09.12.1937
Efri deild: 45. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í B-deild Alþingistíðinda. (1287)

27. mál, síldarverksmiðja á Raufarhöfn o. fl.

Frsm. 1. minni hl. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti : Þegar nál. það, sem ég stend að, var gefið út., var búið að ræða þetta mál allmikið í hv. sjútvn. M. a. var búið að leita álits formanns verksmiðjustj., og hafði hann lofað upplýsingum og tillögum frá stjórn síldarverksmiðja ríkisins, en þær voru ókomnar þegar nál. var gefið út, 22. nóv. Ég vildi þá ekki eiga það á hættu, að málið yrði saltað og dregið á langinn sökum þess, að það var ekki afgr. frá n., og réðst því í að gefa út nál. á þskj. 168, þó að hv. meðnm. mínir væru þá ekki við því búnir að láta uppi álit sitt á málinu. Hér er um svo mikið hagsmunamál fyrir vélbátaflotann að ræða, að það mátti til að afgreiðast á þessu þingi. Ég vil taka það fram, að enginn skyldi halda, að við sjálfstæðismenn hefðum í nokkru breytt skoðunum okkar á ríkisrekstri, þó að víð leggjum til, að ríkið ýti undir byggingu síldarverksmiðja á þessum og þessum staðnum. Það kemur ekki til af því að við viljum heldur, að ríkið reki þessi fyrirtæki, en eins og nú er, verða aðrir ekki til þess. Þannig er það í þessu tilfelli með Raufarhöfn.

Svo sem sjá má á nál. hv. meðnm. míns. hafa nú komið fram upplýsingar í málinu, sem ekki lágu fyrir, þegar ég gaf mitt nál. út, en í því legg ég til, að frv. verði samþ. óbreytt. Ég hafði þó þann fyrirvara, að kæmu fram í meðferð málsins nýjar upplýsingar, hefði ég óbundnar hendur til að fylgja brtt., sem fram kynnu að koma, eða koma með þær sjálfur. Það má vel vera, að við flm. frv. föllumst á að afgr. það með einhverjum breyt., ef aðalatriðinu er haldið, að reist verði á Raufarhöfn svo stór síldarverksmiðja, sem fært þykir, — svo stór, að hún komi bátaflotanum að verulegu gagni.