógu margir gert það. Ég ætla að minna á, að í Morgunbl. hefir nú um langan tíma verið ráðizt á þennan hv. þm. fyrir störf hans sem formanns síldarverksmiðjanna. Ég álít þær árásir sambærilegar við það, þegar verið er að ráðast á fiskimálanefnd aðeins af því, að hv. 3. þm. Reykv., Héðinn Valdimarsson, er form. n., en með því er verið að kasta steini t. d. á þann mann í n., sem mestra vinsælda hefir notið af hálfu sjálfstæðismanna hér í Reykjavík, Guðmund Ásbjörnsson, og aðra nm. Mér finnst nokkurn veginn sambærileg árásin, sem reynt hefir verið að gera á hendur hv. þm. Ísaf. fyrir stj. hans á síldarútvegsnefnd, því að í henni áttu sæti menn úr Sjálfstfl., eins og Jón Árnason, og nú Sigurður Kristjánsson, útgerðarmaður og kaupmaður á Siglufirði. Þessir menn sjást ekki fyrir, þegar þeir eru með svona ádeilur. Ég ætla ekki að taka undir þær, enda falla þær um sjálfar sig, þegar málið er athugað. En hv. þm. Ísaf. verður að taka það til greina, að enginn þm., sem vill lita með nokkurn veginn sanngjörnum augum á þetta mál, getur neitað því, að þó að það sé kannske gott fyrir innbyrðis frið í síldarverksmiðjustj., að þar sé einlit hjörð, eingöngu af einum fl., þá er það ekki gott fyrir friðinn út á við, sem þarf að vera um stjórn þessara verksmiðja í blöðum landsins, á Alþingi og annarsstaðar þar, sem menn taka hlutina og gagnrýna þá. Það er bezt, að allir flokkar standi ábyrgir fyrir þeirri stj., sem er á þessu stóra atvinnufyrirtæki, heldur en að láta hana liggja undir gagnrýni frá öllum flokkum á þeim grundvelli, að einn flokkur noti aðstöðu sína til pólitískra hagsmuna fyrir sjálfan sig, án þess að ég segi, að hann hafi gert það. Ég er ekki að bera þetta á hv. þm. Ísaf., en ég veit, að hann á það harðvítuga andstæðinga, að hann ætti að sjá það sjálfur, að það er réttara og betra fyrir hann sjálfan að hafa pólitískan frið um þetta stóra fyrirtæki.