13.12.1937
Efri deild: 48. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í B-deild Alþingistíðinda. (1297)

27. mál, síldarverksmiðja á Raufarhöfn o. fl.

*Bjarni Snæbjörnsson:

Það eru aðeins örfá orð, því að ég þarf litlu að bæta við það, sem hv. frsm. sagði. Ég vil samt minnast ofurlítið á það, sem hv. 3. landsk. sagði, að vafasamt væri, að hægt væri að reisa þessa verksmiðju á næsta ári.

Eins og hv. frsm. minntist á, þá leggjum við flm. mikla áherzlu á, að atvmrh. taki þetta mál þegar fyrir og rannsaki það, kaupi vélar og annað, sem til þess þyrfti, að hægt væri að reisa verksmiðjuna á árinn 1938, því að það er þegar upplýst af ýmsum, sem þessu máli eru kunnugir og hafa unnið þarna á sumrin, að hægt muni vera fyrir mótorbáta og línubáta að koma inn á höfnina og afferma sig þar, eins og hún er nú. Þess vegna er það gefinn hlutur að það mun verða hægt á næsta ári að reisa þessa verksmiðju, svo framarlega sem lán fæst, og ég ber það traust til hæstv. atvmrh. og forstjóra vitamálaskrifstofunnar, sem báðir eru í flokki með 3. landsk., úr því að hann álítur þetta svo slæmt fyrir smábátaflotann eins og það er, að þeir muni hrinda þessu máli í framkvæmd á næsta ári, þegar er tiltækilegt að gera það. En mér fannst skjóta skökku við ummæli hans áðan, þegar hann kom með þær aðfinnslur, að ekki væri hægt að framkvæma þetta, en nú harmar hann, að ekki sé hægt að gera þetta nógu fljótt.

Svo vil ég taka það fram, þar sem hann við 2. umr. var að tala um, að afgreiðslan gengi treglega vegna þess, að þyrfti að hafa lýsið í tunnum, þá hefi ég nú fengið þær upplýsingar, að svo er ekki, heldur er kominn lýsisgeymir þar á Raufarhöfn, sem var byggður síðasta sumar, svo að allt virðist benda til þess, að hægt verði að hefjast handa þegar á næsta ári, og óska ég því og vænti þess fastlega, að svo verði gert.