20.11.1937
Efri deild: 31. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (1326)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Hæstv. fjmrh. hefir svarað þeim spurningum, sem hv. þm. Vestm. beindi til okkar flm. frv., svo að ég get sleppt að fara út í þær. Það er réttur skilningur hjá hv. þm. Vestm., að jöfnunarsjóður bæjar- og sveitarfélaga á, samkvæmt því frv., sem nú hefir verið lagt fram þar um, að taka að sér þá jöfnun fátækrakostnaðar, sem framfærslulög gera ráð fyrir og ákveðið er í þeim, að skuli nema 250 þús. kr. Það er rétt, að bæjar- og sveitarsjóðir fá ekki samkvæmt þessu auknar tekjur nema 450 þús. kr., en þó er það rangt, að hér sé um nokkra blekkingu að ræða í grg. frv., því að alla þá fjárhæð, sem verja á í þessu skyni, þ. e. a. s. 700 þús. kr., á að taka af tekjum ríkissjóðs, skv. því frv., sem hér liggur fyrir. Hv. þm. taldi, að ef þetta væri réttur skilningur á málinu, þá myndi þessi hjálp ná skammt. Það má vel vera, að hún nái of skammt, en ég hygg, að þessi hjálp komi bæjar- og sveitarfélögum að miklum notum, sökum þess að þetta kemur þar niður, sem þörfin er mest. Eftir því frv., sem borið hefir verið fram hér í d. um það efni, er lagt til, að bæjar- og sveitarfélögin fái þessa peninga í hlutfalli við þau útgjöld sín, sem þau hafa sízt á valdi sínu.

Viðvíkjandi skiptingu á benzínskatti til einstakra vega er sjálfsagt, að nefnd sú, sem fær málið til athugunar, athugi þá skiptingu nánar. Ég segi fyrir mig, að ég er ekkert sérstaklega ánægður með .þá skiptingu, sem ráðgerð er í frv., og ég tel sjálfsagt, að málið verði athugað.

Hv. þm. virtist telja það ábyrgðarleysi sósialista að kenna, að nú væri farið að bera fram þetta frv., m. ö. o. að svo hefði mátt halda n, að það hefði verið óþarft. Ég skal ekki fara langt út í þessar sakir, af því að hæstv. fjmrh. hefir gert það svo rækilega, en ég hygg, að réttara væri að orða þetta á aðra leið: Að nauðsynlegt er að bera þetta frv. fram og önnur tekjuöflunarfrv. handa ríkissjóði, vegna þess að þjóðin sjálf gerir sívaxandi kröfur til framlaga ríkissjóðs til atvinnuveganna og annars þess, sem talið er nauðsynlegt. Það mun ekki haldinn svo þingmálafundur neinstaðar á landinu, að ekki komi fram ádeilur á okkur framsóknarmenn, ekki einungis fyrir hvað við leggjum mikla skatta á og heimtum mikil gjöld af þjóðinni, heldur er aðaládeilan oftast sú, að við höfum verið á móti hinum og öðrum fjárkröfum. Bændafl. bar þetta mál fyrir bændur, sjálfstæðismenn báru þetta mál fyrir sjávarútveginn, en hinir vondu framsóknarmenn voru á móti því, af því að það kostaði peninga. Þessi er sónninn hjá stjórnarandstæðingum. Það má heita, að hver þingmálafundur á landinu sendi Alþingi till. um aukin fjárframlög úr ríkissjóði til þarfa þess sveitar- eða bæjarfélags, sem fundurinn er haldinn fyrir. Vestmannaeyingar eru engir eftirbátar annara í þessu efni. Þeir hafa birt sínar fundargerðir í útvarpinu, svo að þær eru alþjóð kunnar. Ég man eftir, að í fundargerð frá Vestmannaeyjum, sem kom í útvarpinu, voru samþykktar um 20 tillögur, flestar þess efnis að biðja ríkissjóð að hækka framlög til Vestmannaeyja, en ein var um það, að lækka tolla og skatta. Það er eins og þeir menn, sem bera fram svona till. vænti þess, að ríkissjóði opnist einhver peningauppspretta, sem peningarnir streymi úr, en þess að þjóðin þurfi að borga. Eftir þessum till. virðist eiga að veita Vestmannaeyjum öll hugsanleg fríðindi án þess að hugsa um önnur héruð. En mörg önnur héruð gera svipaðar kröfur, og þm. þeirra framfylgja þeim, sjálfstæðísmenn engu siður en aðrir. Afleiðingin er svo sú, að gjöld ríkissjóðs aukast, og þá um leið skapast þörf fyrir auknar tekjur. Það þýðir ekki að tala um, að útgjöld ríkissjóðs hafi vaxið síðan 1927; það er aðeins sú þróun, sem alltaf hefir verið. Útgjöld ríkissjóðs hafa stöðugt vaxið, síðan landssjóður varð til, 1874. Eftir því sem ríkisvaldið skiptir sér meira af atvinnuvegunum, hljóta gjöld ríkissjóðs auðvitað að hækka. Það má deila um, hvort þessi stefna sé rétt eða röng, að einstaklingar þjóðfélagsins hjálpist meira og meira að í lífsbaráttunni, eða hvort hitt sé réttara, að hver einstaklingur reyni að sjá sér borgið. Um þetta hefir ekkert komið skýrt fram frá Sjálfstfl. hin síðustu ár. Það hefir ekki heldur komið fram, að stefna hans væri sú, að lækka útgjöld ríkissjóðs, heldur þvert á móti. Hæstv. fjmrh. benti á, að þegar Íhaldsfl. hefði stjórnað 1921–'27, hefði hann byrjað stjórnarferil sinn með stórhækkuðum tollum og sköttum. Tollarnir voru aðallega lagðir á á þinginu 1924. Þá var fyrst og fremst lagður á 25% gengisviðauki. Þá var ekki talað um 10% eins og nú, heldur 25%. Þar að auki var þá verðtollur settur á, og þar af leiðandi hafði sú stjórn yfir meiri tekjum að ráða en áður hafði verið. Það er alveg rétt, að á þeim árum stóð þessi flokkur talsvert á móti því, að eytt væri fé úr ríkissjóði, og gætti töluverðs sparnaðar hjá flokknum þá. En þessi flokkur er nú ekki lengur til, a. m. k. ekki með því nafni. Hann lagðist niður árið 1927. Og ég vænti, að legið hafi einhverjar orsakir til þess, að flokkurinn var lagður niður eða nafni hans breytt í Sjálfstæðisflokkur. Þessi flokkur, Íhaldsflokkurinn gamli, hafði eins ég sagði áðan, sýnt nokkurn sparnaðarvilja. En hvers vegna lagði hann niður þetta nafn? Hann vildi ekki lengur heita Íhaldsflokkur. Enda er sannleikurinn sá, að einmitt um það leyti, sem þessir menn skiptu um pólitískt heiti, þá breyttist þeirra pólitíska stefna, þannig að síðan hefir ekki verið hægt að finna, að þeir hafi verið fúsari til sparnaðar á ríkisfé heldur en aðrir, og sízt það.

Þegar nú litið er á þetta frv., þá er svo langt frá því, að það sé eins og t. d. Morgunblaðið hefir verið að halda fram, að hér sé um að ræða fleiri millj. kr. aukin útgjöld, sem lögð séu á þjóðina. Eins og sýnt hefir verið fram á nú þegar í þessum umr., er hér í þessu frv. að sumu leyti um að ræða tilfærslur á gjöldum. Því að vonandi er t. d., að þegar aukið verður það fé, sem gengur til sveitar- og bæjarfélaga, þá geti útsvör lækkað að sama skapi. Eins þegar á að afnema útflutningsgjaldið af saltfiski, þá kemur þar fram gjaldahækkun á móti. Svo má líka benda á það — eins og hæstv. fjmrh. hefir nú þegar gert — hvað eldri tekjustofnar hafa rýrnað. Og ég vil taka undir það með hæstv. ráðh., sem hann beindi til hv. sjálfstæðismanna, að það kæmi skýrt fram frá þeim, annaðhvort nú undir þessum umr. eða síðar á þinginn, till. um það, hvernig eigi að mæta þeim auknu greiðslum úr ríkissjóði, sem þeir gera till. um, og yfirleitt hvernig eigi að samrýma till. þeirra við ádeilur þeirra á stj. Þeir tala um, að það þurfi að spara og að það sé óstjórn í landinu o. s. frv., það þurfi að lækka gjöld ríkissjóðs og að það eigi að borga af skuldum. En aldrei kemur fram hjá þeim með skýrum rökum, hvernig þetta má verða. Sérstaklega vildi ég nú vinsamlega óska þess, og míg hefir langað til þess fyrr, að hv. þm. Vestm. útskýrði, hvernig hann hugsaði sér í hitt eð fyrra, að þingmálafundargerðin í Vestmannaeyjum yrði framkvæmd, og þannig — sem ekki er ósanngjarnt að gera kröfu um —, að önnur héruð nytu þó jafnréttis við Vestmannaeyjar.