17.12.1937
Sameinað þing: 15. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

1. mál, fjárlög 1938

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Góðir tilheyrendur. Þó hér hafi ekki sérstaklega verið minnzt á niðurstöður á rekstri ríkissjóðs á undanförnum árum, verð ég að víkja að þeim með nokkrum urðum, sem nauðsynlegum inngangi ræðu minnar. Þau ár, sem núverandi ríkisstj. hefir setið að völdum og fullnaðar reikningsskil ríkissjóðs eru fengin fyrir, árin 1935 og 1936, því reikningsskil fyrir árið 1937 eru ekki fullgerð, þar sem það er enn ekki liðið, þau ár hafa skuldir ríkissjóðsins, sem stofnað hefir verið til vegna rekstrar ríkissjóðs, staðið í stað.

Að vísu hefir orðið um 5 millj. kr. hækkun á skuldum ríkissjóðs á þessum tveimur árum, en nokkuð á fjórðu millj. kr. af þessum auknu skuldum er fé, sem farið hefir til Útvegsbankans og bankinn stendur að öllu leyti straum af, en hinu hefir verið varið til að auka eignir ríkissjóðs, til kaupa á eignunum Eyrarbakka og Stokkseyri og til sjálfvirku miðstöðvarinnar hér í Reykjavík, sem einnig stendur undir því fé, sem í hana var lagt. Þegar hinsvegar eru athugaðar skuldlausar eignir ríkissjóðs, kemur í ljós, að þær hafa vaxið um 1 millj. kr. á þessu tímabili. Af þessu er ljóst, að hagur ríkissjóðs hefir því ekki versnað, heldur batnað, miðað við árslok 1934. Ef svo litið er á vaxtabyrði ríkisjóðs, kemur í ljós, að hún hefir sama sem ekkert vaxið á þessu tímabili, eða aðeins um 40 til 50 þús. kr. Um þetta hefir ekki verið deilt, heldur hitt, að þessari niðurstöðu hafi verið náð með gífurlegri sköttum og tollum á þjóðinni heldur en nokkru sinni hafi þekkzt. Hv. þm. G.-K„ sem talaði hér áðan, sagði, að viðbótarskattar á þessu tímabili næmu 7 millj. kr. Þetta er ekki rétt. Það eina, sem rétt er að miða við, þegar athugað er hvort tollar og skattar á þjóðinni hafa hækkað eða lækkað, er heildarupphæð þessara álagna, og hún hefir verið þessi: Árið 1933 námu tollar og skattar samtals 11 millj. kr., árið 1934 12 millj. kr., árið 1935 12 millj. og 200 þús. kr., og árið 1936 12 millj. 300 þús. kr. Raunverulega hafa þá þessar álögur ekki hækkað nema um 300 þús. kr. síðan 1934. Það skal fúslega játað, að samhliða þessu hafa tekjur af ýmsum ríkisstofnunum hækkað verulega og borið uppi gjöld ríkissjóðs. Útgjöld ríkissjóðs í heild hafa hinsvegar ekki hækkað, heldur hafa þau orðið lægri en þau voru sum árin á undan. Mismunurinn vegna hærri heildartekna ríkissjóðs kemur því fram í því, að enginn halli hefir orðið á rekstrinum og eignir ríkisjóðs hafa vaxið, en ekki minnkað. Um þessa útkomu er ekki deilt, en hún viðurkennd sæmileg, og hún er sá rétti grundvöllur til að skilja það, sem um er rætt. Þrátt fyrir þetta hefir ekki náðst það, sem þarf að ná, að lækka skuldir ríkissjóðs sem nemur afborgunum af föstum lánum, án þess að taka ný lán til þess. Þetta er erfiðara hér en annarsstaðar fyrir það, hve erfitt er að fá innlend lán, og þegar næst ekki að niðurborga föstu lánin, verður að fara út fyrir landssteinana til að fá fé til þess. Þetta verður að hafa í huga, þegar dæmt er um þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið á þessu þingi hér að lútandi.

Þá skal ég víkja að því, að á fjárlfrv. eins og það var lagt fyrir Alþingi vantaði 900 þús. kr. upp á tekjur til þess að hægt væri að greiða vexti og fastar afborganir af skuldum ríkissjóðs. En því marki þarf að ná. Verkefni þingsins er því mjög erfitt að þessu sinni, — annarsvegar að jafna þennan tekjuhalla, hinsvegar að sinna margháttuðum kröfum frá landbúnaði og sjávarútvegi, sem ekki er hægt að ganga framhjá. Á ég þar sérstaklega við hvað landbúnaðinn snertir óhjákvæmilegar ráðstafanir vegna hinnar ægilegu fjárpestar. Ég býst við, hefði þessi plága ekki verið, þá mundu auknar kröfur til ríkissjóðs frá landbúnaðinum hafa verið sáralitlar eða engar. Eins og brtt. hv. fjvn. við 3. umr. fjárlfrv. bera með sér, er þar gert ráð fyrir, að tekjuhallinn verði að mestu leyti afnuminn, þannig að ríkisbúskapurinn árið 1938 verði tekjuhallalaus, ef svo vel fer, að tekjur og gjöld standist áætlun. Þegar farið var að tala um það í hv. fjvn., á hvern hátt ætti að jafna halla frv. og mæta hinum nýju kröfum, var fyrst rætt um þann möguleika, að lækka útgjöld fjárl. til þess að komast hjá því eins og unnt væri að hækka tekjur ríkissjóðs. Hv. fjvn. tókst að gera brtt. um lækkun eldri gjaldaliða fjárl. um 500–550 þús. kr., og var n. sammála um þessa lækkun. Þrátt fyrir þetta hafa útgjöld fjárl. samkv. till. n. hækkað um 700 þús. kr. Þar af fer til ráðstafana vegna fjárpestarinnar ½ millj. kr., en hinar aðrar hækkanir fara til ýmissa bráðnauðsynlegra framkvæmda í sveitunum, svo sem aukins styrks til bygginga og hækkun fjárframlaga til ýmsra héraða landsins, sem ekki þótti fært að neita. Loks voru gerðar nokkrar lækkanir á tekjuliðum, til þess að áætlunin stæðist betur í reyndinni.

Til þess að vega upp þann mismun, sem fyrir var á frv., þarf ríkissjóður að fá nýjar tekjur, sem þurfa að nema 1½ millj. kr., nema frekari niðurskurður verði gerður á gjöldum ríkissjóðs. Slíkt væri erfitt að gera, þó það væri hægt með því að snerta tilfinnanlega þá liði, sem mönnum er sárast um. Stjórnarflokkarnir telja réttara að afla nýrra tekna heldur en að snerta þá liði. Því hefir verið haldið hér fram, að það eigi að afla 2 millj. og 650 þús. með nýjum sköttum og tollum. Þetta er ekki rétt. Ríkissjóður á að fá 1½ millj. kr. í nýjum tekjum. Af því eiga 1350 þús. kr. að fara til að vega á móti útflutningsgjaldi af sjávarafurðum, sem á að fella niður. Afgangurinn fer sem hjálp eða ríkisstyrkur til bæjar- og sveitarfélaga. Reyndar ætti sá hluti ekki raunverulega að verða nýr skattur á þjóðina, því auðvitað ætti þessi hjálp til bæjar- og sveitarfélaganna að hafa þau áhrif, að bæjar- og sveitarfélögin lækkuðu álögur sínar á borgarana. Nú hefir hér nokkuð verið deilt á stjórnarflokkana fyrir að fara þessa leið, að hækka tekjur ríkissjóðs. Ég vil fyrst benda á það, að fyrir síðustu kosningar lá fyrir viðurkenning frá fulltrúum allra flokka um það, að beinir skattar hér væru orðnir það háir, að erfitt væri að hækka þá og ná í ríkissjóðinn meiri tekjum á þann hátt svo nokkru verulegu næmi. Þetta var viðurkennt af öllum flokkum með till., sem komu fram á fyrri þingum, og vil ég þar vísa til till. um vörugjald, sem óskað var eftir á ýmsum stöðum til að bæta fjárhag bæjar- og sveitarfélaga. Og síðar, þegar Framsfl. og Alþfl. hækkuðu tekju- og eignarskatt, var því haldið fram, að með því væru rýrðir tekjumöguleikar bæjar- og sveitarfélaga, þar sem hátekjumenn væru. Af þessu hlaut að leiða, að ef átti að auka tekjur ríkissjóðs, þá varð að ná þeim með almennari skattaálagningu en áður. Þar við bættist minnkandi innflutningur af þeim vörum, sem gáfu tolla og aðflutningsgjöld. Það var því óhjákvæmilegt að fara þessa leið, ef ekki ætti að skera niður gjöld ríkissjóðs samsvarandi og tekjur hans rýrnuðu. Það varð því að færa aðflutningsgjaldið, sem hvílt hafði á þeim vörum, sem hætt var að flytja inn, yfir á aðrar vörur, sem ekki höfðu borið aðflutningsgjald áður. Þetta hefði verið með öllu óforsvaranlegt, ef ekki hefði áður verið búið að hækka tekju- og eignarskattinn eins og hægt var, því það hefði þá verið ranglátt að hækka aðflutningsgjaldið. Eins er það ef innflutningur hefði verið frjáls, þá hefði ekki þurft að leggja vörugjald á nauðsynjavörur, því þá hefðu aðrar vörutegundir gefið þær tekjur, sem leitað var eftir, eins og áður var, og verið bægt að hækka toll á ónauðsynlegum vörum.

Andstöðuflokkar stjórnarinnar hafa gagnrýnt stefnu stjórnarflokkanna í þessu efni með tvennskonar hætti. Kommúnistar hafa viðurkennt, að það væri rétt að afla ríkissj. aukinna tekna, en það eigi bara að taka af þeim ríku. Þetta lætur vel í eyrum, en þeir hafa ekki bent á, hvernig eigi að fara að því; þeir hafa ekki sjálfir treyst sér til að koma með till. um hækkun á tekjuskatti. Í stað þess koma þeir með till., sem þeir segja, að eigi að gefa 1 millj. kr. í ríkissjóð, sem hv. 1. landsk. var að tala hér um áðan. Ég fullyrði, að þessi till. þeirra gefur enga millj. kr. í ríkissjóðinn, þótt hún væri samþ., auk þess sem sá skattur, sem þeir eru að tala um, mundi alls ekki fyrst og fremst lenda á hinum ríku. Ég vil í því sambandi benda á stighækkandi skatt á verzlunarhúsum. Hvar mundi sá skattur lenda? Vitanlega mundi hann lenda á vöruumsetningunni. Hann mundi verða tekinn af almenningi í landinu með hækkuðu vöruverði. Það er því meira orðaleikur en raunveruleiki bak við þessa til. hv. kommúnista.

Ég vil benda á það, að annarsstaðar, þar sem vinstri flokkar fara með stjórn, t. d. í Noregi og Danmörku, þá eru aðflutningsgjöld og tollar alveg nákvæmlega sama eðlis og hér, og hafa verið lögð á meira að segja áður en beinir skattar voru orðnir eins háir og þeir eru hér. Þessu er ekki hægt að mæla á móti. Og ég vil benda hv. fulltrúum Kommfl. á og þeim, sem þykja fögur þeirra orð, að á þeim eina stað í heiminum öðrum en Rússlandi, þar sem kommúnistar bera ábyrgð á stjórn landsins, nefnilega í Frakklandi, eru skattar á hinum efnaðri sízt hærri en hér í hlutfalli við tolla. Ég vil benda hv. þm. á, að þar er ekki búið að leggja nándar nærri eins háa skatta á þá ríku og hér, — en hvað gera kommúnistar þar? Þeir bera ábyrgð á þeirri stjórn, sem þannig hagar sér. Ekki af því, að þeir séu verri menn, heldur af því, að þeir bera ábyrgðina, og það er dálítið annað að tala en framkvæma. Frá Sjálfstfl. kemur aftur á móti sú gagnrýni, að það sé algerlega rangt að hækka tolla og skatta á þjóðinni. Tollarnir og skattarnir séu að sliga borgarana og atvinnuvegina. Ég vil nú fyrst tala um atvinnuvegina. Hvert hafa þessir tollar og skattar runnið?

Meginhlutinn af þessu fé hefir runnið til stuðnings þess atvinnuvegar, sem alltaf er talað um í þinginu af stjórnarandstæðingum, að sé verið að íþyngja með sköttum. Og hingað til hefir það a. m. k. verið svo, að sneitt hefir verið hjá því að leggja gjöld á atvinnuvegina sjálfa, þannig að það kæmi beint við þá, heldur hefir fjármagn runnið meir til þeirra en nokkurra annara aðilja. Og ég fullyrði, að með þeim tilfærslum, sem gerðar hafa verið á þennan hátt, hefir verið létt undir með atvinnuvegunum undanfarin ár með niðurfellingu á ýmsum gjöldum, t. d. landbúnaðinum, og auknum styrk til beggja aðalatvinnuveganna. Hitt er annað mál, að sjávarútvegurinn hefir orðið fyrir þungum búsifjum annarsstaðar frá, svo að þessi léttir, sem reynt hefir verið að láta honum í té, hefir hvergi nærri hrokkið til þess, að sá atvinnuvegur gæti gefið góðan árangur, a. m. k. sá hlutinn, sem byggir á saltfiskframleiðslunni. Það er hverjum heilvita manni ljóst, að engar opinberar ráðstafanir er hægt að gera, sem komið geti til leiðar, að hægt sé að reka saltfiskútgerð með árangri, með því verði og aflabrögðum, sem voru undanfarin tvö ár. Það er verið að tala um yfirbyggingu og aukna yfirbyggingu ríkissjóðs á kostnað atvinnuveganna. En ég beld, að hver einasti eyrir af þeim viðbótarálögum, sem lagðar eru nú á þjóðina og nema 1½ milljón, renni einmitt til atvinnuveganna sjálfra. Hvert halda menn, að renni það fé, sem fólgið er í afnámi á útflutningsgjaldi af saltfiski? Eða framlagið til fiskimálasjóðs, eða til stuðnings mönnum á fjárpestarsvæðinu? Eða það sem fer til að styrkja byggingar í sveitum landsins? Hvert rennur þetta fé? Til atvinnuveganna fer það, og það er vitanlega ekkert annað en orðaleikur, og hann af lélegustu tegund, þegar talað er um, að með því t. d. að auka styrk til manna á fjárpestarsvæðinu sé verið að auka yfirbygginguna á kostnað undirstöðunnar. Það væri æskilegt, að nánari grein væri gerð fyrir, hvað það er, sem gert hefir verið til að auka þessa yfirbyggingu, sem talað var um áðan. Hitt er annað mál, að það eru takmörk fyrir því, hvað hægt er að komast í því að taka fjármagn frá þjóðinni og færa gegn um ríkissj. til annara. Og það hafa núv. stjórnarfl. sýnt greinilega í sinni afgreiðslu, að þeir skilja þetta mætavel. með því að færa töluvert burt af fjárlögunum af þeim greiðslum, sem fyrir voru, til þess að þau skildu ekki hækka úr bófi fram. Ég held það hafi verið sagt áðan, að þegar slík vandræði steðjuðu að bændum sem nú með sauðfjárveikinni, þá væri skylda að hjálpa. Ég efast ekki um, að þetta sé rétt. En hvers vegna þá að horfast ekki í augu við það, að þær ráðstafanir, sem til þess verður að gera, kosta peninga. Hvers vegna að stagast á því, að þetta og hitt sé eðlilegt og heimta og heimta úr ríkissjóði, og viðurkenna ekki hitt, að það þarf að afla fjár til þess að framkvæma þessar ráðstafanir með?

Þá er það Sjálfstfl. sem ber svo ákaflega mikla umhyggju fyrir því, að af þeirri tolla- og skattahækkun, sem eigi að gera, sé svo ákaflega hætt við verðhækkun á nauðsynjavörum þjóðarinnar. Ég ætla nú bara að segja það, að það er alveg nýtilkomið, að hv. þm. G.-K. og flokkur hans beri slíkan kvíðboga fyrir þessháttar verðhækkun. Ég held mér sé óhætt að segja, að sá flokkur hefir barizt hiklaust móti þeim ráðstöfunum, sem núv. ríkisstj. hefir verið að gera undanfarið til þess að koma í veg fyrir verðhækkun, og málgagn hans gegn því, að Kaupfélagi Reykjavíkur og nágrennis og samvinnufélögunum megi takast á þessum vandræðatímum að halda niðri verði og koma í veg fyrir óeðlilega verðhækkun í skjóli innflutningshaftanna. Mér hefir ekki verið legið á hálsi fyrir annað meira en það, að ég eigi að hafa sýnt stórkostlega hlutdrægni með því að veita kaupfélaginu aukinn innflutning, eftir því sem það stækkaði að félagatölu. En kaupfélagið hefir haft þau áhrif á verðiagið hér, að tollarnir, sem nú er verið að leggja á, eru ekki nema lítið brot af þeirri upphæð, sem þetta félag er búið að spara Reykvíkingum nú þegar. Á móti þessu hefir Sjálfstfl. barizt. Þá hefi ég aldrei orðið var víð þessa viðkvæmni hjá sjálfstæðismönnum í þessu etni í sambandi við tollalög áður hér á þingi, þegar þeir hafa farið með völd. Voru það ekki sjálfstæðismenn, sem hér á Alþingi haustið 1933 heimtuðu, að ekki yrði aukinn tekju- og eignarskatturinn, en þess í stað yrði lagður tollur á kaffi og sykur? En nú koma þessir sömu menn og býsnast hér í útvarpinu yfir því, að núv. stjórnarflokkar skuli leyfa sér að bæta nokkru við þessar vörur og fleiri, af því — segja þeir — að það hafi svo mikla verðhækkun í för með sér fyrir almenning. Við afnámum gengisviðauka á sykri og kaffi haustið 1934, en árið 1935 og 1936 tók verzlunarstéttin hér í Reykjavík þennan gengisviðauka til sín. Það er hægt að sanna þetta með tölum, að á þessu tímabili fór innkaupsverð á þessum vörum heldur lækkandi, en útsöluverðið féll ekki þrátt fyrir lækkunina vegna gengisviðaukans, fyrr en kaupfélagið kom og gat komið verðlækkun á. Þá heyrðist ekkert hljóð úr horni um það frá Sjálfstfl., þó að kaupmenn tækju verðhækkunina, sem áður rann til ríkissjóðs. Þá var ekki talað um það, að það væri ómögulegt fyrir verkalýðinn og fólkið í landinu að standa undir því óskaplega verðlagi, sem á þessum vörum væri. Og ég verð að segja það, að þegar ég sé og heyri sjálfstæðismenn gráta hér haglkornum í útvarpið af meðaumkun með þeim, sem verða að greiða hærra verð vegna tolls, en eru þó í „prinsipinn“ með tollum, en móti beinum sköttum, og hafa sýnt fullan fjandskap þeirri viðleitni að forða fólki frá óeðlilegri dýrtíð, þá blöskra mér óheilindin í málafærslu flokksins. Þeim er ekkert sárt um verðhækkun, ef hún bara rennur til kaupmanna, til milliliðanna, en ekki til ríkissjóðs, til að standa undir þarflegum framkvæmdum. Þetta eru stór orð, en ég ætla, að framkoma Sjálfstfl. í Reykjavík gagnvart ráðstöfunum til varnar verðhækkun réttlæti þessi ummæli fullkomlega.

Nú skulum við hugsa okkur, að það kæmi betra árferði en verið hefir og vöruinnflutningur ykist. Er það enginn vafi, að tolltekjur ríkissjóðs myndu einnig aukast mjög mikið. Segjum, að innflutningur færi í 70 millj., sem var algengt áður, þá er hugsanlegt að lækka eitthvað af þeim sköttum, sem renna til ríkissjóðs. Hugsum okkur, að Sjálfstfl. sé þá við völd. Hvaða skatta og tolla myndi hann lækka fyrst? Það leikur enginn vafi á, að hann myndi lækka tekju og eignarskattinn fyrst, en ekki tollana, sem nú er verið að fjargviðrast út af. Á þessu leikur enginn vafi, að í stefnu allri er flokkurinn fyrst og fremst með tollaálagningu, en móti beinum sköttum. En hugsum okkur Framsfl. í sömu kringumstæðum. Hvaða tolla eða skatta mundi hann lækka? Alveg tvímælalaust þá tolla -og skatta, sem hvíla þyngst á framleiðslunni og á nauðsynjavörum almennings. Þetta er áreiðanlega rétt, og á þessu sjá menn í raun og veru, hver er hin eiginlega skattamálastefna hvors flokksins um sig. Nú skyldi maður ímynda sér, þegar Sjálfstfl. er svona ákaflega mikið á móti hækkun á sköttum af tollum, þá myndi hann sýna það í verki með flutningi tillagna, og að þau frv., sem frá flokknum kæmu, hlytu aðallega að stefna í sparnaðarátt, eða í þá átt að bæta afkomu ríkissjóðs frá því, sem er, til þess hægt væri að lækka skatta o tolla almennings. En ekki er nú því að heilsa. Ég ætla bara að lesa upp dálítinn lista yfir frv., sem fyrir liggja frá sjálfstæðismönnum hér á þingi, og hvað þau kosta ríkissjóð. Það er síldarmjölsstyrkur til bænda á óþurrkasvæðinu, 125 þús. kr. (Ég skal játa, að sumt af þessu er áætlunarupphæðir, en mjög eru þær lágar). Þá er krafizt þess, að húsmæðrakennaraskóli verði stofnaður, 60 þús. kr., drykkjumannahæli fyrir 100 þús. kr., landhelgissektir renni óskertar til þess að byggja nýtt varðskip í viðbót við þau, sem fyrir eru, ekki undir 100 þús. kr. á ári, tillag til fiskveiðasjóðs 200 þús. kr., til byggingarsjóðs sveitanna 100 þús. kr., hraðfrystihús, aldrei undir 100 þús. kr., og styrkur til niðursuðuverksmiðju, sem er hlægilega lágt áætlað 50 þús. kr. Þá er heimtað, að vitaféð renni óskert til vitarekstrar, sem er aldrei undir 100 þús. kr. Þarna er rúm milljón, sem á að leggja í nýjum útgjöldum á ríkissjóð samkv. tillögum, sem fyrir liggja í frv.-formi frá fulltrúum Sjálfstfl. á þingi. En hér er ekki nema hálfsögð sagan. Svo er frv. um afnám útflutningsgjalds á sjávarafurðum um 650 þús. kr., og að ríkissjóður láti af höndum til bæjar- og sveitarfélaga fasteignaskatt allan, hálfan tekju- og eignarskatt og 25% af útsöluverði áfengra drykkja. Tekjurýrnun af þessu fyrir ríkissjóð má áætla 2 millj. 100 þús. Útgjaldatill. eru rúm ein milljón kr., og niðurskurður á tekjum ríkissjóðs óhætt um 3 millj. kr. Þetta er samtals um 4 millj. kr. Þá þarf að mæta hallanum, sem nú er á fjárlfrv. 900 þús. Og það er meira. Svo eru þeir með flestum þeim hækkunartill., sem lagðar eru fram, styrk til plágunnar um hálfa milljón kr. (eins og allir aðrir). Og þess vegna held ég fram, að er Sjálfstæðisflokkurinn á að framkvæma þessar ráðstafanir sínar (nema ráðstafanir gagnvart plágunni um hálfa milljón), þá þyrfti að skera niður af fjárlögum milli 5 og 6 millj. króna. Og þá er eftir allur niðurskurður, sem ætti að verða þess valdandi, að skattar og tollar lækkuðu, því að þetta er miðað við óbreytt, að öðru leyti en bæjar- og sveitarfélög fengju tekjur samkv. till. þeirra. Í samræmi við þetta neita svo þessir hv. þm. að greiða atkv. í Ed. með frv. um jöfnunarsjóð sveitarfélaga, — ekki af því, að ekki sé of hátt framlagið, heldur af því, að það sé of lágt. Á sama tíma neita þeir að greiða atkv. í Nd. með afnámi af útflutningsgjaldi af saltfiski, — ekki af því, að það sé of mikið og ríkissjóður þoli það ekki, heldur af því, að það er of lítið. Þannig er samræmið í þessu. Þannig er skrípaleikurinn, sem leikinn er af stærsta þingflokki á löggjafarsamkomu þjóðarinnar. Þegar Sjálfstfl. er krafinn um það, hvernig hann færi að skapa jöfnuð á fjárl., þá eru svörin lítið annað en skætingur. Það lengsta, sem formaður flokksins hefir komizt að ræða um þetta mál, er það, að hann lýsti yfir í umr. í Nd. um viss frv., að hægt væri að gera allt í senn, auka útgjöldin og lækka skattana og tollana og bæta afkomu ríkissjóðs. Nánar aðspurður, hvernig þetta yrði skilið, lýsti hann yfir, að við það, að till. Sjálfstfl. um útgjöld og niðurskurð á tekjum yrðu teknar til greina, myndi hlaupa slíkt fjör í atvinnulífið, að gömlu skattarnir og tollarnir mundu hækka næstu ár og ekki mundi þurfa neinar áhyggjur af þessu meir að hafa. Þetta er svo sem ekkert vandamál. Það er ekki annað en auka nógu mikið útgjöld ríkissjóðs og taka nógu mikið af þessum tekjum, sem fyrir eru, þá kemur allt aftur hlaupandi í ríkissjóðinn! Ég held, að lengra verði ekki komizt í vandræðunum en með þessum yfirlýsingum hv. þm. G.-K., formanns Sjálfstfl. Og ég held, að vandfundnir verði þeir menn, sem leggi trúnað á það, að með samþ. og framkvæmdum á frv. sjálfstæðismanna muni þegar á næsta ári hlaupa slíkt fjör í atvinnulifið, að hægt væri að treysta því, að tekjur ríkissjóðs yrðu þær sömu og áður. Sannleikurinn í þessu máll er sá, að það er ekki til samræmi í till. Sjálfstfl. á Alþingi um útgjöld annarsvegar og sífelldrar kröfu hans um niðurfellingu skatta og sparnað hinsvegar. Og í raun og veru verður þetta ekki skilið nema á einn veg, — þann veg, að Sjálfstfl. brestur algerlega kjark til þess að sýna sína eigin stefnu, ef hún er þá nokkur, í frumvarpsformum hér á Alþingi. Það hefir nefnilega verið alveg ómögulegt á undanförnum árum og er enn, að á sama tíma, sem atvinnuvegir heimta aukinn opinberan stuðning og tekjur ríkissjóðs af eldri tollum fara lækkandi, að lækka skattana og tollana. Það er staðreynd, að ekki er hægt að komast hjá því að afgreiða nýja tolla og skatta til þess að vega upp tap, sem hefir orðið á þeim eldri. Og ég er ekki í vafa um það, að ef við tökum þann kost að skella skolleyrunum við þeim óskum, sem koma frá atvinnuvegunum, landbúnaði og sjávarútvegi, um aukinn stuðning í þeim vandræðum, sem að þeim steðja, ef við neitum að leggja á þessi nýju gjöld, þá eru þeir verr farnir en ef þau nýju gjaldaákvæði, sem fyrir liggja, verða samþ. Ég vil svo að endingu aðeins skora á fulltrúa Sjálfstfl. í þessum umr. að gera einu sinni grein fyrir því, hvernig beri að líta á þessar till., sem þeir hafa lagt hér fram fyrir Alþingi, hvort það beri að lita á þær sem markleysu, og ef ekki beri að líta á þær sem markleysu og lýðskrum, þá spyr ég: Hvar eru þessar 5–6 milljónir kr., sem á að fella niður, og eitt hvað til viðbótar, til þess að hægt sé að lækka skatta og tolla? Hvar eru þær?