17.12.1937
Sameinað þing: 15. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

1. mál, fjárlög 1938

*Þorsteinn Briem:

Það er kunnugt, hvers vegna hinum svonefndu eldhúsdagsumr. var frestað við 1. umr. fjárl. og koma nú fyrst við 3. umr. Það mun og mörgum kunnugt, hvers vegna svonefndar eldhúsumr. verða nú með öðrum hætti en áður hefir tíðkazt. Þ. e. af því, að á herðum þjóðarinnar og fulltrúa hennar hvíla nú meiri vandamál til úrlausnar en menn hafa allt til þessa gert sér ljóst.

Og meðan þeir menn, sem nú eru í stjórnaraðstöðu og því bera ábyrgðina á afkomu lands og þjóðar, eru í fyrsta lagi að gera sér ljóst, hvernig ástandið er, og í öðru lagi að reyna að komast að niðurstöðu um, hvernig úr því ástandi verði bætt, þá vil ég ekki endurvekja eldri ágreiningsmál né væringar, nema sérstakt tilefni gefist til, heldur mun ég um þau efni óhræddur geyma síðari tímum dóminn.

Afkomuhorfum atvinnuveganna og högum lands og þjóðar er nú svo komið, að þess ætti að mega fastlega vænta, að menn fyndu nú meira til ábyrgðar sinnar en áður. Ætla ég, að svo muni og vera um ýmsa þá reyndari menn, sem verið hafa með í því að byggja upp samvinnufélagsskapinn í landinu frá upphafi og starfað hafa að málum hans.

Hinsvegar veit ég ekki, hvort svo er um aðra minna ráðna og óreyndari menn, sem ekki hafa vaxið upp í starfinu fyrir samvinnufélagsskapnum, heldur aðeins notað samvinnuhreyfinguna til þess að lyfta sjálfum sér upp til vegs og valda, þó að þeir standi að öðru leyti nær öðrum róttækari flokkum. En í von um, að hinir reyndari menn innan fjölmennari stjórnarflokksins fái meiru áorkað í flokki sinum hér eftir en nú hefir um skeið verið, vil ég sjá, hvaða stefnu þeir menn, sem enn eru óráðnir, taka í þeim málum, sem nú hljóta að valda öllum hugsandi mönnum þyngstum áhyggjum. Ég mun því ekki flytja venjulega eldhúsræðu að þessu sinni, heldur aðeins reyna að vekja athygli hugsandi manna á því, hvar vér stöndum nú.

Alþingi er nú að afgreiða fjárlög. Á þeim eru útgjöldin ákveðin hærri en nokkru sinni áður. Til þess að láta tekjur vega á móti þeim gjöldum, hefir orðið að hækka skatta og tolla m. a. á sjálfsögðustu nauðsynjavörum hvers heimilis. Og það hefir orðið að gera meira. Það hefir orðið að leggja verðtoll einnig á þær vörur, sem verðtollur hefir aldrei verið lagður á áður.

Það hefir ekki aðeins orðið að hækka fasteigna- tekju- og eignarskattana um 11% upp úr því hámarki, sem sósíalistar, sem fram að þessu hafa verið fylgjandi beinum sköttum, hafa áður talið frekast fært. Enda hefir hæstv. fjmrh. viðurkennt, að beinir skattar væru nú orðnir hærri á Íslandi en í nokkru öðru nálægu ríki.

Það hefir ekki aðeins orðið að hækka alla gömlu tollana, sem sósíalistum þóttu áður fyrr vera fullháir, enn að nýju um 11% ofan á þær hækkanir, sem komnar voru áður. Það hefir líka orðið að hækka hina svo til nýju tolla. viðskiptagjaldið svonefnda, um 50%, á velflestum nauðsynjavörum, sem þó verður án verið, um 40% á nauðsynjavörum, sem alls ekki verður án verið, eins og búsáhöldum og þvottavörum. Og loks hefir orðið að leggja þennan nýja verðtoll einnig á þær vörur, sem engum hefir áður komið til hugar að leggja á verðtoll, eins og rúgmjöl og ýms alnauðsynlegustu áhöld og verkfæri. Nú er ekki aðeins kominn nýr verðtollur á mjölið, sem fer í brauðin, heldur og á skófluna í hendi bóndans og saumnálina í hendi konunnar, hvað þá annað. Þessi nýju gjöld koma, eins og gefur að skilja, að langmestum hluta niður sem nefskattur og verður því þyngri sem menn hafa fleiri munnana að fæða á hverju heimili. Hefir verið áætlað, að þau nemi 40–150 kr. á sveitaheimili, eftir stærð og aðkeyptu vörumagni hjá hverjum einum. Og það mundi þykja allveruleg hækkun á útsvari hjá hverjum almúgamanni, sem á fyrir heimili að sjá.

Móti þessari gjaldahækkun kemur svo að vísu nokkur ívilnun í útflutningsgjaldi, þ. e. aflétting útflutningsgjalds af saltfiski, sem mun nema um 225 þús. kr., eða rúmlega 7% af viðbótarálögunum.

Þá er lofað nokkurri aukningu á því fé, sem varið hefir verið til jöfnunar milli þeirra bæjar og sveitarfélaga, sem eru lakast stödd, og fara væntanlega til þess um 14% af hinum nýju álögum. Ekki munu þó sveitahrepparnir fá mikið af því fé, því að mest fá hlutfallslega þau kauptún og bæjarfélög, þar sem sósialistar fara með fjárstjórnina, því að þar er fjárhagurinn aumastur.

Hinsvegar fer allur kúfurinn af þessum nýju skatta- og tollaálögum til þess að jafna þann nær millj. tekjuhalla, sem var á fjárl. eins og shlj. lagði þau fyrir. Nokkur upphæð fer væntanlega í vexti af 3 millj. kr. láninu, sem nú á að taka til þess að jafna greiðsluhallann síðustu þrjú árin. En afgangurinn fer til ýmsra ráðstafana, sem sumar eru sjálfsagðar og óhjákvæmilegar, svo sem ráðstafanirnar gegn Deildartunguveikinni, en aðrar orka tvímælis eins og nú er ástatt.

Það skal þegar játað, að fjvn. hefir nú sýnt nokkru meiri sanngirni í till. sínum en nú var í fjárlagafrv. stj. og oft áður. Er það vert allrar viðurkenningar, þó að með því sé auðvitað ekki mikið sagt.

En þó að maður vilji sýna hina fyllstu sanngirni í dómum um afgreiðslu þessara fjárlaga og um þær nýju álögur, sem nú er verið að leggja á hvern einasta mann í landinu, þá fær maður ekki varizt þeirri spurningu, hvort þjóðin sé fær um að taka á sig þessar nýju álögur í viðbót við sveitargjöldin og útsvörin, sem stöðugt eru að þyngjast víðast hvar á landinu.

Þing og stj. hefir nú stöðugt aukið yfirbygginguna á þjóðarbúinu, og það þó vitanlegt sé, að undirbyggingin sé stöðugt að veikjast.

Skattar og tollar og álagning á einkasöluvörum og útsvör og aðrar opinberar álögur munu nú nema 25–30 millj. alls á þjóðinni. — En til samanburðar má benda á það, að allar útfluttar vörur landsins, sem eru vor eini gjaldeyrir til greiðslu vaxta og afborgana af erlendum lánum og til kaupa á öllum þeim nauðsynjum, sem vér verðum að flytja inn, nema sum árin ekki nema rúmum 40 millj. alls. Jafnvel þótt vér miðum við einsdæmis síldarhappdrættisár eins og nú var, þá nema opinberu álögurnar um helmingi af öllum útflutningnum. Getur þjóðin borið þetta, að greiða sama sem aðra hverja kjöttunnu, sem út er flutt, annað hvert gærubúnt og annanhvern síldar- eða fiskfarm, sem fer úr landi, í opinber gjöld? Getur hún borið það? Eru atvinnuvegir landsmanna með þeim blóma, að slíkt sé mögulegt? Er undirbyggingin svo sterk, að hún þoli slíka yfirbyggingu?

Undirbyggingin er framleiðslan. Hún skapar atvinnu. Hún fæðir fólkið og hún gefur ríkinu og bæjar- og sveitarfélögunum tekjur. Ef sá grunnur hrynur, hrynur og yfirbyggingin af sjálfu sér. Það verður því ekki hjá komizt að líta á þessa undirstöðu um leið og verið er að auka yfirbygginguna enn að nýju.

Elzta undirstöðuatvinnugrein þessarar þjóðar er landbúnaðurinn. Og eins og menn vita, leggur nútíminn þeirri atvinnugrein ekki lítið verkefni á herðar. Þeir, sem nú stunda landbúnað, verða flestir að vinna tvennt í senn, að rækta jörðina og reisa sér hús yfir fólk og fénað.

Aðrar landbúnaðarþjóðir álfunnar hafa verið öldum saman að vinna þetta verk. Og þar þykir bændum það ærið verkefni nú á tímum, að halda þessum mannvirkjum við og endurbæta þau eftir kröfum tímans.

En hér hefir þorri bænda orðið að taka við landinu sem nær ónumdu að ræktun og húsum. Hér verður sama bændakynslóðin að vinna margra kynslóða verk. Það mættu einstæð undur teljast, ef sú kynslóð, sem færist slíkt í fang, gæti jafnhliða þessu verki verið fær um það, að bera — ekki aðeins þung gjöld heima fyrir í sveitar- og sýslugjöldum, heldur þar í ofanálag einnig þung gjöld fyrir ríkissjóðinn.

Það má miklu fremur segja, að á meðan ræktunar- og byggingarmálum sveitanna er ekki lengra komið en er, þá sé þar enn verið að vinna að því að reisa grunninn undir viðunandi landbúnaðarafkomu. Og á meðan ekki er enn búið að reisa grunninn, þá er ekki hægt að byggja þar ofan á mikla yfirbyggingu. Skýrslur þær, sem safnað var um fjárhagsafkomu landbúnaðarins fyrir nokkrum árum, sýndu almennan taprekstur í landbúnaðinum allt frá árinu 1928. Og sama má vafalaust einnig segja um hin síðustu ár, ef miðað er við það, að reksturinn gefi ekki aðeins klippt og skorið fæði og klæði fjölskyldunnar, heldur einhverja möguleika til að rækta og gera sér þak yfir höfuðið, auk viðhalds og vaxta af höfuðstól.

Fram yfir þetta mun búskapurinn hvergi hafa gefið arð, heldur víða verið taprekstur, enda hafa útgjöldin hækkað fyllilega á móti auknum tekjum.

Þetta síðasta ár var að vísu stríðsólguverð á ull og gærum. En þó er ullin nú þegar fallin, og óvíst um endanlegt gæruverð, svo að ekki gefur það miklar vonir fyrir næsta ár.

Hjá öllum þorra bænda eru engir möguleikar á að byggja upp, þó að þörfin sé jafnknýjandi og almenn sem kunnugt er.

Hjá fjölda bænda eru og ekki heldur möguleikar á að standa undir lánum af byggingar- og umbótaskuldum. Um það ber vitni sá fjöldi jarða, sem kominn er og alltaf er að komast í eigu bankanna, og svo allur sá jarðafjöldi, sem verið er að bjóða ríkinu til kaups, af því að menn sjá sér ekki neina leið til þess að halda þeim sjálfir áfram. Ofan á allt þetta er nú fjársýkisvoðinn kominn yfir mörg héruð landsins, svo að við liggur, að leggi landbúnaðinn í rúst í mörgum sveitum, og fær enginn vitað til fulls, hvaða vágest er þar við að eiga, enn sem komið er. Nær skammt sú aðstoð, sem Alþingi veitir, þó erfitt hafi verið að hafa hana ríflegri, eins og nú er öllu komið í þrot.

Hjá ýmsum bændum á mjólkurframleiðslusvæðinu hefir sú framleiðsla ekki borið meiri arð en svo, að þeir tala nú um, að þeir mundu nú hafa breytt um til meiri sauðfjárbúskapar, ef ekki væri fjársýkin. En nú er afskorið um þann hlut í bráð. Nú lógar fjöldi bænda fé sínu, bæði vegna fjársýkinnar og af ótta við fjárpest, þar sem hún er að byrja eða komin á næstu grös. Og er öll von, að þeim þyki hart að verða að greiða verðjöfnunargjald af því kjöti, sem svo stendur á um. Sanngjarnt hefði verið að hækka kjötverð innanlands í hlutfalli við hækkun kjötsins erlendis og til samræmis við hækkað verð á erlendum matvörum.

Öll sanngirni hefði og mælt með því, að nú, þegar hvorttveggja steðjar að hinum sömu héruðum, óþurrkarnir og fjársýkisvoðinn, þá hefði mjólkurverð eitthvað hækkað, — þar sem bændur hafa ekki aðeins fengið minni hey þrátt fyrir meiri tilkostnað, heldur og miklum mun minni og lakari mjólkurafurðir af því litla heymagni, vegna þess hve hrakið það var.

Það var talið sanngirnismál, er Eyfirðingar hækkuðu sína sölumjólk nú í ár, þó að bændur hér á aðalsölusvæðinu, sem urðu fyrir mestu tjóni af óþurrkunum, fengju enga hækkun.

Það verður að teljast stór slysni í mjólkurskipulagningunni, að þar skuli hafa verið lagt svo mikið kapp á að gera osta til útflutnings, sem ekki gefa í aðra hönd meira en nemur verðgildi smjörfeitinnar, að ekki hefir aðeins orðið að hætta við blöndun smjörs í smjörlíki, heldur hefir nú um skeið verið stórkostlegur skortur á smjöri og rjóma hér í höfuðstaðnum.

Meðan ekki er betri markaður fyrir osta vora erlendis en svo, að gefa verður undanrennuna í meðlag með feitinni, þá er nær að nota til fulls þann smjörmarkað, sem til er í landinu og alltaf má auka með meiri blöndun í smjörlíkið. Þann veg má og skapa nokkra framleiðslumöguleika fyrir þær fjársýkisveitir, þar sem fært þykir að stofna rjómabú. En víða eru ekki á því neinir möguleikar vegna vegaleysis og ónógrar ræktunar.

Allar vonir fyrir landbúnaðinn verða að byggjast á aukinni og betri ræktun. Aðalvonin fyrir hann er, að unnt sé að lækka framleiðslukostnaðinn. En til þess er vart önnur leið en meiri og betri ræktun. .

Ræktunarkostnaðurinn þarf að verða viðráðanlegur, og ræktuninni verður að flýta, m. a. til þess, að unnt verði að standa síðan undir nauðsynlegum og óhjákvæmilegum byggingarkostnaði í sveitunum.

Frumvörp, sem miða í þá átt að auka og bæta ræktunina með viðráðanlegum kostnaði, hafa verið flutt hvað eftir annað á undanförnum þingum. En meiri hlutinn hefir ekki viljað láta sér skiljast, að ræktunin er skilyrði þess, að fremur verði á eftir hægt að standa undir óumflýjanlegum byggingarkostnaði og bera skatta og opinber gjöld. Því að hver er ástæðan til þess, að landbúnaðurinn er ekki kominn í þrot? Hún er eingöngu sú, að bændur vinna nú fyrir lægra tímakaup en nokkur önnur stétt landsins. Bóndinn verður að greiða öðrum 35 ærafurðir fyrir þá vinnu, sem 10 ærafurðir nægðu til að greiða áður, samkv. skýrslu þess manns, sem hefir rannsakað verzlunarárferði landbúnaðarins í síðastl. 100 ár. — En bóndinn sjálfur hefir ekki fengið þessa kauphækkun. Hann og kona hans verða því flestar árstíðir að hafa lengri vinnutíma en þolið leyfir til lengdar. Á annað þúsund bændur búa á jörðum, þar sem allt húsaverð fer ekki fram úr 1000 kr. að fasteignamati. Og á mörgum jörðum eru öll hús metin 500-600 kr. Bóndinn og kona hans verða því ekki aðeins að búa við meira og stöðugra strit en nokkur önnur heil stétt í landinu, heldur og lakari húsakost og meiri sjálfsafneitun í flestum greinum. Bændastéttin íslenzka er að reyna að lyfta því Grettistaki að rækta landið og byggja það upp samtímis. Það er meira afrek en bændastétt í nokkru öðru landi hefir gert. Annarsstaðar í álfunni hefir það ekki aðeins verið heillar aldar tak, heldur margra alda. Það má því vera ljóst, að meðan ein bændakynslóð í hrjóstrugu landi við harða veðráttu er að reyna að lyfta margra alda taki suðrænna landbúnaðarþjóða, þá fær hún ekki tekið á sig stóra, ný ja skatta þar á ofan.

Úti í sveitunum er því undirbyggingin enn of veik til þess, að hún fái borið stóra og síaukna yfirbyggingu.

En hvernig er þá við sjóinn?

Eina von vor á síðastl. sumri var sá eindæma síldarafli og stríðsólguverð á sumum síldarafurðum, sem gaf nær ferfalt verð við meðallag áður.

Síldarafurðir þessa árs nema nú fyllilega eins miklu og allur verkaður saltfiskur nam á öllu landinu 1933, en það ár var Spánarmarkaðurinn enn að mestu óskertur. (Verð 24261.910 kr.). Hefði þó mátt veiða síld og selja svo, að numið hefði milljónum króna í viðbót, ef menn hefðu haft frjálsari hendur um að nota þá markaði, sem menn gátu sjálfir útvegað sér, m. a. í annari heimsálfu. — Var landið þar með svipt ekki aðeins milljónaaukningu á útflutningsverðmætum, heldur voru ýmis kauptún, svo sem hér við Faxaflóa, þar með svipt sinni beztu atvinnu heima fyrir og sæmilegum afkomuvonum.

En þrátt fyrir þessi óheyrilegu mistök, sem oft fylgja skilningslítilli ofstjórn, þá varð síldarverðmætið eitt meira en nam aðalútflutningsvörunni, verkuðum saltfiski, 1933, meðan við héldum saltfisksmarkaðinum á Spáni, bezta markaðslandi okkar.

Þessi eindæma síldarafli og verðbólga framan af árinu bjargaði greiðslumöguleikum ríkissjóðs, að svo miklu leyti sem þeim varð bjargað.

Hann bjargaði greiðslu- og viðskiptajöfnuðinum við útlönd. — Og er öllum ljóst, hvernig farið hefði, ef slíkt einstætt happ hefði ekki borið að höndum. Allir vita, að án þess happs værum við nú þegar orðin gjaldþrota þjóð!

Þessi óvænta hamingja bjargaði okkur frá því að þessu sinni að vera teknir til meðferðar af erlendum þjóðum sem vanskilamenn. Og þessi óvænta hamingja vakti einnig hjá oss þær vonir, að síldaraflinn gæti hjálpað sjávarútveginum til að létta á skuldum og rétta ögn við.

Því fer að vísu mjög fjarri, að allur fiskifloti vor sé af þeirri stærð og gerð, að hann geti með árangri síldveiðar stundað. En flestir okkar, sem stöndum utan við sjávarútveginn, gerðum okkur þó vonir um, að þau skip, sem á síld gátu komizt, hefðu svo mjög bætt með henni afkomu sína, að vel vægi á móti tapinu á þorskveiðunum.

En því fer þó mjög fjarri, þegar á heildina er litið. Gera má ráð fyrir, að þetta komi miklum hluta þjóðarinnar mjög á óvart.

Af hinni glæsilegu aukningu sjávarútvegsins og tiltölulega góðu afkomu fram á stríðsárin og á aflaárinu 1924 höfðu margir, sem þar voru ekki sjálfir framleiðendur, fengið þá staðföstu skoðun, að sjávarútvegurinn gæti borið nær ótakmarkaða skatta og tolla og greitt æ hærra og hærra kaup. Nú er það í ljós komið, að þetta er blekking. Það kom þegar í ljós af skýrslum nefndar þeirrar, er skipuð var að tilhlutun Alþingis 1933, að afkoma sjávarútvegsins stóð svo tæpt, að stofnaður var sérstakur skuldaskilasjóður fyrir vélbátaeigendur, til þess að létta undir byrðarnar af fyrri ára töpum. Og nefndarskýrslurnar báru það með sér, að hagur togaranna eða stórútgerðarinnar svonefndu stóð engu síður hallur.

Þessar niðurstöður voru staðfestar í skýrslu skipulagsnefndar atvinnumála, sem kom út í byrjun þessa árs. Þó höfðu víst fáir vænzt, að útlitið væri jafnslæmt og nú er komið í ljós.

Af skýrslum þeim, sem lagðar hafa verið fyrir ríkisstj. af stjórn Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda, sem í eru ekki ómerkari menn en aðalbankastjórar beggja aðalhankanna og framkvæmdarstjóri Sambandsins, Jón Árnason, formaður bankaráðs Landsbankans, — og af annari þar til kjörinni nefnd frá smábátaútvegsmönnum, — verður fyrst fullljóst, hve ástandið er ískyggilegt, — og jafnvel, alveg vonlaust, ef ekki eru sérstakar ráðstafanir gerðar.

Ríkisstjórninni hafa nú verið afhentar skýrslur þessar fyrir nokkru og henni boðið að sannprófa þær með því að láta yfirfara öll þar til heyrandi skilríki, ef henni þætti eitthvað athugavert. Þessar skýrslur hafa og verið afhentar þingflokkunum. Og þar sem nokkur atriði úr þeim hafa þegar verið birt í blöðum, tel ég mér heimilt að víkja að þeim hér:

Af reikningum togaranna kemur í ljós, að í fyrra hefir rekstrartap þeirra á síldveiðum orðið um 30 þús. kr. á skip og álíka á saltfiski, en um 10 þús. á ísfiski, eða um 70 þús. rekstrartap á skip að meðaltali. T. d. tapaði bæjarútgerðin í Hafnarfirði 180 þús. á sínum tveim togurum 1936.

Í ár hefir orðið álíka taprekstur á saltfiski, en nær þrefalt tap á ísfiskveiðum og aðeins rúmlega 8 þús. kr. rekstrarhagnaður á síldveiðunum, svo að rekstrarhallinn verður þrátt fyrir þennan óvenjulega síldarafla um 50 þús. kr. á togara að meðaltali. Er þetta þrátt fyrir síldarhappdrættið álíka útkoma og 1935, en mun lakari en 1934. Þess er ekki að vænta, að togaraflotinn vaxi eða sé endurnýjaður, meðan hann tapar þannig á aðra milljón króna á rekstrinum árlega.

Hæstv. atvmrh. spilaði hér sína alþekktu grammófónplötu um viðreisn sjávarútvegsins og afrek fiskimálanefndar. auðvitað hafði nefndin kippt öllu í lag með milljóninni, sem hún fékk til umráða. Henni var það að þakka, að harðfiskur, sem ekki hafði borgað sig að flytja út áður, varð eftirspurð vara erlendis. Karfavinnslan, sem aðrir áttu hugmyndina að, er öll talin nefndinni að þakka. Svo er talinn Póllandsfiskur, sem raunar þýddi þúsundatap fyrir þjóðina, Steady-fiskur, sem tóbakssalinn var sendur með vestur um haf, o. s. frv. Þessi grammófónsplata um afrek fiskimálan. er nú útslitin. Því að á hennar afrek trúir varla nokkur maður lengur, og sízt þeir, sem stunda sjóinn.

Því miður vekur það enga bjartsýni að kynnast starfi nefndarinnar. Og svo slæm sem útkoman er þetta ár, er þó útlitið miklu ískyggilegra fyrir næsta ár.

Eftir þeim rekstraráætlunum og reikningum, sem fyrir liggja og ekki virðist hægt að vefengja í verulegum atriðum, kemur í ljós, að ef reiknað er með sama afla og verði og nú í ár, verður rekstrarhallinn um 110–117 þús. á togara að meðaltali.

Þessi útreikningur er miðaður við sömu vexti og sömu skatta og síðastl. ár, en við núverandi hækkað verð á útgerðarvörum, og við kaupgreiðslur samkv. nýjum töxtum í uppköstum til nýrra samninga frá félögum sjómanna og vélstjórafélagi Íslands. Hann er og miðaður við sama aflamagn og síðastl. ár, sem vitanlega var með minnsta móti á þorskveiðum, en aftur óhemjumikið á síld, svo að óvíst er um slík uppgrip og slíkt verð næsta ár.

Þetta gerir um 3¾ milljón króna tap á togaraflotanum. Og verður ekki séð, hvernig hann fær staðizt það.

Það blasir því við sá möguleiki, að vonlaust sé að geta gert út togara 1938, ef ekki eru sérstakar ráðstafanir gerðar.

Segja mætti, ef til vill, að togararnir mættu þá stöðvast og hverfa úr sögunni, ef smábátaútvegurinn væri í þeim blóma og vexti, að hann gæti fyllt upp í skörðin.

En útlitið er sízt betra þar. Uppgerðin, sem farið hefir fram við skuldaskilasjóð vélbátaeigenda, gefur hugmynd um afkomuna undanfarið. Og skýrslur þær, sem fyrrgreind nefnd hefir lagt fram, staðfestir það, að því er tekur til aðalverstöðvanna hér við Faxaflóa og í Vestmannaeyjum.

Fjöldi vélbáta er og ekki heldur af þeirri stærð, að von sé um, að þeir geti stundað síldveiðar sér til ávinnings, þó að reiknað væri með jafngóðri síldveiði og síldarafurðaverði og síðastl. ár.

Útlitið til sjávarins er því alstaðar jafnískyggilegt, hvar sem litið er. Og töpin virðast svo fyrirsjáanleg, að enginn veit enn, hvað útgerðarmenn eða lánardrottnar þeirra sjá sér fært að gera í því efni, ef ekki eru sérstakar ráðstafanir gerðar.

Það verður að játa, að lítt hefir verið skeytt um töp sjávarútvegsins, meðan menn þóttust vita, að þeir, sem lagt höfðu í hann efni sín, ættu eitthvað eftir ótapað. Þessi efni, sem í sumum tilfellum voru saman sparað fé margra manna í hverju útgerðarfyrirtæki, voru kölluð „kapítal“. Og ýmsir hafa litið á kapítalið, og jafnvel einkum það kapítal, sem væri starfandi í atvinnuvegunum, sem óvin þjóðfélagsins. Menn létu sig því einu gilda, þó að það tapaðist.

Skattar og tollar voru því hækkaðir og þar á ofan lagðar með nýjum lögum ýmsar kvaðir á útgerðina, sem allar hafa kostnað í för með sér, jafnvel fram yfir það, sem á sér stað hjá öðrum fiski- og farmannaþjóðum.

T. d. verður hver aðal-vélbátur, sem kemur daglega að landi, að hafa fjóra sérlærða menn með prófi af fimm, sem fara á flot í hverjum róðri.

Þetta eykur vitanlega útgerðinni útgjöld. En auk þess hefir þetta nýja lagaákvæði valdið misrétti, þar sem vanir og reyndir sjómenn með næga kunnáttu til að stjórna skipi eða vél, þó að próflausir væru, hafa orðið að ganga af skipi fyrir aðkomnum prófmönnum, þó að viðvaningar væru, þar sem ekki má vera nema einn óbreyttur háseti á bátnum.

Með vaxandi álögum og með síauknum margvíslegum lagaþvingunum og auknum útgjöldum hefir stofnféð, sem lagt hefir verið í útveginn, eyðzt, svo að ekki er nú lengur yfir þeim óvini að kvarta. Enda er nú svo komið, að Alþingi hefir viðurkennt, að lækka þurfi skatta og gjöld á þessum atvinnuvegi.

En það kemur þó auðvitað því aðeins að gagni, að álögurnar séu ekki jafnframt hækkaðar í annari mynd.

En þegar stofnféð er að miklu leyti horfið og sá óvinurinn yfirunninn, þá þarf bæði bankanna vegna og þjóðfélagsins í heild að gera sérstakar ráðstafanir til þess, að útvegurinn geti gengið án þess að bíða fyrirsjáanleg stórtöp. Og er það meira virði en að sakast um orðinn hlut. Þessar ráðstafanir hefði þurft að gera áður en þessu þingi lauk. En þar sem svo er ekki, nema að örlitlu leyti, verður það að vera verk þess þings, sem kemur saman síðar í vetur.

Í fyrsta lagi verður vitanlega að ætlast til þess af útvegnum, að hann hafi samtök um að gæta allrar hagsýni og sparnaðar, einnig um eigin eyðslu. Það verður einnig að ætlast til þess, að menn láti ekki veiðiáhugann freista sín til meiri eyðslu en full hagsýni er að, því að oft veldur veiðikappið meiri kostnaði og sliti eða töpum veiðarfæra en því svarar, sem í aðra hönd kemur.

Í öðru lagi verður að ætlast til þess af útvegnum, að hann leiti allra bragða að fá sem bezt og hentugust innkaup á veiðarfærum og öðrum vörum til útgerðarinnar, og af ríkisstjórninni, að hún veiti útvegnum frjálsræði til þess.

Hvers virði það getur verið útvegnum að fá að hafa frjálsar hendur fyrir innflutnings- og gjaldeyrishömlum í þessu efni, er augljóst, og má minna á það sem smádæmi, að þegar loks var hætt, eftir aðfinnslur hér á Alþingi, að tefja fyrir netjainnflutningi og nokkrum smáútvegsmönnum veitt í tæka tíð innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir 300 þús. kr. virði af veiðarfærum, þá munaði það hvorki meira né minna en 90 þús. kr., hve varan var ódýrari en áður, eða 23%. Útgerðarvörurnar nema nú fullum 8 millj. alls, svo að ef útvegurinn getur með því að fá frjálsan gjaldeyri til þessara innkaupa sparað 10–12%, nemur sá hagnaður nær einni milljón. Jafnframt verður auðvitað að ætlast til þess, að útvegsmenn hafi öll þau samtök og samvinnu, sem til hagsbóta horfir um sameiginleg innkaup og samlög um vinnslu afurða, þar sem hagur er að. Er þar glæsilegt dæmi til fyrirmyndar, þar sem er lýsisvinnsla og sölusamlag togaranna, er hefir stórbætt vöruvöndun og vöruverð á því sviði, og sama er að segja um lýsissamlag Vestmannaeyja.

Allir slíkir möguleikar þurfa að athugast af útvegsmönnum sjálfum og öðrum kunnáttumönnum í þjónustu útvegsins, en ekki koma undir einræðisvald þekkingar- og reynslulausra ofstopamanna í pólitík, eins og við hefir brunnið nú um skeið, til mikils skaða fyrir atvinnuvegina og afkomu landsins.

Það þarf að breyta launakjörum togaraskipstjóra og annara, sem hæst laun taka, því að oft hefir óánægja háseta stafað af of miklum mismun á laununum.

En jafnframt þarf að létta af útflutningsgjaldinu og lækka, svo sem unnt er, innflutningstoll á útgerðarvörum eins og öllum framleiðsluvörum til lands og sjávar.

Spor í rétta átt hefir þetta þing stigið — með afnámi útflutningsgjalds af saltfiski —, og er það viðurkenning í orði, þó að hún verði minni á borði, þar sem jafnframt er hækkaður tollur á sumu öðru til útgerðar. Útflutningstollar og tollar á þær vörur, sem til framleiðslunnar þarf, eru hættuleg tekjuöflunarleið, af því að þeir veikja líftaug þjóðfélagsins — framleiðsluna.

Þetta er því miður ekki nóg. Það þarf meira til þess, að útvegurinn fái haldið áfram og náð því burðarmagni, sem hann þarf að hafa til þess að geta í sama mæli og áður borið uppi atvinnulífið hjá helmingi þjóðarinnar og framkvæmdir ríkisins að sínum hluta.

Ýmsir munu nú hallast að þeirri leið, sem Bændafl. einn flokka hefir áður bent á til viðréttingar framleiðslunni, og telja hana, eða aðra svipaða, hina einu leið til bjargar. En með því að sú leið er nú í rannsókn hjá milliþinganefnd, er rétt að biða fyrst eftir áliti hennar. Og með því að ég vil ekki, sakir nauðsynjar málsins, færa málið yfir á flokkspólitískan grundvöll, heldur styðja að samstarfi allra flokka í þessu lífsbjargarmáli sjávarfólksins, þá skal ég ekki ræða neina eina ákveðna leið út úr ógöngunum.

En hins vænti ég, að þar sem þingi slítur nú svo, að lítið verulegt er aðhafzt til bjargar og úrræða í máli, sem jafnmikið veltur á, þá hafi ríkisstj. samvinnu við fulltrúa útvegsmanna og hanka og flokka og aðra, sem hún má góðs af vænta um lausn málsins, svo að það sé a. m. k. undirbúið af hennar hálfu, er þing kemur aftur saman.

Það má nú öllum ljóst vera, að því er til landbúnaðarins og sjávarútvegsins kemur, hversu undirbyggingin undir hinni síauknu yfirbyggingu þjóðfélagsins er veik.

Þá er iðnaðurinn. Sú atvinnugrein hefir tekið miklum framförum. Á árunum 1910–30 tvöfaldaðist tala þeirra, sem af iðnaði lifðu. En síðan hefir aukningin orðið enn örari. Er það mikill menningarauki hjá þjóðinni, hve vér erum nú í því efni meir sjálfbjarga en áður.

En iðnaðurinn, sem þotið hefir upp síðustu árin, getur minnt á vermihúsgróður, og verður að hafa sterkan fyrirvara um stuðninginn við sumar þær iðngreinir, sem vinna úr erlendu efni og hafa aðeins vaxið upp í skjóli innflutningshaftanna. Að slíku getur orðið tvísýnt happ, þegar eðlileg viðskiptasambönd hefjast, — og verið dýr baggi fyrir ríkissjóð vegna tollamissis og fyrir notendur vegna verðlags. En þegar á heildina er litið, er iðnaðurinn mikið bjargráð. Einkum á þetta við vinnslu þeirrar vöru, sem landbúnaður og sjávarútvegur framleiða. Því að mikið er undir því komið, að vér fáum gert þær framleiðsluvörur vorar sem verðmætastar með því að fullvinna þær í landinu. — Má þar einkum nefna kjöt- og mjólkuriðnaðinn, skinnaiðnaðinn og fisk- og síldariðnaðinn, sem afkoma vor veltur svo mjög á. Er það ljóst, hvar vér stæðum nú, ef vér hefðum ekki þann iðnað.

En allur þessi iðnaður er ungur. Hann á enn við ýmsa byrjunarerfiðleika að stríða, og þó að hann sé vaxinn upp af áræði og ríkum framfaraáhuga, þá þarf þar einnig fullkomna gætni og varfærni, svo að ekki verði árekstrar eða kollsigling.

Allur stóriðnaðurinn verður að selja meginvörurnar á erlendum markaði og því bundinn þeim órjúfanlegu skilyrðum, að framleiðslan verði ekki dýrari en svo, að hún beri sig með því verði. sem þar er að fá. Með því er oss algerlega stakkur skorinn um allan tilkostnað, kaup sem annað. Annars fer þessi atvinnugrein í rústir sem aðrar.

En nú hafa enn fyrir skemmstu gerzt þau tíðindi, sem sýna oss, hverjir örðugleikar eru á að reka iðnaðinn, eins og aðrar atvinnugreinir, á þeim grundvelli, að hann geti borið sig. Allir muna deiluna milli Sambands ísl. samvinnufélaga og Alþýðusambandsins nú í vetur. Sambandið hefir hafið mikinn og þjóðnýtan iðnað með því tvöfalda markmiði, að gera vörur bændanna verðmeiri og auðseljanlegri og að skapa fólkinu atvinnu við störf, sem annars hefðu verið unnin erlendis. Sambandið fór gætilega af stað, og því hefir þessi iðnaður smávaxið í höndum þess þar til iðnaðurinn er nú orðinn mikill atvinnuvegur og stórt bjargáð fyrir næststærsta bæ landsins. Þessi iðnaður S. Í. S. kom sem framrétt hönd til Akureyrarkaupstaðar einmitt þegar önnur atvinna var að dragast saman, og á bærinn því mikið undir því, að þessi iðnfyrirtæki geti borið sig. Sambandið hefir reynt að miða kaupgjaldið við getu fyrirtækjanna, og mun jafnan hafa fylgt þeirri reglu, að gefa starfsfólkinu uppbót um áramót, ef fyrirtækið hefir borið sig vel á árinu. Vinna hjá því er eftirsótt, og ekki hefir annað heyrzt en að starfsfólkið teldi sig heppið að hafa þarna fasta og örugga atvinnu. Fæst af þessu starfsfólki hefir viljað ganga í Alþýðusamband Íslands. Flest af því mun hafa viljað fá að stunda þar atvinnu sína í friði, óáreitt af forkólfum þess. — Svo kemur allt í einu aðvífandi maður frá Alþýðusambandinu og heimtar nýja samninga. Og áður en S. Í. S. fær fullt ráðrúm til að svara þessum kröfum óviðkomandi manna, þá er einn morguninn settur vörður við verksmiðjudyrnar og starfsfólkinu varnað inngöngu til vinnu sinnar. K. E. A. fær ekki vörur sínar afgreiddar beint frá skipshlið, heldur eru þær settar annarsstaðar undir lás. — Kaupfélagsstjórinn, Vilhjálmur Þór, fær ekki að komast inn í skrifstofu verksmiðjunnar, sem er í öðru húsi, til að ná í bækur og önnur áríðandi skjöl verksmiðjanna. Vörðurinn varnar honum og verksmiðjustjóranum inngöngu í sína eigin skrifstofu. Alþýðubl. skorar á fólkið að vera þolinmótt, þó verkfallið standi lengi, en loks eftir mánaðar vinnufall verður þó þunginn frá fólkinu, sem þarna á mest í að missa, svo mikill, að gengið er að svipuðum skilyrðum og S. Í. S. hafði áður gengið að, en æsingafundir hafnað. Allir sjá, hversu sá atvinnurekstur er veikur, sem á slíkt oft yfir höfði sér. Allir sjá, að meðan sá iðnrekstur, sem miðar að því að gera framleiðslu annara atvinnugreina fjölbreyttari og verðmeiri, er að ná nauðsynlegum vexti, þá má ekki íþyngja honum með álögum. Í flestum iðngreinum er undirbyggingin enn of veik til að þola aukna yfirbyggingu.

Á það hefir réttilega bent verið, að S. Í. S. er bundið þrem ófrávíkjanlegum skilyrðum í iðnrekstri sínum. Það verður að geta greitt bændunum sama verð fyrir þær vörur, sem verksmiðjurnar vinna, og fæst fyrir þær erlendis. Það verður að selja iðnvöru sína á erlendu markaðsverði, eða sambærilegu innanlands. Og það verður sem umbjóðandi samvinnubændanna að láta verksmiðjurnar bera sig. S. Í. S. getur ekki í iðnrekstri sínum farið út yfir neitt þessara takmarka. Við þetta þrennt verður það að miða iðnrekstrarútgjöld sin, — kaup eins og annað. Annars er iðnaður þess fallinn í rústir og hundruð manna svipt atvinnu sinni og lífsbjörg.

Sambandið hefir reynt að reisa iðnstofnanir sínar á traustum grundvelli. En er nokkurn tíma hægt að segja, að sá rekstur sé á traustum grundvelli, sem á slíkt ofbeldi óviðkomandi manna yfir höfði sér? S. Í. S. mun óefað af tvennu illu kjósa þann kostinn heldur að stöðva iðnrekstur sinn að meira eða minna leyti eða draga hann saman, þegar næst verður á það ráðizt, heldur en að láta kúga sig til að reka hann með fyrirsjáanlegu tapi fyrir bændastétt landsins. Og svo munu bændurnir sjálfir lita á. En svona er um allan iðnað í landinu og hvern atvinnurekstur, svona er einnig um landbúnaðinn og sjávarútveginn og hverja aðra atvinnugrein landsins. Það er ómögulegt til langframa að reka hana, ef ofbeldið eitt á að ráða, þó tapið sé fyrirsjáanlegt. Og hvað aðrar stéttir snertir, svo sem verkamenn, sjómenn og aðra, sem að atvinnuvegunum vinna, þá er það sú eina fullkomna atvinnutrygging, sem til er, að atvinnuvegirnir geti borið sig. Það var alls ekki til atvinnuleysi meðan atvinnuvegirnir báru sig. Og sama mun verða, ef atvinnureksturinn getur borið sig aftur, að þá er atvinnuleysið aftur úr sögunni. Það er lítill hagur þeim, sem fyrir kaupinu vinnur, þó að tímakaupið hækki um 1/5, ef atvinnan dregst saman um 1/5 samtímis. Það er misskilningur foringjanna ef þeir halda, að tímakaupsmaðurinn vilji ekki . heldur fá vinnu í 250 daga ársins fyrir 12 kr. á dag eða 3000 kr. á ári en að hafa 15 kr. á dag og fá aðeins 150 vinnudaga á ári, eða 2250 kr. í árstekjur. Og munu þó þær árstekjur ekki tíðari í Reykjavík nú meðal verkamanna en 3000 kr. voru með lægra tímakaupinu fyrir 8 til 9 árum. Ég býst ekki við, að nokkur verkamaður telji sig betur farinn nú með meiri dýrtíð og hærra tímakaup heldur en fyrir 9 árum, af því að þá voru fleiri atvinnudagar. Það er sem lengst atvinna og árstekjurnar, sem allt veltur á.

Á hverju valt atvinnan 1928–29? Hún valt á því, að þá höfðu menn a. m. k. enn trú á, að atvinnuvegirnir gætu borið sig. Nú er það traust að miklu horfið vegna tapanna að undanförnu og vegna útlitsins framundan. Þess vegna vofir nú e. t. v. meira atvinnuleysi yfir en nokkurn tíma áður, og það þrátt fyrir það þótt annar valdaflokkur þingsins hafi löngu lofað því að útrýma atvinnuleysinu, ef hann kæmist til valda.

Það er eina haldkvæma atvinnutryggingin, að atvinnuvegirnir fái borið sig. Þess vegna á það að vera höfuðmál allra stétta að stuðla að því, að svo geti orðið til sveita og við sjó. Hvernig hugsa embættis- og launamennirnir að lifa, ef svo gengur enn lengi, að atvinnuvegirnir ekki beri sig? Hvað verður til bjargar fyrir verkamennina, sjómennina, og iðnaðar- og verzlunarfólkið, ef framleiðslan er rekin með tapi, þangað til hún hrynur svo í rústir, að hún fær ekki aftur við reist? Og hvers virði eru þá önnur verðmæti þjóðarinnar? Hvers virði eru skipin, ef það svarar ekki kostnaði að sigla þeim út? Og hvers virði er spariféð, sem allt stendur fast í atvinnuvegum þjóðarinnar, ef atvinnuvegirnir geta ekki svarað af því vöxtum, af því að þeir fá ekki borið sig? Allir Íslendingar, hvar í stétt sem þeir standa, eiga því sitt undir því, að atvinnuvegirnir geti borið sig.

Sú eina pólitík, sem á fullan rétt á sér eins og nú horfir, er því sú, að stuðla að því á alla vegu, að framleiðslan fái borið sig. En til þess þarf hið sama að vera fyrir hendi eins og mörgum var ljóst af Akureyrardeilunni, að framleiðsluverð og framleiðslukostnaður verður að vera í samræmi hvað við annað. Það er sjálfsblekking, hver sem í hlut á, að viðurkenna ekki þetta. Þetta þarf að skiljast. Og það þarf líka að skiljast hverjum manni, hvers virði vinnufriður er í landinu. Það er skiljanlegt, að hver líti á sitt, en þegar um sameiginlega hagsmuni er að ræða, þá þarf líka að lita á fleira. Og þess vegna mega verkföll eða verkstöðvanir af hvorugs aðilja hálfu skella á fyrirvaralaust. Eitt af því, sem þjóðarheildina skiptir hvað mestu, er, að hún hafi vinnufrið. Og mér fær alls ekki skilizt það, hvers vegna allir flokkar geta ekki orðið sammála um það hér, eins og í öðrum löndum, að lögbanna fyrirvaralausar verkstöðvanir og fyrirvaralaus verkföll, því það kemur æfinlega í ljós, þegar hitinn er rokinn, að menn sjá, að svo lengi mátti a. m. k. bíða, að hafður væri fyrirvari á. En hinsvegar er mikið í húfi fyrir heildina, þegar störf stöðvast af skyndingu þegar verst stendur á. Ég hafði því ætlað, að þó að stjórnmálaflokkana greini á um vinnulöggjöf almennt, þá gætu þeir þó allir sameinazt um það eitt út af fyrir sig, að koma í veg fyrir fyrirvaralaus verkföll, og þá auðvitað fyrirvaralausar vinnustöðvanir af hendi atvinnurekenda um leið. Ég hafði vænzt, að Akureyrardeilan gæfi Framsfl. nokkurn lærdóm í þessu efni, og að hann reyndi að koma fram með aðstoð andstöðuflokkanna löggjöf um þetta eina atriði, sem allar þjóðir aðrar hafa sameinazt um og engum dettur í hug að andmæla.

Ég hefi nú reynt að gera. mönnum ljóst ástand höfuðatvinnuveganna þriggja. Ég ætla, að fáum fái dulizt það, hversu þessar undirstöður þjóðfélagsins eru veikar, og hversu þær eru allt of veik undirbygging undir síaukna yfirbyggingu. Þess vegna má ríkisvaldið ekki auka á erfiðleikana með því að íþyngja atvinnuvegunum með auknum tollum né heldur með of lágu verði gjaldeyrisins. En af því að það mál er nú í athugun sérstakrar n., skal ég ekki fara frekar inn á það.

Það hlýtur að veru öllum augljóst, þótt héðan af verði ekki hjá tollaaukningu komizt nú á þessu þingi, þá verður að staðnæmast á þeirri braut. Leiðir verða að finnast til að draga úr framleiðslukostnaði atvinnuveganna. Hefir verið bent á sumar þeirra hér á þingi, svo sem þær, að tryggja útvegsmönnum frjáls umráð eigin gjaldeyris, til að kaupa útgerðarvörur. Og er ekki örgrannt um. að þær umr. einar hafi þegar haft hagstæð áhrif á verðlagið. Þannig verður að reyna allar leiðir til að draga úr framleiðslukostnaðinum, því að framleiðsluverðið er bundið af erlendum þjóðum. Atvinnuvegunum verður að tryggja vinnufrið. og þó menn vilji ekki fara þá leið, sem jafnaðarmaðurinn Stauning fór í Danmörku um leið og hann setti réttara verð á krónuna, þá ætti þó að vera fær sú leiðin, sem allar aðrar þjóðir hafa farið, að koma í veg fyrir fyrirvaralaus verkföll og vinnustöðvanir. Það er hin eina haldkvæma trygging landsmanna, að atvinnuvegirnir fái borið sig. Þetta er í augnablikinu okkar fyrsta þjóðmál. Líf og dauði fullveldis vors og framtíð vor sem sjálfstæðrar þjóðar veltur á því, að það takizt.

Sá maður í stærri stjórnarflokknum, sem nú virðist ná betur eyrum manna utan þings en innan, mælti svo nýlega í blaðagrein út af ákveðnu máli, sem hér hefir áður verið drepið á, „að vera mætti, að það skapaði tímamót í atvinnusögu þjóðarinnar, að hér eftir verði lifað eftir því kjörorði: Atvinnulífið verður að bera sig. Og kalt og rólega verði að gera þá kröfu til allra aðilja, að þeir verði að haga sér eftir því.“ Þetta er réttilega mælt. Nauðsyn þjóðarinnar krefst þessa. En þá verður ríkisvaldið sjálft að ganga á undan og haga sér eftir því kjörorði bæði um framlög og álögur. Það getur vart orðið á valdi neins eins stjórnmálaflokks að jafna svo niður útgjöldum ríkisins og álögum, að þetta takist. Til þess þarf sameiginlega vinnu og átök, þó að valdaflokkarnir hafi hingað til viljað vera þar einráðir um. — En sjái stjórnin, hvert stefnir, og vilji hún í alvöru og einlægni bera sig saman við aðra þingflokka, þá mundi ekki standa á þeim andstöðuflokknum, sem ég tilheyri, til allrar sanngjarnrar samvinnu að þessu lífsbjargarmáli þjóðarinnar. Einn stjórnarandstöðuflokkurinn hefir að vísu áður átt samvinnu við stjórnarflokkana í fjvn. um milljónarsparnað, en hann var svikinn á málinu og gjöldin hækkuð á einni nóttu um 2 milljónir í staðinn. Þetta kennir öðrum andstöðuflokkum nokkra varfærni að vísu, því að sporin hræða. En þó verður hver flokkur að beygja sig fyrir nauðsyn þjóðarinnar. — Og að óreyndu er ekki unnt að gera ráð fyrir, að þingflokkarnir séu allir svo mönnum skipaðir, að þeir geti ekki með samvinnu fundið ráð til að sníða þjóðinni stakk eftir vexti — og bjarga þjóðinni með því að bjarga atvinnuvegunum.