21.12.1937
Neðri deild: 58. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (1272)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Frsm. minni hl. (Finnur Jónsson) :

Það er framför hjá hv. þm. G.-K., ef hann er nú farinn að iðrast eftir það, hvað oft hann hefir vikið að mér persónulega. Hann sagði, að sínar umr. hefðu oft lent í því að verða persónulegar og óþinglegar. Ég veit ekki, hverskonar eðli þessi hv. þm. er búinn, ef hann brýtur á móti sinu skapi með að hafa hér persónulegar og óþinglegar umr., því að sjálfsagt hafa engir aðrir gaman af þeim, og Alþ. hefir ekkert gagn af þeim, heldur þvert á móti fær það heldur ósóma af þeim. Þessi hv. þm. hefir nokkrum sinnum vikið að mér með ósæmilegum dylgjum um fjárdrátt. Hann hefir leikið sér að því að endurtaka þessar dylgjur hvað eftir annað í þinghelginni, en hinsvegar ekki dottið í hug að hafa þær yfir þar, sem ég gæti mætt honum á öðrum vettvangi. Ég legg það undir dóm hv. dm. og annara áheyrenda, hversu vel það sæmir form. Sjálfstfl. að vera búinn þannig hugrekki.

Hv. þm. G.-K. lýsti yfir því, að 2 flokkar stæðu að þessu frv. Það var ekki vitað við flutning málsins, að þetta væri Flokksmál frá báðum flokkum. Þetta eru þess vegna nýjar upplýsingar í málinu. En það mun vera staðreyndin, að hv. þm. G.-K. hafi þurft að brjóta allmjög odd af oflæti sínu til að fá að vera meðflm. að frv., þar sem hann og hans flokkur fyrst í Ed. og síðan í Nd., hefir verið neyddur til að samþ. þau 2 atriði í þessu frv., sem Sjálfstfl. hefir jafnan beitt sér gegn, en það er ákvæðið um, að ríkið skuli hafa forkaupsrétt að öllum síldarverksmiðjum einstakra manna, og hitt, að leyfi ríkisstj. þurfi að koma til, til þess að fá að byggja nýjar síldarverksmiðjur. Þetta hafa Sjálfstæðismenn nú samt unnið til að samþ. til þess, eins og hv. þm. sagði, að losa þetta stærsta fyrirtæki landsins undan áhrifum mínum eða Alþfl. Nú ætti ég ekki að þurfa að benda þessum hv. þm. á það, að Alþfl. hefir ráð á því að koma einum manni í stjórn verksmiðjanna af þessum 5, og án allrar aðstoðar annara flokka. Og ég get sömuleiðis upplýst hv. þm. um það, að ég hefi fengið þrálátar áskoranir frá mínum flokksmönnum um að gefa kost á mér til að vera í stjórninni. Það er þess vegna á mínu valdi, hvort ég fer inn í ríkisverksmiðjustj. eftir þessum nýju l. eða ekki. Og ef það er nú svo, eins og sjálfstæðismenn hafa borið fram, að ég hafi í síldarútvegsnefnd stungið 2 sjálfstæðismönnum og einum framsóknarmanni í vasann, þá virðist ekki vera loku fyrir það skotið, að ég gæti haft einhver áhrif, þó að ég yrði ekki form. n. skipaður af ráðh. Viðbára form. Sjálfstfl. um það, að þetta frv. sé borið fram til þess að losa verksmiðjurnar við yfirráð mín, er því ekki nema eins og hvert annað fleipur. Sjálfstfl. fylgir þessu máli fyrst og fremst til að vekja óeiningu milli stjórnarflokkanna. Og Sjálfstfl. hefir tekizt þetta, því að við þær umr., sem fram hafa farið um þetta mál, fær Sjálfstfl. áreiðanlega aðstöðu púkans, sem sat á fjósbitanum og fitnaði, þegar hjúin deildu. Hitt atriðið, sem hefir vakað fyrir þeim með að gerast meðflm. frv., er það, sem ég hefi áður minnzt á, um að ríkisverksmiðjurnar borgi ekki nema 85% af síldarverðinu við móttöku, til þess að verksmiðjur einstakra manna geti frekar, án mikillar áhættu, gert sig sekar um spekúlation með verzlun sína á afurðunum. Ég hefi sýnt fram á það áður, að ef þetta hefði verið þannig í sumar, þá hefði farið svo, að þeir, sem við ríkisverksmiðjurnar skiptu, hefðu fengið fullt verð fyrir síldina, af því að ríkisverksmiðjurnar seldu svo mikið af lýsinu fyrirfram og af því að ríkisverksmiðjurnar hafa alltaf verið að selja lési, þegar þeim hefir gefizt kostur á fyrir hæsta fáanlegt verð. Enda eiga þær nú ekki eftir nema 1/8 hluta af sínu lýsi. Hinsvegar á Kveldúlfur eftir um 4500 tonn af um 6000, eða m. ö. o., firmað á eftir 3/4 af sínu lýsi. Ástæðan fyrir þessu er sú, að Kveldúlfur spekúleraði með allt sítt lýsi í von um að fá hærra verð. En það hefir ekki orðið, heldur hefir lýsið þvert á móti alltaf verið að hrapa í verði. Kveldúlfur verður því í ár fyrir stórkostlegu tapi á síldinni, og það er ekki verra að hafa 15% af þessum 8 kr., sem útgerðarmenn eiga að fá, til þess að láta koma upp í tapið.

Ég þarf ekki að svara hv. 8. landsk. miklu. en út af því, sem hann var að tala um atvinnukúgun, þá vil ég skora á hann að nefna eitt einasta dæmi um, að slíkt hafi átt sér stað. (GÞ: Á þá ef til vill að reka einhvern alveg?) Mér skildist að atvinnukúgunin hefði legið í því, að menn hefðu ekki verið teknir í vinnu af pólitískum ástæðum, en svo spyr hv. þm., hvort það eigi að reka eitthvað af þessum mönnum. Ég skoða það ekki atvinnukúgun, ef menn hafa verið teknir í vinnu, þó að þeir væru pólitískir andstæðingar. Ég held, að það mundi enginn verkamaður skoða það sem atvinnukúgun, að Kveldúlfur tæki pólitíska andstæðinga Sjálfstfl. í vinnu. En ég verð að skoða það sem skort á sönnunum, ef hv. 8. landsk. getur ekki nefnt neitt dæmi um þetta. Hv. 8. landsk. sagði, að endurtekin lygi yrði aldrei að sannleika, og hafði það upp eftir mér. Ég skal staðfesta það, að viðkynning mín við þennan hv. þm. hefir sannað þetta.