09.12.1937
Efri deild: 45. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (1288)

27. mál, síldarverksmiðja á Raufarhöfn o. fl.

Frsm. 2. minni hl. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Svo sem sjá má á þskj., er n. þríklofin um málið. Ég verð að byrja með að leiðrétta misskilning, sem kom fram í ræðu hv. þm. Vestm.. þó að hann væri ekki mikilvægur.. Hv. þm. var á fundi n. eftir að þær upplýsingar komu fram, er hann talaði um, en á þeim upplýsingum hefi ég byggt till. mínar. Ég get ekki fallizt á, að hægt sé að byggja 5000 mála verksmiðju á Raufarhöfn. En hitt er tvímælalaus krafa smáútvegsmanna, að verksmiðjurekstur á Raufarhöfn verði aukinn. Undanfarin sumur hefir það verið svo, að þó síld hafi hvergi fundizt fyrir öllu Norðurlandi, hefir falsverða síld verið að fá í kringum Langanes. Og er þá ómetanlegt hagræði fyrir síldveiðiflotann, einkum smærri skipin, að þurfa ekki að fara lengra með aflann en til Raufarhafnar.

Það mun hægt að vinna í gömlu verksmiðjunni, þegar bezt lætur, 1400 mál, en annars er meðalvinnsla 1200 mál. Það er kunnugt, að verksmiðjan er gömul og hefir þurft endurbóta og mikils viðhalds, og má ekki mikið á hana byggja til langframa. Það er því nauðsynlegt, að þarna komi nýtízku verksmiðja við hliðina á þeirri gömlu. Ef hnigið er að því ráði að byggja 2400 mála verksmiðju, þá eru vinnslumöguleikarnir komnir upp í 3800 mál, eða kannske 4000 mál, þegar bezt lætur. Ég verð að líta svo á, að möguleikar séu til þess að bæta úr aðkallandi þörf, ef hnigið er að þessu. En örðugleikar þeir, sem eru á því að gera þarna verksmiðju, sem sé stærri en sú, sem nú er, eru m. a. þeir, að höfnin á Raufarhöfn er afskaplega grunn og innsiglingin í sumum áttum dálítið varúðarverð. En það er nauðsynlegt, að höfnin hafi skilyrði til þess, að hin stærri skip eins og þau, sem taka síldarafurðir, og þau, sem geta komið með til verksmiðjunnar þær nauðsynjar, sem hún þarf, eins og t. d. kol og annað, það er nauðsynlegt, að slík skip geti haft nokkurn veginn greiðan gang um höfnina og upp að þeim bryggjum, sem þarf að ferma og afferma við. Nú er svo háttað á Raufarhöfn með lýsi t. d., að þar er enginn lýsisgeymir, heldur er lýsið látið á föt, en það er bæði tímafrekt og kostnaðarsamt að þurfa að nota þá aðferð. Mér er kunnugt um, að stundum, og þá sérstaklega í sumar, hefir legið við borð, að rekstur verksmiðjunnar stöðvaðist af þeirri einu ástæðu, að það vantaði tunnur. Það var að vísu reynt að bæta úr þessu. En það er almenn skoðun, að þarna þurfi að vera lýsisgeymir eins og við allar aðrar verksmiðjur, en þá þurfa að geta flotið þar skip, sem hafa lýsísgeymi. En til þess að það geti orðið, þarf að dýpka höfnina. Í öðru lagi telja þeir, sem til þekkja, að vatn, bæði til verksmiðjunnar sjálfrar og hinna mörgu skipa, sem þurfa að athafna sig þar og taka vatn til sinna nauðsynja, muni vera af skornum skammti. Ég er ekki kunnugur þarna, en því hefir verið haldið fram við mig, að þetta megi laga með ekki ýkjamiklum kostnaði.

Það er ýmislegt fleira, sem þarf að gera, en áætlanir um það liggja ekki enn fyrir, eins og drepið er á í nál. Vitamálastjóri er byrjaður að gera áætlanir um mannvirki, sem þarna þarf að gera, og sennilega geta þær verið tilbúnar handa ráðuneytinu í janúarmánuði. Engar ákveðnar kostnaðaráætlanir um þetta mannvirki liggja því fyrir, en með tilliti til þess, hvað bygging annara verksmiðja hefir kostað, þá mun ekki langt frá sanni að áætla, að svona mannvirki kosti um 1 millj. kr.

Mín brtt. fer í þá átt, að verksmiðjan verði ekki höfð stærri en það, að hún geti unnið 2400 mál á sólarhring, og ríkisstj. sé heimilt að taka að láni í þessu skyni allt að 1 millj. kr. Það getur orðið minna, ef kostnaðaráætlanir sýna, að það þurfi ekki svona mikið. Ég hefi leyft mér að leggja til, að þetta skuli unnið á næsta sumri. Mér er að vísu ekki fyllilega ljóst, hvort þetta er kleift, en þó skildist mér á einum stjórnarnefndarmanni ríkisverksmiðjanna, að ef nú þegar væri brugðið við og pantaðar vélar og annað til verksmiðjunnar, þá sé ekki útilokað, að takast mætti að koma verksmiðjunni upp, svo að hún gæti unnið á komandi sumri. Ég vil ekki fullyrða neitt um það, hvort þetta kann að reynast svo, en legg miklu áherzlu á, að það verði reynt að byggja verksmiðjuna á næsta sumri, því mér er það fyllilega ljóst, að þörfin er svo aðkallandi að stækka verksmiðjuna, að það getur valdið miklu tjóni, ef ekki er undinn bráður bugur að því.

Ég tel því ekki eins og sakir standa þörf á því að tala meira fyrir þessari till. minni.