21.12.1937
Neðri deild: 56. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í B-deild Alþingistíðinda. (1308)

27. mál, síldarverksmiðja á Raufarhöfn o. fl.

Frsm. (Finnur Jónsson) :

Hæstv. atvmrh. benti réttilega á það, að líkur eru til, að framkvæmdir í máli því, er hér um ræðir, dragist eitthvað á langinn vegna þeirra breyt., sem verða á stjórn síldarverksmiðja ríkisins. Núv. stjórn verksmiðjanna hefir undirbúið það, að næsta sumar verði sett sjálfvirk löndunartæki við verksmiðjurnar á Siglufirði, og ef til vill líka á Raufarhöfn. Við höfum útvegað tilboð í þetta, en getum ekki gengið frá pöntunum. vegna þess, að þar sem við gerum ráð fyrir að hætta störfum næstu daga, þá teljum við það ekki viðeigandi að gera slíkar ráðstafanir, rétt áður en ný stjórn tekur við verksmiðjunum. Ennfremur höfum við leitazt nokkuð fyrir um, hvað stækkunin mundi kosta á Siglufirði, eins og stungið er upp á í þessu frv., en við höfum ekki getað gengið frá neinu í þeim málum, vegna þess að við höfum gert ráð fyrir, að það yrði verkefni stj., sem tekur við af okkur. Nú getur þetta orðið talsvert bagalegt, vegna þess að það þarf alllangan tíma, 4–6 mán., til þess að fá þau taki, sem nauðsynleg eru til stækkunarinnar. Og ef ætti að byggja nýja verksmiðju, þá get ég vel gert mér í hugarlund, að sú töf, sem hlýtur að leiða af verksmiðjustjórnarskiptunum, gæti orðið til þess, að ekki yrði hægt að koma upp nýrri verksmiðju fyrir næsta síldveiðitíma, enda þótt samþ. þessara l. yrði hraðað sem mest.

Út af till. hv. þm. N.-Þ., að í staðinn fyrir heimildina um stækkun á Siglufirði komi heimild um verksmiðjubyggingu á Þórshöfn, vil ég benda á, að fjárhagslega er langhagkvæmast að hafa stórar verksmiðjur á fáum stöðum, en ekki smáar og á mörgum stöðum. Litlu verksmiðjurnar, sem er dreift út um allt, geta ekki staðið sig í samkeppni við stórar og vel útbúnar verksmiðjur. Sér maður þetta bezt á verksmiðjunum á Norðfirði og Seyðisfirði. Og þótt verið sé að búa til lítilsháttar hafnarmannvirki á Þórshöfn, þá er þar ekki örugg höfn, og hún er, eins og hv. þm. segir, ekki nema 13 fet um stórstraumsfjöru og ekki hægt að dýpka hana, af því að klöpp er á botninum. Það er því ekkert vit að samþ. verksmiðjubyggingu á Þórshöfn eins og er, að óathuguðu máli. Ég. held líka, að bæði sjútvn. Ed. og flestir í sjútvn. þessarar deildar, álíti, að hagkvæmast sé að framkvæma stækkunina á Siglufirði eins og stungið er upp á í frv.

Ég skal svo ekki tefja umr. meir. Ég vona að þessi brtt. hv. þ. N.-Þ., sem ég tel mjög skaðlega fyrir málið, verði felld. Aftur á móti hefir sjútvn. einum rómi lagt til, að l. yrði breytt þannig, að heimild sé til að taka lán til byggingarinnar í erlendri mynt, en það er bráðnauðsynleg breyt., sem þarf að komast fram. ef málið á að geta komizt í framkvæmd.