18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

1. mál, fjárlög 1938

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þeir fulltrúar Bændafl., sem hér hafa talað, virðast vera í vandræðum með ræðuefni, og er í raun og veru ekki ástæða til að svara þeim. Hv. þm. Dal. minntist á það hér í gær, hvað gífurleg hækkun það væri á tollunum, sem núv. stjórnarflokkar væru að koma í kring. Hv. þm. tók 2 dæmi.

Annað var um það, að nú ætti að tolla rúgmjöl og nú ætti að tolla saumnálina í höndum húsmóðurinnar. Ég get upplýst þennan hv. þm. um það, að sá tollur, sem nú er fyrirhugaður, er ekki meiri en það, að hann mundi nema á hverja rúgmjölstunnu eitthvað um 26 aur., miðað við verðið 1936. Ég hygg nú, að enginn blikni eða bláni við það. Viðvíkjandi saumnálinni ætla ég að segja honum það, að ég hefi ekki haft tíma til að reikna út tollinn á henni, en ég vil leyfa mér að gera fyrirspurn um það til hv. þm. hvað hann muni vera mikill. Til þess að gera hv. þm. hægra fyrir, þá skal ég gefa honum það eftir, að hann segi mér aðeins hvað tollurinn er af stoppunál, því það mun auðveldara að reikna það. Ég vænti þá, að þessi hv. þm. þurfi ekki að vera í vandræðum með ræðuefni næst.

Það hefir dregizt hér inn í umr. Akureyrardeilan. Hæstv. atvmrh. sagði hér út af orðum hæstv. forsrh., að þau kjör, sem fengust, mundu ekki hafa fengizt fyrirfram. Um þetta veit hæstv. atvmrh. ekkert, því að það reyndi ekkert á það. Út af því, sem hér hefir verið rætt um síldarverksmiðjufrv., sem liggur fyrir þinginu, þá hefir hv. þm. Barð. beðið mig að leiðrétta það hjá hv. þm. Ísaf., sem hann sagði, að hv. þm. Barð. hefði sagt, að það hefði átt að greiða 7 kr. fyrir málið í sumar. Hann sagði þetta aldrei. Út af því, sem hv. þm. Ísf. sagði um það, að eitthvert bandalag væri milli Sjálfstfl. og Framsfl. um ákvæðin viðvíkjandi greiðslu síldarinnar til sjómanna, þá vil ég svara því, að Framsfl. hefir lagt til, að ekki yrði greidd nema 85% af áætluðu verði síldarinnar við afhendingu, en afgangurinn yrði greiddur, þegar séð yrði, hvers virði síldin væri. Á móti þessu hafa allir hinir flokkarnir gengið, Sjálfstfl., Alþfl. og Kommfl. Ef þannig um einhverja samfylkingu er að ræða í þessu máli, þá er hún á milli þessara flokka.

Hv. þm. Ísaf. sagði, að útgerðarmenn ættu heimtingu á réttu verði. Það er rétt, þeir eiga heimtingu á réttu verði, en hvorki meira eða minna. Eina leiðin til þess að fá þetta verð er að borga það, sem síldin gefur af sér. Hver hefir orðið var við það, að bændurnir hafi komið til kaupfélaganna og sagt við þau, að ef þau gætu ekki tryggt þeim ákveðið verð þá hættu þeir bara atvinnurekstrinum. Þetta hefir aldrei komið fyrir. Og hver getur fyrirfram ímyndað sér, að útgerðarmenn séu svo mikið öðruvísi menn, að þeir myndu taka upp á slíku. Alþýðuflokksmenn hafa látið sér tíðrætt um það, að formaður Framsfl. og formaður Sjálfstfl. sætu á hljóðskrafi. Það eru haldnar langar ræður um þetta, eins og það séu einhver sérstök tíðindi, þó að hv. þm. tali saman. Ég veit ekki til, að það séu neinir af hv. þm., sem eru þannig í hver annars garð, að þeir ekki geti talað saman. Ég held meir að segja, að hv. þm. Ísaf. og hv. þm. G.-K. geti talað saman, þó að það kunni að þykja ólíklegt. Þessar dylgjur um það, að eitthvað sérstakt sé hér á ferðinni, eiga ekki við neitt að styðjast. Hv. þm. G.-K. sagðist geta leitt hjá sér að svara hæstv. forsrh. Ég hygg, að það hafi verið vegna þess, að hann skorti rök til að hnekkja þeim glögga samanburði, sem forsrh. gerði á málflutningi þessa hv. þm., eftir því við hverja hann talaði, og þeirri lýsingu, sem ráðh. gaf á skrumauglýsingum Sjálfstfl. Hv. þm. G.-K. sagði, að það væri rangt að halda því fram, að skattarnir hefðu hækkað um 7 millj., þó að þeir sýndust hafa hækkað verulega, en það taldi hann stafa af því, að fólkið gæti ekki borgað. Heldur hv. þm., að það sé verra fyrir fólk að borga 12 millj. kr. í skatt nú en fyrir 2 árum, af því að ekki er leyft að flytja inn óþarfa? Hv. þm. talaði með sínum venjulega hroka um hinar gífurlegu nýju tolla- og skattaálögur stjórnarinnar. En það er nú svo, að tollarnir eru ekki ennþá komnir upp fyrir það, sem þeir voru þegar núv. stjórn tók við völdum. Þetta kallar hv. þm. G.-K. gífurlegar álögur. En var það ekki hans flokkur, sem ákvað þessar álögur, á þessum vörum, sem nú eru allt í einu orðnar svona gífurlegar. Þetta er lítið sýnishorn af röksemdum hv. þm. Hv. þm. sagði, að það væri röng málfærsla hjá mér að krefja hann reikningsskapar á því, hvernig Sjálfstfl. ætlaði sér að mæta þeim útgjöldum, sem leiddu af þeim frv., sem hann ber hér fram. Er ekki eðlilegt, að flokkurinn sé krafinn reikningsskapar á því, hvernig hann ætlar að framkvæma sínar eigin till. Þetta ber að skoða sem yfirlýsingu um það, að Sjálfstfl. meini raunverulega ekkert .með þeim till., sem hann er að flytja hér á Alþ. í skrumauglýsingaskyni, eins og hæstv. forsrh. skýrði hér áðan. Ég skal nú leysa hv. þm. undan þeirri skyldu að standa við þau frv., sem hann hefir sjálfur flutt og flokkur hans, en þá ætlast ég til, að hann geri annað; það er að hann sýni fram á, hvernig hann ætlar með niðurskurði að mæta þeim nýju greiðslum, sem nú hafa verið samþ., ásamt þeim halla, sem fyrir er. Til þess að standast það þyrfti að skera niður útgjöldin um 2 millj. og 700 þús. kr., eða með öðrum orðum þá upphæð, sem nú er tekin með nýjum sköttum. Til þess að gera hv. þm. ennþá léttara fyrir, skal ég ekki fara fram á meira en það, að hann bendi á, hvernig hann ætlar að skera niður 1 millj. af þessari upphæð. Ég vil með þessu gefa honum tækifæri til að standa við lítið brot af þeim fullyrðingum, sem hann hefir haft yfir hér á Alþ. Ef hann ekki hefir sjálfur tíma til, þá ætlast ég til þess, að það verði gert af öðrum ræðumönnum Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstfl. þarf ekki að halda, að hann geti komizt upp með það þing eftir þing að tala um sparnað og á móti nýjum sköttum án þess að gera minnstu tilraun til að sýna fram á, hvernig eigi að mæta greiðslunum, sem þeir telja þó sjálfir óumflýjanlegar.

Þá var hv. þm. að minnast á verðlagið í Reykjavík. Það var nú mest óskiljanleg þvæla, en mér skyldist þó, að hann meina það helzt, að hér hefði aldrei þrifizt kaupfélag fyrr en Kaupfélag Reykjavíkur, af því að það hefði verið verndað af ríkisstj. Hver er þessi vernd? Kaupfélag Reykjavíkur hefir enga vernd fengið. Það hefir aðeins fengið innflutning í hlutfalli við meðlimatölu sína. En í frjálsri samkeppni við kaupmennina hefir kaupfélaginu tekizt að halda niðri verðlaginu í Reykjavík þrátt fyrir hækkað verð í innkaupi. Ég ætla því að standa við það, að núv. stjórn hefir með þessum ráðstöfunum forðað mönnum frá verðhækkun. sem nemur miklu meiri upphæð en tollarnir. En hv. þm. G.-K. sýnir með þessu, að það er ekki verðlagið, sem hann er að hugsa um, þegar hann er að tala á móti tollunum; það sýnir hann bezt með afstöðu sinni til kaupfélaganna. Þannig stenzt raunveruleikinn um fjármálastj. bæjarstj. Rvíkur, enda er mér ekki kunnugt um, að á þessu tímabili hafi verið gerð minnsta tilraun til þess að skera niður fjárhagsáætlun bæjarins, á sama tíma og skorið hefir verið niður frá ríkinu.

Þá mun ég ekki tala meira um fjármálin, en af því að hér hefir verið rætt mikið um sjávarútvegsmál, ætla ég að snúa mér að þeim með nokkrum orðum. Þegar rætt hefir verið um sjávarútvegsmál á undanförnum þingum, og sjálfstæðismenn hafa verið spurðir, hvar þeir ætluðu að taka peningana til að sinna öllum þeim kröfum, sem þeir hafa borið fram, hafa þeir alltaf svarað: „Við erum reiðubúnir til að semja um það, svo að till. okkar valdi ekki tekjuhalla hjá ríkissjóði“. En þegar um svipaðar till. er að ræða frá stjórnarflokkunum, ráðast sjálfstæðismenn á okkur fyrir að bera þær fram. Á sínum tíma lækkaði Jón Þorláksson gengisviðauka á kolum og salti, og fyrir það var hann dásamaður í blöðum Sjálfstfl., og var þó góðæri þá. Nú, á þessum erfiðleikatímum erum við búnir að fallast á um tollgreiðslur sjávarútvegsins sem hér segir:

Allan kola- og salttollinn.

Þegar Jón Þorláksson gerir 1/10 af því, sem við gerum, er hann dáður af þeim sömu mönnum, sem segja, að það muni ekkert um það, sem við gerum, þegar við gerum 10/10 á móts við Jón Þorláksson. Þetta sýnir, að kröfur Sjálfstæðismanna eru ekki gerðar til þess að fá ákveðinn árangur, heldur til þess að troða illsakir við þá flokka, sem taka á sig ábyrgðina.

Nú vil ég spyrja um eitt. Hvernig stóð á því. að Sjálfstfl. hékk við stjórn árin 1932 og 1933, á þeim miklu tapsárum, án þess að hreyfa hönd né fót til þess að styrkja útgerðina á nokkurn veg? Vill hv. þm. G.-K. reyna að svara þessu?

Að síðustu vil ég segja þetta: Útgerðarmenn hafa ekki eingöngu beint kröfum sínum til ríkisstj., heldur líka til þingflokkanna. Hverju hefir hv. þm. G.-K. svarað þar fyrir hönd síns flokks? Engu nema vífilengjum. Höfuðkrafa útgerðarmanna er sú, að þeir fái að selja gjaldeyri sinn á frjálsum markaði, en það þýðir gengislækkun. Þetta vill hv. þm. ekki hér á þingi, en þegar hann talar við útgerðarmenn, heldur hann þeim uppi á snakki um, að þeir geti bætt útveg sinn með þessum kröfum. Sjálfur hefir hv. þm. sagt, að afnám tollanna hafi enga höfuðþýðingu, enda sjáum við það, hvað 3000–4000 kr. á togara eru af 110 þúsundum.