21.12.1937
Neðri deild: 58. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (1268)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Frsm. minni hl. (Finnur Jónsson) :

Hv. 8. landsk. beindi til mín þungum orðum fyrir að ég hefði farið rangt með það, sem ég sagði um afborganirnar til dr. Paul, að ekki væri eftir nema eitt ár af afborgunartímanum. Ef hv. 8. landsk. kann að draga sjö frá átta, þá getur hann sannfærzt um, að ég fór með rétt mál. Siðasta afborgunin af dr. Pauls verksmiðjunni á að fara fram á árinu 1938. Í frv. stendur ekkert um hve mikið sé eftir að borga. Þar stendur: Fyrningargjöld af dr. Pauls verksmiðju, sem nú er eign ríkisins, skal eigi reikna þau tvö ár, sem eftir er að greiða fyrrv. eiganda afborgun af andvirði verksmiðjunnar samkv. samningi“. Eftir þessu ættu að vera eftir tvö ár af afborgunartímanum, og hv. 8. landsk. tekst ekki með neinum vasaprókúrator-brögðum að sanna, að ég hafi farið með rangt mál. —Hæstv. fjmrh. spurði hvort búið væri að greiða afborgun yfirstandandi árs. Ég skal upplýsa, að verksmiðjustjórnin hefir í októbermánuði beðið um, að afborgun þessi væri yfirfærð af hlaupareikningi verksmiðjanna í Landsbankanum til Barcleys Bank í London, og hefir verksmiðjustjórnin ekki ástæðu til að ætla annað en að upphæðin hafi verið greidd; það er a. m. k. ótrúlegt, að skuldir, sem ríkisstofnanir eru í erlendis, séu látnar sifja á hakanum, þegar gjaldeyri er úthlutað. Ég vil ítreka það, að hv. 8. landsk. hefir ekki lesið frv.; þar er ekki verið að tala um afborganir, sem eftir sé að greiða, heldur um ár, sem eftir séu af afborgunartímanum. Fyrir þessi áramót fer úr landi síldarlýsi frá ríkisverksmiðjunum, sem að verðmæti er um hálf millj. króna. Ég tel því engan vafa á því leika, að sé ekki búið að yfirfæra afborgun þessa árs, verði það gert fyrir áramót.

Ég er ekki orðinn því óvanur, að ég sé talinn ráða einn yfir tveimur eða þremur sjálfstæðismönnum og einum eða tveimur framsóknarmönnum, sem með mér hafa unnið. Mér kom því ekkert á óvart, þótt hv. 8. landsk. teldi mig ráða yfir fulltrúa Framsfl. í síldarverksmiðjustj. og auk þess einum utanflokka manni. Ég vil ítreka það, sem ég sagði í dag, að þetta eru ástæðulausar aðdróttanir til þeirra tveggja manna, sem báðir bera fullkomlega skyn á það, hvað þeir eru að gera, og geta haldið vel á sinni skoðun. — Hv. 8. landsk. sagði, að ég hefði beitt einræði við verksmiðjurnar til að reka menn úr vinnu, sem voru andstæðingar mínir í stjórnmálum. Það er orðin föst regla í verksmiðjunum, að sömu mennirnir vinni þar ár eftir ár, og er mjög fáum bætt við á hverju ári, ég held ekki nema einum eða tveimur á árinu 1936, eftir að núv. stjórn tók við. Árið 1937 var bætt við 10–11 mönnum, og hefi ég ekki hugmynd um, til hvers flokks þeir teljast. Það er kunnugt, að hjá þeim fyrirtækjum, sem sjálfstæðismenn ráða, er óspart beitt atvinnukúgun, en slíkt hefir ekki átt sér stað við síldarverksmiðjur ríkisins. — Hv. þm. fer hér með staðlausar aðdróttanir. Manni verður á að hugsa sem svo, þegar maður hlustar á málflutning hv. 8. landsk., að ekki þurfi mikið til þess að verða hæstaréttarmálaflm., ef slík röksemdarfærsla dugar fyrir hæstarétti. — Hv. þm. sagði, að heimildin til að kaupa síldina ákveðnu verði hafi verið sett inn í hv. Ed. Það er rétt, að Ed. setti þar samskonar ákvæði og nú gilda í lögum, og brugðust sjálfstæðismenn þar bandamönnum sínum í Framsfl. Nokkrir sjálfstæðismenn reyndu þá að koma inn ákvæði um að banna að kaupa síld föstu verði, til þess að spekúlation þeirra með síldarafurðir yrði ekki eins áhættusöm og undanfarið, en þeir þorðu þá ekki að halda því til streitu, þegar á skyldi herða, vegna þess að meðal sjómanna og útgerðarmanna var megn óánægja með það fyrirkomulag.

Ákvæði 7. gr. frv. hlýtur að verða til þess að veikja lánstraust verksmiðjanna, og mun því ákvæði vera lætt inn í l. til að vega á móti ákvæðum um leyfi til að kaupa síldina föstu verði, svo verksmiðjustjórnin sé bundin á höndum og fótum við að greiða aðeins 85% af verðinu við móttöku. En þeim finnst nauðsynlegt, framsóknar- og sjálfstæðismönnum, að rýra lánstraust verksmiðjanna, svo að hv. þm. S.-Þ. eigi hægra með að koma fram hótunum sínum um að ákveða síldarverðið með aðstoð Ólafs Thors í bankaráði Landsbankans.

Út af því, sem hv. þm. G.-K. sagði um síldarverð og lýsisverð 1936 og 1937, þá má benda á að þessi hv. þm. sagði hvað eftir annað í Morgunbl., að síldarverðið ætti að vera frá 7,74 upp í 8,14 kr. á árinu 1936. Ég benti á það í eldhúsumr. hér á dögunum, að fyrirframsala verksmiðjanna allra hefði verið 21 £ fyrir lýsið og í Alliance 22 £. Mjölverðið 1937 hefir verið 11 £ 2–6. En fyrirframsala 1936 hefði ekki verið nema £ 17–10 fyrir tonnið af lýsi og mjölverðið 8 £ eða í hæsta lagi 8 £ 5 sh. Ég benti á það í útvarpsumræðunum, að samkvæmt kröfum hv. þm. G.-K., sem hann sagðist hafa borið fram 1936 um 7–8 kr. verð á bræðslusíld, ef þær hefðu verið réttmætar, þá hefði bræðslusíldarverðið 1937 átt að verða 10–11 kr. málið a. m. k. Og það vill svo vel til, þó að oft sé ekki hægt að trúa útreikningum hv. þm., þá hefir hann sannað mitt mál algerlega í þessu. Hann sagði sem sé áðan í umr. um. þetta mál, að síldarverðið ætti að hækka um 40 aura á mál fyrir hvert £, sem lýsistonnið ætti að hækka um. Nú fæst jafnmikið af lýsi og mjöli út úr síldinni, svo að samkv. þessu — ætti síldarmálið að hækka um 80 aura samtals fyrir hvert £, sem mjöl og lýsi samtals hækka um. Nú hefir lýsið hækkað um 4 £ síðan 1936 og þangað til sala var gerð 1937, og mjöl hefir hækkað um 3 £, eða hækkun á mjöli og lýsi samtals 7 £. Eftir útreikningi hv. þm. G.-K. hefði þá verð á hverju síldarmáli átt að hækka um sem næst 2,80 kr. frá því 1936. Nú hækkuðu síldarverksmiðjur ríkisins verðið um kr. 2,70 á mál. Hv. þm. G.-K. hefir því við þessar umr. bókstaflega sannað. að það, sem ég hefi haldið fram hér um síldarverð, með því að bera saman 1936 og 1937, er alveg nákvæmlega rétt. Við hækkuðum verðið um kr. 2,70 á mál, eins og hann hélt fram, að síldarverðið hefði átt að hækka um. Ef við svo tökum til viðbótar verð það, sem hann hélt fram. að hefði átt að vera á síldinni árið 1936, við skulum segja 7.50, þá hefði síldarverðið nú á þessu ári, samkv. upplýsingum, sem hann gaf hér í þessari hv. d., átt að vera kr. 10–20 nú í sumar. Eftir kenningum hv. þm. G.-K. frá árinu 1936 hefir því síldarverðið 1937 verið ákveðið kr. 2,20 of lágt, og skyldu menn ætla, að hann hefði hafizt handa og mótmælt slíku ranglæti. En hann er allt í einu orðinn ánægður með verðið eins og það var í sumar. Nú talar hann ekkert um, að verðið sé of lágt, en þá ætlaði hann að ærast yfir, hvað það væri lágt, þó að það sé reiknað eftir nákvæmlega sömu reglu bæði árin og þótt það hafi verið kr. 2,30 of lágt í sumar eftir útreikningi hans 1936. Ástæðan fyrir þessari nýju sanngirni hv. þm. G.-K. er sú, að Kveldúlfur er nú orðinn stór síldarkaupandi.

Hv. 5. þm. Reykv. var að leita skýringa á þessu. Ég get gefið þessar skýringar, sem eru engar aðrar en þær, að hv. þm. G.-K. hefir ekki verið meiri maður en það, að á einu ári er hinn flúinn frá öllum sínum kröfum, sem hann gerði um ákvörðun síldarverðs árið 1936.

Hv. þm. G.-K. reisti sig allmikið í d. hér áðan, reigði sig aftur á bak og sagði: „Ég er ekki sá maður, að ég flýi frá. því, sem ég hefi haldið fram“, — en hann er nú á þessu ári flúinn frá því, sem hann hélt fram í fyrra. Og ástæðurnar eru, eins og ég hefi bent á, engar aðrar en hagsmunir Kveldúlfs, og af skiljanlegum ástæðum leitar hv. þm. allra bragða til þess að sjá þessu skulduga fyrirtæki borgið, jafnvel þeirra, sem eru ekki vænleg til kjörfylgis fyrir hans flokk, og reynir að velta skuldum Kveldúlfs yfir á sjómenn og útgerðarmenn hér á landi með ákvörðun síldarbræðsluverðsins. Og satt að segja, meðan ég er andstæðingur Sjálfstfl., sem ég vona, að ég verði svo lengi sem ég lifi, þá er ég ánægður með svona lélega frammistöðu formanns flokksins, svona hringsól, svona rökleysur, svona ræfilshátt, þar sem hann nú hleypur frá því, sem hann hefir haldið fram fyrir einu ári síðan um ákvörðun síldarverðsins, sem hann þá setti allt í uppnám til að verja, bara til þess að reyna að velta skuldum Kveldúlfs yfir á sjómenn. Ég er ánægður með þann flokk, sem hefir svona foringja, því að ég veit, að hann vinnur aldrei sigur í landinu.