22.10.1937
Efri deild: 8. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (1280)

27. mál, síldarverksmiðja á Raufarhöfn o. fl.

*Jóhann Jósefsson:

Ég þarf ekki miklu að bæta við þau rök, sem hv. fyrri flm. færði fyrir frv., en vil þó benda hv. 10. landsk. á, að þó að við sjálfstæðismenn séum með heimild fyrir ríkið til að reisa síldarverksmiðju á Raufarhöfn, þá þýðir það ekki, að við föllumst á þjóðnýtingarkenningu hans. Sjálfstæðismenn á Alþingi hafa yfirleitt ekki sett sig á móti því, að ríkið hefði forgöngu um að reisa síldarverksmiðjur, því að ljóst var, að framkvæmdir yrðu hraðastar með því, að alþjóð legðist þannig á eitt með ríkið í broddi. Það má minna á síðustu stóraukningu á ríkisverksmiðjunum á Siglufirði. Til hennar var efnt að tilstilli sjálfstæðismanna. Að sjálfstæðismenn geti haft forgöngu um, að ríkið taki að sér rekstur á ákveðnum fyrirtækjum, er alveg óskylt þjóðnýingarkenningum hv. 10. landsk., sem vill láta ríkið reka allt, smátt og stórt, hvort sem það kemur almenningi betur eða verr. Víð fordæmum ekki öll afskipti ríkisins af slíkum rekstri sem þessum.

Ég vil benda hv. 10. landsk. á það, að við sjálfstæðismenn höfum ávallt haldið fram, að ríkið ætti að hafa opna leið að því, ef henta þykir, að láta samvinnufélög sjómanna og útgerðarmanna eignast þessa verksmiðju. Mér finnst að reynslan á rekstri síldarverksmiðja ríkisins gefi glögga bendingu í þá átt, að rekstur á þessum verksmiðjum muni e. t. v. fara öllu verr úr hendi hjá ríkinu en einstaklingum. Hinsvegar verður hv. 10. landsk. að virða okkur flm. þessa frv. það til vorkunnar, þótt okkur hafi ekki verið kunnugt um allar þær umsóknir frá einstaklingum, sem liggja fyrir hjá ráðuneytinu, um að byggja síldarverksmiðjur. Mér fyrir mitt leyti er allsendis ókunnugt um þar. Og það er vitanlega sjálfsagt að athuga þetta mál í því ljósi, hvað mikið er sótzt eftir því af einstaklingum að byggja þessar verksmiðjur. Nú er það svo, að einstaklingar hafa einkanlega ráðizt í að byggja verksmiðjur á þeim stöðum, þar sem greiður aðgangur er fyrir stórskipin, togarana. En hvað Raufarhöfn snertir er þessu ekki enn til að dreifa; þar er kannske ekki nógu greiður aðgangur fyrir smærri skip. Mætti því ætla, að einstaklingar mundu tregir til, eins og nú standa sakir, að ráðast í að byggja stóra verksmiðju á Raufarhöfn.

Þó ég sé sammála meðflm. mínum um flest það, sem hann hefir sagt viðvíkjandi þessu máli, þá verð ég að gera aths. við það, að ríkið mundi setja sig á móti því, ef einhver einstaklingur vildi byggja verksmiðju á Raufarhöfn, af því að það ætti þar verksmiðju fyrir. Þessi hugmynd er hættuleg fyrir framþróun síldarbræðslumálanna. Mér finnst ekki sjálfsagt, að ríkið leggi stein í götu þeirra einstaklinga, sem hafa getu og vilja til að reisa nýjar síldarverksmiðjur, þó að þessi verksmiðja ríkisins sé komin áður. Það gæti verið hættulegt og hindrað það, að nýjar verksmiðjur rísi upp. Og afleiðingin af því, ef alltaf ætti að einblina á hag ríkisverksmiðjanna, en ekki hag fjöldans. sem er bezt borgið með því, að síldarverksmiðjur séu á sem flestum stöðum, gæti orðið sú, að ríkið fleygði krónunni, en hirti fimmeyringinn. Það er ekki örgrannt um, að þessi skoðun eigi sér nokkrar rætur hjá forráðamönnum síldarverksmiðjanna, og jafnvel hjá ríkisstj., en ég tel hana algerlega óréttmæta.

Þegar á það er litið, að Raufarhöfn er ekki ákjósanleg fyrir stærri skip, er eðlilegt, að framhjá henni sé sneitt af þeim aðiljum, sem hafa helst möguleika til þess að koma upp stórum nútíma síldarbræðsluverksmiðjum. Hinsvegar er það rétt hjá hv. 10. landsk., að mál eins og þetta eigi að athuga gaumgæfilega. Það er siður en svo, að ég muni hafa nokkuð á móti því, enda tel ég víst, að allir séu sammála um það.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. atvmrh. sagði um hinar mörgu umsóknir, sem borizt hafa, vil ég taka það fram, að þær geta vitaskuld haft áhrif á ákvarðanir þingsins um þetta sérstaka mál, sem hér liggur fyrir.

Það var sitt af hverju í ræðu hv. 10. landsk., sem mér fannst ekki eiga fulla stoð í veruleikanum, eins og t. d. það, að útgerðarmenn hefðu aldrei á undanfarandi árum látið sér koma til hugar að ryðja nýjar brautir. Ég vil í því sambandi benda á, að sjálf hugmyndin að byggingu síldarverksmiðju kom frá útgerðarmanni, og það var einstaklingur, sem byrjaði slíkan rekstur, en ekki ríkið.

Þá má minna á, að eitt útgerðarfélag hér gerði stórfellda og kostnaðarsama tilraun til að koma hraðfrystum fiski á erlendan markað. Þessi tilraun mistókst að vísu, og svo fór einnig um tilraunir ríkisins með þorskinn. En hvorki það, að tilraun sú, sem h. f. Kveldúlfur gerði til þess að koma fiski á suðurlandamarkaðinn mistókst og eins tilraunin af hálfu hins opinbera með Póllandsmarkaðinn, sannar, að það sé skakkt að gera tilraunir í þessa átt. Hitt getur verið álítamál, hvernig rétt sé að starfa að slíkum tilraunum. Og eðlilega getur sú reysla, sem menn fá þannig í þessum efnum. orðið dýrkeypt. Annars ætla ég ekki að fara út í deilur um þetta atriði, en vil aðeins benda hv. 10. landsk. á það, að hann misminnir, ef hann heldur, að útgerðarmenn hér á landi hafi aldrei látið sér til hugar koma eða reynt neitt til þess að koma sjávarafurðunum í annað horf en saltfisk. Það mætti nefna fleiri dæmi, en ég læt þetta nægja.

Ég vil fyllilega taka undir það með hv. 10. landsk., að um leið og einstaklingar eða ríkið fjölga vinnustöðvunum í landinu, sem eiga að hirða fiskaflann, ber vitanlega nauðsyn til þess að gæta að því, hvort til séu nægileg skip til að afla fiskjarins. Þetta er mjög rétt athugað, en ég geng líka út frá því vísu, að því sé eins varið með 10. landsk. og mig, að það sé fyrir hvorugum okkar dagurinn í dag, sem gefur okkur skilning á þessu atriði. Það hefir verið augljóst í mörg ár, að skipastóllinn íslenzki þarf að endurnýjast, því það má segja, að við séum orðnir mjög á eftir nágrannaþjóðunum að því er snertir fiskiskip. Með þetta fyrir augum höfum við sjálfstæðismenn nú lagt fram í fimmta sinn frv. um eflingu fiskveiðasjóðs, þannig, að hann verði betur hæfur til að leysa hlutverk sitt, en það er að hjálpa mönnum til að eignast ný fiskiskip. Ég vil taka það fram, þó þetta frv. sé ekki hér til umr., að við flm. höfum breytt stærðarákvörðunum á þeim skipum, sem sjóðurinn ætlar að lána út á, með tilliti til þeirrar reynslu, sem fengin er í því, hvaða skipastærð er hentugust fyrir síldveiðar. Svo að við hv. 10. landsk. erum sammála um nauðsynina á því að efla fiskiskipastólinn, og ég vænti hins bezta frá honum í því efni og vona, að sú stoð, sem ætlazt er til, að fiskveiðasjóður veiti til eflíngar flotanum, verði nú efld og styrkt á þessu þingi.

Ég held, að ég hafi komið að flestum þeim atriðum, sem hv. 10. landsk. minntist á í sambandi við þetta frv. og ekki var þegar svarað af hv. fyrra flm. Ég heyrði að vísu á ræðu hv. 10. landsk., að fjármálamaðurinn var kominn nokkuð ofarlega í honum, og er það ekki að undra. Það er vitanlega satt og rétt, að það er ekki hlaupið að því nú frekar en endranær að fá stórlán, jafnvel þó til arðvænlegra fyrirtækja sé. Hinsvegar vil ég ekki kannast víð, að það sé í þessum efnum farið ógætilega af hálfu okkar flm., þó að við viljum gefa ríkisstj. heimild til að koma síldarverksmiðju á fót á Raufarhöfn, þegar athugað er það mikla verðmæti, sem orðið hefir að sitja af flotanum á þessu ári, af því að ekki voru nægar verksmiðjur til. Og yfir höfuð ættu þær till. sjálfstæðismanna, sem miða að því að efla atvinnuskilyrði almennings í landinu, þó að þær hafi kostnað í för með sér, ekki að teljast ámælisverðar.

Um hin stærri mál, sem hv. 10. landsk. minntist á, skal ég vera fáorður. Það er frekar annara en mitt, að svara til um það, hverjir hafi orðið fyrstir til að ríða á vaðið með Sogsvirkjunina og önnur slík stórfyrirtæki. Ég hygg þó, að ekki sé of mikið sagt, þó fullyrt sé, að sjálfstæðismenn hér í bæ hafi átt bróðurhlutann af þeim framkvæmdum og störfum, sem legið hafa í því að koma þessu máli áfram.

Ég vil benda hv. 10. landsk. á annað atriði, sem er dálítið skylt. Það er hitaveitan, sem fyrirhugað er að leggja í fyrir Reykjavík. Mér virðist, að sagan muni ætla að endurtaka sig að því er snertir hitaveituna, eins og hún var við Sogsvirkjunina. Ég sé ekki betur en af hálfu stjórnarfl. hér í bæ sé unnið að því að draga úr því að koma hitaveitunni af stað og gera þær tilraunir, sem nú er verið að vinna að, sem tortryggilegastar. Í stuttu máli, að drepa þessu máli á dreif. Og komist þetta í framkvæmd þrátt fyrir þessar aðgerðir Alþfl., þá hygg ég, að það verði sjálfstæðismenn sem verða að bera hita og þunga dagsins af þessu verki, eins og það voru sjálfstæðismenn, sem báru hita og þunga dagsins við Sogsvirkjunina.

Þetta er að vísu ekki viðkomandi síldarverksmiðjunni á Raufarhöfn, en ég vænti þess, að hæstv. forseti virði það á betri veg, þó að ég með hógværum orðum minni hv. 10. landsk. á þá staðreynd, sem víð blasir, ef farið er að kryfja til mergjar, hverjir gengu í broddi fylkingar um þessi stóru framfaramál.