21.12.1937
Neðri deild: 58. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (1258)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Einar Olgeirsson:

Ég gerði fyrirspurn við 3. umr. til hv. þm. G.-K. í sambandi við hans afstöðu til síldarverðsins og hvað hann áliti, að myndi hafa verið rétt verð á síld í sumar. Það vorn ekki dagprísar á síldinni, þegar Morgunbl. var að rita um þetta mál í maí og júní 1937 og maí og júní 1936. Hann svaraði nú ekki beinlínis þeirri spurningu, sem ég beindi að honum, hvað hann áliti, að síldarverðið hefði átt að vera í sumar; það þýddi m. ö. o., hvað hátt síldarverðið hefði verið ákveðið í vor, þegar vertíðin var að byrja. Nú svarar hv. þm. því þannig, að hann áliti, að eins og afurðaverðið væri í dag, hefði síldarverðið átt að vera lægra en 1936, og eins og verðið var á því, sem síldarverksmiðjurnar seldu fyrirfram, hefði verðið átt að vera á milli 6.90 kr. og 7.50 kr. Í vor þegar Morgunblaðið ritar um þetta og Sjálfstfl. tók afstöðu til málsins, þá barðist Morgunblaðið með því, að síldarverðið væri ákveðið 8.50 kr. Sama máli gegndi 1936, þegar baráttan stóð um það, hvaða verð ætti að vera á síldinni. Þá barðist Sjálfstfl. fyrir því, að síldarverðið væri ákveðið 6 kr. Þá ákvað síldarbræðslun., að það ætti að vera 5.30 kr. eða 5.50 kr. Hvernig hefir svo afstaðan verið í sambandi við það, hvaða verð skuli ákveða fyrir síldina? Það er fróðlegt að athuga það. Það er yfirlýst, að ef úr bandalaginu verður, er ætlunin að greiða minna út á síld en almennt hefir verið gert undanfarið í hlutfalli við áætlunarverð síldar. Ég skýrði frá því í minni fyrri ræðu, að það hefir verið barizt um tvö „princip“, eftir því, hvort miðað hefir verið við hagsmuni sjómanna og útgerðarmanna eða hagsmuni annara síldarbræðslueigenda. Síðan hefir verið ákveðið eins hátt verð og mögulegt var, í samræmi við hagsmuni sjómannanna. Þar með hafa síldarverksmiðjurnar verið notaðar til þess að gera afkomu síldveiðanna sem bezta. Hin aðferðin var, að ákveða verðið svo, að það væri í samræmi við hagsmuni annara síldarbræðslueigenda. Það er „interessant“ í þessu sambandi að athuga afstöðu hv. þm. G.-K. í baráttunni um það, eftir hvorri línunni skyldi fara. Hvort taka skyldi afstöðu með sjómönnum eða verksmiðjueigendum. Það er engum efa bundið, og ég skal rökstyðja það, að Sjálfstfl. hefir fram að þessu tekið eða þótzt taka afstöðu með útgerðarmönnum og sjómönnum, en á móti eigendum síldarbræðsluverksmiðjanna, og nú, þegar Sjálfstfl. breytir gersamlega um pólitík í þessu efni, held ég, að það sé mjög fróðlegt að rifja upp það, sem hv. þm. G.-K. og samherjar hans skrifuðu, þegar harðast var barizt í þessu máli vorið 1936. Hv. þm. G.-R. skrifar t. d. í Morgunblaðið 28. maí 1936, að sannvirði síldarmálsins væri kr. 7,65–8,15, en að ríkisstj. ætlaði að skammta útveginum 5 kr. Síðan skrifar hann hverja greinina á fætur annari um. að ríkisstj. sé að arðræna sjómennina. Mig langar til að gefa hér nokkra hugmynd um, hvernig Sjálfstfl. hefir breytt sinni pólitík á nokkrum augnablikum. Það var við 2. umr. borin upp 11. gr. lagafrv., sem er nú til 3. umr. Þar er kveðið svo á í 3. lið: „Ekki minna en 2% fyrningargjöld af húsum og mannvirkjum og 5% af vélum og áhöldum“, og í 4. lið: „5% gjald í varasjóð“. Þessum ákvæðum 11. gr. er lagt til að breyta. Hv. þm. G.-K. vill samþ. 11. gr. og er á móti hverri brtt., en 28. maí 1936 skrifar hann í Morgunblaðið um þetta: „Okurlögin. Samkv. l. frá í fyrra er þess krafizt, að sjómenn og útvegsmenn greiði þessi gjöld fyrir afnot af verksmiðjunum: 1.Afborgun af stofnkostnaði eftir því, sem um semst við lánveitendur eða ríkistj. 2.2% gjald í fyrningarsjóð. 3.5% gjald í varasjóð“. Þetta segir hv. þm., að geti ekki talizt ríkinu vansalaust, að okra þannig á sjómönnum og útgerðarmönnum. En þetta sama var hann að samþ. hér í hv. d. fyrir 5 mín. Og hann heldur áfram í blaðinu: „Hvaða vit er í að krefjast þessa?“ Það er ekki lengi að breytast vitið í hv. þm., og ég mun síðar koma að því, hvað það er, sem hefir breytt svo mjög vitinu í form. Sjálfstfl. Hv. þm. heldur áfram að skrifa og ræðir sérstaklega um afstöðu Framsfl. til þessa máls. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa upp úr Morgunbl. 4. júní: „En hver er ástæðan til þess, að hin nýja stj. síldarverksmiðjanna dregur það svona á langinn að ákveða síldarverðið? Ástæðan er sú, að hin nýja stj. var ekki skipuð með það fyrir augum að koma á ró og friði um verksmiðjurnar. Hún var skipuð til þess fyrst og fremst að koma á nýju skipulagi um rekstur verksmiðjanna — samvinnuskipulaginu —, enda breyt. gerð samkv. kröfu Framsfl.“ Svo kemur: „Útgerðarmenn og sjómenn áttu ekki að fá greitt fast verð út á síldina, heldur áttu þeir að fá útborgað eitthvert áætlunarverð og uppbót síðar, ef eitthvað yrði afgangs, þegar búið yrði að greiða öll „mistök“ Finns og Co.“ — Þetta segir hv. þm. fyrir rúmu ári um ástæðuna til þess, að þetta var gert, og tekur þar beinu afstöðu á móti stefnu Framsfl. Enda rísa þá öldurnar hátt.

Ég ætla að lofa hv. dm. að heyra, hvernig þessir núv. bandamenn Framsfl. skrifuðu fyrir hálfu öðru ári. Í Morgunbl. 5. júní 1936 er þessi fyrirsögn „vargar í véum. Hversu lengi á að þola framsóknarmönnum að niðast á Rvík?“ Svo kemur undirfyrirsögn: „Flestir gerðust nýtir borgarar í bænum. Framsóknarmenn eru undantekning“. Síðan er þessari allsherjarherferð á móti Framsfl. haldið áfram, og hver greinin rekur aðra. 7. júní skrifar hv. þm. G.-K. stóra grein og þar er ein aðalfyrirsögnin: „Smánarboðið. Eftir Ólaf Thors“. Greinin endar svo, og vil ég þar næstum gera orð hv. þm. G.-K. að mínum: „Það er ofdirfska að velja síðari kostinn (c: ófrið og óvissu) í andstöðu við sjómenn, útvegsmenn og almenningsálitið, með verksmiðjustjórnina klofna í baksýn“. Þetta er alveg það sama sem hv. þm. ætlar að gera núna. En hvað veldur? Hvernig stendur á, að svona skuli vera komið? Jú, það hefir gerzt einn atburður. Það hefir risið upp ný síldarbræðsluverksmiðja á Hjalteyri, sem hlutafél. Kveldúlfur er eigandi að. Með því hefir form. Sjálfstfl. komizt í þá aðstöðu, að hlutafél. hans er komið í tölu stærstu síldarkaupenda landsins. Nú skal ég lofa ykkur að heyra, hvernig Morgunbl. og form. Sjálfstfl. rituðu fyrir hálfu öðru ári um síldarbræðslueigendur og síldarkaupmenn. 9. júní 1936 stendur í Morgunbl., með leyfi hæstv. forseta: „Síldarkaupmenn kallaðir til hjálpar ríkisstj. Herferðinni gegn sjómönnum og útgerðarmönnum heldur áfram“. Þetta er fyrirsögnin. En hvað er að gerast hér á þingi nú? Jú, síldarkaupmenn eru kallaðir til hjálpar. Það er fokið í öll önnur skjól. Herfereðinni gegn sjómönnum og útgerðarmönnum er haldið áfram með aðstoð form. Sjálfstfl., Ólafs Thors. Hv. þm. skrifar þarna langa grein með sínum venjulega krafti og endar með þessum orðum úr Alþýðubl., sem ég held, að ég geri líka að mínum orðum: „Þetta er einhver ljótasti leikurinn, sem leikinn hefir verið gegn hinum vinnandi stéttum, og þá einkum sjómannastéttinni“.

Ég býst við, að ef maður héldi áfram með þessar greinar, væru þær kjaftshögg á kjaftshögg ofan á pólitík hv. þm. G.-K. nú. Hver stafur í þeim er þess eðlis. Það er nokkuð eftirtektarvert, sem er að gerast, og það getur farið svo að leikslokum, að Sjálfstfl. sjái, að eins og hann gat haldið fylgi útgerðarmanna og unnið fylgi sjómanna með lýðskrumi sinu 1936, mun hann mjög auðveldlega tapa því aftur. Með afstöðu sinni nú er hann búinn að sýna, að hann er með síldarkaupmönnunum og bræðslusíldáreigendum, sem hann réðst á þá.

Í Morgunbl. 10. júní er grein eftir form. Sjálfstfl. Fyrirsögnin er: „Ólafur Thors hrekur blekkingar Alþýðublaðsins“. Það er engin smáræðis uppsetning á þessu. Ég ætla að lofa hv. d. að heyra, hvernig hann endar greinina. Hún er um það, að síldarverksmiðjueigendur hafi verið kallaðir til hjálpar. Það var svo, að verksmiðjueigendur á Norðurlandi mótmæltu því, að verðið yrði ákveðið hærra en kr. 5,40 fyrir málið, og snerust þannig á móti síldarútvegsmönnum. Morgunbl. gerði mjög lítið úr síldarbræðslueigendum fyrir að vega aftan að sjómönnum og útvegsmönnum, og greininni 1ýkur svo: „En eigendur Krossanesverksmiðjunnar og aðrir, sem undir verndarvæng „hinna vinnandi stétta“ komast að vildarkjörum við sjómennina, drekka skál velgerðarmanna sinna og biðja ríkisstj. Íslands, „stjórn hinna vinnandi stétta“, sem allra lengstra lífdaga. En við kosningarnar gjalda svo sjómennirnir sína þakklætisskuld“.

Síðasti kafli þessarar sögu er skemmtilegastur, því að nú eru allar fyrirsagnirnar eins og miðaðar við það, að sem hægast sé fyrir andstæðingana að nota þær. — Það er sýnt, hvernig fer um þetta mál, og það var líka orðið svo 11. júní í Morgunhlaðinu. Þar er þessi fyrirsögn „Pyrrhusarsigur síldarokraranna“. Ég býst við, að það eigi eftir að fara svo líka hér, að það verði síldarokrurunum dýrt, sem þeir ætla að gera nú. Þó að formenn Sjálfstfl. og Framsfl. geti nú brætt sig saman um að knýja l. í gegn, getur farið svo, að þetta verði eftir á skoðað sem Pyrrhusarsigur síldarokraranna.

Ég þykist nú hafa sýnt fram á, hver hefir verið afstaða sjálfstæðismanna í baráttunni við síldarverksmiðjurnar. Þessa stefnu markaði hv. þm. G.-R. árið 1936. Nú stendur þessi barátta aftur. Nú er sýnt, að Sjálfstfl. tekur öfluga afstöðu við það, sem hann gerði 1936, með því að gera stj. síldarverksmiðjanna svo úr garði, að þær geti ekki borgað sjómönnum fast verð út á síldina. Þess vegna er það, að með afgreiðslu þessa frv. er verið að berjast á móti hagsmunamálum síldveiðimanna. en með síldarbræðslueigendum, og síldarverksmiðjur ríkisins eru gerðar að vopni fyrir Krossanesverksmiðjuna, Kveldúlfsverksmiðjuna og aðrar slíkar. Ástæðan til þess, að stærsti flokkur landsins, sem nýtur fylgis 40% af kjósendum landsins, svíkur nú umbjóðendur sína, er sú, að lítil klíka hefir hagsmuna að gæta með bræðslueigendur á móti sjómönnunum. Það er auðséð, að nú er miklu tilfinnanlegra að verða fyrir lækkun síldarverðsins heldur en 1936, því að síldveiðin er sú eina veiði, sem hefir gefið útgerðinni hagnað á þessu ári. Fyrir þá, sem fram að þessu hafa fylgt Sjálfstfl. að málum, er það nú sýnt, að sá flokkur er á móti sjómönnum í þeirra baráttu. (JakM: við verðum kommúnistar!). Það er alveg viðbúið. Greinar hv. þm. G.-K., sem ég hefi vitnað í, og samskonar greinar í vor hljóta að snúast mjög á móti þessum herrum. Um hitt læt ég framsóknarmenn, hversu öruggt þeim finnst að treysta bandalagi við þessa nýju bandamenn sína, sem hafa snúizt í lið með þeim einungis af hagsmunaástæðum hlutafél. Kveldúlfs.