20.11.1937
Efri deild: 31. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í B-deild Alþingistíðinda. (1321)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Þar sem frv. þetta er flutt eftir ósk minni, þá tel ég mér skylt að gera nokkra grein fyrir því, enda þótt annar flm. þess hafi að nokkru leyti gert grein fyrir efni þess.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá er um 900 þús. kr. greiðsluhalli á fjárlagafrv. eins og það liggur fyrir núna. Um þennan greiðsluhalla þarf ekki að fjölyrða nú; ástæðurnar fyrir honum eru kunnar og hafa verið ræddar áður. Það hafa verið sett inn á fjárlögin ýms ný útgjöld til stuðnings atvinnuvegunum, og í öðru lagi hefir þróunin í skattamálunum verið sú, að tollatekjurnar hafa farið lækkandi ár frá ári, vegna minnkandi innflutnings, meðal annars vegna aukinna innflutningshafta, og ennfremur vegna aukinnar innlendrar framleiðslu. En eins og kunnugt er, þá liggja núna fyrir þinginn fyrst og fremst kröfur um það, að útflutningsgjald af sjávarafurðum sé fellt niður til styrktar sjávarútveginum, og í öðru lagi kröfur um styrk til landbúnaðarins vegna mæðiveikinnar. Þessar kröfur nema alls nokkuð á aðra millj. króna. Jafnframt þessu er farið fram á að sjá bæjar- og sveitarfélögum fyrir auknum tekjum, og nemur sú upphæð ekki mínna en 700 þús. kr. Til þess að verða við þessum kröfum þarf nokkuð mikið á 3. millj., og er því farið fram á í frv. því, sem hér liggur fyrir, að fá þessa upphæð.

Það kann nú að vera, að sumum finnist, að draga eigi úr útgjöldunum sem þessu svari, eða a. m. k. að einhverju leyti. Um þetta atriði má að sjálfsögðu ræða aftur og fram. En ætti að hverfa að því ráði, að draga úr útgjöldunum, a. m. k. svo nokkru næmi, þá gengi það fyrst og fremst út yfir það fé, sem ætlað væri til verklegra framkæmda og til stuðnings atvinnuvegunum. Það yrði að draga úr styrknum til strandferða, minnka fé til vegagerða, vitabygginga, símalagninga og útgjalda samkv. 16. gr. fjárlaganna. Að sparnaðurinn lendi á þessum framkvæmdum, verður ekki um deilt, heldur um hitt, hvort fara eigi þessa leið eða auka tekjurnar eins og farið er fram á í frv., og að flestra dómi býst ég ekki við, að annað þyki fært.

Það er gert ráð fyrir, að um helmingnum af þessum nýju tekjum verði beint til þess að auka heildartekjur ríkissjóðsins, en hinn helmingurinn, ca. 1325 þús., gangi til þess að vega upp útflutningsgjaldið, sem hættir að mestu að verða tekjuliður fyrir ríkissjóðinn, og til jöfnunarsjóðs sveitar- og bæjarfélaga.

Það hefir verið látið í veðri vaka af stjórnarandstæðingum, að þeir vilji síður fara þessa leið, að auka tekjurnar, heldur hina, að draga úr útgjöldunum. Það verður nú að virða mér til vorkunnar, þó að ég haldi, að þetta sé meira í orði en á borði hjá þeim, og byggi ég þá skoðun mína á því, að fyrir þinginu liggja nú þegar frv., sem flutt eru af aðalmönnum þeirra. er fara fram á útgjöld, sem nema hátt á aðra millj., og frá sömu mönnunum liggja og fyrir till. um það að skerða tekjur ríkissjóðs um nokkuð á 3. millj. króna. M. ö. o., að ef þessar till. þeirra yrðu samþ., þá yrði tekjuhalli fjárlaganna nokkuð á 5. millj., í stað þess sem hann er þó ekki núna nema um 900 þús. Af þessu held ég. að það geti ekki talizt frekja, þó að ég haldi, að þessi stefna andstæðinganna, að lækka útgjöld fjárlaganna í raun og veru, sé meira í orði en á borði, þar sem till. stjórnarflokkanna um aukin útgjöld og auknar tekjur eru aðeins smávægi á móti útgjaldatill. stjórnarandstæðinganna.

Ég skal þá víkja fáeinum orðum að þeim leiðum, sem farnar eru til tekjuöflunar í frv. undanförnum árum hefir tekju- og eignarskatturinn, ásamt tollum á óþörfum varningi, verið hækkaður allverulega, og með því hefir skattaálagningin í heild verið gerð réttlátari en hún hefir verið.

Eins og tekið hefir verið fram, þá eru beinu skattarnir þegar orðnir svo háir, að ekki getur talizt fært að leggja til verulega hækkun á þeim, frá því sem nú er, sérstaklega vegna þess að bæjar- og sveitarfélög leggja svo mikla skatta á eftir þeim leiðum. Hér hefir því verið farin sú leið, að leggja 10% viðauka á alla tolla og skatta. Þessi leið hefir þann kost, að hún er einföld í framkvæmd, sem líka þarf að taka tillit til, þar sem skattakerfi okkar er orðið frekar flókið. Þetta hefir og verið borið undir þá innheimtumenn ríkissjóðsins, sem mesta innheimtu hafa með höndum, og telja þeir þessa leið hentuga.

Ef ekki hefði verið hugsað um annað, en að afnema greiðsluhallann á fjárlfrv., þá hefði þetta verið nægileg ráðstöfun, en þar sem einnig þurfti að hugsa um sjávarútveginn, einhvern stuðning til hans, og einnig bæjar- og sveitarfélögin, þá varð að fara aðrar leiðir. Árið 1935 var sett á dálítið innflutningsgjald, og til viðbótar því, sem þegar hefir verið getið, var tekin sú leið, að hækka þetta aðflutningsgjald og bæta 2% við á þær vörur, sem áður voru gjaldfríar. Ég ætla þá að rekja ástæðuna fyrir því, að nauðsynlegt sé að leggja á þetta aðflutningsgjald. Ég hefi þegar drepið á, að það hefði þurft meira en 10% álag á skattana, ef átt hefði að fara þá leið eina. Undanfarin ár hefir aðflutningsgjaldið, þ. e. a. s. vöru- og verðtollurinn, lækkað vegna innflutningshaftanna, vegna þess að hinar minna nauðsynlegu vörur hafa horfið út úr innflutningnum, en eftir voru þær vörur, sem nauðsynlegri eru og minna er lagt á. Ef þess vegna tekjur ríkissjóðs hefðu ekki átt að fara lækkandi, þá hefði orðið að skattleggja þær innlendu iðnaðarvörur eða þá að hækka tolla á þeim vörum, sem inn voru fluttar. Og vegna þess að ekki þótti nægilega rannsakað, hvort iðnaðurinn gæti borið þessi útgjöld, þá þótti réttara nú í bili að hækka aðflutningsgjaldið, en hinu sleppt, að setja nýja tolla á innlendar iðnaðarvörur.

Ég vil í þessu sambandi minna menn á, að óhugsandi er, að það geti gengið til lengdar eins og að undanförnu, að innlendi iðnaðurinn, sem hér kemur upp og hefir 30–40%a tollvernd, og sumt af honum 20–30% tollvernd, og ýmislegt af þessu ekki tiltölulega nauðsynlegar vörur, selja sínar vörur ekkert ódýrara en erlendar vörur eru seldar. M. ö. o. þessi iðnfyrirtæki þurfa alla þessa tolla til þess að geta staðizt. Þannig taka þau þessa tolla til sín, sem áður fóru í ríkissjóð, og svo þarf ríkið að bæta á innfluttu vörurnar tollum, sem hljóta þá að koma niður á nauðsynlegu vörunum, því að hinar minna nauðsynlegu vörur eru framleiddar hér á landi. Þannig er þá í raun og veru mikið af þeim innlenda iðnaði atvinnubótavinna, sem menn leggja tillag til á þennan hátt, með því að greiða hærra verð fyrir þær en þyrfti, ef þær væru keyptar frá öðrum löndum. En við erum ekki eina þjóðin, sem gerir þetta, því að þetta gera flestar þjóðir, t. d. Norðurlandaþjóðirnar, því að þar hefir iðnaður í nauðsynlegum greinum jafnvel ennþá meiri tollvernd heldur en hér á landií, þannig að það er þjóðhagsleg nauðsyn að vernda iðnaðinn eitthvað með tollum, en þó geta vitanlega verið takmörk fyrir, hvað langt eigi að ganga í þeirri vernd.

Vegna þessarar stórkostlegu breyt., sem orðið hefir á innflutningnum og þar af leiðandi á tolltekjunum og iðnaðinum, þá er nauðsynlegt að taka til ýtarlegrar athugunar allt okkar tolla- og skattakerfi, ekki sízt með tilliti til iðnaðarins, en ég býst við, að slíkt geti ekki orðið gert nema með mikilli vinnu og löngum tíma. Réttast væri að setja til þess mþn., þar sem allir flokkar ættu fulltrúa, og þeirri n. falið að taka þessi mál til rækilegrar athugunar og leggja síðan fram till. Slíkt mundi a. m. k. taka eitt ár, svo flókin eru þessi mál öll saman.

Ég skal taka t. d. um það, að við erum ekki einir um að hafa þessa háu tolla til verndar fyrir iðnaðinn, að hér hefir verið athugað, hvort hægt væri að setja upp „hessian“-verksmiðju og hvort slíkar verksmiðjur væru til í Noregi, og eins hefir verið látið athuga, hvað tollarnir væru hér og í Noregi. Þá kom í ljós. að þessar verksmiðjur eru til í Noregi, en tollurinn á „hessian“ er þar 7 sinnum hærri en hér, svo að við erum ekki einir um að vernda iðnaðinn með tollaálögum, og mér virðist eftir þessu að dæma, að sumir fari lengra en við í að teygja sig í nauðsynlegar vörur. Hér er líka innlend veiðarfæragerð, og þó að hún sé ekki vernduð með tollum, þá er hún samt að sumu leyti vernduð, vegna þess að svo erfitt er að fá leyfi til innflutnings á erlendum línum.

Ég álít því, að þetta ástand allt sé þannig, að óhugsandi sé annað, sérstaklega vegna þess, hvað innlendur iðnaður hefir orðið til að taka til sín tolltekjur ríkissjóðs, án þess að almenningur hafi þó losnað við að greiða þann skatt. en að fram verði að fara almenn endurskoðun og til þess þurfi að setja mþn., sem endurskoði tollalöggjöfina og þá þróun, sem hér hefir orðið. Enginn vafi er, að ástæðan til þess, að nú er farið fram á að leggja þetta gjald á innlendar vörur, er að miklu leyti sú, að innlendi iðnaðurinn hefir svipt ríkissjóð tolltekjunum.

Ég býst við, að því verði óspart haldið fram af andstæðingunum, að þessar tollgreiðslur snerti mjög nauðsynjar manna, bæði einstaklinga og atvinnuveganna, og það er alveg rétt. En þó vil ég benda á, að 2% gjaldið, sem á að leggja á þær vörur, sem eru allra nauðsynlegastar, snerti í raun og veru lítið; það er svo lágt, að í flestum tilfellum munar ákaflega litið um það. Það kemur ákaflega létt niður í flestum dæmum, en engu að siður er það satt, að það snertir nauðsynlegustu vörurnar, en það þýðir ekkert að stinga höfðinu ofan í sandinn í sambandi við það, að ómögulegt er að ná þeim tekjum, sem ríkissjóður þarf að fá, eins og nú er komið, með því að skattleggja eingöngu óþarfavörur, af því að nú er svo örlítið af óþarfavörum flutt inn til landsins. Þær eru meira framleiddar innanlands og ekki lagður á þær tollur, og því neyðast menn til að fara inn á þessa leið, að leggja gjald á nauðsynjavörur, þangað til menn eru tilbúnir að færa tollana yfir á óþarfavörur, sem framleiddar eru í landinu sjálfu.

Í þessum efnum er alveg sama þróun hjá okkur og í öðrum löndum. Fyrst er gengið eins langt og fært er — og það er sjálfsagt — í því að leggja á beina skatta, sem eru réttlátastir, og þegar komið er svo langt í því sem menn telja sér fært, að skattleggja óþarfavörur, þá fara skattarnir að verða meira almennir, en á því er höfuðmunur, hvort slíkir almennir skattar eru fyrst lagðir á, eftir að hæfilega langt hefir verið gengið á þeirri leið, að leggja á eftir efnum og ástæðum, eða hvort þeir eru notaðir áður.

Ásakanir andstæðinganna, ef þær kunna að koma fram, um þær leiðir, sem hér eru valdar, er ekki ástæða til að taka svo mjög alvarlega með sérstöku tilliti til þess, að sá flokkur, sem þar á hlut að máli, hefir haft það sem sína aðaltekjuöflunarleið, að leggja á sem almennasta skatta, en beita sér fremur á móti að hækka beina skatta. En ef ekki hefði verið að því horfið að hækka beinu skattana eins og gert hefir verið, þá hefði það aðeins orðið til þess, að þurft hefði að hækka þessa tolla enn meira.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara lengra út í þetta mál nú, en mun seinna, t. d. við 2. umr. málsins, þegar ég geri ráð fyrir, að þetta mál verði meira rætt í einstökum atriðum, gefa upplýsingar um, hvernig þessi gjöld verka á einstakar vörutegundir og þær nauðs3wjar, sem menn finna sárast til að þurfa að leggja gjöld á.