11.12.1937
Efri deild: 47. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (1365)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Jóhann Jósefsson:

Það var sérstaklega út af tilmælum hæstv. fjmrh., sem ég ætla að svara nokkrum orðum. Hann taldi, að hv. fjvn. hefði lagt sig ákaflega mikið í líma til þess að skipta vegafénu, bæði því, sem stendur í sambandi við benzínskattinn, og öðru vegafé, og fór fram á, að menn tækju aftur þær brtt., sem hér eru fluttar við þetta frv. Það má vel vera, að hv. fjvn. hafi lagt síg fram í þessum efnum, en ég verð að segja það, að ég get ómögulega fellt mig við það, að skiptingin á vegafénu sé eins og hún hefir farið fram að því er snertir mitt kjördæmi. Með þeirri hækkun, sem varð á vegafénu við 2. umr. fjárl., mun það vera nálægt 400 þús. kr., sem ætlazt er til, að fari til nýrra vega, til fjallvega og sýsluvega, fyrir utan það, sem lagt er til sýsluvegasjóða, sem er 60 þús. kr. Ef tekin er lægri talan, þá eru mínu kjördæmi ætlaðar af þessu fé einar 6000 kr., en þó ekki skilyrðislaust, heldur því aðeins, að íbúar kjördæmisins leggi fé á móti, og þó er þannig ástatt um þetta kjördæmi, að ríkið á þar hvern lóðarblett, að einni einustu verzlunarlóð undanskilinni. Ég vonast til, að hv. þdm. skilji, að ég get ekki verið ánægður með þessa skiptingu hv. fjvn. og að till. mín um, að réttmætt tillit sé tekið til okkar Vestmannaeyinga við skiptingu benzínskattsins, er á miklum rökum reist, eins og ég sýndi fram á í minni fyrri ræðu; svo að það er óþarft að endurtaka það. Af reikningi ríkisins fyrir 1935, sem hér er lagður fram, sést, að af hér um bil 13658000 kr. heildartekjum ríkisins fara 550 þús. kr. til Vestmannaeyinga, og ef þátttaka þeirra í því að afla tekna í ríkissjóð er borin saman við það, sem við berum úr býtum til allra hluta, þó að ég tali ekki beinlínis um vegaféð út af fyrir sig, þá er það sýnilegt, að þetta kjördæmi er ákaflega mikið afskipt. Hér við bætist svo, að Vestmannaeyjar hafa hingað til ekkert fengið til fátækrajöfnunar og þær hafa setið við mjög skarðan hlut við úthlutun atvinnubótafjárins. Ég treysti mér ekki sem fulltrúi kjördæmisins að slaka þannig til á réttlætiskröfunum fyrir byggðarlagið. Ef hæstv. ráðh. hefði látið hv. n. koma með brtt. um að taka út úr frv. gersamlega alla niðurskiptingu, þá skyldi ég ekki hafa haldið því til streitu, að mín till. væri borin upp, en þar sem nú er þannig komið, að í þessu frv. er komin niðurskipting á benzínskattinum, og hæstv. ráðh. ætlast til, að það haldi áfram og frv. fari þannig til hv. Nd., þá sé ég ekki, að það geri neinn principsmun, þó að sú till., sem ég flyt vegna Vestmannaeyja, kæmi þarna inn i. Ég treysti því, að hæstv. ráðh. skilji, að það er ekki af óliðlegheitum eða þrjózku af minni hálfu, að ég vil ekki taka till. aftur, heldur vegna þess að ég ber ábyrgð á því fyrir mínum kjósendum, að haldið sé fram réttmætri kröfu þeirra, og ég er sannfærður um, að þeir mundu alls ekki fella sig við þá afgreiðslu, sem á þessu yrði, ef ekkert tillit yrði tekið til Eyjanna að því er benzínskattinn snertir.

Hér hefir verið talað um frv. á víð og dreif. Ég vil ekki fara út í þær umr. eða endurtaka það, sem aðrir hafa sagt. Ég er því mjög samþykkur, að þetta muni í reyndinni verða mjög þungur skattur á þjóðinni, og þó að nauðsynlegt sé, eins og fjárl. eru úr garði gerð, að ná inn peningum í ríkissjóð — það viðurkenni ég —, þá eru víst allir nokkuð sammála um það, að þær byrðar, sem hér er um að ræða í heild sinni, fari að verða nokkuð þungbærar, en einkum og sér í lagi vekur þetta þó óánægju, ef ekki er leitazt við að sýna lit á því að taka hæfilegt tillit til þarfa hinna ýmsu kjördæma. Hér er um að ræða skatt að upphæð hátt á 3. millj. kr., og ég sé ekki, að það ætti að geta verið miklar deilur um það, hvort þessi litla brtt. mín geti fengið samþykki.

Það var nokkuð minnzt á ávexti af hv. 2. landsk. Ég er samþykkur því, að þessi nýi skattur verði ekki lagður á ávexti, en annars eru ávextir orðnir svo tollaðir og skattlagðir, ég vil ekki segja, að það muni nú minnstu, þó að þessi hækkun bætist við, því að ávextir eru sem sagt ókaupandi í þessu landi, vegna þess hvað þeir eru dýrir, enda er það von, því að samanlagður þungatollur og verðtollur í ávöxtum nemur hér um bil 33% af verði vörunnar. Í l. um bráðabirgðatekjuöflun ríkisins frá 1935 hefir ávallt verið heimild fyrir fjmrh. til að undanþiggja ávexti þeim 25% tolli, sem þá var á þá lagður, en sú heimild hefir því miður ekki verið notuð, og þó getur þetta ekki verið stórt atriði fyrir ríkissjóð, vegna þess að innflutningur ávaxta hefir verið ákaflega mikið torveldaður, þar sem hann er nær bannaður, og hefði ríkissjóður því aldrei getað orðið fyrir neinum stórum halla af því, þó að hæstv. ráðh. hefði notað þá heimild, sem hann hefir í l. til að undanþiggja ávexti frá skatti, og þá heimild hefir hann enn þann dag í dag. Hæstv. ráðh. hefði verið innan handar að gera þetta og með dálítilli verðbreyt. á áfengi ná inn mismuninum í ríkissjóð, en réttara væri að hafa áfengið dýrara, en gera ávextina ódýrari.

Ég sé, að hér er till. frá hv. fjhn. um að undanskilja steinolíu, kol og salt frá þessum nýju skattaálögum,og að vísu má segja, að það sé spor í rétta átt að hækka ekki toll á þessum vörum, en hitt vita menn, að það eru fyrir gjöld á öllum þessum vörutegundum, og þau allþung. Samt sem áður er það vel til fallið, að ekki á nú að þyngja skattinn á þessum nauðsynjavörum.

Ég skal svo ekki að þessu sinni fjölyrða meira um þetta mál, en ég vænti þess, að menn sýni Vestmannaeyingum sanngirni með því að samþ. till., sem ég hefi lagt fram um skiptingu benzínskattsins.