03.12.1937
Efri deild: 41. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1003 í B-deild Alþingistíðinda. (1350)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Jóhann Jósefsson:

Við 1. umr. urðu dálitlar umr. um þetta mál á víð og dreif, og í sambandi við þær var komið inn á atriði, sem mér virðist ekki vera nægilega upplýst við þær umr. Var það aðallega vegna þess, að ég hafði ekki tækifæri til að svara hæstv. fjmrh. Undir þeim umr. bar það við, að 9. landsk. (JBald) hélt því fram, að stjórn S. Í. F. hefði borið ábyrgð á því, að gengisfali varð á peningum, sem fengust fyrir seldan fisk á Ítalíu. Ég svaraði þessu og benti á, að ég teldi höfuðorsökina fyrir því, að nokkurt tjón hlauzt af þessu, liggja í aðgerðarleysi ríkisstj. og gjaldeyrisnefndar. Þessu andsvaraði svo hæstv. fjmrh. og taldi ríkisstj. og gjaldeyrisn. sýkna saka í þessu efni. Hinsvegar vildi hann halda því fram, að þetta hefði verið óviðráðanlegt, og væri litilmannlegt fyrir okkur, sem sæti eigum í stjórn S. Í. F., að minnast á þetta mál. Vegna þeirra, sem kunna að lesa þingtíðindin, kann ég ekki við, að þetta sé látið standa ómótmælt, vegna þess að nokkuð skýr gögn liggja fyrir í þessu máli, sem sýna, að stjórn S. Í. F. átti ekki sök á því tjóni, sem af þessu hlauzt. Það er vitanlegt, að það var bent á það af trúnaðarmönnum landsins, að það væri nauðsynlegt að hraða kaupum á vörum frá Ítalíu, aðallega af 3 ástæðum. Í 1. lagi væri gengisfall hugsanlegt, í 2. lagi að verðlagið færi hækkandi þar, og í 3. lagi að búast mætti við, að vörurnar gengju til þurrðar. Eins og kunnugt er, átti Ítalía í ófriði um þessar mundir. Það var síður en svo, að áherzla væri lögð á að selja fisk til Ítalíu, eins og sést bezt á því, að þetta sumar voru ekki seld nema rúm 8000 tonn af fiski þangað, eða helmingi minna en venjulega. Þ. 16. júní var þetta rætt mikið í stjórn S. Í. F., þ. e. a. s. að það mundi farnar að safnast miklar inneignir á Ítalíu og að það gæti farið svo, að það tefðist fyrir notkun þessa markaðar, ef innieignirnar héldu áfram að safnast. Það var samþ. till. í stjórn S. Í. F., sem gekk í þá átt að benda ríkisstj. á þá hættu, sem hér vofði yfir. Stj. afgr. svo þessa ályktun með bréfi til ríkisstj. þ. 25. júní, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Rvík. 25. júní 1936.

Á stjórnarfundi þ. 16. þ. m. var eftirfarandi till. samþ.:

„Til þess að ekki sé hætta á, að niður falli sölur til Ítalíu eða dragist úr hófi fram til óhagstæðis fiskieigendum, felur stjórnin framkvæmdarstjórunum að ná samkomulagi við ríkisstj. og gjaldeyrisnefnd um, að greitt verði fyrir því. að innieignir fyrir fisk á Ítalíu séu notaðar að því leyti sem unnt er og eftir því, sem þær skapast, þannig að ekki sé hætta á því, að tafið verði fyrir útflutningi á fiski til Ítalíu sökum of mikilla innieigna vorra þar. Í þessu sambandi þætti oss vænt um að mega fá leyfi til þess að ræða málið við yður og að þér tilkynnið oss, nær þér hefðuð tíma til þess.

Virðingarfyllst.

(Undirskriftir).

Til ríkisstjórnarinnar, Reykjavík.“

Þetta bréf var sent til þess að benda ríkisstj. á, hvaða afstöðu S. Í. F. tæki í þessu máli, og jafnframt ósk um það, að fá að ræða málið við hana. Svar við bréfi þessu hefir aldrei borizt, og S. Í. F. var aldrei gefinn kostur á að ræða málið við ríkisstj. Það er að vísu rétt hjá hæstv. ráðh., að það gat enginn séð það fyrir með vissu, að gengisfall mundi verða, en hitt veit hæstv. ráðh. náttúrlega vel, að slíkt vofir alltaf yfir í landi, sem á í ófriði. Staðreyndin í þessu máli er sú, að ríkisstj. gerði ekkert til að varna þeirri hættu, sem yfir vofði, og afleiðingarnar eru svo þær, að 6–700 þús. kr., sem gengisfallið kom niður á, voru lagðar á herðar þjóðarinnar með hækkuðu vöruverði.