02.12.1937
Efri deild: 40. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (1344)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Fjhn. hefir athugað þetta frv. og borið það saman við gildandi lagaákvæði, en eins og segir í nál. á þskj. 219 var einn nm., hv. 1. þm. Reykv., ekki viðstaddur á þeim tveim fundum, sem n. fjallaði um málið, og hefir hann því ekki skrifað undir nál. við hinir nm. lítum svo á, að eigi sé fært annað en að samþ. frv. og sjá ríkissjóði þannig fyrir þeim tekjum, sem gert er ráð fyrir í því, og ennfremur jöfnunarsjóði bæjar- og sveitarfélaga, sem á að fá 700 þús. kr.

Út af orðum, sem féllu við 1. umr. þessa máls um skattstigann, skal ég geta þess, að sá skattstigi, sem ákveðinn er í þessu frv., er samhlj. skattstiganum í gildandi l. um bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs, en að sjálfsögðu leggst svo á hann viðauki sá, sem frv. gerir ráð fyrir, að lagður verði á öll gjöld til ríkissjóðs.

Það urðu svo miklar umr. um þetta mál við 1. umr. þess, að ég tel það nægilega rætt frá almennu sjónarmiði, og mun ég því ekki hafa þessi orð fleiri.

N. flytur eina brtt., sem er aðeins leiðrétting og þarf ekki skýringar við.