11.12.1937
Efri deild: 47. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1012 í B-deild Alþingistíðinda. (1364)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Guðrún Lárusdóttir:

Ég á hér fáeinar brtt., fyrst við stafl. a, um kol og steinolíu. Hún er tekin aftur, en ég sé, að hún er komin fram á öðru þskj. Þó að ég máske geri mér ekki miklar vonir um, að brtt. mínar finni náð fyrir augum meiri hl. hv. þd., þá flyt ég þær samt, sökum þess að ég tel í raun og veru skyldu mína að hreyfa þó ekki sé nema lítils háttar mótmælum gegn hinni stóru íþyngingu, sem stöðugt er verið að fara fram á á þessu þingi. Og ég geri það með sérstöku tilliti til þeirra mörgu húsmæðra, sem ég fyrst og fremst tel mig fulltrúa fyrir hér á þingi. Þær vörur, sem ég hefi tilgreint og lagt til að lina toll á, eru einmitt vörur, sem engin einasta húsmóðir eða nokkurt heimili í öllu landinu getur án verið. Það er ekki hægt að segja annað, þegar litið er yfir þetta frv., en að það er sannkölluð hryggðarmynd af ástandi íslenzku þjóðarinnar, að það skuli æ ofan í æ vera íþyngt þeim fátæka almenningi, þeim atvinnulausa almenningi landsins, með sífelldum nýjum sköttum og tollum. Og nú á að fara að hlaða tolli á hvern einasta þráðarspotta og hvern einasta metra af fataefni, sem til landsins flyzt og menn þurfa sér til daglegs klæðnaðar. Ég skil ekki, hvað er lengi hægt að höggva í sama knérunn með slíku háttalagi.

Ég hefi með þessum till. reynt að gera lítils háttar tilraun til að benda á, hve hættulegt það er að íþyngja mönnum svona. Það kann að þykja lítilfjörlegt að minnast á kaffi, en ein brtt. mín fer fram á það að hækka ekki toll á kaffi. Sumir halda því fram, að kaffi sé enginn hollustudrykkur, en hvað sem líður skiptum skoðunum um það, þá er hitt vitað, að kaffið er nokkurskonar alþjóðadrykkur, og einnig okkar Íslendinga. Og ég fyrir mitt leyti tel fólkinu í landinu ekkert of gott að eiga þennan hressandi drykk nokkurn veginn með því verði, sem viðráðanlegt er að kaupa hann fyrir. Auðvitað er það margt fleira, sem mig langar til að fara fram á að létta tolli á. En það þýðir ekki neitt. Ég vildi þó leggja áherzlu á þetta, að því er snertir skófatnað og vefnaðarvörur allskonar. Það er talað um það í frv. að stimpla með 15% tolli allan skófatnað nema gúmmískófatnað. Ég veit ekki, hvað heppilegt það er að undanþiggja aðeins slíkan skófatnað. Það er viðurkennt, að gúmmískófatnaður er með óhollari skófatnaði, sem fólk notar, enda þótt það verði fegið að grípa til hans, af því hann er ódýrari. Ég heyri glöggt og eftirtektarsamt fólk halda fram, að skófatnaður sá haldi raka að fætinum, og geti áhrif af slíku til langs tíma haft áhrif á sjónina til skemmda. Hvað hæft er í þessu, get ég ekki persónulega dæmt um, en ég hygg það eigi við einhver rök að styðjast.

Um vefnaðarvörur og allskonar vefnað er það að segja, að þær vörur eru svo dýrar hér í verzlunum, að lengra verður tæplega gengið. Auðvitað má segja, að við Íslendingar gætum komizt af án þess að kaupa eins mikið af erlendum vefnaðarvörum og við gerum, sökum þess að íslenzkar verksmiðjur eru farnar að framleiða allgóða vöru, og úr íslenzkri ull mætti t. d. búa til góð nærföt, prjónaföt, en þar er sá galli á gjöf Njarðar, að íslenzka varan er svo geysilega dýr að fátækt fólk á óhægt með að kaupa hana. Ég hugsa að verðmunurinn t. d. á erlendum nærfötum og innlendum prjónanærfötum geti jafnvel verið ? í mörgum tilfellum. Atvinnulitlir og fátækir menn, sem berjast í bökkum, kjósa heldur að kaupa það, sem er ódýrara, til þess að bæta úr brýnustu þörfinni í svipinn, heldur en að leggja í hitt, sem þeim er ókleift að kaupa, enda þótt ég skuli játa, að íslenzku prjónavörurnar séu miklu endingarbetri heldur en útlendu prjónafötin, sem hægt hefir verið að fá hér miklum mun ódýrari.

Hv. þm. Hafnf. hefir nú talað um, hver vandræði það eru að fá ekki ávexti til almennrar neyzlu. Hann er læknir og getur miklu betur en ég skilgreint hollustuhætti þessarar vörutegundar, en svo mikið er mér ljóst, og það vita allir, sem eitthvað hugsa um þessi mál, að ávextir eru einhver sú næringarbezta og hollasta neyzluvara, sem menn yfirleitt leggja sér til munns. Ég vil geta þess hv. þdm. til fróðleiks, að á hinni norrænu barnaverndarráðstefnu, sem haldin var í Kaupmannahöfn í fyrra sumar, þar sem mættir voru fulltrúar frá öllum norðurlöndum, var mikið rætt um næringarefni bæði fyrir börn og fullorðna, sérstaklega þó börnin, og þar létu danskir og sænskir læknar í ljós álit og umsögn um það, á hverju ætti fyrst og fremst að næra börn, og tilnefndu epli sérstaklega sem bezta næringarefni handa börnum, og lögðu mikla áherzlu á að börn á öllum aldri væru látin borða epli, og nóg af eplum. Hvað gerum við Íslendingar nú fyrir börnin okkar í þessu efni? Og hvað getum við gert? Fyrst og fremst hefir verið svo torvelt að fá epli og aðra ávexti, að þeir hafa oft verið ófáanlegir, en þegar þeir hafa fengizt, þá hafa þeir verið svo gífurlega dýrir, að það hefir ekki verið nokkur leið fyrir fátækan almenning að kaupa þá. Fyrir fáum dögum gekk ég fyrir búðarglugga. Þar var skál, full af fallegum rauðum eplum. Það var verðmiði á skálinni, og á honum stóð 3 kr. kg. Hvað halda hv. þm., að verkamenn bæjarins t. d. og aðrir, sem lítil auraráð hafa, geti veitt börnum sínum mikið af þessu hnossgæti, sem þeirra börn ekki síður en önnur börn hafa gott af að borða? Á sama tíma sem epli voru annaðhvort ófáanleg eða ókaupandi sökum þess, hvað þau voru dýr, t. d. í október í haust, þá er búið að eyða í þessu landi svo tugum þúsunda skiptir fyrir tóbak og áfengi. Það eru engar hömlur á því, en ávextir, sem ættu að vera á hvers manns borði, eru á einskis manns borði, nema þá hjá þeim, sem afla sér þeirra á einhvern þann hátt, sem allur almenningur hefir ekki ráð á, því að það hefir svo sem flogið fyrir, að einstakir menn gætu fengið undanþágu á eplum inn í landið fyrir sinn reikning, kassa og kassa í einu. Hvað hæft er í því, veit ég ekki, en eitthvað mun vera til í því. Og víst er um það, að almenningur fær ekkert af þessu góðgæti. Sama er að segja um grænmetið. Við lifum í landi, þar sem ekki er hlaupið að því að rækta grænmeti, og þó að við getum á okkar stutta sumri framleitt nokkuð af ýmsu grænmeti, þá eigum við svo erfitt með að geyma það, því að svo tekur við langur, sólarlaus vetur, skammdegi og myrkur, og þá er ekki um annað að ræða en kartöflur og rófur, sem auðvitað er gott til næringar og heilnæmt, þegar það er ekki skemmt, eins og oft vill verða, og t. d. nú, þegar skemmd er í kartöflum mjög víða. Fæða okkar Íslendinga er ekki svo margbreytileg, að okkur veiti af að flytja inn í landið nokkurnveginn kvaðalaust og við viðráðanlegu verði ávexti og grænmeti almenningi til matar. Ég vil benda á tvær tegundir ávaxta, sem allar húsmæður telja eins nauðsynlega og brauð og smjör, en það eru sveskjur og rúsínur. Hvað er langt síðan húsmæður Reykjavíkur hafa bætt sér og heimilisfólki sínu í munni með þessari ágætu vöru? Þeir munu tæplega hafa fengizt nokkursstaðar á þessu ári, og er það illa farið, því að auk þess sem rúsínur eru með allra ljúffengustu ávöxtum, þá er hér um að ræða hreinasta heilsulyf. Sveskjur hafa þau efni inni að halda, að sjúklingar geta alls ekki komizt af án þeirra. Sjúkrahús hafa að vísu fengið þessa ávexti að einhverju leyti á árinu, en almenningur alls ekki, og þó er það með almennings hag fyrir augum, sem Alþ. á fyrst og fremst að starfa. Hvað sem um brtt. mínar verður, sem ég tel nauðsynlegt, að verði samþ., þá vil ég samt leggja aðaláherzluna á síðustu brtt., sem er um það, að hinn geysilegi tollur, sem á ávöxtum er, mætti niður falla og að hægt væri að fá meiri gjaldeyri en fengizt hefir fyrir þessar vörur, sökum þess að þetta er stórnauðsynlegt frá heilbrigðislegu sjónarmiði, og ég vil segja, að það sé engu síður stórnauðsyn frá menningarlegu sjónarmiði, því að ég veit, að það þykir einkennilegt afspurnar, þegar það berst út til annara þjóða, að fólkinu á Íslandi sé bannað að neyta ávaxta, neyzluvöru, sem er á hvers manns borði, þegar komið er út fyrir pollinn. Ég skil ekki heldur, að það velti svo þungu hlassi í þjóðarbúskapnum, þó að þessi vörutegund fengist flutt til landsins með nokkuð hægara móti en verið hefir og við því verði, sem almenningur getur ráðið við. Hv. þdm. mega vera þess fullvissir, að hér mæli ég fyrir munn allra húsmæðra í landinu, og ef þeim er nokkuð annt um, hvað húsmæður leggja til málanna, og virða starf þeirra nokkurs, þá vil ég skora á þá að samþ. þessa till., því að hún á fyllsta rétt á sér.