22.11.1937
Efri deild: 32. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (1340)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Brynjólfur Bjarnason:

Hr. forseti! Mér hefir ekki gefizt tækifæri til að taka þátt í þessum umr. og hefi nú ekki nema tíu mínútur til umráða. Og þegar ég þarf að gera grein fyrir afstöðu minni og míns flokks, þá verð ég að stikla á mjög stóru.

Það er rétt hjá hv. flm. þessa máls, að ríkisstj. þarf á þessari tekjuaukningu að halda, sem frv. gerir ráð fyrir. En hitt mun mörgum koma á óvart, að þessara tekna er aflað með því að skattleggja hvern bita og sopa, ef svo mætti að orði komast, sem hinir fátæku neyta, og hverja spjör, sem þeir klæðast. Og enn undarlegra verður þetta, þegar þess er gætt, að þetta er borið fram af fulltrúum alþýðunnar og bændanna, Framsfl. og Alþfl. Það er enginn smáskattur, sem hér er um að ræða, hátt á 3. millj. kr. Ofurlitlu af þessari upphæð á að vísu að verja til styrktar sjávarútveginum, og er ekki nema gott eitt við því að segja. En þó að við drögum þetta frá, sem á að fara til sjávarútvegsins, þá er óhætt að segja, að alþýðan í landinu yrði röskum 2 millj. kr. fátækari en áður, þegar búið er að samþ. þetta frv. og það komið í framkvæmd. Ef þessari upphæð væri skipt niður á landsbúa, þá koma á annað hundrað kr. á hvert fimm manna heimili. Og allt þetta kemur til viðbótar við þá gífurlegu tolla á nauðsynjavöru, sem lagðir hafa verið á að miklu leyti á síðustu árum.

Það hefir verið svo í hvert skipti, sem nauðsynjavörur hafa verið tollaðar, að það hafa verið kallaðir bráðabirgðatollar. Það hefir aðeins átt að tjalda til einnar nætur, og oft hefir því verið hátíðlega lofað, að þetta yrði afnumið að ári liðnu. verðtollurinn átti aðelns að vera til bráðabirgða, þegar hann var settur á. Gengisviðaukinn átti að vera til bráðabirgða. Viðskiptagjaldið og allar hækkanir, sem síðan hafa verið gerðar á þessum tollum, áttu aðeins að vera til bráðabirgðl. Og alltaf á hverju ári hafa þessir tollar verið framlengdir og nýjum bætt við. Og enn er þetta kölluð bráðabirgðatekjuöflun. Mér finnst mál til komið, að Alþingi hætti við þessa hræsni. Allur almenningur í landinu spyr: Hvers vegna eru ekki þessi gjöld tekin af þeim ríku? Hvers vegna heldur Alþ. áfram að taka af þeim, sem ekkert eiga, en hlífa hinum, sem allt eiga?

Hv. flm. þessa frv. afsaka sig með því, að beinu skattarnir séu orðnir svo háir, að ekki sé hægt að hækka tollana ótakmarkað? Vita hv. flm. ekki, að hér í Rvík eru um 1000 menn, sem hafa yfir 6 þús. kr. í árstekjur. (PZ: 750 í ár). E. t. v. hefir tala þessara manna lækkað, en heildartekjur Reykvíkinga hafa hækkað. Og þessir menn í heild hafa, samkvæmt þeim upplýsingum, sem ég hefi hér stuðzt við, upplýsingum frá launamálanefnd —um 12 millj kr. í árslaun og sumir um 100 þús. kr. Og veit hv. flm. ekki, að hér eru um 10–20 millj. kr., sem enginn skattur er greiddur af, en komið er undan skatti? Vita þeir ekki líka, að hér eru þúsundir manna, sem hafa 1–2 þús. kr. í árslaun? Vita þeir þetta allt saman og halda þó fram, að þegar þeir þurfa að sækja á 3. millj. kr. í vasa skattþegnanna, þá sé helzt ráð að taka af þeim, sem hafa 1–2 þús. kr. í tekjur á ári, en hlífa hinum, sem hafa frá 6–100 þús.? 700 þús. kr. af þessu fé eiga að ganga til jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga. Það þýðir, að hægt er að lækka útsvörin. Það þýðir, að tollarnir eru hækkaðir til þess að lækka beina skatta.

Fátæku bæjarfélögin þurfa á hjálp að halda. Það er rétt. En er þetta rétta leiðin? Hún er sú að hjálpa þeim bæjarfélögum, sem fátækasta hafa skattþegnana, á kostnað þeirra bæjarfélaga, sem hafa bezt stæða gjaldþegna. við kommúnistar munum bera fram frv. í þessa átt, um framfærslulög, þar sem allt landið er gert að einu framfærsluhéraði. Þá höfum við lagt fram frv. um bæjarrekstur upp- og útskipunar og kvikmyndahúsa. Þetta eru ráðstafanir, sem rétt er að gera. Hvað tekjuöflun snertir, munum við bera fram á þinginu frv. um stighækkandi fasteignaskatt, stóríbúðaskatt, lúxusbifreiðaskatt, verðhækkunarskatt og vaxtaskatt. Þetta mundi nema um einni millj. kr. Ennfremur munum við taka til athugunar till. um sparnað á starfsmannahaldi ríkisins, og þar mun hægt að spara um eina millj. Þetta er allt í samræmi við till., sem stjórnarflokkarnir hafa flutt hér fyrr á þingi. Árið 1932 lagði Framsfl. fram frv. um stóríbúðarskatt og háleiguskatt, og 1933 báru nokkrir alþýðuflokksmenn, og einnig hv. þm. S.-Þ., fram frv. um sama efni. Og 1935 var borið fram af framsóknarmanni frv. um starfsmannahald ríkisins, sem hafði mjög mikinn sparnað í för með sér. Þetta virðist hafa gleymzt, þegar ríkið þarf á þessu að halda og hægt er að koma því fram. Af þessu dregur sauðsvartur almúginn þá ályktun, að flm. hafi ekkert meint með þessu. Afstaða Sjálfstfl. í þessum málum er enn þáttur út af fyrir sig. Þeir hafa á þessu þingi krafizt nýrra útgjalda fyrir ríkissjóð og jafnframt kveinað um það, hvað beinu skattarnir væru háir. Og nú þykjast þeir vera að þvo hendur sínar af tollafrv. Það þarf ekki mikla skarpskyggni til að sjá það, að ef þeir hefðu völdin, þá mundu þeir lækka beinu skattana og hækka tollana, enda er það í samræmi við þá stefnu, sem þeir hafa fylgt, er þeir hafa haft völdin.

Vitaskuld er öll þessi alþýðufjandsamlega skattstefna til komin fyrir áhrif auðvaldsins og afturhaldsins í Framsfl. Og látum vera, að vinstri menn í Framsfl. og Alþfl. telja sig tilneydda að láta undan afturhaldinu í skattamálum, en að þeir skuli ganga svo langt að taka upp skoðanir og rök afturhaldsins í þessu máli, það er það raunalegasta.