21.12.1937
Neðri deild: 56. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í B-deild Alþingistíðinda. (1305)

27. mál, síldarverksmiðja á Raufarhöfn o. fl.

Frsm. (Finnur Jónsson) :

Ég þarf ekki að fjölyrða um þetta frv. Það kemur frá hv. Ed., er borið þar fram af tveimur sjálfstæðismönnum, en afgr. í þeirri mynd, sem það nú hefir, með samkomulagi allra sjútvnm. í þeirri hv. d. Í sjútv. Nd. gerðu tveir nm. nokkurn fyrirvara. Hv. þm. N.-Þ. hefir borið fram brtt. við 1. gr., svo hljóðandi: „Ennfremur er ríkisstj. heimilt að láta á árinu 1938 eða 1939 reisa síldarverksmiðju á Þórshöfn, og miðist stærð verksmiðjunnar við það, að hún geti unnið úr um 1200 málum síldar á sólarbring“, og ætlast hv. flm. til, að þessi till. komi í stað ákvæðisins um að auka afköst síldarverksmiðjanna á Siglufirði. Gegn þessari till. mælir það fyrst og fremst, að hafnarskilyrði á Þórshöfn eru mjög slæm, og svo er mál þetta svo lítið rannsakað, að það gæti stofnað frv. í hættu, ef þessi brtt. yrði samþ. Annar nm., hv. 6. þm. Reykv., hafði þann fyrirvara, að hann taldi ekki rétt, að ríkið legði út í nýjar verksmiðjubyggingar meðan einstakir menn fengjust til þess að leggja fé í þær. Sú andstaða var þó ekki öflug, og geri ég ráð fyrir, að hv. þm. láti hagsmuni smáútvegsins að þessu sinni sitja í fyrirrúmi, þó að framkvæmdirnar, ríkisverksmiðjubygging á Raufarhöfn, gangi á móti skoðunum hans. Ég vænti þess, að frv. þetta fái góða og fljóta afgreiðslu hér í þessari hv. d., fyrst samkomulag náðist um það í hv. Ed.