18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

1. mál, fjárlög 1938

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) :

Hv. síðasti ræðumaður lýsti mjög greinilega hlutverki Bændafl., sem mér skildist hann telja, að væri nú með öllu lokið. Gengismálið, sem hefir verið hans aðalmál, er nú komið í örugga höfn og liggur þar, skildist mér á honum, bundið öruggum tengslum. Hitt aðalhlutverkið, sem var að gæta bróður síns — framsóknarmanna fyrir jafnaðarmönnum — hefir einnig tekizt prýðilega. Og þar með skilst mér sem raunverulegu hlutverki flokksins sé lokið, svo að hann geti skoðað sig sem slíkan úr sögunni og gengið inn í Framsfl., eins og líka raun hefir borið vitni um á þessu þingi. —

Ég kemst ekki hjá því að minnast örfáum orðum á ræðu hæstv. forsrh. bæði í dag og í gær. — Ummæli hans í gær gefa mér tilefni til þess að segja það, að því miður er það ekki svo, að nokkrar líkur og því síður vissa sé fyrir því, að sú niðurstaða hefði fengizt að því er snertir kaup og kjör verkafólks í verksmiðjunum á Akureyri, er raun varð á, ef ekki hefði til verkfalls komið. Ég harma það að vísu að þurfa að segja þetta, en það er þó satt. Ég hirði ekki að fara nákvæmlega út í þær kjarabætur, sem fengust, en vinnutíminn var lækkaður úr 9 stundum niður í 8, og 12–17% kauphækkun og nokkur uppbót fékkst þar að auki. Og það er víst, að ekki stóð þetta til boða, þegar verkfallið var hafið, og hafði þó lengi verið sótt á. Ég segi þetta af því að ég harma það, að til slíkra átaka þurfi að koma milli félagsskapa, sem eru jafnskyldir eins og samvinnufélögin og verkalýðsfélögin, og vona ég, að slíkt þurfi ekki að endurtaka sig í framtíðinni.

Út af ræðu hæstv. forsrh. í dag, þar sem hann sló því föstu, að hlutverk Framsfl. sé það að koma á því skipulagi yfirleitt, og þó sérstaklega núna, að hlutaskipti verði viðhöfð í útgerðinni, þannig að sjómenn og útgerðarmenn fái sannvirði fyrir sína vinnu, þá vil ég biðja hann að taka það til athugunar, hvort tímarnir nú séu heppilegir til þess að taka upp þessa aðferð, þegar það er margyfirlýst, að útgerðin sé rekin með tapi, og skýrslur hafa legið fyrir hjá sjálfum forsrh., sem sýna, ef þær eru réttar, að í raun og veru er ekkert eftir til þess að borga sjómönnunum, þegar búið er að greiða allar þarfir útgerðarinnar. Væri það því heppilegt að borga sannvirði vinnunnar á þessum tímum? Og hvert yrði það sannvirði og hverjir ættu að finna það út? — Ég get ekki stillt mig um að skjóta þessu fram til athugunar, þó að ég sé hæstv. forsrh. að ýmsu leyti sammála hvað þetta snertir. Því er ekki að leyna, að Frmsfl. og alþýðufl. hafa mjög mismunandi skoðanir í ýmsum greinum þjóðfélagsmálanna, en að minni hyggju er það svo, að þeir ættu að geta unnið saman að þeim málum, er snerta hagsmuni sjómanna, verkamanna, bænda og iðnaðarmanna, og á því hefir í meginatriðunum stjórnarsamvinnan byggzt til þessa. Og það er von mín, að það lánist á þessum grundvelli að halda áfram samvinnunni, því að ennþá eru svo mörg mál óleyst, eins og hæstv. forsrh. benti á, að þar er nægilegt verkefni fyrir hendi, en þá þurfa flokkarnir að hafa gagnkvæman skilning á aðstöðu og nauðsyn hvors annars.

Hv. 5. landsk. hafði þau ummæli um Þýzkalandssamninginn, að hann væri þannig úr garði gerður, að ekki mætti taka þýzka togara, sem væru við ólöglegar veiðar í landhelgi. Reyndar sagði hann við mig í viðtali á eftir, að hann hefði ekki meint þetta nákvæmlega svona, heldur á þann veg, að ekki mætti taka þýzka togara, sem væru með ólögleg veiðarfæri innan landhelginnar. Þetta er ekki heldur rétt. Ég get ekki skýrt nákvæmlega frá efni þessa samnings. því að hann er leynilegur. Það er samkomulag um að birta hann ekki, og það veit þessi hv. þm. og skákar ósanngjarnlega í því skjóli. En ég vil aðeins segja það, að engin frekari fríðindi eru í þessum samningi til handa þýzkum veiðiskipum heldur en hefir verið um mörg undanfarin ár til handa brezkum veiðiskipum, og það er ekki rétt, sem hv. þm. sagði um þetta atriði.

Sami hv. þm. var að tala um það, að heppilegra væri að byggja ný mótorskip heldur en togara, og flytur hann till. um það, að ríkissjóður ábyrgist allt að 700 þús. kr. til kaupa á slíkum skipum á árinu 1938. Ég tel afaræskilegt, að hægt sé að auka veiðiskipaflotann, en tel ekki miklar líkur til þess, þó að till. verði kannske samþ., að hægt sé að framkvæma það í bili af ýmsum ástæðum.

Ég vil þá víkja að hv. þm. G.-K. Hann var óvenjulega úfinn í skapi, sá prúði maður, og næstum því óvenjulega stórorður, þó að það sé ekki neitt nýtt. Enda skildi ég ástæðuna, því að hann má hvorki heyra né sjá mann, sem heitir Finnur Jónsson. svo að hann ekki tryllist með öllu og tapi sönsum. Hann byrjaði ræðu sína með einhverjum mesta illindavaðli, sem nokkru sinni hefir heyrzt hér á Alþ., talaði um mútur og ósæmilegt framferði og notaði yfirleitt þau verstu orð, sem hann gat upp hugsað, gersamlega frá sér numinn. Og hvert var svo tilefnið? Það er það, að Finnur hefir verið formaður sjútvn. og formaður síldarbræðslustjórnarinnar s. l. 2 ár. — Hann sagði t. d. um það, hversu hrópleg stjórn Finns Jónssonar hefði verið, að hann hefði selt lýsið fyrir £ 21 sama daginn sem annað firma, Alliance, seldi fyrir £ 22. Og þetta er rétt, og það eina rétta í ræðu hv. þm., en hann veit það mæta vel, að það var ekki hægt að selja nema það litla „partí“, sem Alliance seldi, fyrir £ 22, og annaðhvort var að selja þá fyrir £ 21 eða hver veit fyrir hvað lágt verð einhverntíma síðar. Og hvers vegna seldi ekki Kveldúlfur fyrir £ 22, úr því að það var glópskapur af Finni Jónssyni að fá ekki það verð, og hvers vegna seldi hann ekki fyrir £ 21? Hann sagði, að síldarverksmiðjur ríkisins hefðu selt fyrir £ 18 samtímis því, sem Kveldúlfur hefði getað selt fyrir £ 19. En hvers vegna gerði hann það ekki?

Ég hirði svo ekki að hafa um þetta fleiri orð. En viðvíkjandi störfum síldarútvegsnefndar má benda á það, að samtímis því sem Norðmenn stórtapa á síldveiðunum og verða að eyðileggja mikið af sinni síld, er útlit fyrir, að okkur lánist að selja við sæmilegu verði alla okkar framleiðslu, og sumt af henni fyrir mjög hátt verð.

Hv. þm. G.-K. taldi, að það væri býsna hart að fara þá leið í skattamálum að sækja féð beint ofan í vasa skattborgaranna. Ég verð nú að segja það, að mér er með öllu óskiljanlegt, hvaða aðra leið ríkisstj. á að fara til þess að fá fé heldur en þá að taka það úr buddu skattborgaranna, nema þá með því að taka lán eða fara inn á stórfeldan ríkisrekstur. sem verði til hagnaðar fyrir ríkissjóð, eins og gert er nú að nokkru leyti hér, með t. d. einkasölu á tóbaki og áfengi, sem að vísu er ekki ánægjuleg verzlun. En ég kann engin tök til þess að taka tolla og skatta af fólkinu á annan hátt en þann að taka það úr buddu þess.

Um setu mína í ráðuneytinu sagði hv. þm. G.-K., að það væri Alþfl. og mér til hinnar mestu háðungar að sitja áfram í ráðherrastóli. Hann verður nú að sætta sig við það, að ég fer ekki að hans orðum um það, hvort ég sit lengur eða skemur í ráðherrastóli. Ég skýrði frá því í gær, að vegna ágreinings, sem varð milli stjórnarflokkanna, og vegna þeirrar yfirlýsingar, sem ég gaf á síðasta þingi. var efnt til kosninganna nú í sumar, og þær felldu þann stóra dóm yfir „breiðfylkingunni“, að þjóðin vildi ekki með nokkru móti, að hún kæmist til valda. Átti ég þá að óska þess, að „breiðfylkingunni“, t. d. hv. þm. G.-R. og hans flokksmönnum, yrði falið. að mynda stjórn, þegar vilji kjósendanna var greinilega sá, að haldið yrði áfram því samstarfi, sem verið hafði milli Framsfl. og Alþfl? Að gera slíkt hefði verið svik við kjósendur.

Um það samkomulag, sem varð milli stjórnarflokkanna, sé ég ekki ástæðu til að vera fjölorður, en vil aðeins benda á það, að aldrei nokkurntíma fyrr hefir verið hér á Alþ. varið jafnmiklu fé til eflingar og stuðnings sjávarútveginum eins og einmitt nú á þessu þingi. Samanlagt nema framlög til sjávarútvegsins og léttir á sköttum um 1100 þús. kr. samkv. lögum og samþykktum, sem gerðar hafa verið á þessu þingi. Og ég verð að segja það, að kröfur sjálfstæðismanna í þessum efnum hafa allar verið smærri en þetta. En hitt er skiljanlegt, að okkur hv. þm. G.-K. greinir mjög á um það, á hvern hátt heppilegast sé að verja þessu fé.

Hv. þm. G.-K. vildi hlaupa frá þeim orðum sínum, sem hann viðhafði um togaraflotann 1934, þegar hann komst svo að orði, að togararnir væru „ryðkláfar og fúaduggur“. Nú vildi hann segja, að ummæli sín hefðu verið á þá leið, að ef Haraldur Guðmundsson fengi að ráða, mundi svo fara, að þessir ryðkláfar yrðu fúaduggur og mannhættulegar fleytur. En þetta lætur undarlega í eyrum, þegar þess er minnzt, að hann svo hatramlega berst á móti því nú á Alþ. að endurnýja lítinn part togaraflotans. Og það er hart, að sá maður, sem svo átakanlega hefir lýst ástandi fiskiflotans, skuli leyfa sér að spyrna gegn því, að reynt sé að endurnýja litinn part af flotanum. Annars vil ég í sambandi við þær lýsingar, sem þessi hv. þm. og raunar fleiri hafa látið sér tíðrætt um ástandið hér á landi nú, segja það, að þar er mjög hallað til verri vegar. Ég verð að segja það, að ástandið hjá okkur nú er engu verra en það hefir verið undanfarin 3 haust, og að sumu leyti er það betra. Ég veit ekki betur en að landbúnaðinum hafi vegnað vel síðastl. ár, að undanskildu því afhroði, sem hann hefir hlotið af pestinni. Ég veit ekki betur en að síldveiðarnar hafa gengið vel í sumar, svo að það hefir bætt upp þann halla. sem af þorskveiðunum varð. Ég veit ekki betur en að húsbyggingar, iðnaður og jarðræktarframkvæmdir séu með mestum blóma, sem þær hafa verið í þessu landi. Það hefir verið meira unnið að hafnargerðum og lendingarbótum, meira unnið að vegagerð en nokkurntíma áður. Þetta sýnir, að fólk hefir trú á því, að það sé til einhvers að vinna að bæta aðstöðuna og skilyrði fólksins hér á landi. Ég veit að vísu, að það hefir verið þurrkleysissumar á nokkrum hluta landsins. En ég veit líka, að það hefir lánazt að afstýra, að af þessu hlytist verulegt tjón, með fóðurbætiskaupum. Ég verð þess vegna að mótmæla því, að útlitið fyrir atvinnuvegina sé sérlega vont, að einu undanskildu, og það er ekki því að neita, að það hefir verið meginþátturinn í okkar atvinnulíi, en það eru saltfiskveiðarnar og saltfiskverkun. Þar er útlitið slæmt. En þó er það ekki verra en það, að ef miðað er við 2 síðustu ár síðan markaðslokunin varð fyrir alvöru, þá er óhætt á næsta ári að veiða 50 þús. tonn af fiski til söltunar. Og ég verð að segja það, að ef við hefðum í ár fiskað 50 þús. tonn af saltfiski í stað 29 þús. tonn, þá hefði hér orðið veltiár, jafnvel þó að verðið væri ekki hærra en raun varð á. Ég álít, að það sé óþarft að mála framtíðina eins svart eins og gert er. Ég vil líka minna á, að þrátt fyrir erfiðleika í sambandi við markaðslokanirnar, þá hefir samt lánazt að fá fullan greiðslujöfnuð 2 síðustu ár. Ég verð að segja það, að það má ekki um of telja kjark úr fólki, eins og ég tel þó heimskulegt að draga úr erfiðleikunum. Það getur auðvitað enginn sagt um framtíðina, en það eru líkur til þess, að ekki verði 3. árið jafnvoðalegur aflabrestur og 2 síðustu ár. Ég kemst ekki hjá því að minnast á endurtekin ósannindi hv. þm. G.-K. um það, að ég hafi neitað h. f. Kveldúlfi um byggingarleyfi fyrir verksmiðju á Hjalteyri. Því hefir aldrei verið neitað. Leyfið var þvert á móti veitt, og það var ekki notað innan þess tíma, sem það var veitt til, og þess vegna var það tvisvar framlengt. Þegar það svo rann út í síðasta skiptið, var komið fram frv. í þinginu um að gera h. f. Kveldúlf upp. Einnig stóð á því, að lán til byggingarinnar fekkst ekki nema með því, að Landsbankinn veitti viðbótarlán. Meðan þessu fór fram var þýðingarlaust að endurnýja leyfið. Og ég vildi ekki leggja hönd að því, að Landsbankinn veitti nýtt milljónalán til Kveldúlfs í viðbót við það, sem fyrir var. Það var þess vegna ekki ég, heldur Landsbankinn og Alþ., sem stóð á um byggingu verksmiðjunnar á Hjalteyri. En nú hefi ég veitt Kveldúlfi byggingarleyfi til að bæta við verksmiðjuna fyrir 2400 málum. Hv. þm. G.-K. sagði í lok ræðu sinnar, að það væri Sjálfstfl., sem alla tíð hefði haft forustuna í sjávarútvegsmálunum allt fram á þennan dag. Þetta mun vera rétt. En ég er ekki viss um, að það sé mikið um að hælast. Hv. þm. hefir sjálfur lýst ástandinu, ekki einasta nú, heldur líka á árunum 1934–1935. Og þær lýsingar eru hroðalegar á frammistöðunni í sjávarútvegsmálunum undanfarin ár. Það hefir verið svo mikil einhæfni í þessum atvinnuvegi, að slíks eru ekki dæmi meðal síðaðra þjóða.

Eina markaðsvaran, sem þessi atvinnuvegur hefir haft upp á að bjóða, hefir verið saltfiskurinn. Það er þess vegna, að það var svo mikið áfall fyrir útveginn, þegar saltfiskmarkaðirnir lokuðust. Um gengislækkunina sagði hv. þm., að hann hefði tekið sína afstöðu hér á Alþ. Og hann sagðist hafa flutt tvisvar frv. um það, að útgerðarmenn fengju yfirráð yfir sínum gjaldeyri. Ég er sammála honum um það, að það er nauðsynlegt, að gjaldeyrir sé jafnan til reiðu fyrir útvegsmenn til innkaupa á útgerðarvörum. En hv. þm. bætti við þessi ummæli sín, að hann teldi eðlilegt, að útgerðarmenn krefðust að fá sinn gjaldeyri allan til eigin ráðstöfunar. Hann kvaðst, þegar hann bar þessi frv. fram, hafa gert það sem þm., en hinsvegar sagði hann, að það væri ekki nema eðlilegt, að hann sem útgerðarmaður vildi fá allan gjaldeyri útgerðarinnar henni til handa, enda var það hljóðið í honum, þegar ég sat ásamt honum fund með útgerðarmönnum. Það er sami tvískinnungurinn í honum í þessu eins og fyrir kosningarnar. Hann slær úr og í og þorir í hvoruga löppina að stíga. Það er ef til vill mannlegt hjá hv. þm., en karlmannlegt er það ekki. Hv. þm. sagði, að það væri sízt undrunarefni, þó að þeir tækju með sér hljóðskraf, hv. þm. S.-Þ. og hann, nú á þessum vandræðatímum, þegar pestin væri að drepa landbúnaðinn, útvegurinn væri að sligast og þrengingarnar þjökuðu alla þjóðina, þá væri sízt ástæða til þess að þykja það miður, þó að menn hugsuðu ekki um hefndir eða væru að troða illsakir, þá færi vel á, að menn létu gamlar væringar niður falla. Ég verð að segja, að þetta er fallega mælt, og eiginlega öllu blíðlegar en ég hefði búizt við af þessum hv. þm. En ég vildi mega spyrja hann í þessu sambandi: Er það svo, að hann og form. Framsfl. séu að verða sammála um það, hvernig eigi að mæta þrengingunum? Hefir ágreiningurinn milli þeirra ekki verið um það, hverjar ráðstafanir skyldi gera af hálfu stjórnarvaldanna til að mæta erfiðleikum þjóðarinnar? Er það ekki þetta, sem hefir skipt þeim í 2 flokka, hv. þm. G.-K. og hv. þm. S.-Þ.? Eru þeir nú allt í einu orðnir sammála um það, hvernig eigi að mæta þessum erfiðleikum? Það væri fróðlegt að vita, og eiginlega á þjóðin heimtingu á að fá að vita, hver þessi sameiginlega lausn er. Ég hygg, að það sé ekki ofmælt, að hv. þm. sé hér á þessu þingi og við þessar umr. á biðilsbuxunum. Og ég verð að segja, að síðustu orð hv. þm. bentu til þess, að það væru engir garmar, heldur hefði hann nú puntað sig í sínar beztu buxur. Ég vil endurtaka þessa fyrirspurn: Er það svo, að á þessum tíma séu þeir hv. þm. G.-K. og hv. þm. Sþ-Þ. búnir að finna einhver sameiginleg ráð til að afstýra erfiðleikum þjóðarinnar? Og hver eru þessi ráð, sem þeir eru sammála um?