20.11.1937
Efri deild: 31. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (1327)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Jóhann Jósefsson:

Hæstv. fjmrh. og hv. 1. flm. hafa báðir viðurkennt þá aths., sem ég gerði og leyfði mér að halda fram, með fyrirvara þó, þangað til ég heyrði þeirra röksemdir, — þá aths., hvort hér væri aðeins um 450000 kr. að ræða sem nýja tekjuöflun fyrir bæjar- og sveitarfélög, eða hvort um 700000 kr. tekjuöflun er að ræða til þessara aðilja, eins og gefið hefir verið í skyn.

Hæstv. fjmrh. minntist á álasanir í garð stjórnarfl. fyrir það að reyna að afla tekna. Ég held, að ég hafi þvert á móti tekið fram í ræðu minni, að ég álasaði ekki hæstv. ráðh. fyrir það, að hann reyndi að afla tekna, þegar þeirra væri þörf, af hvaða ástæðum, sem þeirra er annars þörf. Það er hlutverk fjmrh., að hafa augun opin fyrir því, hvar megi afla tekna í ríkissjóð. Hitt má svo um deila, hvaða leiðir eigi að fara í því efni. En þetta, sem hæstv. ráðh. telur, að hafi verið ásakanir í sinn garð og ríkisstj., kom ekki frá mér, heldur miklu fremur bæði frá honum og 1. flm., sem báðir voru í frumræðum sínum með þessar ásakanir fyrirfram gagnvart sér sjálfum og stj., er þeir fyrirfram voru að gera ráð fyrir andmælum og þannig voru upphafsmenn þessara ásakana. (BSt: Mogginn var kominn með þær á undan.) Þær voru ekki komnar fram hér í þessari hv. d., og því ekki ástæða fyrir flm. fyrirfram að gera ráð fyrir þeim á þessum vettvangi.

Hæstv. fjmrh. minntist á góðærin 1924 og 1925 og sagði, að það væri ekki rétt hjá mér, að sömu menn stæðu að Sjálfstfl. nú sem stóðu að Íhaldsfl. þá. Það getur nú satt verið, að meiri hl. íhaldsmanna, sem þá voru á þingi, sé ekki á þingi nú. En hitt er rétt, að sömu menn. sem voru í Íhaldsfl. þá, eru í Sjálfstæðisfl. nú. Enda held ég, að hæstv. ráðh. sé það ákaflega munntamt að núa okkur íhaldsnafninu um nasir. Það er allajafna af flokksmönnum hans hlaupið í það öðrum þræði að kalla okkur íhaldsmenn.

Þá sögðu þessir hv. þm., að þeir, sem stóðu að fjármálastjórn þá, hafi hækkað tolla. Það er að vísu rétt. En sú tollahækkun var ekki eins gífurleg og þær tollahækkanir, sem mönnum eru nú sýndar af hæstv. ríkisstj. (Fjmrh: Miklu, miklu meiri). Séu saman lögð afrek stjórnarflokkanna á því árabili, sem þeir hafa farið með völd, í því efni að leggja á skatta og tolla, þá hygg ég, að við, sem fórum með völdin 1924 og 1925, komumst ekki í hálfkvisti við þá í þessu efni. En hver var nú ástæðan til þess, að svo mikið þurfti að hækka skattana árið 1924? Ástæðan var sú, að í tíð áðurverandi ráðh. höfðu safnazt fyrir feikna miklar lausaskuldir, sem ríkissjóður var kominn í af sams konar ástæðum og lausaskuldir ríkissjóðs nú stafa.

Já, hv. fjmrh. krefst mjög yfirlýsinga um það, hvaða útgjaldaliði við sjálfstæðismenn vildum ráðast á til að hækka útgjöld ríkissjóðs, og vill fá skýr svör. Hv. 1. þm. Eyf. tók undir í sama tón. Það er náttúrlega ágætt að spyrja svona. En mætti ég, áður heldur en ég kem að því máli, spyrja þá hæstv. fjmrh. og hv. 1. þm. Eyf. að annari lítilli spurningu í sambandi við það, að á þinginu 1935 var það sameiginleg yfirlýst skoðun Framsfl. og Sjálfstfl., að nauðsynlega þyrfti að skera niður eitthvað af gjöldum ríkissjóðs. Í margar vikur starfaði fjvn. þá að að því að finna leiðir til þess að minnka útgjöld ríkissjóðs í fullkomnu bróðerni milli sjálfstæðismanna og framsóknarmanna. Okkur þm. Sjálfstfl. var bent á það af okkar flokksmönnum að hafa okkur ekki mikið í frammi um fjárkröfur gagnvart ríkinu, því að nú stæði til að spara ríkisfé. Jú, það náðist samkomulag um að skera niður gjöld á ýmsum sviðum, sem námu alls um 1 millj. kr. En á meðan þetta er að fara fram í fjvn. til þess að lækka útgjöld ríkisins, þá gerir hæstv. fjmrh. baksamning við sósíalista þingsins um að hækka þessi útgjöld um 2 millj. kr. Þessir menn, sem nú krefja mig og aðra hv. sjálfstæðisþm. sagna um það, hvaða útgjaldaliði á fjárl. við nú viljum lækka, þeir kröfðu okkur sagna um þetta árið 1935. Og það kom fram þá, hvar við vildum lækka útgjöldin. En það sýndi sig, að allt starf fjvn. þá var haft að engu, varð eintóm kómedía, sem flokkur hæstv. fjmrh. var að láta fram fara, því að á meðan var af honum og hans flokki samið við sósíalista um 2 millj. kr. aukin útgjöld úr ríkissjóði. Þarna var því þessu sparnaðarverki varpað algerlega um koll. Þeir, sem stóðu að slíkri fjármálastjórn, eiga helzt að spara sér það að vera nú á ný að krefja sjálfstæðismenn sagna um það, hvar þeir vilji spara. Eða mundi það ekki fara á svipaða leið og þá? Ég hygg, að svo mundi verða, að hæstv. fjmrh. og flokksmenn hans mundu þá einnig gera baksamning, ef ekki við jafnaðarmenn, þá kommúnista, um margfalda hækkun á hinum sömu útgjöldum.

Annars get ég sagt hæstv. fjmrh. það, að margt af því, sem til hefir verið stofnað í stjórnartíð hans og þeirra í sameiningu, framsóknarmanna og jafnaðarmanna, hér á Alþ., hefir orðið til þess, bæði beint og óbeint, að stórkostleg útgjöld ríkissjóðs mundu mega missa sig að skaðlausu fyrir landsfólkið. Þó að fisk:málan. sé ekki beinlínis talin í fjárlagafrv. sem sérstakur gjaldaliður þeirra, þá er vitað, að laust eftir stofnun hennar var lagður nýr skattur á sjávarútveginn til þess að halda þessari nefnd vinnandi. Og ég ímynda mér, að erfitt sé að fá nokkurn mann, sem ekki er alveg flokkspólitískt blindaður, til þess að halda því fram, að meðferð þessarar einnar millj. kr., sem a. m. k. átti að fara til ráðstafana fiskimálan., en sumpart fór til þess að borga þús. kr. með hverju freðfisktonni, sem sent var til Ameríku, hafi verið heilbrigð meðferð á fé landsmanna. Og enn á þessi n. að fá 400000 kr. af hinum nýju sköttum, að sagt er til þess að styðja atvinnuvegi landsmanna. Ég mótmælti því algerlega, að ég hafi farið nokkuð óviðeigandi orðum um þá menn, sem eru í fiskimálan., eins og hæstv. fjmrh. virtist þó halda fram. En ég álit óvit af nokkurri fjármálastjórn, að fela á aðra millj. kr. af fé landsmanna þeim mönnum til ráðstafana fyrir sjávarútveg landsmanna, sem mestu ráða í fiskimálan. Ég álít hreint og beint óvit af hæstv. fjmrh. að standa fyrir slíku.

En það er ekki aðeins þetta nefndarbákn, sem kostar mikið fé. Hæstv. fjmrh. stóð fyrir því á sínum tíma að setja Rauðku á fót. Hvaða gagn hafa landsmenn haft af þeirri nefndarskipun? Sú meri hygg ég, að hafi orðið heldur þurftarfrek. Eða þá ferðaskrifstofu ríkisins, sem sett var á stofn af sama ráðh.? Ég held nú, að það komi til að vanta eitthvað á þessar 50000 kr., sem hér í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir, að verða muni tekjur hennar. En kostnaðurinn er áætlaður 50000 kr. við hana.

Það er ekki í einu, heldur mörgu, sem skeð hefir í stjórnartið þessa hæstv. ráðh. og með stuðningi hv. 1. þm. Eyf., að bætt hefir verið við byrðar ríkisjóðs og bæjarfélaga, sem miðar að því, á þessum síðustu 10 árum, að leggja þyngri og þyngri fjárhagslegar byrðar á þessa þjóð. Þegar nú hæstv. fjmrh. kemur hér og segist þurfa að leggja 10% skatt á alla aðflutta vöru og 10% á allan tekju- og eignaskatt, þá þarf hann ekki að halda, að það sé mestur þyrnir í augum mínum og annara, að þessar álögur þarf að leggja á í bili, heldur er hitt það ömurlegasta í þessu máli öllu, að hér er með auknum álögum verið að halda uppi fjármálastefnu, sem, ef ekki er fyrirfram dauðadæmd, þá a. m. k. á hrörnunarskeiði. Ástandið í landinu sýnir, að þessar álögur hafa ekki orðið til þess að létta undir með atvinnuvegunum, í samræmi við það sem þær kosta. Það hefði mátt miklu betur með beinum styrkveitingum létta undir með sjávarútveginum, með því að styrkja útflutning fiskjar á svipaðan hátt og Norðmenn nú gert hafa í tvö ár. „Fagra orðið forholdsvis við flest tækifæri“, var sagt um mann einn, sem farið hafði til Hafnar og þótti nota mikið þetta orð. Það er náttúrlega fallegt orð „stuðningur við atvinnuvegina“, sem maður hefir svo oft heyrt haft yfir af hv. þm. stjfl. En það má bara gæta þess, að það, sem er kallað því fagra nafni, stuðningur, verði ekki til þess að steypa. Eða hvernig lízt hæstv. ráðh. á þá fjármálastjórn, þótt hún sé ekki beint fyrir ríkissjóðinn, sem hann hefir sett yfir síldarsölumál landsmanna? Hún er þannig, að stefnan er að framleiða mjög takmarkað og selju það við sem mestu verði á pappírnum, en svo þegar á á að herða, slaka til og gefa eftir af verðinu við þá, sem búnir eru að gera fasta samninga um kaupin erlendis. Þannig hefir nú rerið farið að af yfirstjórn síldarsölumála hér, sem starfar á ábyrgð núverandi ríkisstj., að gefa eftir þannig milljónir, frá því sem samið hefir verið um. Fyrir því liggja hér á borðinu glögg skjöl frá félagi síldarsaltenda fyrir norðan. Það er stuðningur fyrir atvinnuvegina þetta!

Hv. 1. þm. Eyf. var eitthvað að tala um þingmálafundargerð í Vestmannaeyjum og að ég hefði verið mjög kröfuharður gagnvart ríkissjóði fyrir hönd Vestmannaeyja. Það er gott að fá þetta skjalfest, því að ég hefi legið undir því ámæli, að ég væri svo kröfuvægur og lingerður, að ég gerði svo sem engar kröfur fyrir kjördæmið. Svo að næst, þegar ég kem í þann eld, þá þykir mér vænt um þetta vottorð frá hv. 1. þm. Eyf., um að ég gangi allra manna lengst í kröfum. Hitt mun sá hv. þm. kannast við, að þm. eru ekki alltaf einráðir um allar till., sem bornar eru fram og samþ. á þingmálafundum. (BSt: Þær voru víst allar frá þingmanninum). Ég eyði ekki fundartímanum á þingmálafundum til að berja niður till. og óskir manna, þó að þær komi frá Vestmannaeyingum.

Ég held, að ég hafi nú svarað í öllum aðalatriðum bæði hæstv. fjmrh. og hv. 1. þm. Eyf. Og ég vil leggja þeim sérstaklega á minni, þegar þeir næst fara að krefja mig og aðra sagna um það í einstökum atriðum, hvar við viljum skera niður útgjaldaliði fjárl., þetta samstarf milli Sjálfstfl. og Framsfl. 1935 um að lækka útgjöld ríkissjóðs um eina millj. kr. og þann „fagra“ leik, er framsóknarmenn gerðu á meðan baksamning við Alþfl. um aukin útgjöld ríkissjóðs um tvær millj., sem kom sjálfstæðismönnum í opna skjöldu.

Það var á það minnzt af hæstv. fjmrh., að við sjálfstæðismenn teldum, svona út í bláinn, að vissar stjórnmálastefnur gætu haft áhrif á afkomu manna í landinu. Ennfremur fullyrti hann, að minna kæmi inn af tollum en verið hefir. Ég geri ráð fyrir að síðar á þessu þingi verði tækifæri til að athuga þetta nánar. En ég hefi ekki öll gögn við höndina nú um það. Hitt geri ég ráð fyrir, að um megi deila, hvort það skipti miklu fyrir afkomu manna í landinu, hvaða stjórnmálastefna er uppi. Mín sannfæring er, að sú stjórnmálastefna og landsmálastefna, sem verið hefir framfylgt hér á landi síðustu 10 árin, sem í öllum höfuðatriðum er sósíalistísk, hafi niðurdrepandi áhrif á atvinnulífið í landinu. Og verkin sýna þar bezt merkin á voru landi, að útgjöld ríkisins fara, að því er virðist af óviðráðanlegum ástæðum, síhækkandi, og sífellt eru lagðar nýjar og nýjar álögur á bæjarfélögin. Þegar slíkt gengur ár eftir ár, getur það ekki haft annað í för með sér en niðurdrep atvinnuveganna. Hver atvinnurekandi, sem rekur áhættusaman atvinnuveg, verður fyrir barðinu á þessari landsmála- og fjármálastefnu. Þetta miðar að því að auka atvinnuleysið í landinu, því að menn blátt áfram missa kjarkinn til þess að reka atvinnu undir þessari sósíalistísku fjármálastjórn. Ef hægt væri að sanna hinsvegar, að sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn fari nú batnandi, þá væri tími kominn til þess að bera okkur sjálfstæðismönnum það á brýn, að við værum á villigötum. Og ef atvinnuleysið minnkaði í landinu, þá væri kannske hægt að bera okkur sjálfstæðismönnum á brýn, að við værum á villigötum, en fyrr ekki.

Út af ræðu hæstv. ráðh. vil ég svo að síðustu bera fram þá ósk, honum og þjóðinni til handa, að skilningur hans á atvinnuþörf fólksins megi glæðast í framtíðinni, en ekki fara sí og æ hrakandi, eins og óneitanlega hefir verið til þessa.