22.11.1937
Efri deild: 32. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (1336)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Ég kvaddi mér hljóðs á laugardaginn út af ýmsu, sem fram kom þá í ræðum manna. Ég hefi skrifað fátt af því hjá mér og hitt er farið að falla í gleymsku, svo að ég býst við, að mér nægi þessar 10 mínútur, sem hæstv. forseti hefir úthlutað mér.

Hv. þm. Vestm. svaraði ekki þeirri fyrirspurn, sem ég beindi til hans að gefnu tilefni, um það, hvernig hann hugsaði sér, að hægt væri að samrýma þá stefnu, sem fram kom í fundargerðinni úr Vestmannaeyjum, sem ég gat um. Hann tók það ráð að afneita þessum till., sem þar höfðu komið fram, og taldi sig ekki mikið við þær riðinn. Ég man það þó, að það var beinlínis getið um það í fundargerðinni, að margar af hækkunartill. væru frá þm. og aðrar frá Páli Þorbjörnssyni. Það sýndist því hafa verið ákaflega góð samfylking þar, enda voru allar till. samþ. með öllum greiddum atkv. Þetta man ég fyrir vist. Það kom fram skýring á því, hvernig það má ske, að slíkar till. eru samþ. fyrir atbeina þm. úr Sjálfstfl. Það kom góð skýring á því, þegar hv. þm. Hafnf. fór að tala. Hann sagði, að það væri um að gera fyrir sjálfstæðismenn að sýna frekju, og játaði hann þár með að þeir gerðu það. Hann sagði, að annars væru þeir bara hundsaðir, og fór svo að tala um kjósendurna í því sambandi, því að ef þeir sýndu ekki þessa frekju, þá var hann hræddur um, að framsóknarmenn tækju frá þeim kjósendurna. Ef ég hefi tíma til, þá mun ég ef til vill víkja ofurlitið að þessari stefnu sjálfstæðisminna, sem nú er upp tekin og greinilega játuð af hv. þm. Hafnf., en ég skal sleppa því að sinni.

Hv. þm. Vestm. var að tala um, hvort ástandið hefði batnað hin síðari ár, og vildi hann, að svarið við þeirri spurningu væri jafnframt svar við því, hvernig stj. hefði verið í landinu. Hæstv. fjmrh. skýrði þetta mál, og skal ég ekki fara langt út í það. Ég skal þegar taka það fram, af því hv. þm. nefndi sérstaklega bændur í þessu sambandi, að þrátt fyrir það, þótt baendur eigi kannske verra með greiðslu en fyrir 10 árum og þeir skuldi meira en þá, þá verð ég að efa að þeir séu yfirleitt fátækari. Ég býst við, að ef það mál er rannsakað gaumgæfilega, þá komi í ljós, að nýjar framkvæmdir bænda í byggingum og ræktun muni fyllilega vega upp á móti því, sem skuldir hafa aukizt. Og þótt það hafi kannske ekki orðið sambærileg framför á sviði sjávarútvegsins þessi síðustu ár, þá ímynda ég mér, að eitthvað í sömu átt hafi skeð þar. Annars vita það allir menn, að þessi þjóð hefir á síðari árum hlotið það áfall í atvinnu sinni og .viðskiptum við aðrar þjóðir, að ég hugsa, að engin þjóð í heiminum hafi fengið sambærilegt áfall miðað við fólksfjölda og efnahag. Ég man það glöggt, og það muna sjálfsagt þeir, sem þá sátu á þingi, að fyrir 3 árum, þegar maður fór að sjá fram á, að markaðurinn á Spáni fyrir saltfisk gæti ef til vill alveg horfið, var litið svo á, og þingið tók að vissu leyti afleiðingunum af því, að ef markaðurinn hyrfi, þá væri þjóðarvoði fyrir hendi, sem menn yfirleitt ekki bjuggust við, að þjóðin myndi standast. Nú hefir það skeð; að markaðurinn á Spáni, aðalmarkaðslandi okkar, hefir algerlega tapazt og þjóðin hefir ekki komizt á vonarvöl þrátt fyrir það. Þetta álit ég, að sé sönnun fyrir því, að stjórnarfarið í landinu hafi ekki verið svo slæmt, þar sem þjóðin hefir þolað slíkt áfall. Ég hugsa t. d., að ef sambandsþjóð okkar, Danir, hefðu misst sinn markað fyrir landbúnaðarafurðir í Englandi, myndi ekki vera hátt risið á þeim núna.

Hv. þm. játaði, að ríkisstj., sem hér tók við völdum 1924, hefði hækkað stórlega skattana á þjóðinni og sá þingmeirihl., sem þá réð. Ég skal taka það fram, að Framsfl. var þá svo drenglyndur stjórnarandstöðuflokkur, að hann studdi stj. í því, af því að hann taldi það nauðsynlegt. Hv. þm. sagði, að tekjuaukningunni, sem kom samkv. þessum l., hafi allri verið varið til að borga skuldir. Það er rétt, að á næstu árum á eftir voru borgaðar skuldir. En það er dálítið annað, sem þarna kemur til greina. Kreppan frá 1920 var nýafstaðin, en upp úr 1924 komu góðæri, eins og allir kannast við, og tekjur ríkissjóðs árið 1924 eða 1925 — ég man ekki hvort árið það var — urðu hvorki meira né minna en 8 millj. kr. hærri heldur en áætlað hafði verið á fjárl. Þegar svo ber að, þá er sannarlega hægt að borga niður skuldir.

Það hefir verið minnzt á samvinnuna, sem var um það að lækka útgjöldin á fjárl. 1935, bæði af hv. þm. og öðrum. Það er alveg rétt, að sú samvinna átti sér stað 1935, en sjálfstæðismenn tala eins og það samkomulag hafi verið svikið. Ég kannast ekki við það. Það voru samþ. þá á þinginu fjölmargar lækkunartill. við fjárl. samkv. till. fjvn. Svo hækkuðu að vísu fjárl. samkv. sérstökum l., sem samþ. voru á þinginu, en slíkt hefir oft komið fyrir áður og síðan.

Það hefir kennt margra grasa í þessum umr. Það hefir verið talað um stefnu stjórnarflokkanna í höfuðatriðum og mjög margt annað, sem ekki er hægt að segja, að beinlínis komi þessu lagafrv. víð. Ég hafði eitthvað vikið að því, að Sjálfstfl. hefði breytt um stefnu nokkurnveginn samhliða því, sem hann breytti nafni og kallaði sig Sjálfstfl. Hv. 9. landsk. (MG) talaði um, að mínir flokksbræður kölluðu hann og hans flokksmenn íhaldsmenn. Ég segi fyrir mig, að ég kalla þá aldrei íhaldsflokk. Ég skal játa, að það er ekki af eintómri kurteisi. Það er meðfram af því, að ég finn ekki, að Sjálfstfl. inni skyldu sína af hendi sem íhaldsflokkur með tilliti til sparnaðar og gætni í fjármálum, en um það ber fundargerðin úr Vestmanneyjum greinilega vott, enda er það líka játað af hv. þm. Hafnf. Ef ég kærði mig um að fara að nefna Sjálfstfl. öðru nafni en því, sem hann sjálfur hefir valið, þá myndi ég ekki kalla hann íhaldsflokk, heldur lýðskrumsflokk.