11.12.1937
Efri deild: 47. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (1369)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Það hefir nú ekki komizt á, að fjhn. hafi tekið þær brtt., sem fyrir liggja, til meðferðar í heild sinni, með fram vegna forfalla form. n. nú undanfarið. Ég get því ekki beinlinis sagt um afstöðu n. til allra þeirra brtt., sem fyrir liggja um málið. En ég vil taka undir það, sem hæstv. fjmrh. sagði, að eðlilegast væri, að skiptingin á þessu benzínfé færi fram í hv. fjvn. og sameinuðu Alþ., samkv. till. þeirrar n. En af því leiðir, að ég hefði talið langeðlilegast að hafa ekki þessa skiptingu í frv. Það er hinsvegar ekki nema eðlilegt, úr því að þessi skipting á benzínfénu er í frv., að hv. þdm. beri fram brtt. við það um þessa skiptingu, eftir því sem þeir óska.

Yfirleitt er búið að taka upp þá tilhögun, að fjárveitingar eru samþ. í sameinuðu Alþ., og mér finnst, að það ætti að vera svo um þetta, en að þetta benzínfé skiptist ekki með þessum sérstöku l. Ég hefi skrifað brtt. um það, að skiptingin á benzínfénu fari eftir ákvæðum fjárl. En það hefir nú ekki náðst samkomulag um þetta í fjhn., að bera þessa brtt. fram, og þess vegna hefi ég nú ekki afhent hana enn. En það getur vel farið svo, að ég afhendi hana áður en þessari umr. lýkur. Og ég vildi skjóta því til hæstv. ráðh., einmitt út af hans ummælum, hvort hann vildi ekki rannsaka möguleika á því, hvort brtt., sem ég hefi skrifað og ég gat um, gæti ekki orðið samþ. Ég verð að segja það, eins og ég reyndar gat um við 1. umr. þessa máls, að ég er óánægður með það, hvernig skiptingin er á benzínpeningum í frv. Og ég hefði flutt brtt. við það, ef ég hefði ekki einmitt verið að hugsa um þessa leið, að taka skiptinguna á þessu fé algerlega út úr frv. og berjast svo um þetta framlag á öðrum vettvangi, sem ég tel vera réttari til þess.

Annars finnst mér það vera rangt, sem hér hefir komið fram út af þessu, að ekkert fari til Vesturlands af þessum peningum. Það getur kannske verið, að Vesturland hafi lítið gagn af veginum yfir Holtavörðuheiði. En á Vesturlandi er nú samt sá vegur (ÞÞ: Sá vegur er ekki nema að nokkru leyti í Vestfirðingafjórðungi). Ég hélt, að hann miðaði við Hrútafjarðará. (ÞÞ: Hann nær nú aðeins stutt norður fyrir sýslumörkin).

Út af brtt. á þskj. 262, frá hv. 1. þm. Reykv. vil ég benda á það, sem hann reyndar benti á sjálfur, að þessi brtt. var borin fram í beinu sambandi við aðra brtt. frá honum við annað frv. Sú brtt. hans var felld, og þar af leiðandi kemur ekki til neinna mála, að þessi brtt. hans nú verði samþ. Undrast ég næstum, að hann skuli ekki hafa tekið hana aftur, þar sem þessar brtt. voru í svo beinu sambandi hvor við aðra.

Þessi hv. þm. og fleiri hafa verið að tala um, að það væru há gjöldin, sem lögð væru á þjóðina samkv. þessu frv. Má það að vísu að nokkru leyti til sanns vegar færa. Þessi hv. þm. var einnig að tala um, að það væri réttara að lækka útgjöldin á fjárl. heldur en að bera fram nýjar till. um aukna skatta á þjóðina. Ég fyrir mitt leyti er nú ekki svo mjög ósammála þessu. En ég hefi bara ekki orðið þess var, t. d. frá hans flokki, að neinar sparnaðartill. sem nokkru nemi hafi fram komið. Og það virðist ganga lítið með það, þó að hann og hans flokksmenn hafi talað um þennan sparnað á ríkisfé, að það þurfi að skera niður útgjöld á fjárl. o. þ. h. Þetta er talað um með svona almennum orðum, en ekki bent á, hvað hægt sé að spara og skera niður. Og meðan svo er, er ekki um annað að gera en að reyna að útvega tekjur, til þess að ríkissjóður standist þau útgjöld, sem menn eru nokkuð sammála um að hafa á fjárl. og þjóðin krefst. Ég vil, að þeir sömu hv. þm., sem bera fram till., sem kosta fé, og það ekki svo lítið, komi einnig með till. til að standast útgjöldin. — Það er hreint ekki svo gott að samríma tal og till. hv. sjálfstæðismanna í þessum efnum.

Meiri hl. fjhn. ber hér fram brtt. á þskj. 326. Það hefir mikið verið talað um það hér í sambandi við þetta mál, að það væri nú ekki fært að auka gjöld á þeim vörum, sem sérstaklega þyrfti að kaupa til útgerðarinnar; sjávarútvegurinn stæði ekki svo vel að vígi nú, að það væri fært. Meiri hl. fjhn. hefir fallizt á það, í samráði við hæstv. fjmrh., að leggja til, að felldur sé niður þessi skattur af þeim vörum til útgerðarinnar, sem mestu máli skiptir, af kolum, salti og steinolíu. Og n. hefir þá talið rétt, að þar fylgdu einnig með beinar framleiðsluvörur til landbúnaðarins, svo sem áburðarefni og girðingarefni. En því er nú miður að fjvn. sá ekki annað fært en að leggja til, að tveir aðrir liðir yrðu hækkaðir til þess að standast þetta, og ennfremur til þess, að frv. í heild sinni gæti orðið til þess að jafna þann halla, sem þegar er orðinn á fjárlfrv. Þess vegna ber n. einnig fram till. um, að 7% fl. verði hækkaður upp í 8% og að hinn almenni viðauki í frv. verði hækkaður úr 10% upp í 11%. Þessir tveir liðir gera að vísu eftir áætlunheldur betur en að vega upp á móti niðurfellingu tollsins á útgerðarvörum og framleiðsluvörum til landbúnaðarins, sem nefndar eru í brtt. á þskj. 326,l,l,a-c. En það veitir ekki af því, eftir því sem nú lítur út með fjárl.

Hér hefir nú verið borin fram brtt. á þskj. 291 um það, að undanþiggja miklu fleiri vörur þessu gjaldi heldur en við leggjum til, vörur, sem ætlaðar eru til útgerðarinnar. En meiri hl. n. getur ekki fallizt á þá brtt., ekki fyrir það, að þetta mundi í raun og veru muna svo miklu, heldur meira sökum hins, að þegar farið væri að telja upp svo margar vörur, sem ættu að vera undanþegnar tolli, þá er nú hætt við, að það kæmu fleiri till. í sömu átt; og yrði þá erfiðara að standa á móti þeim, ef þessar brtt. yrðu samþ. Auk þess sýndist mér, að þetta mundi verða erfitt í framkvæmd, t. d. að hafa þetta gjald á kolum, sem ekki eru ætluð til útgerðar, en undanþiggja kol til útgerðarinnar o. s. frv. Ég er ákaflega hræddur um, að þetta mundi verða erfitt í framkvæmd. En með því að samþ. brtt. okkar meiri hl. fjhn. hygg ég, að fyrir því sé séð, að þessi nýi gjaldaauki verði ekki sérlega tilfinnanlegur fyrir útgerðina sérstaklega.