21.12.1937
Neðri deild: 56. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (1244)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Frsm. minni hl. (Finnur Jónsson):

Hv. þm. Barð. varpaði til mín nokkrum spurningum, og ég held, að ég verði að nota þessar 10 mín., sem ég hefi til umráða, til að svara þeim. Hann spurði, hvort það væri að vinna fyrir sjómenn og útvegsmenn að endurbæta verksmiðjurnar, og vil ég svara því játandi. Hin síðustu tvö ár hafa verið framkvæmdar miklar endurbætur á verksmiðjunum, endurbætur, sem hafa stórum aukið afköst þeirra, og það er sannarlega að vinna fyrir hagsmuni sjómanna og verkamanna, sem svo falla saman við hagsmuni ríkisins.

Í þessu máli voru tvær stefnur uppi. Önnur sú, að ákveða verð á bræðslusíld mjög ógætilega, eins og hv. þm. G.-K. krafðist áður en h. f. Kveldúlfur eignaðist sína verksmiðju og varð stór síldarkaupandi; hin er sú, að greiða ákveðið síldarverð, sem verksmiðjurnar greiði út að fullu við móttöku, og miða verðið við skynsamlega áætlun, en afgangurinn, sem kynni að verða af rekstrinum, yrði látinn ganga til að endurbæta verksmiðjurnar, svo þær gæfu betri útkomu. Þetta hefir verið gert, og þessar endurbætur eru þegar orðnar það miklar, að verksmiðjurnar hafa aukið afköst sín sem svarar því, að hefði verið byggð ein verksmiðja á Siglufirði til viðbótar. Verksmiðjurnar þar eru ekki byggðar í fyrstu til að vinna úr nema 5 þús. málum í mesta lagi, en nú vinna þær ca. 7 þús. málum. Þótt þessar umbætur kosti mikið fé, þá kosta þær ekkert svipað því eins mikið og ef heilli verksmiðju hefði verið bætt við.

Hv. þm. Barð. spurði, hvort framtíðarhagsmunum sjómanna og útgerðarmanna væri bezt borgið með því að greiða þeim of hátt verð fyrir síldina, og vil ég svara því neitandi. Það á að borga rétt verð fyrir síldina; þannig er hagsmunum sjómanna og verkamanna bezt borgið, en hefði verið farið eftir till. hv. þm. G.-K., hefði þeirra hlutur verið fyrir borð borinn, og þar með hlutur ríkissjóðs. Reyndar gerði hann sínar kröfur áður en h. f. Kveldúlfur varð stór síldarkaupandi. Nú gerir hann kröfur um nógu lágt síldarverð, svo Kveldúlfur beri sig.

Ég hefi bent á það í grein í Alþbl., að síldarverksmiðjur ríkisins hafa staðið við öll sín loforð og gjöld þessi 2 ár, og meira en það. Hv. þm. Barð. talaði um það, að ég hefði farið varlegum orðum um útkomu ársins 1937, og vil ég í því sambandi benda honum á, að meðan ársreikningar eru ekki að fullu uppgerðir, er ekki nema eðlilegt, að ég tali varlega, því ég vil ekkert fullyrða í þessu máli, sem ég er ekki viss um að geta staðið við. Ég vil einnig segja hv. þm. Barð., að fullt útlit er fyrir að síldarverksmiðjur ríkisins muni ofan á gott síldarverð geta borgað öll sín gjöld, þrátt fyrir öll skakkaföll. Hv. þm. Barð. spurði mig að því, hvort ekki væri hægt að krefjast meira af ríkisverksmiðjunum en að þær greiddu lögmæt gjöld og afborganir. Nei, það er ekki hægt eða ekki rétt að heimta meira. En hv. þm. verður að átta sig á því, að þessi lögmætu gjöld nema rúmlega 430 þús. krónum á þessu ári. Þar af fer á þriðja hundrað þúsund króna í varasjóð og 150 þús. í afborganir. Í þessu frv. er ekki heldur farið fram á annað en að verksmiðjurnar greiði lögmæt gjöld. — Auk venjulegrar fyrningar er ætlazt til, að þær greiði 5% af kaupverði síldarinnar, eða 40 aura af hverju 8 króna síldarmáli á þessu ári í varasjóð. Þó að allar afborganir, —150 þús. — séu teknar með í rekstrarkostnaði verksmiðjanna, og þrátt fyrir hina ríflegu varasjóðsaukningu sýnir reikningurinn ekki halla, heldur þá útkomu, sem vonazt var eftir. Með því móti tel ég sýnt, að goldið hafi verið sannvirði fyrir síldina og fullkomlega séð borgið hag verksmiðjanna, komi ekki ófyrirsjáanleg óhöpp fyrir.

Hv. þm. Barð. hélt því fram, að ekki væri hægt að skapa skyldu með lagasetning. Ég veit ekki betur en flest lög geri það, og sú skylda getur snert atriði, sem löggjafinn hefir ekki séð fyrir. Hvað sem því líður, er það hastarlegt, ef deildin neitar af ofstækisfullum þvergirðingi að orða rétt, hvað skuldin er mikil við dr. Paul, — ef það eiga að standa áfram . í frv. tvö ár í staðinn fyrir eitt, sem eftir er að borga fyrir. Eða ef þeir, sem að frv. standa, ætla virkilega að verja þetta orðalag og reikna með því, að 100 þús. kr. séu óborgaðar, en ekki 50 þús., eins og er í raun og veru, — þá veit ég ekki hverskonar hugulsemi það er gagnvart síldveiðimönnunum.

Hv. þm. (BJ) talaði um, að það þyrfti að skapa pólitískan frið kringum verksmiðjurnar. Það hefir verið ólíkt meiri friður kringum þær heldur en síldarútvegsnefnd, og er þó nefndin skipuð á nokkuð líkan hátt og frv. leggur til um verksmiðjustjórnina. Ef sú breyt. frv. gengur fram, leiðir ekki af því, að friðurinn, sem nú er í verksmiðjustj. og um hana, haldist, heldur ófrið líkt og um síldarútvegsnefnd. Forgöngumenn frv. vígbúast af kappi og segjast eins og stórveldi gera það til að skapa frið. Það sýnist allt benda til, að þeir hafi ekkert lært og engu gleymt og ætli að skapa sama ástandið og var í verksmiðjustj. 1935 og 1936, áður en um var breytt.